fimmtudagur, október 13, 2005

Góða kvöldið

Þá held ég áfram með leikhúsgagnrýni héðan frá höfuðvígi leiklistarinnar í Berlín

Sumsé, á dagskránni í dag eru uppsetningar á 3 verkum.

Fyrst en alls ekki fremst er uppsetning á hinu fræga verki Göthes, Faust. Þetta er seinni hluti verksins sem sjaldan hefur verið settur upp vegna gífurlegs flókleika og óspilanleika.

Sýninguna var að finna í Þjóðleikhúsi Þýskalands, Deutsches Theater í uppsetningu Michaels Thalheimer (sem frægastur er fyrir það á Íslandi að eiga höfundaréttinn á uppsetningu Stefáns Baldurssonar á Veislunni. Ég hitti reyndar Thalheimer sem spurði mig spjörunum úr um uppsetninguna og var mjög hneykslaður á því að ekki hafi verið haft samband við hann ef kópíu af sviðsmyndinni, videónotkuninni og rýmisnotkuninni átti að fara á svið í Þjóðleikhúsi Íslendinga. Þetta er náttúrulega skömm sem ekki svo glatt gleymist í hinum mjög svo litla leikhúsheimi hér. Það hafa fleiri minnst á þetta við mig hér!) En allaveganna...

Thalheimer vinnur með það sem hann vill kalla minimalisma. Oftar en ekki eru samtöl hröð og tilfinningalaust, sviðsmynd einföld (yfirleitt hvít) og props ekki að finna. Það hefur hentað mörgum af þeim verkum sem hann hefur sett upp, sérstaklega var ég hrifinn af uppsetningu hans á 3 systrum og Emeliu Galotti. En minimalismi á sér grensu og yfir þá grensu hefur Thalheimer nú stigið. Þessi uppsetning verður að teljast til leiðinlegustu uppsetninga sem ég hef á ævi minni séð (og eru þær nokkrar). Faust stóð inn í svörtum kassa sem var umþaðbil 2x2x2 alveg fram á síðustu stundu. Leikararnir löbbuðu svo inn í slow mo, stilltu sér upp, horfðu fram og fóru með textann sinn. Þetta var eins og upplestur án þess að hafa vald á pásutakkanum! REyndar eru margir hér úti stórhrifnir af þessu (og segja að engin annar hefði getað sett þetta upp, enda hefur það ekki farið upp í DT síðan 1912 í uppsetningu Max Reinhart) og segja að lestur hans á vevrkinu hafi verið stórkostlegur. Þetta get ég illa lagt dóm á þar sem ég sklidi afar lítið á bundna háþýskumálinu en ég hef illan grun um að þarna sé hámenningarsnobb af verstu gerð að finna. Sumsé, ÖMURLEGT!

Í gær sá ég svo uppsetningu á Fedru eftir RAcine í nýrri útsetningu Ungversks leikskálds (sem ég man ekki hvað heitir). Leikstjórinn, Artud Schilling hefur vakið töluverða athygli hér undanfarin ár og sýnist mér á öllu að hann eigi það fyllilega skylið. Sviðið var að mestu tóm ef undan eru skilin 3 blómabeð, sófi og lík á borði. Blómabeðunum var brátt komið fyrir kattarnef í einhverri skemmtilegasta nauðgunarsena sem ég hef séð. Blómapottunum var nauðgað og á horfði kvennakórinn (um það snérist myndlíkingin). En það var eitthvert alvöruleysi í sýningunni. Fedra var full af harmi allan tíman en Hippolítus vafraði um í gulu nærbuxum og í allt öðrum leikstíl. Og í raun var hver og einn karakter útfærður með sinn eigin leikstíl. Þetta er afar áhugaverð tilraun en þá getur það gerst, eins og var í þetta skipti, að fókus sýninginarinnar verður óskýr og frekar áhugaverur að horfa á en að upplifa. Pínkulítið svona leikhús fyrir leikhúsfólk. Mikið af góðum hugmyndum og spennandi vinna að mörgu leyti og ég vil gjarnan sjá meira frá þessum leikstjóra. Sérstaklega þótti mér skemmtilegt að þau skildu stöðugt vera að keyra um "líkið" af rotnandi Thesusi og þannig varð ástríðan og ástríðuleysið sem hrjáir þau einhvernveginn áþreyfanlegt, minna spennadi var þegar Thessus vaknar og syndur í aríustíl alla sínu rullu. Einnig er ég á því að útsetningin sé ekki nógu góð. Sérstaklega ekki ef hugsað er út í útgáfu Söru Kane, en það er kannski ekki sanngjarnt að bera verkin saman.
Þetta afskiptaleysi sem ég varð vitni að á sviðinu í gær er svolítið gegnumgangandi þema hér og þarf sérstaklega góða meðhöndlun og þá einkunn rétt verk til þess að ganga upp. Því miður tókst það ekki alveg í þetta skipti.

Í kvöld sá ég svo Tartuffe í DT. Ég var ekki par hrifinn. Reyndar finnst mér verkið alveg ferlega leiðinlegt og sé ekki alveg tilganginn í því að setja það á svið í sini upprunalegu mynd. Sérstaklega fer í taugarnar á mér Duex ex machina-n sem lokar verkinu. Ég skil vel að Moliere hafi þurft að enda verkið á lofdýrð til kóngsins (þegar furstinn er búinn að láta gabba sig út í að gefa ofsatrúarsvikaranum Tartuffe allt sem hann á kemur sendimaður konungs og handtekur Tartuffe því að hann sér, í óendanlegri visku sinni, að hann er lygari og svikari), sérstaklega þar sem hann var búinn að troða inn í verkið landráðamanni sem virðist framan af hafa svoldið til síns máls. En í dag hljómar þetta eins og lofgjörð til valdsins sem hefur allt aðra merksingi í dag. Leikstjórinn, Robert Schuster, er aðalkennarinn minn sem hefur getið sér gott orð fyrir sérstaklega djarfar sýningar. Því var það sorglegt að upplifa svona ódjartf verk frá hans hendi. SViðið var hvítur kross þar sem allt var leikið á án leikmuna (ég veit, þetta er að verða þreytt). Persónurnar voru í kómískum útgáfum af barokkklæðnaði og stílfærðar mjög. Allar nema Tartuffe sem var sá eini sem ekki var í háhæluðum skóm og var sérlega náttúrulískur í öllum leik. En eins og oft er þegar stílfærðar persónur eiga í hlut þá lifðu þær ekki lengi og áður en varði þá var manni farið að leiðast, vildi fá að sjá hvað lá að baki eða allaveganna einhverja persónuþróun (sem virðist vera bannorð hér í Berlín). En allt kom fyrir ekki, þetta var fallega fluttur texti með einstaka uppbroti þar sem leikhúsið fékk að njóta sín en hefðu þurft að vera bæði fleiri og sterkari og þá sérstaklega kómískari til þess að halda manni við efnið út í gegnum sýninguna. Það koma í huga mér tvær mögulegar útfærslur á hugsun leikstjórans. Fyrst að hann hafi viljað gera traditional útgáfu og hafi svo verið tókst vel upp. Hin er að hann hafi viljað kommenta á verkið sjálft og persónurnar innan uppsetningastílsins og hafi það verið ætlunarverkið þá mistóks það þar sem skýrleikinn til slíks leik var ekki að finna (flatbotna skór Tartuffe duga ekki til).

En þetta er að verða ansi langt. ég er að fara í leikhús á morgun (Vojchek), Laugardaginn (einleikur eftir skólasystir mína), Sunnudaginn (Prater Saga 3), mánudaginn (Gestasýning frá Úkraníu), Miðvikudaginn (sami gestahópur með verk eftir Tjúganíev) og loks á Laugardaginn á Rómeó og júlíu frá sama leikhóp. Þannig það er nóg að sjá og ég reporta á það þegar þar að kemur.

Annars er ennþá 20 stiga hiti hérna á daginn, skólinn lítur æ betur út og þetta er allt saman alveg ferlega gott og skemmtilegt!

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: