þriðjudagur, maí 13, 2008

Góðan daginn héðan frá Schwerin

Því hefur verið varpað fram að ég sé frjálshyggjumaður.

Og það er ég vissulega, en því miður ekki í þeirri vitlausu skilgreiningu sem orðið hefur á sér í íslensku samfélagi.

hvað þýðir það að vera frjálshyggjumaður?

Í klasískum skilningi myndi það vera maður (eða kona) sem styddi grundvallarkenningar um frelsið eins og þær komu fram hjá John Stuart Mill. Mill skilgreindi frelsi sem frelsi einstaklingsins til hugsana, orða og athafna sem ekki sköðuðu aðra eða samfélagið í heild.

Mikið flóknara er það nú ekki.

Og í þessum skilningi er ég frjálshyggjumaður.

Því miður hefur hægri vængurinn á Íslandi eignað sér hugtakið og viðskiptafrelsispostular í félagi nefndu eftir frjálshyggjunni, tekið orðið í sína vörslu.

Hugmyndin um frelsi er stærri en svo að hægt sé að skilgreina hana til hægri eða vinstri.

Sem gegnpóll við Mill væri líklega hægt að nefna Georg Wilhelm Hegel sem skilgreindi frelsið sem frelsi manna til þess að framfylgja vilja Guðs í lífi sínu. Örlögin voru sett en eins og leikari á sviði fær ákveðið frelsi innan ramma textans og uppsetningarinnar til þess að fara sínu fram. Seinna víkkaði Hegel reyndar keninningar sínar út og yfirfærði á ríki. Að Guð hefði valið ákveðin ríki til þess að reka stefnu sína og hefðu því grundvallarrétt til þess að beita öllum aðferðum, meðal annars vopnavaldi, til þess að framfylgja þessum meinta vilja Guðs. Grunnur hugmynda hans snúast því um að leita að hinum guðlega sannleika í lífinu, hvort sem um einstakling eða þjóð er að ræða, og berjast svo fyrir þessum sannleik.

Hegel þróar kenningar sínar eftir að hann verður prófessor í heimspeki við Berlínarháskóla á þeim tíma er þýska keisaraveldið er að verða til, og beintengdi hann þessar hugmyndir sínar um frelsið við uppgang þess ríkis.

Kenningar hans hafa á 20 öld reynst miklu áhrifaríkari en kenningar Mills (Mill byggði kenningar sínar á frelsishugmyndum Locks á meðan Hegel byggði á Plató annars vegar en hugmyndunum um Þjóðfélagssáttmála Rousseau)

Hegel lagði með þessum bollaleggingum sínum grunninn annars vegar að þjóðernishyggjunni og hinsvegar að Marxisma. Báðar stefnurnar snérust um það að leita að sannleikanum, önnur reyndar nátengdari guðlögum örlögum en hin, en báðar trúðu á stóra sannleik.

Mill, sem var mikill baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna, skipti sér minna af réttlæti þegar hann var að leggja fram kenningar sínar. Honum var umhugað um einstaklinginn en tók efnahagslegt frelsi ekki með í reikninginn. Vissulega mætti telja þetta honum til lasts en ég tel að seinni tíma heimspekingar (og ekki síður einstaklingar sem seinna börðust fyrir frelsi sem aktívístar frekar en heimspekingar) hafi bætt þar úr skák.

(Fremsta meðal aktívista mætti líklega nefna Emmu Goldman (sem ég mun innan skamms skrifa grein um) en auðvitað mætti svo setja Gandhi og Martin Luther King á þennan lista)

Samfélög hafa í raun verið að leita að jafnvægi milli frelsiskenningar Mill og þjóðfélagssáttmála Rousseau allar götur síðan þessar hugmyndir konu fram, og tel ég að af öllum löndum heims séu norðurlöndin þau sem næst standa því að geta uppfyllt slíka skilgreiningu.

En erum við nær því að vera búin að skilgreina hvað frelsi er og þar með að svara því hvað frjálshyggjumaður er? Nei, enn vantar stórt púsl til þess að fullkomna myndina.

Ég tel að til þess að hægt sé að skilgreina frelsi þurfi maður að horfa til fleiri þátta en aðeins þeirra réttinda sem varin eru af stjórnarskrá og með öðrum skrifuðum og óskrifuðum sáttmálum.

Frelsi skiptist í raun í tvennt. Annars vegar hið ytra frelsi; Frelsi til skoðana, tjáningar og aðgerða og svo hið innra frelsi; frelsi til þess að þora og geta sett fram hugsanir, tjáð sig og framkvæmt hluti.

Þetta innra frelsi er vissulega tengt hinu ytra, sérstaklega í gegnum það sem kallast mætti efnahagslegt frelsi. Frelsi sem samanstendur af því að vilja gera eitthvað og hafa til þess efnahagslegar forsendur.

En innra frelsi er að mestu huglægt. Að vera ekki annarra manna þjónn, hvort sem er í raunverulega eða í hugrænum skilningi. Að vera frjáls innra með sjálfum sér, og því aðskilinn að vissu leyti ríkjandi viðhorfum, lífsmáta eða áhrifum og hafa þar í gegn þor og vilja til þess að standa með sjálfum sér.

Þetta frelsi er fyrst nefnt í elstu heimildum sem við höfum um hugtakið frelsi. Hugtakið Scorage (vantar rétta stafsetningu) er að finna í ritum "Upanishads"og hefur tvöfalda en óaðskiljanlega merkingu; frelsi til þess að vera eigin herra bæði í ytri og innra skilningi.

Og þarna er ég farinn að nálgast það sem ég myndi flokka sem raunverulegt frelsi. Að maður standi sem frjáls maður bæði í ytri og innra skilningi.

Að manni ætti að vera frjálst til þess að eiga og framkvæma; og þessar gjörðir, verlaldlegar eða huglægar hafi maður rétt til þess að verja og standa ekki í annars manns skugga.

Í þessum skilningi er ég frjálshyggjumaður. Því ekki hægri eða vinsti maður heldur frjáls maður. Restin er bara rökræða um útfærslur og aðferðir.

BEstu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: