fimmtudagur, janúar 17, 2008

Góða kvöldið

Héðan úr Shakespearelandi er allt gott að frétta. Hef legið undanfarið með hópnum yfir textanum í heild sinni og hefur það verið eins og að vera viðstaddur mexíkóska jarðarför.

Þar er hinn dáni kvaddur með dansi og tralli, sem dregur ekkert frá þeim beiskleika að viðkomandi sé farinn fyrir fullt og allt.

Svona er þetta líka með Hamlet. Þegar maður les hann í heild sinni þá er ekki annað hægt en að sakna þeirra orða sem maður getur ekki komið inn í verkið, þeirra snilldarlegu situatiónum sem Shakespeare býður leikurum og leikstjóra uppá.

En verkefnið er Hamlet á 60 mín og þar sem verkið er 5 tímar þá þarf margt að missa sín.

Verkefninu er bölvað upphátt og í hljóði.

-----------

Gaman er að íslenskar myndir hafi náð 9% hlutdeild á markaði heima. Þetta er skref í rétta átt, þó svo ennþá sé langt í það að við stöndum frændum okkar á norðurlöndum jafnfætis. En mér virðist sem þetta sé allt að stefna í rétta átt. Daglega fréttir af nýjum og spennandi verkefnum sem eru að fara í vinnslu, kvikmyndagerðarmenn okkar og konur öðlast reynslu og með henni koma gæði (öfugt við það sem almennt er talið á Íslandi).

Sá einnig trailerinn af Brúðgumanum og þetta leit vel út. Býst ekki við því að ná að sjá hana heima en líklega fer hún í dreifungu um Evrópu og þá bíður maður hennar bara rólegur hér heima í Berlín. Rétt hjá er flott bíó en þar sá ég einmitt Voksne Mennesker hans Dags.

----------

Sögur af þýskurunum:

Það er mikil lotning borin fyrir hinum borgaralegu stéttum hér í landi. Og fyrir fáum meira en læknum. Ég var að koma frá einum slíkum, sem var að skoða í mér tennurnar.

Ég lá á bekknum og reyndi að fylgjast með því hvað hann væri að braska upp í mér. Það reyndist erfitt að koma því fyrir þar sem tannlæknar passa sig á því að fylla munninn af alls konar drasli og dóti plús það að þeir svífa svo nálægt manni að maður hefur stundum á tilfinningunni að nefbroddurinn á þeim muni rekast í augað á manni.

Þessi ákveðni tannlæknir hefur þann ósið að segja manni aldrei hvað hann er að gera. Og ég var búinn að ákveða að heimta það að hann gerði það, en þegar ég sá borinn sem hann var að handfjatla þá ákvað ég að þetta væri ekki rétti tíminn til þess að koma upp ágreiningu við þennan mann.

En ég hugsaði honum þegjandi þörfina.

Svo var hann svo brjálæðislega dónalegur við hjúkkuna sem sat honum við hlið og aðstoðaði eftir bestu getu. Maðurinn er sérlega óskýrmæltur og í hvert sinn sem hún brást ekki við skipunum hans einn tveir og bingó þá hellti hann sé yfir hana, með meinsæmisfullum skotum: "Vitið yður ekki hvar það er að finna?", "Eigið þér erfitt með heyrn", ""Vitið yður sumsé ekki hvað þér eruð að gera sér".

Og maður var svona 3 sentimetra frá mér þegar hann skaut þessu á konuna. Það hvarlaði að mér að þau væru fyrrum elskuhugar og þetta væri leið hans til þess að hefna sín á henni, en svo mundi ég að það er alsiða í Þýskalandi að nýta þér stöðu og stéttarlega yfirburði þína.

En kannski er þetta svona hjá læknum allsstaðar.

Það er nú samt ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að liggja á milli þegar svona er komið fram við fólk, sérstaklega þegar annar málsaðilana er að bora í tennurnar á þér.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

Engin ummæli: