fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Og hvað svo...

Eins og áður sagði þá var útlitið ansi dauft. Ekki það, þrátt fyrir allt svindlið hjá Esso eru þetta frábærar stöðvar sem slíkar (er að leita eftir sponsor til að opna eigin síðu) heldur hitt að í Egilstaðarþorpi kennir ekki margra fiska hvað hjálpsama viðmælendur eða nokkuð yfir höfuð varðar. ég gekk álútur að afgreiðsluborðinu þar sem afar glaðbeittur piltur stóð fyrir svörum (enda afar stutt í lokun og filliríið í huga hans um það bil að verða staðreynd). Ég tjáði honum um stöðu mína og hann greip í símann og hóf leit að edrú austanmanni sem tilkippilegur væri til að gera við dekk um hánótt og kannski keyra okkur svo uppá fjöll í leit að ökutækinu.

Ekki reyndist vera hörgull á viðgerðarmönnum (fullum og edrú) en hitt var annað mál að þeir kröfðust svífirðilegra 4000 króna fyrir greiðann ( og er þar ekki innifalið skutlið). Þar sem ég hef engan milljarðasjóð til að ganga í eins og sumir kolkrabbar (sem líka eru menn, ennþá að leita að sponsorum) þá var þetta ekki möguleiki. Maður hefði nú haldið að 100 milljarðarnir sem verið er að gefa þeim myndi draga úr græðgi gagnvart ferðamönnum en svo er ekki að sjá. Og ég læt ekki arðræna mig svo auðveldlega, frekar myndi ég sænga hjá bensíninu.

Þar sem ég er dagfarsprúður maður þakkaði ég afgreiðslumanninum glaðbeitta pent fyrir, snéri mér við og ætlaði að ganga út í nóttina þegar það gerðist, mannkynið og heppnin leituðu mig uppi. Kunnulegt andlit var í felum bakvið snakkrekkann og þegar ég kallaði til þess var ekki annað að sjá en viðkomandi væri glaður að sjá mig. Og var þar ekki kominn hún Halldóra leiklistarnemi sem hefur víst ættir og heimili að rekja til plássins. (Ég vissi að þessi fjögur ár í leiklistarskólanum myndu leiða til einhvers þegar fram liðu stundir) Hún hlustaði áhugasöm og með vott að meðaumkun á frásögn mína af vandræðum næturinnar og hafði ég ekki fyrr slept orðinu en hún rétti fram hjálparhönd. Og þvílík hönd sem það átti eftir að reynast.

Þar sem klukkan er orðin margt verð ég að nema staðar nú og bíð lesendum í heimsókn að nýju að degi liðnum.

Góða nótt

PS: Konan mín vill taka það fram að hún var líka með í ferðalaginu (sem ég tel að hafi komið skírt fram en hún vill á móti meina að hennar hlutur hafi verið rýrður til muna. ÉG benti henni vinsamlegast á það að ef hún væri ekki sátt gæti hún opnað sían eigin bloggsíðu og skrifað eigin frásögn. Hún er farin að sofa.) Hún var sumsé með og gerði fullt og er æði og ég elska hana sem enga aðra og hefði ekki komist lífs af úr hremmingum þessum án hennar.


Engin ummæli: