þriðjudagur, desember 18, 2007

Góðan daginn

Í dag kemur ný grein inn á mittleikhus síðuna mína. Þetta er frekari umfjöllun og hugleiðingar um stöðu leikhússins í hinu kapítalíska umhverfi.

Sjá hér

------------

Nú berast fréttir frá Saudí Arabíu um að naugunarfórnarlaminu unga, sem dæmd var til fangelsisvistar og svipuhögga, hafi verið þyrmt. Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt en tekur ekkert frá þeim óhuggulegu forsendum sem lágu að baki dómnum til þess að byrja með.

Hún var dæmd fyrir það að vera á ferli með ókunnugum manni þegar þau voru gripin og þeim báðum nauðgað. Reyndar kom svo í ljós að hinn "ókunnugi maður" var fyrrum kærasti hennar og hún var á staðnum í þeim tilgangi að ná aftur myndum sem hann hafði tekið af henni, hún var nefnilega að fara að gifta sig.

Þetta segir manni að í Saudí Arabíu eins og annars staðar leika ung pör sér, sumir með því að fara í búninga og aðrir með því að taka myndir. En líklega má leiða að því líkur að alvarlegra sé litið á slíkar myndir komi þær út (t.d á internetinu) í Saudi en annars staðar. Og þó svo að líta megi á þetta sem ákveðið skref í frjálsræðisátt hjá parinu fyrrvernadi, þá í raun var um afar skynsamlega aðgerð að ræða hjá umræddri stúlku.

Einnig vekur það athygli mína að ekkert hefur verið fjallað um það að drengnum var líka nauðgað. Í Saudi Arabíu liggur allt að dauðarefsingu við nauðgunarbrotum og einnig við samkynhneigð.. Þegar þetta tvennt kemur saman þá hlýtur nauðgarinn heldur betur að sjá sæng sína útbreidda.

En hvergi er minnst á þetta. Þannig líklega hafa sömu fordómar og sjá samkynhneigð sem dauðasynd bjargað nauðgurunum, enda vandræðalegt fyrir stjórnvöld að dæma menn fyrir samkynhneigðar nauðganir í landi þar sem samkynhneigð á ekki að vera til staðar.

Út af fyrir sig er það gott að þetta mál komst upp, sýnir að fjölmiðlar eru rétt farnir að gróssera í landinu og harðstjórnin getur ekki haldið aftur af öllum fréttum (eins og N-Kóreu). En á sama tíma hlýtur maður að spyrja sig um þær þúsundir og tugþúsundir kvenna sem eru nauðgað og barðar og misnotaðar í landinu og komast aldrei undir kastljós fjölmiðla. Mun þetta bæta stöðu þeirra? Er þrýstingurinn nógur til að svo geti orðið? Mun svona pr fíaskó sjá til þess að einræðisherrarnir hugsi sig tvisvar um og fari að vinna að bættri stöðu kvenna? Mér er það að gefinni reynslu til efs.

Maður hlýtur einnig að spyrja sig um örlög þessarar stúlku. Nú tel ég nokkuð líklegt að giftingin hafi ekki gengið í gegn enda hefur hún verið svipt hreinleikanum. Hún býr líklega við stöðugar hótanir enda gengur framferði hennar gegn hinni opinberu stefnu (og hinni trúarlegu stefnu þar sem konur eiga að halda sig heima og sitja í aftursætinu), efnahagsleg framtíð hennar er einnig heldur dapurleg enda mega ógiftar konur ekki vinna. Og þetta í ofanálaf við það að vera nauðgað 14 sinnum af 7 mönnum.

Hvað um lögfræðinginn hennar sem sviptur var lögfræðiréttindunum fyrir það að neita að sætta sig við málsmerðferðina? Hver er hans framtíð?

Og hvað varð um fyrrum kærastan sem var nauðgað? Hvar fær slíkur drengur vinnu? Talar nokkur við hann?

Ef fjölmiðlar vilja hafa raunveruleg áhrif (og laga frekar en skemma) þá verða þeir að halda áfram að flytja fréttir af þessu máli, verða þeir að rannsaka hag kvenna í Saudí Arabíu almennt og opna augu vesturheims fryrir raunverulegu ástandi í þessu "bandalagsríki" vestursins. Fjölmiðlar mega ekki skilja þetta hugrakka fólk eftir - eitt - andspænis ríki og kirkju eigin lands.

Þetta mál leiðir einnig hugann rétt einu sinni að því harðræði sem ríkir í Saudi Arabíu. Saudi Arabía hefur lofað bót og betrum árum saman, lofað að einhverskonar lýðræði sé handan hornsins en alltaf gengið á bak orða sinna. Þetta tilbúna ríki heldur þegnum sínum í heljargreipum og ef ekki væri fyrir olíuna og vinskapinn hennar vegna við valdhafa heimsins þá væri þessi stjórn þarna löngu fallinn. Sýnir enn einu sinni fram á það að gríðarlegar náttúrulegar auðlyndir geta verið góðar fyrir efnahag hinna fárru en leitt skelfingu yfir þjóðina sem hinir fáu stjórna.

Þorleifur
Ísland

Engin ummæli: