Góða kvöldið
Það er ekki oft sem maður fær að upplifa tvær leiksýningar sama kvöldið. En það gerðist í kvöld þegar ég sat í Helsinki og horfði á Djöflana eftir Dostojevsky en var á sama tíma með föður mínum í huganum þar sem hann endurfrumsýndi Sveinsstykki í Gamla bíói.
Fyrstu um djöflana:
Ég hef verið afar hrifinn af verkinu allt síðan ég las það og sá svo í Borgarleikhúsinu í stórlega vanmettinni uppfærslu Bordon hins rússsneska. Sú sýning mun lifa með mér lengi enn. því miður get ég ekki sagt það sama um uppfærsluna sem ég sá í kvöld.
Til að byrja með var verkið 4 og hálfur tími. það þarf útaf fyrir sig ekki að vera svo slæmt en þegar leikstjórnin er þannig að það sem hefði átt að vera hratt var hægt og það sem átti að vera hægt var hratt þá er fokið í flest skjól.
Verkið hófst á 90 mínútna "intro" þar sem karakterarnir voru kynntir til sögunnar. Bókinni var fylgt eftir afar nákvæmlega og svo virtist sem ekki nokkrum hlut væri sleppt. SVo kom að lokum þess kafla og þá fór allt í einu allt á fullt. Allir öskruðu hver í kapp við annan og féllu svo í yfirlið - blackout. þetta var svona eins og endir á sinfóníu eftir Beethoven, þegar löngu tónarnir tveir loka verkinu. Taka skal fram að ég set þessa samlýkingu ekki inn sem hrós.
Út í sígó og klósettröðina.
Inn aftur og aðrar 90 mínútur biðu okkar. Nú var sagan komin í gang en leikstjórinn hafði ekki tekið eftir því og hélt því tempóinu óbreyttu. Það virtist sem hann hafi orðið fyrir listrænni hugljómun í hléi og áttað sig á því að skemmtilegasta form leikhússins eru tveggjamannasenur. Og svo hrifinn var hann af eigin hugmynd að hann hafði ekkert annað allan annan þáttinn, 22 tveggja manna sena án þess að nokkru sinni væru fleiri á sviðinu í einu. Annað sem kom stórlega á óvart í þessum hluta var að allt í einu (og af því er virðist) á nokkurrar ástæðu byrjaði vatn að falla úr loftinu og gerði það svo af og til það sem eftir lifði sýnigarinnar án þess að tengjast nokkru því sem var að gerast á sviðinu . Mikil ráðgáta það. En svo til að sanna að hann væri ekki einhæfur þá ákvað leikstjórinn að enda annan þátt á einræðu mikilli. það runnu fljótt á mig tvær grímur, ég þekkti nefnilega einræðuna. Ég leit skelkaður í kringum mig til að athuga hvort ég væri einn með skelfingu minni en svo virtist sem engin annar vissi hvað biði okkar. Leikstjórinn hafði aftur ákveðið að verða bókinni trúr og þá vissi ég að einræðan yrði vel á hálftíma á lengd. Hálftíma seinna feidaðist ljósið niður á manninum sem hafði talað þessi ósköp (það var ekki erfitt að þekkja senulok því leikstjórinn hafði fundið uppá því snilldarræði að lækka alltaf í fiðlutónlistinni rétt áður en að senunum lauk) og kaffi var allt í einu orðið lífsnauðsynlegt. (ég hafði reyndar notað tveggjamannasenur 17 - 21 til að leggja mig því að ég vissi að í þessum kafla gerist í raun ekki neitt.
Stór kaffibolli og þurfti svoldið að útskýra fyrir samferðafólki mínu að leikstjórinn hefði getað sparað leikhúsinu mikinn pening með því að fá einhverja bara til að lesa bókina upphátt eða sent hana inn á valin heimili í Helsinki. En svo gullu bjöllur og síðustu 90 mínúturnar voru framundan.
þriðji þáttur hófst að venju á tveggjamannatali en svo gerðist nokkuð afar furðulegt. það var sem leikstjórinn hafi einhversstaðar í æfingaferlinu litið á klukkuna á þessum tímapunki, fengið histeríukast og gefið leikaraliðinu örfandi sterasprautu í rassinn því að allt fór á fullt. Fólk fór að tala hraðar og svo fóru menn að drepa aðra menn og sjálfan sig og loks voru allir dauðir eða grenjandi (og ekkert yfirlið) en við áhorfendurnir sátum eftir algerlega í sjokki. Hvað hafði eiginlega gerst? þegar loks kom að köflum þar sem hefði þurft smá nærgætni, uppbyggingu, dramatíska uppbyggingu og spenna þá var bara hlaupið á handavaði í gegnum allt! Ekki vottur af leikstjórnarhæfileika var sjáanlegur nokkursstaðar.
Annars var þetta ágæt sýning.
Þessi sýning var í Q leikhúsinu í Helsinki en svo vill til að þjóðleikhúsið er að einnig að sýna Djöflana og það á víst að vera heljarinnar rússibani svo fróðlegt verður að sjá.
En að Sveinsstykki:
Loksins tókst að koma því aftur á svið (líklega var ég nógu lengi í burtu). Sýningin í kvöld gekk afar vel og var mikið af fólki. Stemmningin rosaleg og standing ovation fyrir kallinn.
Ef þú ert ekki búin að sjá sýninguna þá skaltu skammast þín og drífa þig.
Mér skilst að Schaubune leikhúsinu hafi verið boðið á listahátíð til þess að sýna NORU í leikstjórn Tomas Ostermeier. Ég ráðlegg hverjum þeim sem hefur of mikla peninga á milli handanna að gefa þeim sem hafa vondan smekk á leikhúsi miða á sýninguna því að þeim mun líklega líða alveg eins og heima hjá sér á sýningunni.
Mikið hlakka ég til þess að heyra stunurnar þegar fólk áttar sig á því að það var að borga undir einhverja mestu kvenfyrirlitningarsýningu seinni ára (en ætli það sé ekki bara kúl) og að horfa uppá fullkomið dæmi um hvernig sýnimennska fer að því að eyðileggja góð stykki.
En svo er hitt annað mál að maður lærir mest af vondum sýningum og má því segja að það sé réttlætanlegt að koma með sýninguna heim (Þó ég verði að viðurkenna að ég væri glaðari að vita af henni 3618 kílómetrum lengra frá Reykjavík en hún verður í sumar).
Ég spái því reyndar að sýning fái frábæra dóma og ekki verði þverfótað fyrir slefandi listafólki í kringum sýninguna, við á Íslandi erum nefnilega ekki orðin nógu örugg með okkur sjálf til þess að þora að gagnrýna það sem kemur utanúr heimi.
Það er reyndar stundum það sem gerir Íslendinga svo sæta.
Kannksi er gott að ég er ekki formaður listahátíðar því að ég þykist stundum vita Bolnum betur hvað bolnum er hollt!
Góðar stundir
Þorleifur
laugardagur, mars 13, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli