föstudagur, maí 15, 2009

Kvöld í St Gallen

----------

Vandamálið við að vera sonur frægra foreldra er að geta ekki:

a. gleymt því að maður er sonur þekkts fólks.
b. Að aðrir geta það ekki heldur.

------------

Ég er að leikstýra Rómeó og Júlíu. Verki sem ég hélt að fjallaði um eilífa ást en kemur svo á daginn að fjallar um engla og djöfla, heilagleika og hið óhelga, sannleik og lygi, ginningarleiki, sýnispil, grímuburð og djúpstæða sorg. Og innan þessa ramma rúmast svo einnig...eilíf ást.

Þetta er líklega það sem gerir Shakespeare svona sérstakan, svona magnaðann, svona einstakann, að hann skilur að manneskjur eru ekki eitt, þær eru margt. Og í sínum fantasíuheimum finnur hann þessari sýn sinni farveg. Eitthvað sem maður ætti að hafa í huga nú þegar maður er að fara að skrifa nýtt leikverk.

Meira um Shakespeare hér

----------

Keypti mér nýútkomna bókina um Tom waits. Langar að lesa ævisögu manns sem segir aldrei saman hlutinn tvisvar í viðtölum. Er búinn að lesa fyrstu 40 síðurnar. Höfundurinn er í alvöru að reyna að skilgreina Tom Waits án þess að tala við Tom Waits. Eins og að reyna að skilja kamelljón án þess að horfa á rándýrin sem éta það.

Hann dregur upp svipmynd af horfnum fjölskylduföður og áhrifum þess á ungan Tom. Rökstyður þetta með lagasmíðum mannsins.

Höfundurinn ætti að lesa Shakespeare.

Ætla samt að lesa áfram, ef ekki til annars en að lesa mig til um manninn Tom Waits sem mig langar ekki að þekkja.

---------------

Ég stunda líkamsrækt þessa dagana. Það er frábært. Frábærlega borgaralegt. Ég reyni reyndar að komast undan því með því að stunda þær prívat og gjaldfrjálst inn á hótelherbergi hjá mér.

En ætli það sé ekki mótsögn í sjálfu sér.

-------------

Ég hef einnig haft tíma til þess að leita að mínum innri manni. Samkvæmt síðustu athugun er hann ennþá týndur. Þeir sem hafa orðið ferða hans varir eru vinsamlegast beðnir um að senda vísbendingar um dvalarstað til mín á Radison Sas í St Gallen.

Bankaleynd viðhöfð.

Góðar stundir

Engin ummæli: