Góða kvöldið
Seinna en vanalega en fyrr en oftast kem ég hér enn á ný á öldur ljósvakans.
Ég er í raun algerlega búinn að fá nóg af mér. ég er alltaf að lofa einhverjum greinarpistlum hingað en stend mig aldrei í stykkinu. En nú verður gerð bragabót þar á. Nú skrifa ég marglofaðan pistil um reykingar og merkingar þeim samfara.
MArgt hefur nú blessaður kallinn hann Þorgrímur reykingamisþyrmir Þráinsson afrekað um dagana. Hann virðist vera óstöðvandi í því að detta í hug nýjar og snjallar hugmyndir. En það er oftar en ekki gallinn við mikla hugmyndasmiði að þeir þurfa ekki að hugsa um afleiðingar hugmyndanna. (munið greyið þjóðverjann sem hélt að atómið væri hægt að nota í orkuskapandi og friðarstillandi tilgangi) Þeir standa í þeirri trú að þær séu öllum mönnum til braga- og hagsbóta og vaða því áfram sem mest þeir mega. Helgur er staður þess sem hugsar. En hann Þorgrímur hugsar bara beint á ská. Þarfalaust er að fara í smáatriðum í gegnum afreksferil mannsins, hann stendur öllum reykingamönnum afar nærri, en hitt er svo að nýjast hugmynd hans er svo snilldarleg að ég má til að fabúlera aðeins með hana.
Honum þykir sumsé ekki nóg að merkja sígarettupakka (sem meiga hvort eð er ekki sjást neinsstaðar) uppúr og niðrúr með merkinguim hótandi ekki aðeins getuleysi, dauða, barnamisþyrmingum, fósturdauða, lömun, almenna sæðisfækkun, ásamt öllu öðru sem gerir lífið þess virði að lifa því, heldur vill hann nú ganga lengra (sem er Íslendingum góðkunnur siður). Hann vill nú skreita pakkana með myndum af rotnandi líffærum dauðra reykingarmanna.
Enginn efast um að þetta myndi hafa gífurlegt forvarnargildi. Ég er til dæmis nokkuð viss um að stelpan sem hugsaði um að hætta kannski einvherntímann þegar hún sá nýju merkingarnar myndi við það að bera líffærin augun bara alveg hugsa sig vel um áður en hún héldi áfram að reykja. En fyrir mitt leyti er þetta bara upphafið af langri og gifturíkri þróun.
Vissulega yrði að taka þetta í smáum skrefum. Byrja á myndunum og e.t.v. láta þær stigmagnast þar til farið er að birta heil lík. Sterkt væri að þau væru af reykingardauðum Íslendingum.
Nú, þegar búið væri að kynna líkin til sögunnar væri hægt að taka næsta skref. Hægt væri að útbúa litlar formalínkrukkur og setja í þær niðurskorna parta á líffærum dauðra reykingarmanna. Hægt væri að setja þetta upp sem leik þar sem maður getur safnað sér saman einni formalínlunga eða véllinda. Eins og Pókemon leikurinn, muniði. Safna saman myndum af öllum pókemononum þar til maður er kominn með allt safnið og getur farið að skipta og svona. Akkúrat þannig. Þetta myndi vissuleg auka til skamms tíma reykingar en ef hugsað er fram í tímann þá mun þetta drepa reykingarmennina fyrr og við erum þar af leiðandi lausir við þá um aldur fram og allir spara fullt af peningum. Þegar búið væri að safna öllum líffærum dána reykingarmannsins gæti maður sent krukkusafnið til tóbaksvarnarnefndar sem myndi senda innrammað lík um hæl. Það væri svo hægt að hengja það uppá vegg öllum litlu börnunum sem víti til varnaðar (eða nota það sem píluspjald).
Þetta myndi.... Nei bíddu, bíddu. Nú er ég að falla í sömu gildruna og ég var að vara hann Þodda við áðan. Þetta er ekki góð hugmynd hún er stórhættuleg. Tóbaksfyrirtækin gætu notað þessa hugmynd í illum tilgangi. Þau gætu byrjað alveg eins, látið litla krukkur með líffærum fylgja með, en þau myndu þá ekki vera af tóbakdeyddum reykingarfórnarlömbum heldur af sérræktuðum mannasvínum. OG myndi maður ná að safna í heilt líffæri gæti maður fengið því skipt fyrir nýtt og heilt (svona til vara ef eitthvað klikkar í boddíinu). Og fyrirtækin gætu jafnvel farið lengra og bíttað á tuttugu afrifum af kartonum fyrir heilt lík. SVona varahlutalík. Og þá er allt unnið fyrir bí. Áfram myndu þá reykingarmenn njóta skattpeninganna okkar til að laga sig í stað þess að drepast eins og er markmið tóbaksvarnarnefndar. og ég sem hélt að ég væri með þessu að verða að einvherju gagni. En sem betur fer stoppaði ég mig af áður en ég framkvæmdi hugmyndina mína. En hugsa sér ef ég hefði ekki áttað mig, þá hefði ég getað gert mikinn skaða!!!
Já, sumar hugmyndir hljóma vel við fyrstu athugun en eru þegar allt kemur til alls gætu þær snúist upp í andhverfu sína.
Góðar stundir
Þorleifur
sunnudagur, ágúst 24, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli