föstudagur, júlí 11, 2003

Góða kvöldið

Í gærkveldi horfði ég stíft á skjáinn. Í gegnum mig rann brennandi löngun til þess að setjast við skriftir en þar sem ég var búinn að vera að heiman lengi þá var kall fallegu konunnar við rúmgaflinn sterkara. Þetta ætla ég að reyna að bæta upp í kvöld.

REyndar milli þess sem ég hóf og lauk við þessar skriftir fór ég á fund með mönnum sem ég vann með, treysti og voru vinir mínir. Þar sem ég var orðin þeim baggi (að þeir töldu) þá tilkynntu þeir mér vinsamlega að taka pokann minn. Í kjölfarið varð ég alveg ógurreiður og gekk um götur þar til iljar mínar skröpuðust við berar gangstéttar. Fann mannkyninu og græðginni allt til foráttu og hataðist við guð og menn. En svo sýndi vinur minn mér ljósið, að það væri ekki mitt að ákveða við upphaf róðurs hvort veiðarfærin væru til þess fallinn að fiska vel. Ég yrði að bíða þar til róðrinum væri lokið til þess að dæma um það. Svo eru tilfinningarnar alltaf svo fljótar á sér. Þær vilja alltaf telja manni trú um að alltaf sem þeim finnst sé heilagur sannleikur en oftar en ekki er það ekki svo. Maður sér það nær undantekingalaust að þær höfðu alveg á kolröngu að standa þegar smá tími er liðinn. Hvort atburðir kvöldsins eru undantekningin eða reglan verður bara að koma í ljós í fyllingu tímans.

En aftur að því sem ég var að fjalla um í byrjun. Undanfarna daga hefur skemmtilegur (og þreytandi ) kokteill hugsana flogið í gegnum huga mér. Vafi og vissa til skiptis. Þegar margar ákvarðanir verða að vera teknar á stuttum tíma vill svo oft verða að maður missi sjónar á því sem raunverulega skiptir máli, verk manns. Hugsanir eru nefnilega þeirri náttúru gæddar að vera misvísandi og oftar en ekki kross-misvísandi. Stundum óskaði maður þess að til væri svona eins og hristiglas sem maður gæti hrist þegar mikið bæri á og segði manni heilagan sannleika, leysti fyrir mann krossgátur hugans og gerði manni kleyft að sjá í gegnum móðuna og velja rétt. En þar sem það er ekki til staðar og guð@himnaríki.god svarar ekki skilaboðum, þá verður maður bara að treysta á innsæið, vinina og ráðunautana og allmenna skynsemi.

Pistill þessi er hugsaður til þess að einfalda mér ákvarðanatöku næstu daga. Hvort hann gerði það verður bara að kom í ljós þegar verkin eru orðin og framtíðin komin.

Góða stundir

Þorleifur

Engin ummæli: