mánudagur, desember 17, 2007

Góðan daginn

Fyrst vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir það hversu áberandi leikhúsin eru í blaðinu. Þetta er óumdeilanlega mikill styrkur fyrir leikhúsin og sýnir þetta að Morgunblaðið sýnir þessari listgrein mikin og góðan skilning.

Og því tengdu.

Nú voru að koma af því fréttir að leikhúsfólk og tónlistarmenn eru verst borguðu starfsmenn ríkisins. Það er af sem áður var. Upphaflega var nefnilega stefnan að laun leikara fylgdu háskólakennurum.

Flestir eru nú á því að listir og menning séu það sem skilgreina samfélög. Þegar maður skoðar menningarsöguna þá eru það listirnar og stríðin sem lifa tímans tönn, búrókratarnir og viðskiptamógúlarnir falla í gleymskunnar dá.

Þess vegna er staða listamanna á Íslandi í dag stóralvarlegt mál. Það er ekki hægt að lifa á þeim tekjum sem bjóðast í þessum geira. Laun eru skýrasti mælikvarði mikilvægis starfsmanna og þegar launin eru svífirðileg þá segir það mikið um hvernig vinnuveitandinn metur starfsmenn sína.

Því er svo haldið fram að listamenn liggi á fyrirtækjum til þess að snappa styrki og er það rétt. En það er ekki gert af fégirnd heldur til þess að lifa af, til þess að koma verkum á framfæri, til þess yfirhöfuð að geta stundað þessa listsköpun. Listamenn þurfa að liggja á fyrirtækjum og vona að fyrirtækin sjái á þeim aumur svo þeir þurfi ekki að snúa sér að öðrum störfum. Taka ber þó fram að styrkir fyrirtækja (þó eru á þessu undantekningar) ná aldrei upp í nema lítin hluta uppsetningar leikverka.

Og staðan er mun verri hjá sjálfsstæðu leikhúsunum en hjá liststofnunum ríkisins. Þar vinna menn meira og minna fyrir ekki neitt, sem hver heilvita maður sér að getur aðeins gengið þegar menn eru fjölskyldulausir. Þegar fjölskyldurnar koma til þá leggjast menn í alls konar önnur störf til þess að draga björg í bú.

Mér er það til efs að nokkur leggi stund á nám í leiklist til þess að vera veislustjóri, lesa inn á auglýsingar eða syngja í coverböndum í brúðkaupum. Vissulega allt hlutir sem geta verið skemmtilegir en taka á sama tíma athyglina frá því sem listamaður "á" að vera að sinna - það er listsköpun sinni, samfélaginu til framdráttar.

Markaðssamfélagið er að mörgu leyti afar gott samfélagsfyrirkomulag en innan þess verður samfélagið að skilgreina hverju það finnst skipta máli og hvað ekki. Ef listirnar skipta það ekki máli þá verður svo að vera og íslenskt samfélag stendur fátækar eftir. Ef Íslands hins vegar lítur á listirnar sem hluta af sjálfsmynd sinni og telur það styrkja og styðja framrás samfélagsins þá verður að grípa til aðgerða og það strax.

Annars er hætta á að allir sem getu og áhuga hafa snúi sér að einhverju öðru - og verður það Íslands missir.

Bestu kv.

Þorleifur
Island

1 ummæli:

logib sagði...

Þetta er alveg rétt og á sérstaklega við þessi grunn list svið þ.e.a.s. Myndlist og leiklist. Ísland er einungis fátækara fyrir vikið.
Kv. logi