sunnudagur, janúar 13, 2008

Góðan daginn

Berlín er falleg í dag. Sólin glimrar í skýjunum, fúlir barþjónar hvæsa á viskiptavinina sem borða hraðar af þrælslundinni einni saman, hitastigið er þokkalegt og ríkisstjórnin að klofna.

Já, það vantar sjaldnast stuðið hér í Berlín.

Ég hef legið yfir vini mínum og andstæðingi, Hamlet, undanfarnar nætur. Ég er kominn aftur á kaffihúsið þar sem ég sat til 4 í nótt að brasa við hann og nú á að skella á hann lokahnikkinum, eða hann á mig eða bæði... eða hvorugt.

Það er ótrúlegt hversu mikið er hægt að hugsa og hversu mikið það getur komið í veg fyrir það að maður geri. Og hvernig það getur svo haft þær afleiðingar að maður fyllist verkkvíða og þegar hann er kominn er ekkert nógu gott. Þá er í raun bara ekkert að gera annað en að hætta við, gefast upp, snúa baki við.

Og þá tel ég að maður sé kominn í rétta formið til þess að byrja að vinna Hamlet.

------------

Þjóðverjar eru fallegur þjóðflokkur. Næstu daga og vikur mun ég setja inn sögur til þess að útskýra og greina hina þýsku þjóðarsál.

Stutt til þess að byrja með.

Þjóðverjar geta framið gjörning svo magnaðan að flestar þjóðir vildu glaðar leika eftir. Þeir eru færir um að framkvæma ákveðin gjörning með höndunum á sama tíma að orðin sem koma út úr munninum á þeim eru í greipum gegnstæðrar merkingar.

Besta dæmið um þetta er þegar þú færð pöntun vitlaust afgreidda á bar. Ef maður gerist svo grófur að kvarta þá er undantekningalaust viðmót þess sem þjónaði þér að reyna að koma sökinni á misskilningum yfir á þig. Að þú hafir pantað vitlaust, að þú hefir ekki talað nógu skýrt og ef engin útskýring er haldbær þá færðu bara look sem segir þér að þú sért sökudólgurinn.

En á sama tíma og yfir þér er haldin ræða þar sem verið er að ala þig upp þá eru hendurnar að framkvæma leiðréttinguna.

Þeir eru sumsé að leiðrétta misskilninginn en telja það engu að síður nauðsynlegt að segja þér að það sé þér að kenna á meðan þeir eru að leiðrétta.

Ef þetta væri ekki brjálæðislega pirandi þá væri þetta spennandi leikhús.

Þorleifur
Berlín

Engin ummæli: