þriðjudagur, maí 24, 2005

Góðan daginn

Ég er kominn til Köben þar sem ég er að vinna í því að ná heilsu (bæði líkama og geð) eftir ævintýrið í Berlín.

Teatertreffen þetta árið var skandall! Slíkt samansafn af innihaldslausu rusli hef ég aldrei á ævi minni séð, og það á tímum þar sem þýkst mannlíf og samfélag stendur í stórri krísu.

Það sem einkenndi hátíðina var óttinn sem endurspeglaðist í verkunum. Það er eins og ekkert af verkunum sem við sáum þyrðu að segja það sem þau voru að reyna að segja, eða að skilaboðunum var pakkað inn í svo svakalegar umbúðir að ekki var nokkur leið að innihaldi snerti mann.

Langsóttar voru tengingarnar við stríðið í írak, atvinnuleysið í þýskalandi eða nokkurt annað samfélagsleg málefni. Það sem aðallega bar á voru svona post-post-post-post útfærslur á mannlegu samfélagi. Sem dæmi má nefna þá sýningu sme mest fór í taugarnar á mér, Othello í leikstjórn Stefan Pucher.

Othello var hvítur maður málaður svartur. Hann var klæddur glimmergalla og söng og dansaði sig í gegnum allt verkið. Þetta var samkvæmt dómnefndinni pólitísk sýning. Bíddu??? jú, auðvitað, af því að stjórnmálamenn eru "Showmen" í eðli sínu og með því að maska sig þá er maður að fela þann mann sem raunverulega stendur að baki. Nú sé ég, þetta er auðvitað rammpólitísk sýning!

Og ég átti mörg orð við dómnefndina. Fyrst þar sem ég stóð upp á opnum umræðufundi við viðhafnarhátíð Teatertreffen og lýsti þeirri skoðun minni að þetta væri sú allra lélegasta Teatertreffen hátíð sem ég hafði séð, og hún væri á slík lágum standard að ekki væri nokkur leið fyrir mig að trúa því að hátíðin endurspeglaði þýskt leikhús í dag heldur væri hér um að ræða valdsþjónandi kviðdóm sem léti fagurfræði og borgaralegt eðli sitt standa í vegi fyrir því að leikhúsið hefði samfélagslegt hlutverk. Í kjölfarið þá var mikið rifist og skammast, meðal annar var ráðist á mig því að ég hafði gefið viðtal við blað Teatertreffen þar sem ég lýsti þessum skoðunum í ýtarlegu máli og bætti því við að eina ástæðan sem ég sæji fyrir þáttöku tveggja sýninga eftir Stefan Pucher væri að hann hafi sofið hjá einhverjum í kviðdómnum (það sem ég gat ekki vitað var að hann er snarasmkynhneigður og það er hluti að kvikdómnum líka!). En sumsé, þetta viðtal vakti hörð viðbrögð enda berst kerfi sem er á síðustu bensíndropunum þeim mun harðar.

En þetta var frábær upplifun og ég mun bæta við innan skamms svona yfirliti og svo úttekt á bestu sýningu sem ég sá þar, sýning sem er bönnuð í þýskalandi utan dresden og var mikil úlfúð um að henni skyldi ekki vera boðið á hátíðina.

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: