þriðjudagur, apríl 05, 2005

Góða kvöldið

Jæja, hér situr tilturulega sátt leikstjóradula. Það var rennsli, eitt með öllu í kvöld, og það gekk barasta firna vel.

Sýningin samanstendur af bæði skemmtilegum atriðum, frábærum lögum, mögnuðum hópsenum og umfram allt frábærri liðsheild.

Ég hlakka til þess að fylgja krökkunum síðustu metrana og afhenda þeim barnið til umönnunnar, og er þess sannfærður að þau muni bæði passa upp á það og efla það til dáða.

Og þar með líkur hátíðleikanum!

Í öðrum málum...

Það er kominn nýr fréttastjóri, og hananú! En ég hef svolítið verið að hugsa málið og er farinn að hallast að því að fréttastofan hafi farið offari. Ekki það, ég var algerlega sammála þeim og er gjörsamlega búinn að missa trúna á það að hér ríki lýðræði og er í þeirra sorglegu stöðu að trúa alltaf öllu því versta upp á stjórnherrana, en engu að síður finnst mér að fréttamennirnir hafi gengið full hart fram.

Ég neyðist víst til þess að rökstyðja það örlítið betur.

Fréttamenn hafa mikið og afgerandi vald. Þeir eru (sama hvað nokkur segir) áhrifavaldandi afl í samfélaginu og því bera þeir mikla ábyrgð. Með þessu er ég ekki að segja að þeir eigi að vera hlutlausir, skoðanalausir eða veigra sér undan erfiðum málum en þeim ber að fara varlega að þetta vald sem þeim er gefið.

Og eftir á að hyggja finnst mér ekki að þeir hafi gert það í þessu máli. Þeir notuðu öll tökifæri til þess að koma málinu að, spiluðu með þá þreytu sem almenningur er komin með á stjórnháttunum (sem er alveg sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig) og bjuggu þannig vel um hnútana til þess að Auðunn gæti ekki tekið við starfinu.

Og kannski sýnir þetta í raun linkindina sem þeir sýna annars. Því að þetta gæti kallast rétt viðbrögð ef þau væru ekki svo úr takt við hvernig tekið er öðrum málum og hvernig þau eru kynnt og um þau fjallað. Ef þeir tækju á öðrum málum af viðlíka hörku þá væri hér í fyrsta lagi líklega ekki þetta ægisvald sjálfstæðu framsóknar sem við búum við og í öðru lagi líklega réttlátara samfélag.

Nú að lokum... ljóð að hætti hússins.

Ertu þá farinn,
ertu þá farinn frá mér,
hvar verður þú lengi,
má ég þá borga framsóknarflokknum símreikninginn?

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: