sunnudagur, ágúst 29, 2004

Góða kvöldið

ég er í skriffríi enda er ég að vinna eins og skepna til þess að geta lifað hinu góða lífi það sem eftir lifir árs án þess að þurfa að lyfta hendi fyrir nokurn mann nema að innri köllun eða almenn nenna komi til...

En það lærist margt af því að lifa eins og skepna, til dæmis þá er það manni afar holt að sofa lítið því að það stóreykur einbeitinguna og kennir manni hversu fallegt lífið sé sofi maður vel og lengi (sem er annað sem ég ætla að gera að vinnutörn lokinni).

En sumsé, þegar ég hef lokið mér af, sem ætti að vera um miðjan september, þá mun ég fara að blogga á fullu og þá verður gaman að nýju.

Ég var annars að koma að norðan þar sem ég á þremur dögum skrifaði og leikstýrði svokölluðu míníleikriti fyrir LA. Þetta var stutt atriði fyrir Akureyrarvöku þar sem LA kom fram á opnunarhátíðinni. Það var meira en lítið skrítið (skemmtilegt rím-ið) að koma inn um dyrnar á samkomuhúsinu með það fyrir augum að vinna þar og á móti manni tóku myndir af foreldrum mínum báðum og afa en þau hafa öll starfað fyrir LA á einum eða öðrum tíma. Foreldrar mínir hófu feril sinn hjá LA og afi minn, Jón Kristinsson, var formaður LA um 12 ára skeið svo það var örlítið sem að forlögin sætu og fylgdust með mér yfir öxlina, rýndu í verk mín en hvettu mig áfram.

Kannski á maður aldrei séns, er bara fæddur til að elta. En svo er það aftur hitt að kannski er þetta allt saman eintóm tilviljun og tengsl minnar vinnu við sögu ættarinnar eru bara í besta falli cosmik djókur (alheimskímni).

Annars er líf mitt fullt af spennandi möguleikum og gaman verður að sjá hvað gerist þegar fram líða stundir. Eins og góður íslendingur þá gef ég ekkert uppi og get því þegar fram í sækir neitað að hafa mistekist nokkur hlutur!

en góðar stundir (sérstaklega ef um slíkt er ekki að ræða á þessari)

Þorleifur

Engin ummæli: