föstudagur, apríl 22, 2005

Góða kvöldið

Já, það er skrýtið lífið þessa dagana.

Frá því að getað ekki beðið eftir því að komast úr skóla og fara að leikstýra í það að geta ekki beðið eftir því að komast frá því að leikstýra og inn í skóla.

Tíminn og hringurinn (eða spírallinn).

Þetta þýðir sumsé að ég veit hvað ég er að fara að gera næstu 2 - 4 árin. Ég er að fara að búa í uppáhaldsborginni minni, að bæta við mig þekkingu í því sem hjartað segir mér að ég geri best og loksins lítur út fyrir það að við Meri verðum á sama stað í lengri tíma. Með ákveðna fullvissu hvernig landslagið lítur út.

Ég veit það nú samt fyrir víst að lífið á eftir að grípa einhvernveginn inn í og snúa öllu á haus en það er það eina sem er öruggt í lífinu, það að það hættir aldrei að koma á óvart.

En þetta verður góður tími, ég finn það í hjartanu.

Svo var konan mín að útskrifast og er nú löggildur arkítekt og hennar fyrsta verk verður að teikna nýtt hús handa okkur á Grettisgötunni. Og svo er bara að byggja!

Annars ligg ég yfir leikverkum. Er að lesa Söru Kane ennþá því að maður tórir ekki nema lítið af henni í einu. Einnig er ég að kíkja á Ravenhill og Barfuss.

Og datt loks niður í fantasíu. Það er alveg frábært að hverfa stundum út úr heimi Economist og pólitíkur, svindls, kapítalisma og eiginhagsmunasemi og yfir í heima þar sem manngildi skipta ennþá máli. Það eru allir hugrakkir, hræddir, stoltir, góður, vondir, stórhuga, sviksamir og heiðarlegir. Þeir eru svo fallega basic einhvernveginn. Það er stórkostlegt að setjast niður í 5 tíma eða svo og hverfa á vit dreka og djöfla, flugskipa og orka. og ímyndunaraflið fær að fljúga með!

En nóg í kvöld.

Bið að heilsa

Þorleifur

Engin ummæli: