fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Góða kvöldið

Þjóðverjar eru líklega það fólk í heiminum sem býr yfir hvað verstum smekk. Hvergi er þetta greinilegra en í sjónvarpi allra landsmanna - ZDF.

Þar keyra sápuóperur í gríð og erg sem láta Kallakaffi líta út fyrir að vera Hollíwood production!

En sápurnar eru samt ekki það versta sem gengur hér um þessar mundir.

Það hrikalegasta er ný sería sem hóf nýlega göngu sína á Pro 7 undir heitinu "The next Uri Geller".

Þátturinn er svona IDOL þáttur með twisti, þar sem ekki er verið að leita að söng-dúfum, eða búk-röppurum, heldur er hér verið að leita að sjónhverfingamanni 21 aldarinnar.

Pródúsentarnir hér hafa greinilega leitað í öllum skúffum og skápum að efnivið í þennan þátt sinn og dregið þaðan fram eitthvað það ógurlegasta samansafn af vírdóum sem í sjónvarp hafa komið.

Sjónhverfingamenn eru í raun alveg sér kapítuli útaf fyrir sig, skrýtnir miðaldabúningar, hringir á fingrum, lágstemmd seiðandi uppgerðarröddin að ógleymdum hreyfiminstrum sem best ættu heima í nútímadansi.

Í gærkvöldi var kominn á svið austur-evrópumaður nokkur í síðri kápu kóperuð uppúr "Exalibur" myndinni. Hún var víð, svört og skreytt silfruðum hnöppum. Honum til halds og traust var ritjulegur hrafn sem austurbúinn ræddi við í tíma og ótíma á sértilbúnu máli.

Þetta fór svo allt fram á plexiglerklæddu sviði, huldu reyk og diskóljósum.

Maðurinn dró einhverja sakleysingja úr áhorfendaskaranum á svið og bað þau í ótrúlega löngu ferli að rifja upp minningar um dána ættingja sína! Hér var ég farinn að flissa allverulega...

Þegar greyjið fórnarlömbin voru svo búin að tæma úr skálum sorgar sinnar yfir seiðandi síðstakkinn, þá tók hann þartilgerða miða fram og bað þau að skrifa minningarnar niður. Þetta gerði fólkið með tárin í augunum (hvort það var að söknuði eða skömm er mér enn óljóst).

Austri kallaði nú á svið eitthvað glottandi smástirni sem klögraðist upp á svið í minipilsinu og hélt pendúl yfir miðunum. Austurbúinn stýrði fingrum hennar yfir miðana og yfir ákveðnum miðum fór pendúlinn að sveiflast (hafði ekkert með það að gera að hann stjórnaði hendinni).

hann tók svo saman miðana og las úr þeim einhverjar upplýsingar sem grætti konuna sem miðana hafði skrifað.

Hann dró þá uppúr læstu búri handskrifaðan miða og las upp að hann hefði fengið "sýn" í gegnum hrafninn sinn og sá spádómur hefði verið læstur inní í þessu boxi síðan í nótt.

Austri- sem var með svona Michael Bolton ljóshnakka og svartmálaðar neglur á litla fingri - las svo upp spádóminn og reynist hann spá því sem við höfðum verið að fylgjast með, að grátandi kona frá Dusseldorf myndi skrifa þessar og þessar minningar niður.

Hann kallaði greyjið konuna fram og fagnaði eins og Rocky eftir að hann berst við Drago.

Hér varð ég að slökkva, ég var hættur að hlægja. Fannst í raun að eina skynsamlega í stöðunni væri að fara í tölvuna og kaupa mér flugmiða heim.

Eg lendi á miðnætti annað kvöld.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín (ennþá)

Engin ummæli: