fimmtudagur, september 23, 2004

Góða kvöldið

Þetta hefur, þori ég að fullyrða, einhverjir undarlegustu og á sama tíma, unaðslegust dagar lífs míns.

Ég er farinn að trúa því að ég geti skrifað leikrit. 25 síður komnar og prufulestur á þeim við konuna mína (sem þýðir samtímis lestur og þýðing, og alas, oftar hljómar það betur á engilsaxneskunni) virðist benda til þess að þar sé á ferð eitthvað svoldið djúsí. Ekki ber svo að skilja að ég sé þeim mun meira undrandi á þessu, ég vonaði allaveganna alltaf að ég væri skriffær, heldur hitt, hversu auðvelt þetta veitist mér. ÉG er náttúrulega að skrifa um eitthvað sem ég gjörþekki, pólitík, og býst ég við að það stytti mér örlítið leið. Ég er til dæmis fullviss um að ef ég væri að skrifa um kotlífi á hásléttum skotlands á öndverðri 15 öld þá myndi það veitast mér töluvert þyngra í skrifum, en pólitíkina kann ég.

Og talandi um pólitík þá hefur dóttir stórleikarans Gunnars Eyjólfssonar (sem þórhildur Þorleifsdóttir rak úr sýningunni Góði Dátinn Sveik) ákveðið að ráða Tinnu Gunnlaugsdóttur í starf Þjóðleikhússtjóra. Þetta þarf náttúrulega ekki að koma neinum á óvart og óska ég Tinnu til hamingju með starfið og megi gæfan og gengi fylgja henni.

EN það sem stendur mér fremst í huga í kvöld er matarboðið sem ég var í áðan. Þar sat ég (reyndar annað kvöldi í röð) með Jóni Baldvini Hannibalssyni og Bryndísi Schram. Var matarboðið haldið til heiðurs rithöfundinum Einari Má en bókin Draumur á jörðu var að koma út eftir hann á finnskri tungu. Þetta reyndist vera hið skemmtilegasta matarboð þar sem umræðan spannaði, menntunarmál beggja vegna atlantshafsins (og þar af leiðandi hið sósíal demókratíska kerfi Evrópu vs. hið elítu miðaða kerfi Bandaríkjanna), Palestínumálið, sem við Jón Baldvin vorum sammála um að væri grundvöllur getuleysis Evrópu í heimspólitíkinni (enda er málið það sem mestu máli skiptir í alþjóðapólitíkinni), nú einnig gerðist ég svo djarfur að leggja til að lestrarskortur íslenskra ungmenna (við erum fyrir neðan miðju í nýlegri könnun OECD og höfum hríðfallið undanfarin misseri, bókaþjóðin er sumsé að verða ólæs) stafaði af ömurlega leiðinlegum skólabókum. Ef því yrði kippt í liðinn þá væri kannski von til að fólk fengi ekki gubbutilfinningu við að sjá bók (það þarf ekki að taka fram að undirtektirnar við þessu við matarborðið voru harla takmarkaðar). Og svo mætti lengi halda áfram. Ég ætla að spara lesendum þessarar síðu (ef einhverjir eru) frá því að telja mikið meira upp, en tvennt vil ég minnast á. Annars vegar að gaman var að hlusta á skáldið segja frá og þá sérstaklega frá bókum sínum, sem hann lifir sig mikið inní. Vissulega væri hægt að lesa úr því að hann þjáist af háu stigi af egóism (sem ég geri ráð fyrir að öll skáld geri að einhverju leyti, ég meina, hvernig ættu þau að hafa áhuga á sögum af öðru fólki ef það hefði ekki áhuga á eigin sögum?) en því er ekki hægt að neita að hann er heillandi og spennandi karakter og um hann þurfa kannski ekki að gilda sömu regur um framkomu (og önnur borgaraleg gildi) eins og hina. (hver veit, kannski verð ég einhvern daginn líka sérviskulegur listamaður sem vill bara segja sögur af eigin frábærlegheitum og þá ætla ég að vona að ég hitti mann eins og mig (sem reyndar heldur úti bloggsíðu um sig á 26. aldursári) sem er tilbuinn að umbera mig) .

Hitt sem var spennandi við þetta kvöld var saga sem að Jón Baldvin sagði af því þegar Ísland lýsti yfir stuðning við hið nýja lýðveldi Litháen. Hann hafði talað um mikilvægi þess að gleyma ekki smáríkjunum á balkanskaga í umræðum á alþjóðavettvangi og komist upp með það vegna þess (eins og sendifulltrúi BNA komst að orð) að Ísland er svo lítið. Og ef maður er lítill í hinu stóra spili alþjóðapólitíkurinnar þá getur maður komist upp með að gera hluti sem aðrir fá ekki að gera, eins og til dæmis lýsa yfir stuðningi við aðrar smáþjóðir, eitthvað sem stóru norðurlandaþjóðirnar þorðu ekki að gera. En allaveganna. Í Júni 1991 hringir símin hjá JB um miðja nótt. ER á línunni Landbergis (seinna forseti Litháen) og segir við JB að hafi hann einhvertímann meinað það sem hann hafði sagt um sjálfstæðisbaráttu þeirra á balkanskaganum þá væri tíminn upp runninn til að standa við orð sín. Rússarnir væru búnir að herbúast og það stefndi allt í það að þeir væru við það að ráðast inn. Það þyrfti að koma einhver pólitíkus og sýna samstöðu með þeim. Öll hin norðurlöndin voru búin að neita og Ísland var eina vonin. JB tekru til óspilltra málanna og fer í það að fá vegabréfsáritun (það er einfaldari prósess ef maður er utanríkisráðherra). Hann er svo kominn til Vilníus 3 dögum seinna og finnur Landbergis inn í stjóranráðinu með 170 unglingum með kalishnikov rifla, umkringdir rússneskum skriðdrekum. Honum er húrrað upp í ræðupúlt og flytur þar ræðu yfir 600.000 manns sem safnast höfðu saman. Það sem hann áttar sig allt í einu á er að þetta er miklu mikilvægara en hann hafi gert sér grein fyrir. Þarna, andspænis skriðdrekunum, stóð pólitíkus í hárri stöðu í ríki sem var í NATO (segið svo að það hafi aldrei komið sér vel að vera í hernaðarbandalagi). Sem slíkur þá var móralski stuðningurinn sem hann sýndi með þessu mun meira virði en öll samúðarskeiti veraldar. Og að sitja í stofunni og hlusta á hann segja þessa sögu var upplifun ólík nokkurri sem ég hef á ævinni upplifað. Allt í einu var ég staddur á torginu innan um fólkið og sá að þjóðin mín hafði kannski haft eitthvað fram að færa til góðs í veröldinni. (reyndar tókst þeim kumpánum DAvíð, Halldóri að skemma það aftur en kannski urðu þeir bara að eyða surplúsnum). Vissulega er þetta móment ennþá of nærri mér til þess að ég geti eitthvað tjáð mig um það í alvörunni en ég fann að það snerti mig á einhvern þann hátt sem fátt annað af svipuðum toga hefur gert.

Til að slá botninn í þetta þá var þessi saga, sem ég var að segja frá, pöntuð af Einari Má og hljóðaði beiðni hans svo "segðu okkur söguna af því þegar þú sigraðir kommúnismann". Ég var fljótur að benda á að þetta væri nú kannski ekki alls kostar rétt þar sem The Economist hafði lýst því yfir við lát Regan að það hafi verið hann sem gerði það. Og þá sagði Jón Baldvin "Í Litháen þá eru tveir heiðursborgarar erlendir. Ronald Regan og Jón Baldvin Hanniblasson".

Svo mörg voru þau orð!

Þorleifur

Engin ummæli: