þriðjudagur, desember 11, 2007

Góðan daginn

Þá er maður kominn aftur á heimaslóðir.

Reyndar var heimkoman með glæfralegasta móti. nú er ég maður ekki flughræddur og hef tilturulega gaman af rússibönum og slíku en ég get tæpast mælt með því að lenda í 40 metrum á sekúntu.

Vélin hristist og skalf, og í fyrsta aðfluginu, er við vorum komin í hæð við ljósastaurana sem þekja heiðina þá gaf flugstjórinn allt í einu allt í botn (fór ekki fram hjá mér þar sem ég sat við hlið hreyfilsins) og við skutumst á ný upp í loftið. Hin huggulega flugfreyja, sem reynst hafði mér og kvefinu mínu sérlega góð á leiðinni, varð heldur föl milli freknanna og er við komum inn í annað skiptið og flugvélin nötraði meira en í fyrsta aðfluginu var ég farin að búa mig undir það að dvelja yfir nótt í hinu huggulega bæjarstæði Egilstöðum.

En flugstjórinn (sem reyndist svo vera að mér sýndist 17 ára gamall frakki) ákvað að láta slag standa og bomba okkur niður. Og það var það sem hann gerði. Við skullum niður með þvílíkum látum að vélin hossaðist nokkurum sinnum áður en hún rétti sig af og keyrði í mestu makindum, eins og ekkert væri, inn að flugstöðvarbyggingunni.

Þar sátum við svo föst í klukkutíma áður en okkur var hleypt frá borði, enda of hvasst fyrir rannan að komast að vélinni.

hálftíma seinna lék svo hreinsandi fjallaloftið um kollinn og var sem aldrei hafði hvesst.

Dagurinn í dag svo notaður til þess að ná áttum, heilsa upp á vini og kunningja og njóta þess að vera, eftir langt hlé, kominn aftur heim.

Góðar stundir

Þorleifur
Ísland

Engin ummæli: