Góða kvöldið
Nú þegar rykið er að setjast þá er fróðlegt að horfa yfir völlinn og lesa í stöðuna sem komin er upp.
Er staðan betri en hún var?
Klárlega varð ríkisstjórnin að fara sökum mótmæla á götum úti, en það er ekki nóg að samþykkja þann gjörnað vegna þess að óeirðir brutust út heldur verður maður að spyrja sig hvert leiddi breytingin okkur?
Klárlega er komin ríkisstjórn sem skilur að hún verður að vera í stöðugum og miklum, gegnsæjum og upplýsandi samskiptum við þjóðina. Blaðamannafundur beint eftir fyrsta fund var snilldarleikur.
Á sama tíma eru Evrópumálin komin af borðinu. Þar sem það er klárlega stærsta mál okkar tíma þá er það afar miður.
Og tel ég það vera helstu ástæðu þess að ISG hélt svona lengi út í samstarfinu, að hún sá að xD var tilbúinn að þokast í evrópuátt. Þrýstingurinn var á þeim. Nú er sá þrýstingur úti og þá munu varla koma fram þeir Sjálfstæðismenn (allaveganna ekki forrystu kandídatar) sem taka klára og skýra stefnu í þessum málum. Og er það sorglegt.
Má því velta fyrir sér hvort að langtíma hagsmunum þjóðarinnar hafi þar verið fórnað fyrir skammtímahagsmuni þeirra sem reiðastir voru. Að fróun þjóðarinnar hafi kostað okkur einu raunverulegu útgönguleiðina.
Verði það raunin þá verður það sorgleg fylgja hinnar mögnuðu búsáhaldabyltingar, burtséð frá því að það var samskiptaleysi stjórninnar sem olli henni.
Mbk
Þorleifur
þriðjudagur, febrúar 03, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Já, það verður fróðlegt að sjá hvert búsáhaldabyltingin leiðir okkur. Hvort sú ríkisstjórn sem nú sest í stólinn verður betri en fráfarandi ríkisstjórn verður tíminn einn að leiða í ljós. Það má samt ekki gleymast að byltingin leiddi líka af sér stjórnlagaþing sem vonandi breytir stjórnarskránni til hins betra. Þá er jafnframt klárt mál að afsögn Björgvins, splundrun fráfarandi ríkisstjórnarsamstarfs og verðandi breytingar á stjórnsýslu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins var það sem þjóðin sem heild (í það minnsta 70% hennar) hreinlega þurfti á að halda eftir hundrað daga óvissu.
Skil samt ekki þrjóskuna í sjálfstæðismönnum. Af hverju kom Geir aldrei fram og viðurkenndi að sú efnahagsstjórn (og helsta "velferðarmál flokksins") sem flokkurin innleiddi hafi verið reist á sandi. Ef þeir hefðu viðurkennt breyskleika sinn í stað þess að halda því statt og stöðugt fram að engin mistök hefðu verið gerð þá er alls ekki víst að fólk hefði tekið jafn rækilega undir mótmælin og raun ber vitni.
Og ég viðurkenni það fúslega að ég var einn af þessum reiðu einstaklingum sem hrópaði "vanhæf ríkisstjórn" og ég hef aldrei verið jafn stoltur af því að vera Íslendingur... reyndar var ég hvorki stoltur af ofbeldismönnunum né blogg-leigupennum frjálshyggjumanna sem drulluðu yfir þjóðina með rökleysunni um "þögla meirihlutann".
Þetta var í raun ólýsanleg tilfinning; að standa innan um friðsamt fólk og slá saman búsáhöldum, kyrjandi sömu setninguna aftur og aftur. Einfaldur performance en með ólíkindum áhrifamikill og magnaður.
- Hlynur P.
Sæll og bless
Enda er ég í raun ekki að draga dul á réttmæti mótmælanna, tilurð þeirra né tilgang.
Spurningin snýr að afrakstrinum í bráð og lengd.
gæti verið að þetta réttmæta, lifandi skref valdi gríðarlegu vanda þegar fram í sækir?
Gaman að heyra í þér
Þorleifur
Skrifa ummæli