miðvikudagur, mars 10, 2004

Góðan daginn

Enn heldur leikhúsgagnrýnisumræðan áfram.

Mér skilst að hlutverk gagnrýnenda sé að skrifa gagnrýni handa hinum áhugasama leikhúsáhorfanda. Sérstaklega er tekið fram að ef listafólk lesi gagnrýnina þá sé það svo sem í lagi en það sé svo sannarlega ekki skrifað fyrir það.

Vissuleg er ég ekki sammála þessu, sem er allt í lagi en það fékk mig til að rifja upp öll þessi ár að endalausum umræðum um leikhúsgagnrýni í umhverfiu mínu. Síðan ég man eftir mér hef ég alltaf haft á tilfinningunni að það sé stríð í gagni.

Ég veit ekki hvar þetta stríð hófst. Stríðið milli gagnrýnenda og Leikhússins. Og það er eins og öll stríð, óskiljanlegt! Þetta ætti að vera fólk sem deildi með hvoru öðru drauminum um gott leikhús en þess í stað virðst sem að beiskja hafi gripið um sig og fólk hafi fjarlægst í stað þess að ræða málin.

Ef maður reynir að greina hvaðan beiskjan kemur þá blasa nokkrar ástæður við og standa þær báðu megin víglínunnar.

EF við skoðum fyrst þátt leikhússins þá er það deginum ljósara að leikhúsfólki líkar að fá góða dóma (og þá er það ánægt með sjálft sig) en á ofboðslega erfitt með vonda dóma (og þá er það gagnrýnandanum að kenna). Það er nefnilega leiðinleg lenska í leikhúsinu að taka umfjöllun um listirnar persónulega. Það sé það sama að gagnrýna list mína og persónu. Auðvitað ætti þetta að vera fjarri lagi en því miður er þetta oftar en ekki svoleiðis.

Gagnrýnendur eiga líka sinn þátt í þessari beiskju. Það hefur oft brennt við að fólk sem er að skrifa um leikhús hefur ekki haft hundsvit á því sem það var að "gagnrýna". ÞAð væri svona rétt eins og ég tæki að mér að vera dómari í samkeppni í Arkítektúr vegna þess að ég lærði leiklist í háskóla. Þetta fer, eins og gefur að skilja, afskaplega í taugarnar á atvinnumönnum. Að einhver sem ekkert vit hefur á málefninu annað en eigin skoðun, sé að fjalla um verk hans á almannafæri með dómarahatt á höfði. OG það er mikilvægt að hafa það í huga að gagnrýendur eru ekki venjulegir áhorfendur sem fjalla svo bara um sína skoðun í blöðunum. Það er misskilningur, ég fengi ekki að fjalla um arkítektúr í blöðunum af því ég hefði skoðanir á því, einfaldlega af því að ég hef enga þekkingu til að byggja mínar skoðanir á. Það þýðir ekki að ég megi ekki keyra fram hjá húsi og hafa skoðanir á því, ég fengi bara ekki að halda þeim fram á almannafæri undir því yfirskyni að ég væri atvinnumaður.

Án nokkurs vafa fer stór hluti ábyrgðarinnar á þessu yfir á fjölmiðilinn sjálfan. Hann ætti náttúrulega að sjá sóma sinn í því að ráða fagfólk til að fjalla um viðfangsefnin (og þetta horfir nú til betri vegar og fjalla ég um það síðar).

Oftar en ekki er peningaleysi fjölmiðlanna orsök gæðaskorts. Ekki er hægt að borga gagnrýnanda nóg til þess að hann geti farið oftar en einu sinni á sýninguna og skrifað afar upplýstan dóm byggðan á yfirgripsmiklum skilningi heldur neyðist gagnrýnandinn til að horfa á sýninguna einu sinni og hlaupa svo heim til að skrifa fyrir blaðið næsta morgun. Þannig í raun er honum vorkunn.

Að lokum ætti það ekki að vera hlutverk hvers gagnrýendafyrir sig að skilgreina sitt hlutverk. Ég hef heyrt þau nokkur í gegnum árin, allt frá aðhaldi við listina yfir í algjörlega ábyrgðarlausa - "ÉG er bara áhorfandi sem segi hvað mér finnst" - afstöðu sem gerir engum greiða. EF manni er borgað fyrir að gera eitthvað þá er maður atvinnumaður, það felst í hlutarnir eðli. Þessi umræða verður að fara fram og það á milli þessara hópa í stað þess að hvor hópur um sig komist að niðurstöðu hver í sínu horni.

Að lokum:

Ég ákvað að benda á þetta til þess að fólk geti farið að leggja niður vopnin. Og með því að tala saman í stað þess að baktala og hunsa þá getum við byggt upp leikhús framtíðarinnar - saman.

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: