laugardagur, október 28, 2006

Þetta er grein sem ég sendi á fréttablaðið sem svar við grein Hannesa H. Gissurarsonar:

The World accouring to Hannes

Það er fróðleg lesning að venju að lesa greinaskrif háskólaprófessorsins Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í Fréttablaðinu í gær.

Honum tókst í stuttri grein að rekja mannkynssöguna í heild sinni og á sama tíma sýna fram á að svartsýnir fýlupúkar, svo sem náttúruverndarsinnar, vaði í villu og svima í heimssýn sinni.

Til dæmis tekst honum snilldarlega að afskrifa að hvalveiðar hafi einhver áhrif á ímynd Íslands, afskrifa að hættulegar hliðarverkanir af fólksfjölgun og ofsókn í auðlindir jarðar og sjávar skipti máli, ef hún á sér yfir höfuð stað, að fátækt í heiminum sé í raun ekkert vandamál og slumpar svo að lokum á að jörðin sé einvörðungu að hitna vegna sólgosa og að innan skamms muni heimsfriður ríkja í glæplausu samfélagi.

Það sem einkennir skrif prófessorsins eru skemmtilegar tilvitnanir og ályktanir og gaman er að sjá mann í menntaumhverfinu taka sig sjálfan svo lítið hátíðlega. Ég hélt nefnilega að það væri venja í háskólaumhverfinu að færa rök fyrir máli sínu, en ég sé nú að það er misskilningur.

Að prófessorsins mati eru hvalveiðar fullkomlega réttlætanlegar vegna þess að, ólíkt því sem flestöll stjórnvöld í heiminum, helstu fjölmiðlar og umhverfisverndarsamtök halda fram, þá sé nóg af hval í höfunum og ekki nóg með það heldur étur greinilega skíðishvalurinn allt í einu fisk, sem hlýtur að koma fleirum en mér á óvart.

Einnig vonar prófessorinn að þessir útlendingar sjái að sér þegar þeir átta sig á því að þeir veiða líka spendýr. Reyndar telja flestar þjóðir að á því sé munur að drepa dýr sem innan alþjóðlegra samninga eru verndaðar og þeirra sem veidd eru utan allra alþjóðlega sáttmála, en á þetta slær háskólamaðurinn og telur bara fáfræði.

En hann lætur ekki hér við sitja heldur setur samasemmerki milli misskilningings í kringum hvalveiðarnar og dómsdagaspáa sem samkvæmt bókinni "Hið sanna ástand heimsins" (sem ég verð að viðurkenna að ég hef í fáfræði minni hvorki lesið né heyrt um) sem hann á í bókahillunni. Svo heldur hann áfram á þessum nótum og afsannar næst það sem ma. öldungadeild bandaríkjanna og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands hafa lýst sem einni stærstu hættu sem að mannkyninu steðjar, hlýnun loftlagsins vegna gróðurhúsaáhrifa, sem önnur bók í hillunni góðu, dómsdagsbók frá 1974, spáði fyrir um en samkvæmt prófessornum er hlýnunin líklega eldgosum á sólinni um að kenna.

(Ég reyndar leit í svipinn yfir hilluna hjá mér og sé þar nokkrar bækur sem halda því meðal annars fram að í raun séu eðlur í grímubúningum við stjórnvölinn í heiminum, önnur sem heldur því fram að stórfyrirtæki ráði sér "economic hitmen" til þess að blekkja stjórnvöld vanþróuðu ríkjanna til þess að fjárfesta í stórframkvæmdum á lánsfé. En ég er náttúrulega ekki kennari við Háskóla Íslands, ekki á framferði hins opinbera eins og Hannes Hólmsteinn, og er því bókahillan mín líklega síður til sannana fallinn en hans.)

En Hannes er hvergi nærri hættur enda maður sem sópar að. Hann stekkur þvíumnæst yfir í stríð og frið og lýsir því á sérlega einfaldan og skýran máta að heimurinn sé nú betri en nokkru sinni fyrr. Til þess notar hann tölfræði um glæpatíðni (án tilvísunar) og álit sitt á því hvernig er að búa í borgum Bandaríkjanna og Bretlands.

Frjálshyggjumaðurinn Hannes imprar líka á því að í fyrirmyndarlöndum eins og Hong kong og Singapour, þar sem lýðræði er virt að vettugi en atvinnufrelsi er við lýði, sé fátækt nú fortíðarvandi. Að í vanþróuðulöndnunum sé lestrarkunnátta nú um 80% meðal ungmenna og aðgangur að brunnvatni sé ekki lengur vandi. Þetta, ef rétt reynist, eru frábærar fréttir þó vissulega megi velta því fyrir sér hvort framfarir þær er hann boðar þurfi endilega að eiga sér stað í skjóli einræðis.

En prófessorinn er langt í frá hættur, næst snýr hann sér að öryggismálum. Honum finnst að miklu friðvænlegra sé nú um að lítast í heiminum en 1989. Þetta telur hann staðreynd þó svo að skráðar hryðjuverkaárásir 1989 hafi verið 7 en 2005 voru þær 35 (heimild getið að neðan) en hver er að hengja sig í smáatriði. Einnig finnst honum ástæða til þess að minna okkur á það hversu gott við höfum það enda séu morð mun fátíðari nú í London en á 13 öld!

Að lokum minnir hann okkur á að séum við staðföst og traust í bardaganum við hryðjuverkamennina þá verði allt yndislegt eins og á 19. öldinni. Mér líður betur nú þegar.

Eins og áður sagði þá er gaman til þess að vita að háskólafólkið sé undir staðfastri forrystu Hannesar Hólmsteins Gissurarson að yfirgefa fílabeinsturn rökstuddra vísinda og geta nú sest með okkur hinum og skipst á skoðunum byggðum á því sem maður finnur á bókahillunni, kaffistofunni, vinnustaðarskemmtuninni eða annars staðar þar sem lífið á sér raunverulega stað.

Þorleifur Örn Arnarsson
Leikstjóri

Heimild:
http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_terrorist_incidents

Engin ummæli: