mánudagur, febrúar 02, 2009

Góða kvöldið

Hæfileg þögn að baki - og nauðsynleg.

Það er ögurstund í sögu Íslands - já og líklega heimsins.

Græðgissamfélagið er hrunið og nú stendur í raun eftir sú spurning hvað hrynji með. Hrynur hugmyndafræðin að baki kerfisins algerlega eða tekst okkur að halda í það sem vel fór, þann grunn sem heillvænlegur er til langframa og henda hinu?

Og ef það er takmarkið, þá hlýtur spurningin að vera hvað var það sem virkaði og hver á að úrskurða þar um.

Ég er þeirrar óvinsælu skoðunnar að fólkið sem stóð í hringiðunni eigi að vera innan handar í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Það er, það fólk sem hefur horfst í augu við sjálft sig og þátt sinn í því sem átti sér stað og er staðráðið að breyta öðruvísi næst, eigi að fá að vera með í uppbyggingunni.

Þegar ég stóð í rökræðum við mann út af þessu um daginn þá setti hann upp eftirfarandi dæmi, sem ég tel nokkuð gott:

Segjum sem svo að tölvuforritari setji upp forrit sem lítur vel út en svo kemur það í ljós að það er fullt af holum, hleypir alls konar skít inn og veldur loks hruni í tölvunni. Er hann besti maðurinn til þess að laga forritið, eða er málið kannski bara að skipta um forrrit.

Hann var á því að betra væri að skipta um forrit. Ég er algerlega ósammála.

Ég myndi hiklaust halda því fram að betra væri að halda forritinu (svo framarlega sem það hafi virkar ágætlega til að byrja með og sé byggt á skynsamlegum grunni) og fá sama mann og hannaði það og notaði, þurfti að sitja við og reyna að stoppa í glufurnar og varð loks undir, til þess að reyna að laga það. Vissulega myndi ég setja einhvern við hlið hans og velta upp grundvallarspurningum um kerfið, en ég tel að reynsla hans í kerfinu hljóti að vera uppbyggingu þess til góða (nema þá að hann sé þeim mun sannfærðari að hann hafi gert allt rétt og hann beri enga ábyrgð á hruni kerfisins).

En ef hönnuðnum er hent í burtu og nýr fenginn til þess að setja upp kerfið og það frá grunni þá eru allar líkur á því að hann falli í sömu gryfju og fyrsti hönnuðurinn gerði, það er að vinna það frá grunni.

Leiðin frammávið hjá mannkyninu hefur verið sú að eitthvað er reynt, það virkar eða klikkar, fólk lærir og heldur svo áfram. Sé maður þeirrar grundvallarskoðunar að a. Fólk sé almennt gott og vinni sína vinnu af heilindum og b. að þeir sem iðrast, vilja læra af reynslunni og gera það, sé fólk sem ætti að fá að vera með þá hlýtur sú lausn að teljast best að með víðtækara samráði þá geti það fólk sem vann í hagkerfinu okkar vissulega komið að uppbyggingunni og jafnvel gert kerfið okkar betra.

Hvernig á að gera það er náttúrulega risastór spurning og sú sem ég er nú að glíma við. Þetta er spurning okkar tíma!

Þegar maður að nafni Linus Thorvalds datt í hug að hanna nýtt stýrikerfi sem ætti að slaga fram úr öllum öðrum datt hann niður á þá hugmynd að hanna grunn sem hann myndi svo deila með stórum hópi notenda og hver og einn af þeim (viðkomandi þurfti að hafa grundvallarþekkingu á tölvuforritun til þess að geta verið með) gat sent athugasemdir, jafnvel innleitt úrbætur. Kerfið stækkaði og stækkaði og eru flestir á því nú til dags að þetta sé fullkomnasta tölvustýrikerfi heima.

Þessi hugmynd hefur svo sprottið upp hér og þar og með tilkomu Wikipedia þá varð þetta konsept komið in í hvers manns tölvu.

Mætti ekki hugsa sér að eitthvað svipað væri hægt að gera með stjórnskipan, stjórnarskrá, framtíðaráherslur hagkerfisins. Mætti ekki sameinast um grunn sem er svo sendur út og allur almenningur getur tekið þátt í því að hanna og móta. Svo er miðlæg miðstöð (tækniþing eitthverskonar) sem tæki þetta saman og loks eitthvert ákvörðunarferli.

Humm...

nóg í bili

Þorleifur

3 ummæli:

Unknown sagði...

það er ótrúlega margt gott og satt í þessum teksta vinur minn.

EN svo kemur samt þarna að mannlegu eðli, ekki ætla ég að gefa mér það að allir sem að þessu komu séu skítmenni og ómerkingar, þarna er án efa gott fólk sem gæti hjálpað til.

það breytir ekki því að ég treysti ekki þeim aðilum er tóku sumir hverjir beinan þátt í þessu falli sem hér um ræðir og í stað þess að hafa manndóm til að biðjast afsökunar og sýna með gagnsæum hætti hvað var verið að aðhafast reyndu meira að segja sumir hverjir að brenna gögn og stela frekar.

Ber virðingu fyrir þér að standa þarna með þínu fólki og aftur, hugmyndafræði þín er þarna mjög góð, en því miður er hér um að ræða fólk ekki forrit, traust verður ekki gefið og glatað traust er ekki auðveldlega unnið til baka, en nú hafa þeir þó þann tíma að hugsa sinn gang og koma kanski síðar að borði.

Nafnlaus sagði...

Hmmm. Hvað nákvæmlega er forritið? Er það íslenska fjármálakerfið í heild, eða bara bankakerfið. Og hver er forritarinn - er það Davíð? Eða Davíð, Halldór og Árni Matt. Eða er það líka Framsókn. Var það ekki framsókn sem einkavæddi bankanna? Eða... segja ekki allir að eina vandamálið hafi verið að bankarnir voru tíu sinnum stærri en íslenska hagkerfið. Er það þá ekki stærð íslenska hagkerfisins sem er vandamálið en ekki bankarnir. Ef ÍSLAND hefði bara verið aðeins stærra, kannski fimm sinnum stærra en bankarnir þá hefðu bankarnir ekki hrunið heldur bara Ísland, eða bara Ísland en ekki bankarnir...

Nei, ég held að ef þúsundir manns myndu koma saman fyrir utan skrifstofu forritarans á hverjum laugardegi í margar vikur, og grátbiðja hann um að hætta þessari heimsku forritunarvinnu sinni og fara bara að vinna á kjötborði - en forritarinn myndi segja að hann væri í raun ekki forritari heldur slökkviliðsmaður og nú þyrfti hann að slökkva víruseldanna sem hann kveikti í prógramminu sínu og þar sem hann hafði farið á kvöldnámskeið í MH í almennri dýrafræði þá væri hreinlega enginn forritari í heiminum hæfari en hann - þá held ég að kannski sé það rétt hjá þér. Það er ekki forritarinn sem er fokkt opp heldur allt mannkynið og þess vegna ættum við í raun að skipta því út fyrir tölvur.

Kær kveðja
Símon

ps. Var hann að forrita á Línux eða PC?

Unknown sagði...

Nokkrir punktar;

Forritið var meingallað en það gleymist að stýrikerfið er enn þá gallaðra. Hvað gera allar þjóðir heims núna í lausafjárkreppunni? Dæla meiri peningum inn í kerfið... og hvaðan koma þeir peningar?

Forritarinn var að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkurinn; "Traust efnahagsstjórn er okkar helsta velferðarmál" - hvaða flokkur fór með forsætis- og fjármálaráðuneytið á meðan á íslenska efnahagsundrinu stóð?

Ég held að flestir séu sammála um að bankar eigi ekki að vera í ríkiseigu en ferlið að baki einkavæðingunni (hvernig vissir aðilar fengu gefins pening) og lagaumhverfið sem sett var í kringum bankakerfið var hriplekt. Það var einfaldlega ekki nógu vel staðið að einkavæðingunni.

Svo má heldur ekki gleyma að samkvæmt forritunarhandbók Sjálfstæðisflokksins þá verður að halda öllu regluverki og eftirliti í kringum forritið í lágmarki til að markaðurinnn.. fyrirgefið mér, forritið geti fúnkerað almennilega. Þetta er eins og að segja að maður ætti að lágmarka vírusvarnir og slökkva á eldveggnum til að leyfa tölvunni að njóta sín betur!

- hlynur p