Góða kvöldið
Afsakið hvað langt er síðan ég kom hér inn síðast. En ég get borið fyrir mig að aldrei á ævi minni hef ég haft í jafn mörgu að snúast ef svo má að orði komast.
Það er reyndar of stutt síðan þetta allt gerðist til þess að ég geti fjallað um þá af einhverju innsæi, til þess þarf tíma og ró í sálina en í stuttu máli þá féll systir mín frá aðfaranótt föstudagsins. Þetta var aðeins 5 tímum eftir að ég hafi frumsýnt síðast verk vetrarins í Nemendaleikhúsinu og hálfum sólarhring áður en ég keypti mína fyrst íbúð. Systir mín varð undir í baráttunni við krabbamein eftir 10 ár en það get ég með sanni sagt að ég hef aldrei séð hetjulegri baráttu en hennar og sé manneskju leggja öðrum lið af jafn mikilli einurð og gleði. Hennar helsti hæfileiki var að færa fólki gleði og von og það gerði hún m.a. í gegnum starf sitt hjá Krafti (stuðningssamtök ungs fólks með krabbamein). Þegar ég var uppá spítala hjá henni yfir nótt rakst ég á konu sem ég tók tali. Hún spurði mig hvort ég væri innliggjandi og þegar ég neitaði því þá sagði ég henni deili á mér. Hún kváði við og sagðist hafa vonað að ég væri ekki þarna vegna systir minnar. Hún hafði nefnilega verið á leið að hringja í hana til að öðlast von og styrk sjálf. Þetta opnaði augu mín fyrir því gríðarlega starfi sem GH hafði unnið meðal krabbameinssjúklinga. Í mörg ár var hún á stuðningssímavakt Krafts og ekki er hægt að hafa tölu á því hversu mörgum hún lagði lið og hvað það gerði fyrir viðkomandi en það veit ég að óeigingjörn vinna hennar skilaði sér inní líf margra og hafði mikil áhrif á það hverni henni gekk að takast á við sjúkdóm sinn og lifa lífi gleði og hamingju.
Ég óska öllum sem þjást af þessum sjúkdómi að fara að dæmi hennar og takast á við sjúkdóm sinn af festu en missa ekki sjónar á lífinu og hamingjunni sem þar er að finna. Og að skynja það að besta leiðin til að viðhalda voninni er að gefa vonina öðrum, besta leið til gleði er að gefa gleði frá sér og besta leið til haminju sé að sína hana í verki.
Ef þið eigið ykkur einhvern æðri mátt megi hann geyma ykkur
Góða nótt
Þorleifur
zorleif@hotmail.com
mánudagur, maí 19, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli