miðvikudagur, desember 12, 2007

Góða kvöldið

nú liggur fyrir alþingi frumvarp sem snýst um það að breyta þingsköpum. Þarna eru margar góðar og gildar breytingar að finna.

Heppilegt er að stjórnarandstöðuformenn og þingmenn sem þurfa að dvelja langdvölum úti á landi fái aðstoðarmenn, gott er að þingmenn geti oftar borið upp spurningar til ráherra(frúa). Um þetta er vart hægt að deila. Þingmenn þurfa að komast yfir mikið magn upplýsinga á sama tíma og þeir þurfa að sinna sínum heimahögum, er því gott fyrir upplýsingu og lýðræði að þeir fái til þess nauðsynlega aðstoð. Sama á við um stjórnaranstöðuleiðtoga sem þurfa að hafa góða yfirsýn.

En svo liggur líka fyrir breytingartilaga um að takmarka ræðutíma í annari umferð sem nú er ótakmarkaður.

Þarna stoppar maður aðeins við.

Í raun er þetta ekki slæmt ef ekki væri fyrir það að stjórnaraðstaða á Íslandi er óttalega máttlaus til þess að berjast gegn málum (sérstaklega þegar um sterka stjórn er að ræða). Þó vissulega hafi ákvæðið um ótakmarkaðan ræðutíma ekki verið hannað til málþófs þá er hægt að nýta það til þess að tefja mál og jafnvel (ef nóg er undir) koma í veg fyrir afgreiðslu mála.

Að misnota heimildir er vissulega áhættusamt, því ef ekki liggur að baki nógu góður rökstuðningur þá er misnotkunin einvörðungu til trafala, og gjaldfellir jafnvel hugmyndina að misnotkuninni. En hins vegar geta vissulega komið upp þær aðstæður að bráð nauðsyn sé á stjórnarandstöðu sem töggur er í. Og sé því þetta ákvæði fjarlægt þá er einnig búið að fjarlægja sterkasta vopn upplýstrar stjórnarandstöðu til þess að standa gegn málum.

Vissulega má deila um þau málþof sem stjórnarandstaðan stóð fyrir á undanförnum árum, flest voru þau óþörf og drógu þar með úr vægi þess að notast við málþófið. En hinsvegar má benda á mál sem fjölmiðlafrumvarpið, þar sem málþófi var beitt, og vakti mikla athygli á málinu (reyndar skaðaði ekki að verið var að ræða um lög gegn upplýsingaveitunni).

til samanburðar má benda á málþófsréttinn (Filibuster) í Bandaríkjunum sem er sterkasta vopn minnihluta í efri fulltrúadeildinni (Senat) og hefur notkun á málþófi þar bæði komið í veg fyrir að mál næðu í gegn sem og hótanir um málþóf sé til þess að mál yrðu ekki lögð fram. Repúblíkanar reyndu á síðasta þingi að fella þetta akvæði úr gildi, það er þangað til þeim datt í hug að þeir gætu tapað kosningum og þyrftu þá etv. að nýta sér slíkan rétt.

Auðvitað væri best í máli sem þessu að komið væri inn heimild til stjórnarandstöðu þar sem hún getur á einhvern hátt haft áhrif á mál stjórnarinnar. Einhverskonar aðhaldsákvæði. en þar sem ekki er nokkur möguleiki á að slíkt ákvæði næði fram að ganga þá held ég að við búum við sterkara lýðræði ef þessu ákvæði væri ekki breytt.

Og þá væri það á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að misnota það ekki og gjaldfella þar með endanlega hugmyndina sem að baki stendur.

Engin ummæli: