þriðjudagur, júlí 22, 2003

Góða kvöldið

Vitið þið hvað. Mig er farið að gruna að mér hafi mistekist ætlunarverk mitt. Ekki það ég viti hvað það nákvæmlega er en eitthvað inn í mér segir mér að mér hafi mistekist ætlunarverk mitt. Hvað er það sem kallar? Hvaða rödd er það innra með mér sem er svona viss að mér hafi mistekist? Það er sálin. Sálin sem segir mér að ég eigi ekki að vera einn þeirra sem horfa í hina áttina þegar traðkað er á þeim sem minna má sín. Sálin sem vill ekki að ég taki þátt í svindli og svínaríi heldur að ég láti stjórnast af æðri kvötum hugsjónar og mannelsku. Sálin sem vill ekki vera afbrýðisöm og sjálfselsk heldur teygi arma mína út og faðmi þá að mér sem gengur betur og gera meira. Þannig er sálin og þar liggur röddinn.

En ég hef svikið hana. Ég hef öfundað og fylgt því eftir í máli og gerðum, ég hef horft í hina áttina þegar traðkað var á fólki, ég hef setið hræddur út í horni þegar einhver fékk yfir sig eitthvað sem hann eða hún átti ekki skilið og talið mér trú um að ég gæti ekkert gert. Þetta eru allt hlutir, ekki glæpir, sem ég hef gerts sekur um. Er ég dæmdur fyrir það? Ekki af samfélaginu í kringum mig því þetta er viðurkennd sjálfsbjargarviðleytni en kannski af sálinni.

Æ ég veit það ekki. Kannski er ég bara þreyttur og misskil skilaboðin, en kannski ekki. Kannski sprettur þessi texti af morðunum og hörmungunum í fréttunum, kannski af manninum sem ég rakst á í morgun og var að safna flöskum, ég rétti honum flöskurnar sem ég var með en horfði á hann með samúðaraugum sem töluðu tungum. Að einn daginn myndi hann kannski ná sér uppúr þessu, einn daginn yrði þetta ekki svona sárt, að einn daginn myndi hann átta sig á því að sólin skini ennþá. En ég var þögull og horfði með talandi brosinu og vonurfullu augunum en GERÐI ekkert, sagði ekkert.

Þessi heimur er svo skrítinn og óréttlátur og rotinn en samt er hann svo ótrúlega fallegur og bjartur á stundum að maður getur ekkert annað en trúað, trúað að einhvern daginn muni maður eins og ég þora að opna munninn og segja orðin í staðin fyrir að hugsa þau. Muni gera í stað þess að vorkenna.

Kannski einhvertímann, en þangað til getur maður bara vonað.

Góða nótt

Þorleifur

Engin ummæli: