miðvikudagur, desember 28, 2005

Góðan daginn og gleðilegar hátíðar.

Nú er svei mér búið að éta og drekka, labba um í snæviþöktum skógum og liggja á meltinu með góða bók í hönd.

En þar sem internettengingin upp í sveit sveik mig þá er um að gera að ég bæti það upp nú og fjalli um restina af sýningunum sem ég sá undanfarið í Berlín.

Enda lítið annað að gera þessa dagana en að lesa um fjarlægt leikhús og leyfa huganum að reika.

Jæja, sýinginarnar sem eftir eru:

1. Endastöðin Ameríka (Sporvagnin girnd) í leikstjórn Frank Castorf (A. Þýskaland)
2. Shopping and Fucking í leikstjórn Thomas Ostermeier (W. Þýskaland)
3. Measure for Mesure í Leikstjórn Simon McBurnley (Bretland)

Endastöðin Ameríka er eins og svo mörg af verkum Castorfs hans eigin útgáfa af hinu klassíska verki Sporvagnin girnd.

Eins og mátti sjá í Borgarleikhúsinu um árið þá ákvað Castorf að fara þá leið að láta fígúrurnar vera White Trash fólk í Ameríku. Alkóhólisma, atvinnuleysi, ömurð og niðurlæging er blákaldur raunveruleiki þess fólks sem okkur er gefinn kostur á að kynnast þessa kvöldstund.

Og Castorf (sem í kjölfar þessarar sýningar sagði tímabundið skilið við leikhúslegt handverk, enda búinn að sýna fram á að þar væri meistari á ferð) leikur sér hér að því að sýna þetta fólk í sem sterkustum anstæðum við þá ímynd sem maður býst við þegar leikritið hefst. Mikið er keyrt áfram af húmor, absúrd situationum, og löngum meistaralegum byggðum senum.

Sviðið er lítil íbúð þar sem einn vegginn vantar (þannig á þessum tímapunkti er Castorf ennþá að vinna með nokkurs konar fjórða vegg, sem hann afneitar líka í seinni verkum sínum), eina rýmið sem við sjáum ekki er klósettið en þess í stað þá er þar búið að koma fyrir videóvél og við fáum að fylgjast með því sem fram fer í gegnum lítið sjónvarp sem stendur við hlið klósetthurðarinnar. Þessi fídus er skemmtilega notaður þar sem til að byrja með er okkur "sagt" að þetta sé ósýnilegur gluggi fyrir áhorfendur einvörðungu en svo allt í einu í miðju stykki fara leikendur að nota þetta til þess að fylgjast með hvoru öðru inni á klósetti (þangað sem allir flýja þegar tilfinningar þeirra bera þá ofurliði).

Annað sem gefur þessari sýningu slíkan gæðastimpil er hvernig farið er með sambandið við áhorfendur. Eins og ég hef lýst hér að ofan þá hefst þetta í raun eins og "well made play". Fjórði veggurinn stendur sterkur og klár og við sitjum handan hans viss í þeirra trú að við séum örugg fyrir því sem á sviðinu á sér stað. En ekki líður á löngu þar til Castorf stenst ekki mátið og fer að fíflast í okkur. Hlutum er hent út í áhorfendarýmið, mónólógarnir fara stöðugt meira og meira fram "in our face" og loks er verkið leikið meira og minna til okkar (þegar það hentar sýningunni).

Loks lyftist sviðið að framan og við hættum að sjá það, á meðan leikararnir berjast við að vega salt á sviðskörinni og leika til okkar.

Að mörgu leyti lætur Castorf söguna liggja nokkuð nærri upprunalega textanum þó svo hann hafi endurskrifað textann sjálfan. Mikið er af kvótum í samtímann og þó svo að persónurnar séu ennþá pólskir innflytjendur í Bandaríkjunum (sem eru í aðra röndina stolt af uppruna sínum og skynja að Ameríski draumurinn var greinilega ætlaður öðrum en á hinn bóginn hafa ekkert annað að fara og dreyma einvörðungu um að snúa heim) en Castorf er óhræddur við að skjóta inn tilvísunum í þýskan samtíma. Staðarnöfn, atburðir og annað í textanum virðast manni svo að textinn sé endurunninn í hvert skipti sem verkið er tekið upp að nýju. Hvort svo er veit ég ekki, en sé svo ekki þá sínir það einungis hversu vítækur hugsuður Castorf er.

Tónlistarnotkun í verkinu er einnig snilldarleg. Meira og minna öll tónlist er flutt live á sviðinu og situr þá einn leikarinn (það virðist að þýskir leikarar kunni meira og minna allir á hljóðfæri) og spilar til skiptis á fiðlu, gítar og kontrabassa. á einum stað mætir svo allt castið og spilar sem hljómsveit á hápunkti verksins þegar Blanche brotnar saman. Þetta var frábær stund!

Ég get ekki yfirgefið umfjöllun um verkið án þess að minnast á andartak sem í raun er ekki hluti af verkinu en sýnir vel fram á hvers konar leikhús Volksbühne er og hvað er hægt í leikhúsi.

Einn helsti leikari Volksbühne, Henry Hübchen í hlutverki Mitch, stendur þá og hlýðir á grátbólginn mónólóg Blanche. Á því andartaki fær einn áhorfendanna hóstakast og linnir ekki látunum fyrr en Blanche er hætt að gráta og starir á viðkomandi áhorfenda. Hann skammast sín og reynir að bæla niður hóstann. Við þetta fær leikkonan sem leikur Blanche hláturskast og getur ekki haldið rullu sinni og mónólóg gangandi. Henry Hübchen horfir á og sér að mótleikkona sín er dottin út, við það snýr hann sér út í áhorfendasal og segir "láttu þér batna" (gesundheit á þýsku) og snýr sér aftur að blanche (sem nú er að ná sér) og heldur áfram að leika. Á þessu andartaki greip salurinn andan á lofti enda var leikhúsgaldurinn brotinn í andartak og á sviðinu stóðu allt í einu leikarar, ekki persónur.

Þetta sæji ég í anda í Þjóðleikhúsinu!!! HAHAHA

Þetta er orðið að venju, allt of langt og því verður að bíða aðeins lengur með umfjöllun um shopping and fucking og Measure for Measure. En ég lofa að það verður innan skamms.

Áramótakv frá Helsinki.

Ykkar

Þorleifur

laugardagur, desember 17, 2005

Góða kvöldið

Þá er loks komið að því sem ég er búinn að vera að skjóta á fresti lengi lengi, að gera upp þær leiksýningar sem ég hef séð hér á undanförnum tveimur mánuðum.

Eins og gefur að skilja þá mun ég eyða mismunandi mörgum orðum í hverja þeirra, fer allt eftir því hversu mikið mér finnst viðkomandi sýning hafa fram að færa sem mögulega gæti vakið áhuga þess sem ekki sat með mér í leikhúsinu það kvöld.

Sýningarnar sem ég ætla að fjalla um eru:

1. Dagur í lífi Ivan Denisovich í leikstjórn Zholdeks(Úkraína)
2. Mánuður úti á landsbyggðinni í leikstjórn Zholdeks (Úkraína)
3. Rómeó og Júlía - fragments í leikstjórn Zholdeks (Úkraína)
4. Boðorðin 10 í leikstjórn Christof Marthaler (Sviss)
5. Endastöðin Ameríka (Sporvagnin girnd) í leikstjórn Frank Castorf (A. Þýskaland)
6. Shopping and Fucking í leikstjórn Thomas Ostermeier (W. Þýskaland)
7. Measure for Mesure í Leikstjórn Simon McBurnley (Bretland)

Dagur í lífi Ivan Denisovich í leikstjórn Zholdeks.

Áhorfendur eru leiddir inn í salinn baksviðs. Þeir eru leiddir fram hjá öskrandi hundum haldið aftur af hvítklæddum varðmönnum. Hundarnir kjamma og gelta og strengja keðjurnar sem halda þeim til hins ítrasta. Eftir þessa heldur óhuggulegu upplifun (sem ég verð að segja að ég naut töluvert) þá vissi maður ekki hvernig maður ætti að taka sviðinu sem við blasti. Þar sem maður sat á hörðum kolli til móts við rimlaslengar lengur meðfram sviðinu, þá var manni ekki ljóst hver væri fanginn, leikendur eða áhorfendur. Loks þegar allir voru sestir (og úkraínski diplomatinn var búinn að öskra á mig að færa mig þar sem konan hans þurfti að setjast) þá ruddust inn á sviðið u.þ.b. 20 karlkyns leikarar og fóru að henda litlum kössum inn á sviðið svo þeir skullu í rimlarana sem vörðu okkur sakleysingjana. Hent var á sviðið með órúlega áhrifamiklum hætti einum 300 kössum. lætin og brútalitetið sem þetta kallaði fram í hugum áhorfenda dró okkur svo sannarlega inn í heim gúlgasis sem þessi saga gerist í.

Í kjölfarið komu inn 20 kunur og tóku til við það að raða kössunum upp í vegg sem aðskildi þær frá mönnunum og voru þær reknar áfram af sama hvítklædda fólkinu sem áður hafði haldið aftur af hundunum.

Verkið var allt leikið í hópum, en einstaklingssögurnar spruttu upp úr massanum af og til til þess að gefa okkur innsýn í þann heim sem þetta fólk býr við. Leikstjórinn fer afar frjálslega með textan enda er tilgangur hans miklu heldur að færa ástandið sem ríkir í gúlaginu (já eða í fangelsum nútímans) á svið heldur en að segja okkur sögu eins manns.

Ofbeldi og skelfing eru líklega orðin sem best lýsa fyrri hluta verksins. Maður er hlekkjaður í rimlana fremst á sviðinu og reynir að hafa samskipti eins og api, konum er nauðgað og fangarnir eru pyntaðir af hvítstökkunum. Eins og minntist á þá skýtur upp af og til sögum einstaklinga, eða frekar andartökum í lífi þeirra, þegar þeir reyna að tengjast hvorum öðrum (eða hvoru öðru), menn sem reyna að gera eitthvað saman en eru ófærir um það í heimi haturs og tortryggni, kona og maður sem elskast en þegar á reynir þá er valinu milli þess að opna sig annarri manneskju og hætta þar með því að mannveran sem lokuð er inni og niðurlægð alla daga fái að brjótast út eða hins, að halda veggjunum uppi og svara tilfinnignum með ofbeldi. Og ofbeldið verður alltaf ofan á. Manneskjurnar eru sviptar því sem gerir þær mannlegar. (hefði vesturlandabúi sett þessa sýningu upp þá mætti líklega reikna með því að búningar fanganna hefðu verið appelsínugulir en ætli austantjaldsleikstjórinn hafi ekki nærtækari dæmi til þess að vinna með).

Í síðari hluta sýningarinnar er farið í gegnum sömu "sögu" en nú út frá draumum persónanna á sviðinu. Þarna kemur í ljós af hverju Zholdek er kallaður síðasti leikhús súrealistinn. Varla er mögulegt að fara í gegnum það hvað fyrir augu ber, hvernig getur sá sem ekki sat í leikhúsinu skilið drauminn sem þar var leikinn. Hvernig á maður að útskýra það að kona hafi sets í áhorfendasalinn með míkrófón og leikið öll hljóð eins og um teiknimynd hafi verið að ræða en á sama tíma þá hafi þetta gengið fullkomlega upp. Hvernig hlaðborð var sett upp og egg borin á borð. Hægt og rólega þá voru borin á sviðið egg (sem táknmynd frjóleikans geri ég ráð fyrir) sem fólkið við borðið tók að éta. Hægt og hægt færðist kapp í leikinn og að lokum þá þá lá fólkið á borðin uog tróð í sig sem mest það mátti. Það er ekki friður í draumum fyrir skelfingu mannlegrar niðurlægingar. En lokamyndinni get ég lýst, þar sem Ivan Denisovich (sem er í raun eini leikarinn sem maður tók eftir sem einstaklingi, og átti eftir að gera í öllum sýningunum Zholdeks, en ég held að það stafi frekar af því að þarna er á ferð stórkostlegur leikari. Slíka áru hef ég varla á sviði séð) lagðist á borð og hópurinn tók að bera inn steina. Hægt og rólega þá huldu þau lík hans. Ivan Denosivich lá dáinn og grafinn á sviðinu, bæði í raunveruleika sem draumi.

Hópsenurnar eru með því magnaðra sem ég hef á sviði séð, og auðvitað liggur þarna undir sérlega sterk ádeila á samfélagsbyggingarkerfið sem samfélagið í Úkraínu bjó við fyrir appelsínugulu byltinguna (en meira um hana síðar). Það er sérstakt og segir mikið um kraft leikhússins hversu mikið er í raun hægt að ná til manns, hversu sterkar myndir geta verið til þess að tala til okkar og hvernig skortur á eiginlegri sögu getur skipt litlu máli þegar hugsunin sem að baki stendur er nógu skýr.

2. Mánuður úti á landsbyggðinni eftir Tjúrganíev í leikstjórn Zholdeks.

Þetta var þriggja kvölda maraþon. Á öðru kvöldinu vissi ég ekki hverju ég ætti von á eftir ósköpin kvöldinu áður. En þ´vi miður verður að segjast að hér tókst Zholdek ekki jafn vel upp. Sýningin, sem var 4 tímar, var að mestu leiðinleg. Ástæðan liggur í því sem ég sagði hér á undan, skotur á sögu gerir ekkert til í leikhúsi þegar að baki liggur skýr hugsun. En þegar þennan skýrleika skortir þá verður leikhúsið fljótt leiðinlegt. Og svo var á þessu kvöldi.

Stílbragðið var allt annað. Ennþá var hópurinn til staðar en nú byggði Zholdek allt upp á myndum. Svart með tónlist, ljós upp, mynd stendur á sviði í allt að 40 sek og svo dofna ljósin aftur á meðan verið er að stilla upp næstu mynd. Svona gekk þetta meira og minna í 4 tíma. Reyndar komu inn á milli stuttar senur en þær gerðu lítið til þess að bæta í söguna eða útskýra það sem fram fór á sviðinu.

Vissulega verður að taka fram að þetta er mögnuð tilraun og það voru andartök inn á milli þar sem maður fór með inn í fantaíuna, þar sem maður skildi hvað var átt við þegar hann er kallaður síðasti súrealistinn en allt of oft beið maður bara eftir því að eitthvað óvænt gerðist eða kannski bara að eitthvað yfir höfuð gerðist.

Þjóðernistaugarnar spenntust af og til því Björk og Sigur Rós komu oft fyrir og í flest skipti þá vaknaði áhugi minn á því sem var að gerast á sviðinu en ég veit ekki hvort það tengist þeim hugarmyndum sem þessi tónlist kallar fram í huga minn eða hvort að þessi tónlist hafi líka innspererað Zholdek.

Og þá að þriðju og kannski merkilegustu sýningu Zholdeks.

3. Rómeó og Júlía - Fragments.

Best að taka það fram starx í upphafi að þessi sýning hafði um það bil ekkert að gera með Rómeó og Júlíu. Einnig verður að segja forsögu sýningarinnar áður en maður fjallaar um sýninguna sjálfa.

Forsagan er sú að Zholdek var leikhússtjóri Shevchenko-Theater in Charkiw í Úkraínu. Þegar spurðist út hvað hann var að gera með Rómeó og júlíu komu þangað valdhafans menn til þess að sjá hvað væri á ferðinni. EFtir að hafa kynnt sér málið þá var Zholdak gert það ljóst að ef þessi sýning yrði frumsýnd þá yrði hann ekki aðeins rekin heldur yrði séð til þess að hann gæti ekki starfað í Úkraínu.

Það sama kvöld pakkaði Zholdak niður í ferðatöskurnar og fór úr landi, og lýsti því yfir að hann myndi aldrei snúa aftur.

Volksbühne í Berlín tók hann upp á sína arma og þar frumsýndi hann Rómeó og Júlía - Fragments. Undirritaður var viðstaddur frumsýninuna og mun svo lengi sem hann lifir ekki sjá eftir því.

Sýningin hefst mikið til eins og Mánuður á landsbyggðinni, myndir sem birtast og hverfa. En allt í einu fara að birtast sjónvörp sem sýna myndir úr Appelsínugulu byltingunni (sem er brot á höfundarrétti því að núverandi forseti Úkraínu hefur látið einkaleyfisstofu úkraínu úthluta sér einkaleyfum á þeim appelsínugula "varningi" sem einkenndi byltinguna. Fjölskylda hans lifir nú í velllystingum og olli það mikilli reiði í Úkraínu nýverið þegar sonur hans sást keyra um á 160.000 evra BMW, en það er önnur saga). Hægt og rólega fara myndir af Bush að birtast og man fer að gruna að hér sé verið að fara illa með stórskáldið breska.

Inn marsera menn og þramma í einum taktföstum hóp um sviðið í 20 - 30 mínútur. Í kjölfarið koma konur og gera slíkt hið sama. Loks er rúllað inn tveimur klóstettum og við það brotna hóparnir upp og taka til við það að gera stykki sín. Óskapleg gleði ríkir og kúka allir og pissa af mesta móð. Þegar klósettin eru full er léttara yfir öllum og víkur þá sögunni til heimabæjar hans. Við blasir fyllirí og eymd. ungar stúlkur, í hálf kynferðislegum klæðnaði, ganga vergangi um sviðið. Loks flýja þær fyllibytturnar fram á sviðið og taka upp jónu. Þær fara að reykja, ljósin skipta um lit (út fara hvítir litir, inn koma í fyrsta skipti í sýningunni blár, rauður). Því meira sem þær reykja því meiri verður litadýrðin þangað til þær sjá eitthvað í fjarska. Vonin er yfirgnæfandi, þær sjá, þær sjá, þær sjá...Ameríku. Með dópinu sjá þær vonina vakna í Ameríku.

Inn koma allir sem áður höfðu marserað og gert stykki sín. Í för með þeim eru 2 forlát fiskabúr full af brúnni drullu. Maður sér ekki betur en þar sé kominn úrgangurinn sem sleppt var í kátínu í senunni á undan. Fólkið teygir sig ofan í byrjar að borða eigin saur í voninni og fegurðinni í henni Ameríkunni. Það maka sig öll upp úr drullunni og því meira sem þau borða og maka því hamingjusamari eru þau. Loks stilla þau sér, brún að lit, upp við vegg og mynda kristna freskjumynd, hlé!

Og hananú!!!

Eins og ég skildi þetta:

Sósíalisminn gerði alla að einum, frjáls einstaklingsvilji var ekki til umræðu. Allir marsera í hóp, einn tveir, einn tveir, einn tveir! En léttir er handan við hornið og þegar færi gefst losa allir um alla drulluna sem búið var að troða í það allan þennan tíma. Loks eru þau frjáls. En ömurlegur veruleikinn er ennþá til staðar, spilling og fyllirí. En vonin er handan við hornið, maður þarf bara að vera örlítið skakkur til þess að sjá það. Og loks er vonin komin, og allir fá að vera með. Og með gleði borðar fólkið aftur sömu djöfuls drulluna, en nú bara í nýjum búningi. Frjáls vilji kemur til baka en er tekinn á brott, og það besta er, maðurinn sjálfur tekur ekki eftir því!

Ég sat sem rotaður eftir þessa sýningu, þvílíkt og annað eins.

4. Boðorðin 10 í leikstjórn Christof Marthaler

sá sem ekki hefur séð sýningu eftir Marthaler er þeim mun fátækari. Leikhúsið hans eru engu öðru líkt og galdurinn sem hann nær að kalla fram dregur mann inn og maður flýtur með honum hvert svo sem hann er að fara í það og það skiptið.

Frægasta sýning hans (og líklega í Þýskalandi síðan Brecht var og hét) er Murx der Europear. Murx ihn, Murx ihn, Murx ihn. Ein nationalistisches Abend im Volksbühne. Fyrir þá sem geta ómögulega rifjað upp menntaskóla þýskuna þá þíðir þetta í afar lauslegri þýðingu. Evrópubúinn Murx. Murxum'ann, Murxu'ann, Murxum'ann. Þjóðerniskennt kvöld á fólkssviðinu.

sú sýning var hans úttekt á þjóðarandanum í kjölfar endursameiningu Þýskalands 1990. Þessi sýning, boðorðin 10 er tilraun til þess að gera slíkt hið sama aðeins tíu árum síðar. En svo virðist sem einhver hafi gleymt að segja Marthaler það, því hann ákvað að láta þetta gerast í kirkju. Jú, vissulega talar hann þarna (eða syngur öllu heldur) um hitt og þetta, frjálsan vilja, trú manna á eitthvað æðra, vonbrigðin þegar trúin bregst (væntanlega í víðtækari skilningi) og hversu illa fólki tekst svona almennt að vera saman. En þar sem sögusviðið er Napólí og öll tónlistin er ítölsk þá verð ég að segja eins og er að ég átti í oggulitlum örðuleikum með að sjá tenginuna við þýskaland samtímans, umfram það að á sviðinu stóðu mannverur og fjallað var um mannleg samskipti (sem í sumu norðurevrópuríkujum telst oft vera nógur grunnur í leiksýningu, mannleg samskipti, en svo er ekki hér í Þýskalandi. Hér verður maður að vita af hverju maður er að gera það sem maður er að gera og geta svo sýnt það á sviðinu).

Tónlistin var ferleg skemmtilega flutt eins og er hans von og vísa, frábærir leikarar inn á milli og mikið af frábærum hugmyndum. En það vantaði heildarmyndina, það vantaði andan sem ég hef yfirleitt alltaf fundið hjá Marthaler (það er þegar hann er ekki að reyna að setja upp leikverk, þá hefur maður alltaf á tilfinnigunni að hann vilji bara fá að gera sitt og þessi déskotans atriði og þessi texti sé bara fyrir honum.)

Fremstur í flokki leikaranna var einn besti leikari Þýskalands, Martin Wudke. Það er með ólíkindum hvað þessi maður er stórkostlegur. Hann er hrein nærvera, ögrandi, húmorískur, spennandi. Maður veit aldrei hvað kemur næst frá honum, maður veit varla hvernig maður á að lýsa honum, slík eru flinkheitin. Eftirminnilegasta atriði sýningarinnar var þegar hann dróst fram á sviðið (annar fóturinn dó hjá honum og því dró hann sig einhvernveginn fram á sviðskörina). Þegar hann er þangað kominn áttar hann sig á því að hann hefur gleymt hljóðfærinu og horfir örvæntingarfullur í kringum sig. Loks brýst fram umhyggjan hjá einhverjum mótleikaranum og færir honum sellóboga. Wudke stendur þarna með sellóbogann í hönd og er augljóslega í vandræðum. Það er þangað til hann glennir upp ginið og spilar á tennurnar á sér! Algerlega stórkostlegt!

En eins og ég sagið þá hef ég séð mun betra frá Marthaler og hlakka bara til þess að sjá næst.

Að lokum má geta þess að konan mín, Meri, hún lýsti því yfir eftir sýninguna að þetta væri besta sýning sem hún hafði séð og vildi helst fara strax aftur. Ætli ég sé að verða of kröfuharður???

Ég ætlaði að skrifa umfjöllun um allar 7 sýningarnar en eins og sést á þessum pistli hingað til þá á ég bæði erfitt með að hemja mig og svo er bara frá svo mörgu að segja.

Þess vegna ætla ég að skipta þessu upp í tvö holl og ég býst við að seinni skammturinn komi 22 des næstkomandi þegar ég er kominn í skjól hjá tengdó í finnska skóginum.

Enda býst ég við því að þú eigir að vera að vinna eða gera eitthvað ganglegt ;-)

Bið að heilsa og vonandi fer jólageðveikin ekki með ykkur. Muni að kapítalisminn þarf á ykkur og jólunum að halda.

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, desember 13, 2005

Góða kvöldið

Þagnir þagnir þagnir þagnir.

Alltaf þegar ég kemst á flug hérna þá er því fylgt eftir með langri og markvissri þögn. Þetta tengist því náttúrulega að konan mín kemur og þá er annað að gera á síðkvöldum, og svo er hitt að skólinn sem ég stunda hérna er ekkert grín. Ég get svarið það að ég er alltaf í skólanum.

Maður hélt að maður væri vaxinn upp úr þessu, að skólaganga sem tekur allan daginn væri að baki en think again, þessi er frá morgni til miðnættis.

En síðan ég skrifaði síðast er ég líklega búinn að sjá 2 bestu sýningar sem ég hef séð. Shopping and Fucking í uppfærslu Ostermeier og svo frægustu uppsetningu Kastorfs í Volksbühne, Endstation amerika.

Ég mun skrifa um bæði verkin sem og annað sem á daga mína hefur drifið innan skamms, þegar ég er kominn í rólegheitin í Finnlandi. Það er uppúr næsta mánudag eða svo.

Þangað til biðað ég að heilsa úr veðurblíðunni hér í Berlín.

Þorleifur

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Góða kvöldið

Það er rólegt á bloggnótum þessa dagana, enda er lífið þessa dagana afar fábrotið.

Skólinn er orðin rútína sem gengur all harkalega að manni (sem mætti halda fram að væri undirstaða rútínunnar, að gera mann ónæman fyrir lífinu). Ég er á sama tíma að læra nýtt tæknitungumál leikhússins hér og ég er að ströggla við að ná mun betri tökum á þýskunni.

Það er nefnilega langt í frá að ég sé tilbúinn í alvöru þýsku, frábrugðið frá því sem ég hélt þegar ég kom hingað. Ég hélt að ég væri fær í flestan sjó tungumálalega séð en þegar maður kemst á ákveðið stig í tungumálinu þá er eins og það opnist manni nýr heimur sem maður hafði ekki hugmynd um að væri þarna. Þetta er náttúrulega eins í hverju tungumáli en þessi málheimur er manni hulinn þar til ákveðinni kunnáttu er náð. Og þá hefst nýtt og spennandi ferðalag.

ég er með bókaða miða á 4 sýningar fram að jólum og býst við að sú 5 bætist við áður en langt um líður. Ég mun skrifa um þær sýningar þegar þar að kemur sem og skila af mér löngu lofuðum umfjöllunum um hinn úkraínska Zhaldek (sem hefur mér verið mjög hugleikinn síðan ég sá verkin hans), en tíminn er einhvernveginn alltaf hlaupinn frá manni þegar maður er loksins tilbúinn að setjast niður og skrifa eitthvað.

Þangað til bið ég vel að heilsa.

Þorleifur

laugardagur, nóvember 19, 2005

Góðan daginn

Lífið hefur tekið yfir undanfarnar vikur.

Skólinn er allt að 12 tímar á dag, Meri er komin, Jósi mágur heimsótti, Solla systir heimsótti og ég er þess á milli að undirbúa undir vinnu komandi sumars.

Þetta verður spennandi vetur. Skólinn er sérlega teóretískur, svona eins og við var að búast, en það þýðir ekki að mann klæji ekki í fingurna að koma að vinnu. Þetta er fullmikið tal og of lítið vinn.

Reyndar vissi ég að svo væri og er fyllilega sannfærður um að þessi grundvallarþekking í handverki muni koma manni vel.

Hlakka bara til að komast af stað með það.

En skólinn er búinn að samþykkja að verkefnið sem eg muni vinna í sumar verði hluti af skólagöngunni þannig það ætti að vera spennandi, jafnvel maður taki sýninguna hingað út. En það er seinni tíma mál.

Sit í Hamborg á skólamóti leikstjórnarskóla, veturinn er kominn og lífið gengur sinn óvanalega vanagang.

Góðar stundir.

Þorleifur

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Góða kvöldið

Ég afsaka þögnina en nú er veruleikinn hér hægt og rólega að taka yfir.

Skólinn verður meira og meira krefjandi og maður getur ekki setið á kaffihúsum allan daginn að skrifa á bloggsíður.

En ekki það, hér er algerlega frábært að vera. Skólinn er búinn að samþykkja að verkið sem ég er að fara að gera næsta sumar verði hluti af náminu mínu. Það þýðir að annaðhvort verð ég að fara með verkið til Þýskalands eða þá að kennari frá skólanum flýgur heim til Íslands og skoðar það þar.

Vissulega vildi ég heldur fljúga með verkið út en fyrst þarf að kynna sér veruleikann áður en hægt er að plana svoleiðis hluti.

Einnig er ég að vinna að lítilli uppsetningu sem ég ætla að vinna að meðfram skólanum næstu mánuði. Hugmyndin er að setja verkin upp annarsvegar um jól og svo saman í vor. Það ætti að vera spennandi, en ennþá á eftir að koma í ljós hvernig þetta verður.

En það lítur út fyrir að mér sé að ganga vel þarna í skólanum og fólk sækist eftir því að vinna með mér (sem hlýtur að teljast jákvætt).

Ég hef ekkert farið í leikhús á undanförnum tveimur vikum enda búið að vera meira en nóg að gera við það að vera í skólanum en ég ætla mér að reyna að koma leikhúsbombsunum aftur á innan skamms. REyndar er ég búinn að sjá flest allt sem hér getur talist spennandi en það er alltaf nóg af nýju stöffi. Næst er pólitísk leikhúshátíð sem ætti að verða spennandi.

Ég veit að ég skulda ennþá dóma um úkraínuleikstjórann og mun það koma þegar fram líða stundir. Kannski þegar ég sé næsta verk eftir hann...

Bestu kv.

Þorleifur

mánudagur, október 31, 2005

Góða kvöldið

Ég veit að ég var búinn að lofa því að skrifa leikdóm um verk úkraínska snillingsins Zhadeks um helgina en ég gat og get því miður ekki orðið við því vegna þess að Sólveig systir mín kom í heimsókn án fyrirboða.

Það hefur verið alveg stórkostlegt að hafa hana hérna hjá mér og ræða um fortíð, nútíð og framtíð.

Undirbúningur undir næsta verk lifandi Leikhúss er komið á fullan skrið og nú þegar er það ljóst að Orri Huginn, jói og Gói verða með. Eitthvað er ennþá óljóst um hverjar munu sinna kvennhliðum veruleikans í þessu verki en ýmislegt spennandi er þar á döfunni. Einnig er ekki loku skotið fyrir það á þessari stundu að verkið verði gert í einhverskonar samstarfi hér í Berlín en ég mun skíra frá slíku þegar það liggur fyrir.

En það liggur mikill undirbúningur framundan sem ég hlakka til að sinna meðfram námi.

Annars er ég ferlega glaður í náminu fyrir utan það að ég hata að vakna snemma á morgnana sem virðist fara hönd í hönd við það að binda sig skólavist. En ég býst við því að stundum verði maður að fórna þægindum sínum og venjum fyrir það sem maður vill gera.

Fátt hefst án pínkulítilla fórna!

Ég bið að heilsa í bili.

Þorleifur

miðvikudagur, október 26, 2005

Góða kvöldið

Þá er netið komið heim. Og það eftir langa og erfiða baráttu við hina margrómuðu þýsku búrókratíu.

En það er komið og ég get nú skrifað heima og þarf í raun aldrei aftur að fara út fyrir hússins dyr að nýju.

En ég hef verið slatta í leikhúsi og sérstaklega langar mig að tala um 3 sýningar eftir Úkraínska leikstjórann Zhaldek. Honum var gert að víkja frá sem leikhússtjóri í Úkraínu fyrir að neita að draga verk sitt Rómeo og Júlía Fragments til baka. En það var einmitt 3 og síðasta sýningin sem ég sá frá hans hendi.

Fyrst aðeins almennt um kappann. Hann vinnur mikið með hópinn. Það er lítið um að einstaklingar skeri sig út úr, til dæmis þá held ég að á einum tíma eða öðrum þá hafi allir karleikararnir 25 farið í rullu Rómeós. Eða ég held að það hafi verið rulla Rómeós, því hann var ekkert of upptekinn af því að segja söguna af Rómeó og Júlíu. Hann var meira í því að láta fólk éta skít og reykja dóp en meira um það seinna.

Ég mun skrifa ítarlega um verkin 3 á morgun því að í fyrramálið þá á ég að skila af mér ritgerð um Mávinn eftir Tjekov í fyrramálið...á þýsku.

Ég bið fyrir kveðju til Flateyrar. Hugur okkar allra leitar til þeirra á þessum erfiða degi.

Bið að heilsa

Þorleifur

fimmtudagur, október 20, 2005

Hallo

Tetta verdur stutt enda nenni eg ekki ad skrifa mikid a tesa leidinda internetkaffihusatölvu.

Eg mun um helgina byrta leikdom um 2 syningar eftir Ukrainska leikstjorann Shadak. Tetta er vaegast sagt storkostlegur listamadur, en tar sem 3 og sidasta syning hans, Romeo og Julia - Fragmenst verdur frumflutt a Sunnudaginn ta gaeti verid ad eg bidi md tad ad koma med leikdom tangad til ta.

Annars er allt yndislegt. Eg er reyndar einn i bili, Meri er i Finnlandi ad safna orku undir atök vetrarins (og for tvi heim i finnska kuldan ur Berlinarsolinni!) en ekki tad ,eg hef nog ad gera.

Heimavinnan safnast saman og her er ekki verid ad slaka a.

En eg se tad ad timinn i tessum skola verdur mer ti´l mikils framdrattar tegar fra idur.

Bestu kv.

Thorleifur

sunnudagur, október 16, 2005

Góðan daginn (svona til tilbreytingar)

Ég fór að venju í leikhúsið í gær þar sem ég sá einleik eftir bekkjarsystur mína Kathleen.

Verkið fjallaði um strák sem lifir lygalífi, býr í litlu herbergi og þorir ekki út. Ekki eru í raun gefnar upp forsendur þessa og framvindan er í raun frá einsemd til geðveiki.

Margt var ágætlega gert, leikurinn fínn og góðar hugmyndir inn á milli en engu að síur þá var þetta tilturulega statískt, dramatísk framvinda ekki nógu góð eða mikil og tónlistarnotkun oft alveg út úr kú. svona týpísk, nú eiga áhorfendur að finna fyrir samúð.

Til gamans má geta að hún notaði stefið úr hinni frábæru mynd Win Kong Wai (eða hvernig sem maður skrifar það) In the mood for Love. Þetta er sama stef og ég notaði á sínum tíma í uppsetningu minni á Kitchen eftir Vanessu Badham í ástralíu á sínum tíma!

Annars ætla ég nú að henda hér inn grein sem ég skrifaði um kveðjuræðu Davíðs Oddsonar sem birtist í morgun á pólitík.is

Kveðjuskál Herra Oddsonar

Það var ekki hægt að láta ræðu fráfarandi formanns Sjálfstæðisflokksins framhjá sér fara, svo fyrirferðamikil var hún. Þó svo að undirritaður sé staddur erlendis þá endurómaði fýlan sem af henni gaus alla leið hingað til Berlínar.

Ekki það, Herra Oddson hefur líklega fremur en flestir aðrir unnið sér það inn að meiga rífa kjaft á pólitískum dánardegi sínum. Hann hefur líka verið duglegur við það alla tíð síðan í Útvarpi Matthildi. Og inn á milli komu þær stundir að manni fannst hann eiga rétt á því að vera stóryrtur- og mynntur.

Sérstaklega minnist ég stórra yfirlýsinga hans þegar aðstoðarforsætisráðherra Taíwan kom hingað í heimsókn um árið. Herra Oddson básónaði það þá út um allan bæ að hann ?Léti ekki stórveldi úti í heimi segja sér fyrir verkum?. Þennan dag dáðist ég að Herra Oddsyni, enda honum hjartanlega sammála. Reyndar læddist að mér sá grunur að þetta væri einvörðungu illa dulbúin sjálfsauglýsing (sem í dag myndi teljast trademark) en ég ákvað að taka hann á orðinu.

Því má með sanni segja að mér hafi heldur betur brugðið í brún þegar tilkynnt var um það, eftir diplómatareisu til Kína stuttu eftir yfirlýsingu Herra Oddsonar (var kannski verið að biðjast afsökunnar?), að á leiðinni hingað væri forseti Kína, Slátrarinn frá Torgi hins Himneska Friðar, Jan Zieming. Og enn þyngra lagðist mér á hjarta að hundruðir manna skyldu vera fangelsaðir fyrir það eitt að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Mér blöskraði svo að menn skyldu sitja undir því að slátrarinn skyldi við himneskt undirspil Atla Heimis Sveinssonar syngja My Way í kringlunni við lófaklapp forkólfa þjóðarinnar. ?Hans Way? var nefnilega að slátra fólki sem barðist fyrir mannréttindum heima fyrir. Ekki heyrði ég múkk frá Herra Oddsyni meðan á heimsókninni stóð, en kannski var hann svo upptekin á þeirri stundu að láta ?stórveldi út í heimi segja sér fyrir verkum?!

Og dæmin gæti ég tekið endalaus. Vinir og frændur í hæstarétt, níðingskapur og stríð við öryrkja, fordóma og dónaskap við þá sem í sárri neyð stóðu í velmegunarsamfélaginu við hlið Mæðrastyrksnefndar, lokun á opinberum stofnunum sem ekki hlýddu fyrirmælum (eða ef ekki var um opinberar stofnanir að ræða þá er niðurskurður líka sterkur leikur), og loks persónulegt og opinbert hatur á formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

(Maður hefur nú stundum á tilfinningunni að Herra Oddson hefði ekkert á móti því ef kínverska leyniþjónustan hefði tekið hana með heim til að spyrja saklausra spurninga um bull eins og lýðræði, feminisma og aðgreiningu valds og viðskipta.)

En látum það liggja milli hluta í bili. Snúum okkar aftur að kveðjuskálinn sem hann flutti yfir sjálfum sér í erfidrykkjunni.

Herra Oddson eyddi stórum hluta ræðunnar í það að svífyrða Samfylkinguna og þá sérstaklega formann hennar, áðurnefnda Ingibjörgu. Það er svo sem ekkert skrýtið að formaður stjórnmálaflokks sé ekki sammála formanni annars, til þess er nú einu sinni flokkaræðið en fyrr má nú rota en dauðrota.

Sérstaklega í ljósi þess að formaðurinn, Herra Oddson, hefur nú um langa tíð ríkt yfir þeim stjórnmálaflokki sem hvað mest hefur varið og stutt íslensk stórfyrirtæki í gegnum tíðina.

Ekki þarf að leita langt aftur til þess að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hélt (með dyggum stuðningi Framsóknar) hlífðarskildi yfir Olíufélögunum með þau hjón Kristinn og Sólveigu fremst í flokki. Hafi maður aðeins meira rými í minninu þá er ekki frá því að heitið Kolkrabbinn komi upp í hugann. Ég man nú ekki betur en þar hafi ?innmúraðir? eða jafnvel ?frímúraðir? Sjálfstæðismenn setið við alla katla. Og allt með dyggum stuðningi hins vel múraða Morgunblaðs. Að ónefndum hulduriddara flokksins, Kjartani nokkrum Gunnarssyni, sem fast heldur um taumana á leynifundum og smyslar yfir allar sprungur sem í fylkingunni birtast.

Að ógleymdi máli málanna, Baugsmálinu. Herra Oddson virðist ekki geta komist yfir það að honum hafi mistekist að knésetja pörupiltana sem neituðu að spila eftir kóngsins reglum. Það sem Herra Oddson sér ef til vill ekki er að það var hans eigin hefndarþorsti sem knésetti fjölmiðlamálið, ekki ósamræmi milli vilja hans og þjóðarinnar. Ég þori meiraðsegja að fullyrða að meirihluti þjóðarinnar vildi þá og vill enn að lög séu sett á eignarhald í fjölmiðlum. En frumvarpið má þá ekki vera sérsniðið að hagsmunum Sjálfstæðisflokksins. Einnig myndi ég ráðleggja mönnum frá því að rökstyðja málið með því að veifa ákveðnum blöðum í ræðustól Alþingis, það vill oft vera fráhrindandi og minna heldur á einræði en lýðræði, á ritskoðun en eðlilegar leikreglur í frjálsu landi.

Þverpólitísk nefnd hefur sett saman skýrslu þar sem málefnalegur grundvöllur náðist um hvers konar lög þurfi að setja við eignarhaldi á fjölmiðlum. Það var gert í stað þess að kosið væri um málið eins og stjórnarskráin segir til um. Herra Oddsyni var það fyrirgefið, það skildu allir að engin vill yfirgefa stjórnmálin með tapaða þjóðaratkvæðagreiðslu á bakinu eftir langt og gifturíkt starf. En engin ástæða er fyrir því að vera eitthvað að heiftúðast út í það núna, svona sem kveðjuskilaboð til eftirmannsins. Það borgar sig nefnilega ekki að skipa mönnum fyrir úr gröfinni.

Já Herra Oddson, illa fer það mönnum að kasta steinum úr glerhúsum.

Það er stundum sagt að ekki eigi að leyfa mönnum að skíta út sína eigin arflegð, sjaldan hefur það átt betur við en akkúrat núna.

Bið að heilsa í bili

Thorleifur

fimmtudagur, október 13, 2005

Góða kvöldið

Þá held ég áfram með leikhúsgagnrýni héðan frá höfuðvígi leiklistarinnar í Berlín

Sumsé, á dagskránni í dag eru uppsetningar á 3 verkum.

Fyrst en alls ekki fremst er uppsetning á hinu fræga verki Göthes, Faust. Þetta er seinni hluti verksins sem sjaldan hefur verið settur upp vegna gífurlegs flókleika og óspilanleika.

Sýninguna var að finna í Þjóðleikhúsi Þýskalands, Deutsches Theater í uppsetningu Michaels Thalheimer (sem frægastur er fyrir það á Íslandi að eiga höfundaréttinn á uppsetningu Stefáns Baldurssonar á Veislunni. Ég hitti reyndar Thalheimer sem spurði mig spjörunum úr um uppsetninguna og var mjög hneykslaður á því að ekki hafi verið haft samband við hann ef kópíu af sviðsmyndinni, videónotkuninni og rýmisnotkuninni átti að fara á svið í Þjóðleikhúsi Íslendinga. Þetta er náttúrulega skömm sem ekki svo glatt gleymist í hinum mjög svo litla leikhúsheimi hér. Það hafa fleiri minnst á þetta við mig hér!) En allaveganna...

Thalheimer vinnur með það sem hann vill kalla minimalisma. Oftar en ekki eru samtöl hröð og tilfinningalaust, sviðsmynd einföld (yfirleitt hvít) og props ekki að finna. Það hefur hentað mörgum af þeim verkum sem hann hefur sett upp, sérstaklega var ég hrifinn af uppsetningu hans á 3 systrum og Emeliu Galotti. En minimalismi á sér grensu og yfir þá grensu hefur Thalheimer nú stigið. Þessi uppsetning verður að teljast til leiðinlegustu uppsetninga sem ég hef á ævi minni séð (og eru þær nokkrar). Faust stóð inn í svörtum kassa sem var umþaðbil 2x2x2 alveg fram á síðustu stundu. Leikararnir löbbuðu svo inn í slow mo, stilltu sér upp, horfðu fram og fóru með textann sinn. Þetta var eins og upplestur án þess að hafa vald á pásutakkanum! REyndar eru margir hér úti stórhrifnir af þessu (og segja að engin annar hefði getað sett þetta upp, enda hefur það ekki farið upp í DT síðan 1912 í uppsetningu Max Reinhart) og segja að lestur hans á vevrkinu hafi verið stórkostlegur. Þetta get ég illa lagt dóm á þar sem ég sklidi afar lítið á bundna háþýskumálinu en ég hef illan grun um að þarna sé hámenningarsnobb af verstu gerð að finna. Sumsé, ÖMURLEGT!

Í gær sá ég svo uppsetningu á Fedru eftir RAcine í nýrri útsetningu Ungversks leikskálds (sem ég man ekki hvað heitir). Leikstjórinn, Artud Schilling hefur vakið töluverða athygli hér undanfarin ár og sýnist mér á öllu að hann eigi það fyllilega skylið. Sviðið var að mestu tóm ef undan eru skilin 3 blómabeð, sófi og lík á borði. Blómabeðunum var brátt komið fyrir kattarnef í einhverri skemmtilegasta nauðgunarsena sem ég hef séð. Blómapottunum var nauðgað og á horfði kvennakórinn (um það snérist myndlíkingin). En það var eitthvert alvöruleysi í sýningunni. Fedra var full af harmi allan tíman en Hippolítus vafraði um í gulu nærbuxum og í allt öðrum leikstíl. Og í raun var hver og einn karakter útfærður með sinn eigin leikstíl. Þetta er afar áhugaverð tilraun en þá getur það gerst, eins og var í þetta skipti, að fókus sýninginarinnar verður óskýr og frekar áhugaverur að horfa á en að upplifa. Pínkulítið svona leikhús fyrir leikhúsfólk. Mikið af góðum hugmyndum og spennandi vinna að mörgu leyti og ég vil gjarnan sjá meira frá þessum leikstjóra. Sérstaklega þótti mér skemmtilegt að þau skildu stöðugt vera að keyra um "líkið" af rotnandi Thesusi og þannig varð ástríðan og ástríðuleysið sem hrjáir þau einhvernveginn áþreyfanlegt, minna spennadi var þegar Thessus vaknar og syndur í aríustíl alla sínu rullu. Einnig er ég á því að útsetningin sé ekki nógu góð. Sérstaklega ekki ef hugsað er út í útgáfu Söru Kane, en það er kannski ekki sanngjarnt að bera verkin saman.
Þetta afskiptaleysi sem ég varð vitni að á sviðinu í gær er svolítið gegnumgangandi þema hér og þarf sérstaklega góða meðhöndlun og þá einkunn rétt verk til þess að ganga upp. Því miður tókst það ekki alveg í þetta skipti.

Í kvöld sá ég svo Tartuffe í DT. Ég var ekki par hrifinn. Reyndar finnst mér verkið alveg ferlega leiðinlegt og sé ekki alveg tilganginn í því að setja það á svið í sini upprunalegu mynd. Sérstaklega fer í taugarnar á mér Duex ex machina-n sem lokar verkinu. Ég skil vel að Moliere hafi þurft að enda verkið á lofdýrð til kóngsins (þegar furstinn er búinn að láta gabba sig út í að gefa ofsatrúarsvikaranum Tartuffe allt sem hann á kemur sendimaður konungs og handtekur Tartuffe því að hann sér, í óendanlegri visku sinni, að hann er lygari og svikari), sérstaklega þar sem hann var búinn að troða inn í verkið landráðamanni sem virðist framan af hafa svoldið til síns máls. En í dag hljómar þetta eins og lofgjörð til valdsins sem hefur allt aðra merksingi í dag. Leikstjórinn, Robert Schuster, er aðalkennarinn minn sem hefur getið sér gott orð fyrir sérstaklega djarfar sýningar. Því var það sorglegt að upplifa svona ódjartf verk frá hans hendi. SViðið var hvítur kross þar sem allt var leikið á án leikmuna (ég veit, þetta er að verða þreytt). Persónurnar voru í kómískum útgáfum af barokkklæðnaði og stílfærðar mjög. Allar nema Tartuffe sem var sá eini sem ekki var í háhæluðum skóm og var sérlega náttúrulískur í öllum leik. En eins og oft er þegar stílfærðar persónur eiga í hlut þá lifðu þær ekki lengi og áður en varði þá var manni farið að leiðast, vildi fá að sjá hvað lá að baki eða allaveganna einhverja persónuþróun (sem virðist vera bannorð hér í Berlín). En allt kom fyrir ekki, þetta var fallega fluttur texti með einstaka uppbroti þar sem leikhúsið fékk að njóta sín en hefðu þurft að vera bæði fleiri og sterkari og þá sérstaklega kómískari til þess að halda manni við efnið út í gegnum sýninguna. Það koma í huga mér tvær mögulegar útfærslur á hugsun leikstjórans. Fyrst að hann hafi viljað gera traditional útgáfu og hafi svo verið tókst vel upp. Hin er að hann hafi viljað kommenta á verkið sjálft og persónurnar innan uppsetningastílsins og hafi það verið ætlunarverkið þá mistóks það þar sem skýrleikinn til slíks leik var ekki að finna (flatbotna skór Tartuffe duga ekki til).

En þetta er að verða ansi langt. ég er að fara í leikhús á morgun (Vojchek), Laugardaginn (einleikur eftir skólasystir mína), Sunnudaginn (Prater Saga 3), mánudaginn (Gestasýning frá Úkraníu), Miðvikudaginn (sami gestahópur með verk eftir Tjúganíev) og loks á Laugardaginn á Rómeó og júlíu frá sama leikhóp. Þannig það er nóg að sjá og ég reporta á það þegar þar að kemur.

Annars er ennþá 20 stiga hiti hérna á daginn, skólinn lítur æ betur út og þetta er allt saman alveg ferlega gott og skemmtilegt!

Bestu kv.

Þorleifur

miðvikudagur, október 12, 2005

Góða kvöldið

ÉG var að koma úr leikhúsinu af sýningu Ungverska leikhópsins Kreatör á verkinu Fedru í nýrri gerð ungs Ungversks leikskálds.

En ég lofaði að tala um það sem ég hef rekið inn hausinn hingað til.

Fyrst:

Ég sá sýningu í Volksbuehne. Sýningin var sögulegt verk frá Brasilíu, um uppreisnina í kjölfar þess að nýlendustefnan leið undir lok. ég get ekki sagt að ég hafi skilið mikið, þar sem sýningin var á portúgölsku (með þýskum undirtitlum) en það get ég sagt að þegar búið var að draga mig upp á svið þar sem ég dansaði og dó loks var ég á því að þetta væri með því skemmtilegra sem ég hafði séð (eða réttara sagt tekið þátt í). Búið var að rífa öll sætin út úr leikhúsinu og byggja ramp sem náði frá leiksviðsbaki upp undir rjáfur. Pallar röðuðu sér eftir veggjunum og áhorfendur sátu á hörðum trébekkjum (í alla 6 tímana!).
En aftur að mér dauðum á sviðinu. Ég leit út undan mér og sá þar sem maður stóð upp á palli, haldandi á skammbyssu og að rúnka sér. Hann skauta svo úr byssunni á því mómenti sem hann brundaði yfir pallbrúnina og yfir þann sem fyrir skotinu varð.
Og þetta var bara byrjunin. Mér fór hægt og hægt að hætta að lítast á blikuna. Við fylgdumst með innrás hersins í lítið þorp. Þegar þorpið náði að hrekja honum þá kom næsti og svo næsti og svo næsti og svo næsti. Og alltaf var það sama sem hrakti hernum frá, naktar konur. ég var ekki viss um að ég væri í leikhúsi lengur þegar hermennirnar (í 4 skipti) skriðu yfir sviðið og inn í klofið á konum sem lágu á gólfinu og sleiktu. Allir nema einn, hann var með myndavél sem hann tók með sér og voru sköp konunnar allt í einu heljarstór á skjánum og svo fór hann að sleikja. Í lokin voru allir naktir, lítill drengur var skotinn og leikstjórinn hélt langa ræðu og lét klappa lengi lengi fyrir sér.
Ef þið eigið í erfiðleikum með að skilja þetta þá vitið þið hvernig mér leið á sýningunni!

Önnur:

Glæður og Refsing eftir meistara Kastorf. Kastorf er einn sætrsti leikstjóri Þýskalands og hefur verið leikhússtjóri í Volksbuehne í meira en 13 ár. Í þetta skipti réðast hann á Dostójevskí ( í fjórða sinn). Sýningin var 5 tímar og hafði þá verið stytt um einn og hálfan tíma. Í raun þarf ég að skrifa alveg sér pistil um vinnaðferðir þesa manns sem vægast sagt eru stórmerkilegar en í þetta skipti verður smá umfjöllun um verkið að duga.

Frá upphafi er Rosja alveg snar ruglaður. Hann er vafrandi um sviðið ælandi og öskrandi. Hendir hlutum og ég veit ekki hvað. Á þessum tímapunkti var ég að velta því fyrir mér hvernig ætti seinna að sýna kvalir hans og pínu, maðurinn væri greinilega geðsjúkur og því væri morðið sem framundan var sér skýringar í sinnissýki, ekki heimspekilegum pælingum og stórmennskubrjálæði, uppgjöri vð sál og Guð eins og í bókinni. En einvhernveginn tókst Kastorf ( sem er ekkert allt of mikið að velta Aristótelesi fyrir sér þegar kemur að uppbyggingu) að lægja öldurnar innra með honum þannig að þegar hann fermur morðið þá taka við miklar vangaveltur og áferð verksins breytist öll.
Kastorf vinnur ætíð mikið með videó, fólk fer inn og út úr húsum og þegar það er inni þá er það tekið upp og sýnt í beinni á stórum skermum. Í þetta skipti var leikmyndin 3 hæða hús og áfastur gámur. Vinkona mín frá Ungverjalandi sagði mér að hún þekkti þetta hús, svona væru gömlu kommahúsin heima. Rosja var ætíð á sviðinu (eða á videó) og þegar paranojan var að taka yfirhöndina þá braust hann inn í gáminn og stóð upptökustjórana að verki. Snilldarlegt move. Allt í einu var formið orðið að geranda í verkinu. Hann lét svo drepa þá til þess að losna við njósnarana.
Kastorf er ekki annt um upprunalega texta og hvað þá síður að það skiljist sem leikararnir eru að segja. En það skipti einhvernveginn ekki máli, maður skildi á einhverju plani alltaf það sem fram fór og þær tilfinningar sem glímt var við.
Reyndar fór manni að leiðast þegar videóið fór að taka yfirhöndina, í síðari hlutanum þá held ég að 80% af tímanum ( sem var rúmir 2 tímar) þá hafi videó verið í gangi en sviðið tómt. Og þegar leikararnir er ekki á svæðinu þá dettur út einhver tenging sem er nauðsynleg. En þá getur maður bara lagt sig eða farið á barinn.
Einnig þá datt verkið alltaf niður af og til þegar leikararnir tóku sig til, drógu fram stóla, settust óupplýstir á sviðskörina og duttu niður í langar samræður um tilgang lífsins og tilvistarkreppu persónanna.

En engu aðsíður þá var þetta frábær leikhúsupplifun. Maðurinn er meistari, á því er engin vafi, það þarf bara að læra að meta hann og njóta þess að fljóta með þegar hann fer í gang.

Það er verið að henda mér út og batteríið er búið svo ég verð að biðja að heilsa í bili.

Klára von bráðar.

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, október 11, 2005

Góða kvöldið

Aldrei hættir maður að læra.

Talvan mín ákvað fyrir skemmstu að slökkva á sér og kvað upp um það að talvan hefði látið lífið.

Ég fékk náttúrulega kast og hringdi heim.

Elskulegheitin sem mér voru sýnd hjá EJS voru til fyrirmyndar. Ég fékk sendan nýjan skjá um hæl með fyrirmælum um að setja hann bara sjálfur í lappann minn.

nú, það hélt ég nú.

Beið svo og beið og loks kom skjárinn. Þorleifur settist þá niður, skrúfaði allt apparatið í sundur og kom nýjum skjá fyrir. Talvan mín er komin í lag og það var ÉG SEM GERÐI ÞAÐ!!!

Í öðrum fréttum (og ekki sov mikilvægum) þá er Merkel orðinn kanslari þýskalands. Frábært, þá getur frjálshyggjan farið að taka sér bólfestu. Reyndar í samstarfi við Sósíal Demókrata þannig að ekki er öll von úti enn en það verður spennandi að fylgjast með því hvernig fer hér.

Á morgun ætla ég að birta leikdóma um tvær sýningar sem ég hef séð hér nýlega, Faust II eftir Thalheimer og Glæp og Refsingu hjá Kastorf í Volskbuehne.

Þangað til bið ég að heilsa

Þorleifur

laugardagur, október 08, 2005

Godan daginn

Seint verd eg nu talinn rolegur madur. Ekki tad ad eg se einhver hrotti en eg a tad ti lad vera fastur fyrir.

Og ekkert fer eins o taugarnar a mer og burokratia! Og af henni er nog ad finna i Tyskalandi.

Stutt daemisaga:

Eg var stodvadur i lestinni tar sem eg hafdi gleymt studentapassanum minum. Eg var latinn hafa sekt sem fengist aftuköllud maetti eg med sektarmidann a tiltekna adressu fyrir tiltekinn tima. Nu, hlydinn eins og hundi ber, maetti afbrotamadurinn a stefnumotid stadradinn i tvi ad gera tegnlega skyldu sina og syna reglum stjornvalda virdingu. En stjornin fannst hid taeplega klukkutimaferdalag sem krafist var af manni naegileg refsing og tessu komast eg ad tegar eg dro numerid 518! Leit svo a skjainn og sa ad uppi var numer 380. Ekki var um ad raeda stola fyrir tessi 150 - 200 manns sem voru ad bida eftir a fa ad greida tannig standa skyldi madur - og BROSA.

Vid taekifaeri sem tessi kemur upp i mer svo megn puki ad fatt raedur vid hann. Eg fyllist rettlatri reidi fyrir hönd borgara landsins og sver ad eg muni gera mitt i tvi ad fella veldid. I tetta skipti ta beindist reidi min ad örygisverdi nokkrum sem stod tarna i grenndinni og passadi ad engin vaeri med einhver uppsteit. Eg spurdi hann afar rolega hvad tetta aetti eiginlega ad tyda, hvort ad honum fyndist i lagi ad folk skildi turfa ad bida. Eg tek tad skyrt fram ad eg gerdi mer fyllilega grein fyrir tvi adhann getur ekkert af tessu gert, en hann gaeti synt sma samud. Vördurinn leit a mig maeddum augum sem skerptust vid tad ad koma auga a fornarlambid og skaut svo ut ur ser "Teir sem brjota reglurnar eiga svona hluti skilda". Eg turfti ad halda aftur af mer ad kyla ekki manninn. Hann sa ad sigur var i höfn, ad einn enn hafi verid borinn ofurlidi af kerfinu osigrandi og varvid tad ad snua ser fra tegar litla fornarlambid let ut ur ser "Tad sögdu nasistarnir lika" og svo labbadi fornarlambid i burtu. Eg gat nu samt ekki stillt mig um ad kikja a kall og sja hvernig hann rodnadi allur og tutnadi. Eg aetti a vera med samviskubit en eg get ekki annad en verid pinku anaegdur med mig, burokrasia 130 - Thorleifur 1

Meira seinna

Thorleifur

fimmtudagur, september 29, 2005

Smá þögn en nú skal talað að nýju.

Maður veit eiginlega ekki hvað maður á að halda í sambandi við Baugsmálið.

Þetta er ein alsherjar vitleysa frá upphafi til enda.

Það er ljóst að menn í Sjálfstæðisflokknum hafa verið með puttana á málinu, og er það skiljanlegt þegar maður hugsar til þess að Davíð er haldinn landsföðurskomplex. Hann sér eitthvað sem hann telur vera þjóðinni hættulegt og bregst við. Ekki má svo gleyma því að í huga hans þá er hann upphafsmaður hins frjálsa markaðar á Íslandi (vill oft gleymast að Sjálfstæðisflokkurinn var á móti EES sem innleiddi að mestu þetta frelsi, einnig vill það gleymast að ISG var með því) og hann þyrfti að laga til eftir sig í kjölfarið.

En svo er það hlið Baugs og Fréttablaðsins. Það er augljóst að Fréttablaðið er að draga taum eiganda sinna. Og það er hættulegt. Mér er alveg sama hvað hver segir, það á ekki að birta einkapósta manna í millum nema það varði almannahagsmuni. Að Jónína Ben hafi verið fúl út í Jóhannes og hjálpað Jóni Gerald eru ekki almannahagsmunir. Ef þarna hefði verið um að ræða e-mail frá DAvíð til Ríkislögreglustjóra þá værum við með aðra stöðu uppi en það er langt í frá að svo sé.

Og slæmt þykir mér að margir mætir vinstri menn (mér leiðist reyndar þetta orðatiltæki) séu í því að réttlæta gerðir helsta auðvalds landsins. Baugur er hættulega stór á Íslenskum markaði. Það þýðir ekki að það sé í lagi að kæra þá og draga í svaðið, það er eitthvað sem á að taka á með lögum (eins og gert ver í Bandaríkjunum með Microsoft þegar upp komst um samkeppnishamlandi aðgerðir þess fyrirtækis).

Svo getur það vel verið að eitthvað sé til í þessum ákærum og þá rúlla þær bara sinn veg innan réttarkerfisins. En verði þeim vísað frá þá er það áfellisdómur yfir Ríkisskattstjóra sem myndi í öllum lýðræðisríkjum þurfa að víkja (engin hætta á því hérlendis). Það að geta ekki skýrt ákærur sakamáli er stóralvarlegt mál, bæði gagnvart embættinu sem og almenningi sem missir tiltrú á embættinu og hlýtur að búast við því að komist það í kast við lögin þá verði vinnubrögðin eftir því.

Umfram allt þá er þetta sorglegt mál sem ég vona að líði hjá sem fyrst.

Einnig var það sorglegt að umboðsmaður alþingis skyldi ekki sjá ástæðu til þess að rannsaka þátt Halldórs í KBbankamálinu. Mér er sama undir hvaða aðstæðum það er, það er EKKI í lagi að selja sjálfum sér ríkisbanka. Þó svo hann hefði tapað á viðskiptunum. Þetta er ekki spurning um mögulegan hagnað heldur hitt að hann sat beggja megin borðsins. Og ég vona að þessu gleymi þjóðin ekki í komandi kosningum.

Af mér sjálfum er það að frétta að skólinn er að taka á sig mynd. Er á námskeiði sem felur i sér þjálfun með brúður. Þetta er gömul hefð frá Austur Evrópu og stórmerkileg. á morgun mun ég svo sýna með brúðum einþáttung sem ég er búinn að drösla saman úr Macbeth sem ég er að lesa á þýsku um þessar mundir.

Annars er gaman í Berlín og Meri kemur á Sunnudaginn og þá verður gaman að vera til.

Bestu kv.

Þorleifur

fimmtudagur, september 22, 2005

Góðan daginn

Það er bjart og heitt í Berlín í dag.

dagurinn fann undirritaðann á Alexandertorginu í miðborg Berlínar þar sem hann í félagi við þjóðverjann Carl, bauð fólki upp á að þrífa borgina (einn fermeter í einu) og fá í staðinn það sem undan kústinum kom í vinnulaun. Einnig var málaður hringur á torgið með nafni viðkomandi til merkis um framlag hans við hina borgaralegu þrifnaðarstefnu.

Þetta vakti mikla kátínu viðstaddra og tóku fjölmargir þátt í átakinu.

Uppákoman var tekin upp á videó sem hluti af heimildarmyndinni um stofnun alþjóðlegra hreingerningarsamtakanna IRS (International stadtliche reiningung). Takmark samtakanna er að koma á fjöldahreyfingu borgara sem byggð eru upp til móts við stór alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir. Með tímanum er vonast til þess að samtökin taki við hlutverki SÞ og útdeili réttlæti um allan heim. Útgangspunkturinn er að þríft götur til þess að hreinsa sálina af óhreinum hvötum. Að með því að verða meðvitaður um umhverfi sitt verði maður hreinn að innan. Hrein sál í hreinu umhverfi.

Bæta má því við að þegar samtökin eru komin á æskilega stærðargráðu þá taki undirritaður við stjórn samtakanna og leiði þau inn í nýja öld.

þangað til það verður þá nema ég heilvænleg DDR fræði við skólann minn, læt lítið fyrir mér fara og bíð færis.

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, september 13, 2005

Góðan daginn

Ég er sérlega bjartsýnn á þennan skóla minn og tel að næstu ár verði með einsdæmum skemmtileg!

Annars langar mig að segja þér frá því sem ég gerði í dag.

Skólinn er sumsé hafinn og fyrsta verkefni okkar er að vinna að verkefni með Arkítektanemum. Í dag áttu við að fara út og skoða borgina með það fyrir augum að leita upp staði og fólk sem setja mark sitt á umhverfið. Verkefnið var tilturulega frjálst en í grunninn snýst það um að vinna "leikverk" í opnum rýmum, það er meðal almennings.

Ég tók þetta bókstaflega á fyrsta degi og fór, uppáklæddur og vopnaður dv upptökuvél, í höfuðstöðvar CDU. Þar vildi ég fá að vita hvernig hægriöflin störfuðu í Þýskalandi. Ég sagðist hafa áhyggjur af stöðu hægriaflanna á Íslandi og væri því kominn til þess að aðstoða eftir mætti kosningu Angelu Merkel sem kanslara þýskalands. Þeir vildu ekkert með mig hafa en leystu mig út með húfu, barmmerki, spilastokk og áróðursbæklinga. Ég verð að viðurkenna að ég var örlítið svekktur þar sem ég taldi að frú Merkel hefði hug á því að hitta stærsta aðdáenda sinn en kannski var hún busy og ekki má maður láta heimsku undirmannanna láta á sig fá þegar maður er að vinna á hjartans forsendum.

Ég var sumsé ekki af baki dottinn í trú minni á betri framtíð með Angelu Merkel við stýrið og lagði því leið mína niður að Reichstag (þinghúsi Þjóðverja í miðri Berln) þar sem ég hóf að syngja lög sem tjáðu ást mína til Angelu Merkel. ég stöðvaði vegfarendur og bað þá að söngla með mér "Wir Lieben Angela Merkel". Undirtektirnar létu á sér standa og sífellt varð stærri og stærri hringurinn sem fólk myndaði í kringum mig. Ég reyndi að fá lögregluna með mér í lið en þeim fannst greinilega ekki sæma þeim að syngja um ást á stjórnmálaleiðtogum. Betur gekk með skólakrökkum þangað til kennarinn kom (börn eru svo móttækileg) og anarkistarnir voru ekkert sérlega hrifnir af samkeppninni sem ég veitti þeim.

Loks sá ég rót vandans. Ég þyrfti að útrýma samkeppninni. Út um allt voru einhverjir kommúnistar að dreyfa áróðri, sérstaklega þá þeir grænu. Ég tók því næst upp á því að standa við hlið þeirra og þar sem ég er leikaramenntaður þá hef ég mun betri stjórn á styrk raddar minnar og útsöng þá þar til þeir hrökkluðust í burtu.

Þegar ég var búinn að útrýma samkeppninni (sem er náttúrulega eitt af grunnskilirðum kapítalsimans) þá taldi ég götuna greiða, að nú myndi fólkið þyrpast til mín eins og frelsarans forðum ( ég er ekki frá því að ég finndi innra með mér að eitthvað heilagt vaknaði). Það reyndist ekki vera og sá ég fljótt hvað vandamálið var, fólkið hafði allt of mikið pláss. Það gat svo auðveldlega sveigt hjá mér.

Þar sem ég er löghlýðinn maður fannst mér aðeins og gróft að fara að reisa veggi eða vera með vöðvamenn með mér til að stýra fjöldanum í átt til mín og tók ég þá upp á því að bera út boðskap minn í neðanjarðarletum borgarinnar.

Og þetta reyndist þjóðráð því að þaðan kemst enginn í burtu fyrr en í fyrsta lagi á næstu stöð. Þar söng ég svo og trallaði lýðnum til yndisauka og leiðbeinslu fram eftir degi.

ég er ekki frá því að ég hafi gert meira til að bjarga þýskalandi í dag en ég hef gert á hlut þess hingað til. Smá sjálfboðavinna og samviskan er hrein.

Bestu kveðjur

Þorleifur
Berlín

sunnudagur, september 11, 2005

Góða kveldið

Þorleifur reportar frá Berlín.

Hér er allt á suðupunkti vegna yfirvofandi kosninga, savedbythebell kanslarinn virðist ætla að halda það út einu sinni enn Berlínarbúar finnst ekki mikið til þessarra kosninga koma, enda eru þeir þekktir fyrir anarkíst eðli og þá sérstaklega núna þegar margir hér upplifa að stjórnvöld hafi brugðist.

En hvert er valið?

Valið stendur í raun á milli meira af sama og þýsku útgáfunnar af Thatcher. Frú Merkel vill hér aukna einkavæðingu, minni miðstýringu og færri reglugerðir. Vissulega er hægt að taka undir með henni og segja að það sé margt til í því að þýskt efnahagslíf sé að kikna undan reglugerðafargani en staðreyndin er samt sem áður sú að hér er ennþá að finna eitt sterkasta velferðarkerfi í heimi og að hætta því svo að fyrirtækin hafi það betra er erfitt að sætta sig við.

Það þarf alltaf að skoða kerfi (eins og til dæmis velferðarkerfi) í samhengi við tímann og hvernig því gengur að aðlagast nýjum og breyttum aðstæðum en menn ættu að fara sér hægt í því að breyta kerfum sem það tók mannsaldra að koma á með tilheyrandi mannfórnum og barningi.

En það verður spennandi að sjá hvernig fer og svo í kjölfarið hvernig þetta lítur sov út í kjölfar kosninga.

Af sjálfum mér er það að frétta að skólinn hefst á morgun. ég tók reyndar forskot á sæluna og bauð bekkjarsystkynum mínum í mat á föstudaginn. Eldaði rammíslenska fiskisúpu sem ég dauð samviskusamlega í 30 klukkutímaog bragðaðist hún eftir því, það er vel.

Þetta var frábært kvöld og ég er ekki frá því að þetta verði skemmtilegur bekkur að vera í og spennandi fólk að kynnast.

Fyrsta verkefnið er að vinna með arkítektanemum frá Hamborg í því að dokumentra opin svæði með vidoemyndavélum og eitthvað. Reyndar vitum við fátt um þetta annað en það að vinnan hefst klukkan 11 í fyrramálið og stendur fram til 22 annað kvöld. Og mun gera það sem eftir lifir vikunnar!

Þetta er ekki skóla fyrir letingja.


Svo sat ég í gær með Davíð nokkrum sem hér er að læra heimspeki og rædum við alt milli himins og jarðar. Þessi fögnuður átti þó heldur snubbóttan endi þegar ég var að segja honum sögu af Gunnari Eyjólfssyni þegar einhver nágranninn öskraði á okkur að þegja. En eftir stendur að þetta var skemmtilegt og fróðlegt kvöld.

Jæja, best að koma sér í háttinn og vera nokkuð í lagi á morgun.

Góðar stundir.

Þorleifur

miðvikudagur, september 07, 2005

HANN ER FARINN!!!!

Það var mikið.

Nú byrjar maskína Sjálfstæðismanna að milja um mikilfengleika hans og að fylla himinloftin áru hans og ljósi (þó svo að hann hafi gert nóg af því sjálfur meðan hann sat!).

Kannski væri ráð að fara að hugmynd Andra Snæs og útbúa skrín fyrir kallinn undir Keili...

Þorleifur
Góðan daginn

Þetta er greinin sem birt var eftir mig í Fréttablaðinu á mánudaginn. SVo hef ég verið að skoða heimssíðurnar og það virðist vera sem svipaðan lestur megi finna á síðum ekki ómerkari blaða en NYtimes og WP.

hér er greinin:

Samfélag á hamfaratímum

Það eru skelfilegar fréttir sem berast okkur frá Bandaríkjunum þessa dagana. New Orleans er á kafi, lík fljóta um í vatninu, þúsundir manna húka á húsþökum í veikri von um björgun áður en hungrið og þorstinn ber þau ofurliði, hætta er á farsóttum og uppbyggingarstarfið er talið geta tekið mánuði.

En það sem kannski slær mann mest er að fylgjast með því hvernig samfélagið virðist hafa hrunið til grunna.

Gengi vafra um göturnar myrðandi og nauðgandi, rænandi og ruplandi. Skotvopnabúðir hafa verið tæmdar og vopnin notuð til þess að ýta undir óöldina sem nú ríkir.

Fréttir berast okkur úr tímabundnum flóttamannabúðum sem settar voru upp í Superdome, íþróttaleikvangi í borginni, og í ráðstefnumiðstöð borgarinnar af kerfisbundnum nauðgunum og eignapptöku, misþyrmingum og hungursneiðum.

Hvað gerðist? Hvernig getur það verið að samfélagið hafi svo fljótt leysts upp og óöld skapast. Úr hverju eru innviðir samfélagsins ofnir fyrst þeir rifna svo fljótt við mótlæti?

Nú hafa margar borgir Evrópu orðið fyrir gífurlegum flóðum, skemmst er að minnast flóðanna í Prag sem flæddu miðborgina algerlega. Engar fréttir bárust okkur þaðan að gripdeildum og almennu niðurbroti samfélagsins. Hitabylgjan í fyrra (skammarlega) dró þúsundir manna og kvenna til dauða í Evrópu í fyrra án þess að allt færi á annan endann.

Í hverju liggur munurinn?

Gæti hann legið í því að í Evrópu er samfélagið byggt upp á grunni velferðarkerfis þar sem þeir sem ekki standa í efstu stigum samfélagsins hafa engu að síður til hnífs og skeiðar, að hinir minna velmegandi búa við öryggi sem gerir það að verkum að þeir hafa ekki misstu trúnna á það að þeir séu hluti af samfélagi manna.

Í Bandaríkjunum er stór hluti samfélagsins skilinn eftir án heilsutrygginga, framfærsluöryggis, lýfeyristryggina og kannski það sem mestu máli skiptir...mannlegrar virðingu.

Af hverju ætti það fólk að finnast það vera hluti af samfélaginu? Hvaða þegnlegu skildu finnur fólkið sem sveltur á húsþökum New Orleans. Af hverju ætti það ekki bara að taka það sem því hefur aldrei verið boðið uppá.

Hamfarir draga fram í dagsljósið hið sanna ástand. Við þannig aðstæður er ekki hægt að fela sig handa skyggða rúða fjármálastofnana og tölum um hagfræði, það sem telur er hvernig samfélagið bregst við, og á þeim mælikvarða þá fær Bandaríska samfélagið falleinkunn.

Þetta ættu ungir frjálshyggjufrömuðir kannski að hugsa til áður en þeir opna munninn næst um að leggja beri niður hið Evrópska velferðarkerfi

Þorleifur Örn Arnarsson

mánudagur, september 05, 2005

Góðan daginn

Stutt og laggott.

Þá er ævintýrið að hefjast, ég er kominn til Köpen þar sem ég bíð eftir flugvél til Berlínar.

Þetta er ákveðin óvissuferð þar sem ég veit ekki hvað tekur við, en hvenær gerir maður það???

Það birtist grein eftir mig í miðjuopnu mánudagsblaðs Fréttablaðsins þar sem ég er að fjalla um ástandið í New Orleans þar sem samfélagið virðist hafa hrunið til grunna og tel ég það vísbendingu um hvernig misskiptingin í BNA fer með samfélagið.

Annars er ég á því að flugvöllurinn eigi að fara úr vatnsmýrinni og flytja hann til keflavíkur.

Ég vona að veðrið verði gott við ykkur og hér getið þið fylgst með því sem fyrir augu ber í berlín.

Þorleifur

sunnudagur, september 04, 2005

Góðan daginn

Jæja, síðasti dagurinn í bili á Íslandi.

Ég get ekki sagt að ég muni sakna landsins mikið. Mér leiðist í stórum dráttum umræðan hér sem einkennist af yfirborðsmennsku, fáfræði og tækifærismennsku. Og það er í þessu andrúmslofti sem orðræðan sem hér þrífst getur gert svo.

Hvergi í Evrópu er í gangi alvöru umræða um frjálshyggju...nema hér
Hvergi í Evrópu er í gangi alvöru umræða um að ríkið sé vont... nema hér
Hvergi í Evrópu líta menn upp til Bandaríkjanna...nema hér
Hvergi í Evrópu líta menn til hægri afla Bandaríkjanna með lotningu... nema hér
Hvergi í Evrópu er talið í lagi að selja grunnþjónustu til einkaaðila...nema hér

Og svo mætti lengi telja. Reyndar er það sem ég er að tala um hér að ofan ekki alveg rétt, auðvitað eru litlir hópar öfgamanna sem berja sér á bumbur um alla Evrópu en þeir eiga ekki greiðan aðgang að hinni opinberu umræðu. Svo mætti auðvitað telja gegn rökum mínum með því að benda á að frjálshyggja (sem reyndar er hógværari hægrimennska) þrífst í Austur Evrópu og það er alveg rétt. En á sama tíma má ekki gleyma því að það eru ríki sem nýlega eru búin að brjóta af sér hlekki nýlenduherrana í austri og eru rétt í þessu að byggja upp samfélög sín. Í þeim löndum sem það hefur gengið hvað best þá hafa menn verið fljótir að losa sig við öfgamenn peningahyggjunnar og kjósa sér valdhafa sem bera í raun umhyggju fyrir almenningi landa sinna.

Kannski væri reyndar best að tala um okkur í sömu andrá eins og austurtjaldslöndin þar sem þau hafa enn ekki fundið sinn eigin tón, sinn eigin stíl, sína eigin menningu, finna jafnvægi að nýju. En þau munu gera það. Og það sama á við hér, við eigum eftir að finna okkar eigin rödd. Hættan er bara sú að allt gildismat verði komið út um gluggan áður en það verður.

Að áður en við vöknum upp úr lífsgæðafylleríinu þá verðum við búin að eyðileggja það sem setur okkur á stall með hinum norðurlöndunum sem fyrirmyndarþjóðir meðal þjóða.

Kannski mætti telja þetta allt svartsýnistal hjá mér, kannski er ég bara öfgafullur svartsýnisseggur sem ekki getur trúað því að markaðurinn leysi öll okkar vandamál og allt verði í lagi ef ríkið bara hættir að skipta sér að peningafólkinu. Og það væri alveg rétt, ég trúi því ekki að markaðurinn muni leysa öll okkar vandamál, ég trúi því ekki að fjármagnið vakni upp einn daginn og setji mannlegt samfélag framar eigin hagsmunum, ég trúi því ekki að peningar og gróði skipti meira máli en manneskjur, ég trúi því ekki að hagvöxtur sé mælistika á framfarir, ég trúi því ekki að með því að einstaklingsgera allar manneskjur þá myndist betra samfélag. Það sem við stöndum eftir með þá eru fullt af einmana og hræddum einstaklingum sem gera hvað þeir geta til þess að uppfylla hlutverk sitt í samkeppninni.

Hef ég rök fyrir máli mínu?

Lítið á það sem er að gerast í New Orleans. Þar flugu hinir ríku burt í þyrlum og einkabátum en hinir fátæku urðu eftir. Hinu ríku var bjargað fyrst en hinir fátæku sultu á húsþökum veifandi hvítum fánum. Hvítir fánar hafa í sögunni verið tákn um vopnahlé, og það er aðeins hægt að tala um vopnahlé ef fólk upplifir að það sé í stríði. Og fólkið á húsþökunum er í stríði, það er í stríði fyrir eftirtekt í samfélagi hinna betur stæðu.

Vopnuð gengi vafra um göturnar í leit að mat og hlutdeild í ríkidóminum sem alltaf hafði verið þeim utan seilingar. Það eru ekki næturklúbbaeigendurinir sem skjóta og nauðga, nei, það er fólkið sem ekki á til hnífs og skeiðar sem upplifir að þau hafi verið skilin eftir til að deyja, af samfélaginu.

Er það samfélag? Eða kannski einstaklingsfélag?

Hvað viljum við?

Við næsta snjóflóð þá verði útvegsmanninum og sjálfstæðisfrömuðnum á staðnum bjargað fyrst, að þeir sem efni hafa á því að borga fyrir björgunina fá hana, hinir verði bara að bíða?

Eða er kannski betra að allir sem vettlingi geta valdið komi saman og vinni saman til þess að hjálpast að, er það ekki það sem kalla mætti samfélag?

Það sem hugmyndafræðilega er í gangi hér á landi er í raun afturför. Það er verið að reyna að snúa til baka þúsunda ára þróun fyrir nánari samskiptum manna á millum. Það veiddist betur ef veiðimennirnir í þorpinu unnu saman, það byggist betur ef allir leggja sitt af mörkum, það líður öllum betur ef þeir eru hluta af, ekki utan við. Og það er kjarni málsins. Við erum samfélag og við eigum að haga okkur eins og samfélag.
Það er öllum til hagsbóta.

Þorleifur

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Góðan daginn

Ég undra mig á því hvernig fjölmiðlar komu að kynningu á framboði Gísla Marteins.

Það er eins og Morgunblaðið hafi ákveðið að auglýsa kaffiboðið hjá honum í Iðnó í dag því að það var heil frétt í mogganum í gær. Sem er ótrúlegt, ég man ekki til þess að MOrgunblaðið hafi verið með auglýsingu fyrir kaffiboð hjá einum eða neinum, hvað þá á fyrstu opnu, og það með mynd.

En það þurfti ekki að koma neinum á óvart að Gísli væri að fara í fyrsta sætið, það er búið að liggja fyrir lengi.

SVo þarf að velta fyrir sér afleiðingunum fyrir Reykjavik ef hann vinnur.

En það er seinna tíma mál, en eitt er öruggt, að greyjið Vilhjálmur mun eiga erfitt uppdráttar gegn manni sem morgunblaðið fer svo mjúkum höndum um, enda vilja allir sannir sjálfstæðismenn borgina aftur, jafnvel þó svo það þýði að leggjast upp í rúm með djöflinum.

Bestu kv,

Þorleifur

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Góðan daginn

jæja, þá er maður kominn heim, jetleggaður og fínn.

Við tekur að ganga frá Piparsveininum, leikstýra menningarvöku uppákomu á Akureyri og undirbúa flutning til Berlínar.

Annars var ég að skoða upplýsingar um einn helsta frömuð Bandarísku hægristefnunnar, Grover Norquist. Upplýsingar er hægt að nálgast hér.

Frægasta kvót:

Ég vil ekki leggja ríkið niður, ég vil aðeins draga úr stærð hennar svo að ég geti dregið hana inn á baðherbergi og sturtað henni niður í klósettinu. Grover Norquist

Frægasta gagnrýni:

Hann er illa innrættur, húmorslaus og óheiðarlegt lítið gerpi... Svona eins fulli ömurlegi frændinn sem allir óska að hefði bara haldið sig heima hjá sér... Vissulega er hann viðurstyggilegur en það er bara ekki nógu mikið af honum til þess að hefja hreinsanir Tucker Carlson

Ég hallast frekar á sveig með síðasta ræðumanni.

Gaman að heyra hvað Gísla Marteini og Sigurði Kára fyndist um þennan gaur.

Þorleifur

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Góðan daginn

Það var sprenging hér í fyrradag. Ég var á ferðinni þegar ég frétti af henni, var á leið út úr bænum yfir GOlden Gate þegar fram kom að búið væri að loka henni vegna hryðjuverkahættu.

Nú, það kom manni kannski ekki neitt sérstaklega á óvart, þeir eru nú einu sinni staðráðnir í því Bandaríkjamenn að mjólka óttan við hryðjuverk eins og þeir geta, en það er önnur staða.

Það sem festist í huga mér var frásögnin sem ég heyrði í útvarpinu. Þar kom fram að sprenging hafi orðið í fjármálahverfinu og fólk hefði komið hlaupandi út, KALLANDI NÖFN FYRIRTÆKJANNA SINNA!!!

Sjáið þetta fyrir ykkur, Guð minn McDonalds, hvað er að gerast?
NIKE NIKE NIKE NIKE!!!!

Já, það er fallegt framundan í mannþróuninni.

Þorleifur
Góða kvöldið

Það er lítið sem maður nennir að fylgjast með kjaftaganginum heima á íslandi þar sem maður er staddur í landi sem stendur í hernaði gegn saklausum borgurum smáþjóða sem gegn gegn vilja þeirra.

En eitt vakti sérstaka eftirtekt, það var harðorður pistill Egils Helgasonar á vísir.is þar sem hann ræðst harkalega á vinnuveitendur sína og samstarfsfélaga. Fyrir mér eru tvær mögulegar skýringar á þessu.

Annars vegar að Agli Helgasyni hafi blöskrað svo misnotkun fréttablaðsmanna á valdi sínu að hann hafi ekki getað þagað. Og hafi skrifað orð sín með hugsjón sýna fyrir hönd íslenskrar blaðamennsku að leiðarsjósi. Að hann hafi bara ekki getað þagað.

Hin útskýringin er sú að eignendur Fréttablaðsins (365) sjái sér leik á borði og gefi "grænt ljós" á harðorða gagnrýni úr eigin herbúðum. Það er þá hægt að benda á skrif Egils Helgasonar sem sönnun fyrir því að á fjölmiðlinum sé vissluega sjálfstæð ritstjórnarstefna og þar sé mönnum ekki settur stóllinn fyrir dyrnar.

En hvernig sem á þessu stendur þá geta þeir ekker gert í þessu akkúrat núna. Ekki er hægt að reka manninn, þá myndu þeir gera opinbera þá járnhendi sem hvílir yfir mönnum og að á fréttablaðinu sé ekki málfrelsi (þeir geta kannski farið að ráði ríkisstjórnarinnar og biðið aðeins áður en þeir hefna sín, og bera þá eitthvað annað fyrir sig). Varla geta þeir heldur beðið hann að hafa hægt um sig enda myndi hann líklega taka það óstinnt upp. Og svo kannski eru þeir bara hæstánægðir með þetta, það er svo gott að geta bent á dæmi því til stuðnings að þar renni ekki allar ár til dýrafjarðar.

Og stutt frá Bandaríkjunum, það sem ekki kemur fram í fréttum er það að á hverri brú, í hverjum bæ og á hverjum gatnamótum má sjá fólk að mótmæla stríðinu og út úr mörgum bílum sem keyra fram hjá má sjá fólk (ég þar með talinn) reka tvo fingur út um hliðarglugga með V lag á fingrum!

Þorleifur

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Góða kvöldið

Stutt kveðja frá San Fransisco.

Þetta er búið að vera alveg sallandi fínt allt saman. Reyndar hef ég mikið til þjáðst af jet-leg sem er mér annars óþekkt fyrirbrigði, en ég geri ráð fyrir því að þessi þeytingur sem búinn er að vera á mér undanfarið hafi þessi áhrif, að ég er eins og slytti hérna.

Nú svo er það veðrið, menn myndu kannski röfla minna heima vissu þeir að sólarinnar Kalífornía er ekki skömminni skárri.

Hótelið sem við erum er á afar spaugilegt. Það vantar ekki glæsileikann í lobbíið, vivaldi í hverjum hátalara og þjónar á hverjum fingri. Herbergið er líka fullt af alls konar gadetum og klámrásum en er álíka stórt og fataskápurinn heima. Svo ekki sé minnst á gólteppið sem myndi sóma sér vel á hvaða elliheimili sem er. Þjónustan er svo öll í ætt við mr. Fawlty, þannig að úr verður hin mesta skemmtun.

Ég leigði mér Mustang blæjubíl sem er hið allra skemmtilegasta tæki. Var svo stoppaður af lögreglunni á hraðbrautinni á svo lítið sem 160 kílómetra hraða. Lögreglumaðurinn sá af einhverjum ástæðum í gegnum fingur sér við mig en tilkynnri mér það að ef ég hefði verið 5 kílómetrum hraðari þá hefði ég fengið að njóa gestristni fangelsismálastofnunnar Kalíforníu.

Við Meri vorum þá á leið til Yesimite þjóðgarðsins. OG það skal ég segja ykkur að þa blasti við mér mesta náttúrufegurð sem ég hef á ævinni orðið fyrir, já orðið fyrir!

Við klifum fjall í 3000 metra hæð (keyrðum svona 2500 metra upp þannig að þetta er ekki alveg jafn hetjullegt og það hljómar) og þaðan blöstu við fossar og 1000 metra há þverhnýpi. Ógleymanlegt!

Í dag fórum við svo og skoðuðum okkur um í rauðaskógi sem er með elstu skógum meginlands ameríku. Ótrúleg friðsæld, gamall andi sveif yfir vötnum!

En nóg í bili, enda ævintýrið ekki hálfnað.

BEstu kv.

Þorleifur

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Góða kvöldið

Hvað er þetta spyr ég nú bara, ég verð að fara að gera það upp við mig hvort ég ætla að vera að blogga eða ekki...

ég er sumsé frá síðasta inndriti búinn að heimsækja london, skipuleggja meira og minna heilann piparsveinsþátt, stofna fyrirtækið Lifandi Leikhús (kominn tími til) og er svo á leið til San Fransisco um helgina, enda á maður smá sól skilið.

Einnig hef ég gerst útigarpur mikill og hef á undanförnum 3 vikum farið í einar 3 raftingferðir, jöklaklifrusferð og gljúfur/sundogsig ferð. Þetta er stórkostlegt! Beats kaffibrennslan any day.

OG svo það sé á hreinu þá er ég ekki þar núna!

Annars er ég svo hægt og hægt að draga mig til hliðar hjá Saga Film (sem nú er í eigu Baugs!!!, hvað varð um siðferðið soyr ég nú bara?) til þess að undirbúa mig undir feðrina og búsetuna úti. Ég get ekki annað en skolfið af tilhugsuninnu um að samlagast nýjum menningarheimi og taka þátt í því ferli að aflæra og endurlæra það sem ég hef verið að starfa við undanfarni ár! Þvílík sæla.

Já, lífið gæti ekki verið betra þó svo ég hefði hannað það sjálfur!

Og á þeirri ljúfu nótu kveð ég í kvöld en hef fullan hug á því að tala meira um listisemdir landsins við fyrsts tækifæri.

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Góða kvöldið

Er á Akureyri eftir að hafa keyrt um 1200 kílómetra síðustu 2 sólarhringa.

Það virðist vera að linkakerfið sé í einhverju rugli hjá mér, allaveganna þá vildi ég ekki leiða fólk inn á heimasíðu microsoft.com. Ekki í tilefni skrifanna á síðunni né undir nokkrum öðrum kringumstæðum.

Biðst ég forláts vegna óþæginda sem þessi skelfingaratburður gæti hafa fært einhverjum.

Heyrumst seinna.

Þorleifur

laugardagur, júlí 30, 2005

Góðan daginn

Ég ákvað að njóta rólegs dags í bænum og sleppa því að liggja með pappakassaklæddu fólki í appelsínugulum regngöllum á útihátíðum lansins.

Hugsaði með mér að það væri upplagt að handa á kaffibrennslunni og stúdera einhvern alþjóðlegan aktvíisma. Því búinn að liggja á netinu og rakst meðal annars á þetta. Þarna getur maður fylgst með hinni heillavænlegu þróun lýðræðisins í Bandaríkjunum.

Hafi maður áhuga á því að kynna sér hvernig AIDS lyfjaprófanir fara fram á fátækraheimilum New York þá er þetta góður staður.

Einnig hef ég verið að sanka að mér efni frá fornu fari á þassari frábæru síðu.

Það er nefnilega misskilningur að það sé aktívismi sé eitthvað nýtt af nálinnni.

að lokum má geta þess til gaman að ég er klæddur bol með mynd af MAO þar sem hann horfir fram á veginn. Þetta er gert í svaraskyni við meistara Hannes Hólmstein sem nýlega gat ekki fundið nógu sterk orð í íslensku til þess að lýsa viðbjóði sínum á þessum manni. Svo getur vel verið að séra Hannes hafi rétt fyrir sér, að Mao hafi verið ólýsanlegur skíthæll, en það breytir ekki þeirri staðreynd að um leið og eitthvað er orðið þjóðfélagslega samþykkt þá kemur upp í mér lítill djöfull sem getur ekki annað en potað í hina samþykktu blöðru.

Bið að heilsa

Þorleifur

föstudagur, júlí 29, 2005

Góðan dag.

Það er margt að gerast í samfélaginu, þó ekki verði meira sagt.

Hæst ber náttúrulega sala Landssímans, sem virðist vekja almenna lukku allra. Ekki þarf það að teljast skrítið að þessi gengdarlausa gleði ríki enda ríkir alger einstefna í umræðunni um einkavæðingu, það er, að einkavæðing sé FRÁBÆR!

En, partýpooper sem ég er, þá hef ég ýmislegt við einkavæðinguna að athuga. Ekki ætla ég mér að byrja að rífast yfir hvernig var staðið að þessu í þetta skipti (þó það veki alltaf upp grunsemdir hjá mér þegar menn finnast þeir þurfa að taka fram að allt hafi verið uppi á borðinu, ég veit það með mig að þegar ég tjái mig mikið um hvað ég sé heiðarlegur, þá er ég líklega að ljúga.) (svo ég minnist ekki á það að það var um það bil ekkert uppi á borðinu eða neins staðar því að ekkert var gefið upp um ferlið, en það er kannski önnur saga).

Nei, það sem ég er að fetta fingur út í er miklu frekar grunnhugmyndin um einkavæðinguna sem "gott" fyrirbæri.

Það sem í grunninn á sér stað er að fyrirtæki er tekið úr almenningseign og fært yfir á hendur þeirra einstaklinga sem heppilegastir þykja til þess að eiga það hverju sinni. Það sem gerist við þetta er annars vegar að fyrirtækið fer úr tilturulega lýðræðislegu ferli, það er úr höndum manna sem kosnir eru til starfa af alþýðu manna, yfir í einræðislegt ferli, það er stjórnarstrúktúr sem er einræðislegur í uppbyggingu. Því er það alger mótsögn að halda því fram að þarna sé um skref til frelsis að ræða.

Á hinn bóginn er áherslubreytinging sem á sér stað. Í fyrirtæki er arðsemi ekki efst á listanum. Vissulega er hún til staðar en komi þær aðstæður upp (til dæmis í kreppu) að ekki sé hægt að gera miklar kröfur til arðsemi þá er auðveldara að láta það viðgangast í fyrirtæki í almannaeigu. Það þýðir að ekki er hlaupið til og fólki sagt upp, náttúruverndarsjónarmið geta komið upp á móti arðsemismarkmiðum, ekki þarf að minnka þjónustu (eða skera burt þjónustu sem ekki er arðbær, allaveganna í krónum talið) og fleira í þeim dúr.

Við einkavæðingu þá verður arðsemi grundvöllur allrar sýnar fyrirtækisins og skiptir þá litlu hvað kosta þarf til svo arðsemin haldist. Þessu ti stuðnings er hægt að skoða Bandaríkjamarkað í hvert sinn sem kreppa (eða auknar kröfur eigenda um arðsemi) gera vart við sig.

Með þessu er ég ekki að segja að þetta sé allt rangt og vitlaust, heldur frekar hitt að um leið og eitthvað er orðið þjóðfélagslega samþykkt þá verður það hlutverk listamanna að fara að spurja óþægilegra spurninga.

George Orwell sagði eitt sinn ? " If liberty means anything at all, it means the right to tell people what they do not want to hear. "

ég tel að það eigi við í þessu tilfelli.

Bestu kv.

Þorleifur

sunnudagur, júlí 24, 2005

Góða kvöldið

að venju sit ég á Kaffibrennslunni. Það er réttast að taka það fram að ég er ekki alltaf hérna, heldur er það svo að venjulega finn ég mér tíma til þess að skrifa þegar ég sit hérna í rólegheitunum...

En allaveganna þá er ég búinn að vera duglegur í dag. Fann og las fullt af spennandi efni, svo sem viðtal við lýðræðisfræðinginn John Keane, greinar eftir George Orwell og svo downloadaði ég bókum (löglega) eftir Tourqueville um lýðræðið í Bandaríkjunum en sú bók er skrifuð seint á 18 öld en er enn þann dag í dag með merkilegri bókum sem skrifaðar hafa verið um lýðræðið og framtíðarhorfur þess.

Það var eitt í kvótum sem ég fann eftir George Orwell sem vakti hjá mér sérstakann áhuga, kvótið var einhvernveginn svona: " Pacifism is objectively pro-fascist. This is elementary common sense. If you hamper the war effort of one side, you automatically help out that of the other. Nor is there any real way of remaining outside such a war as the present one. In practice, 'he that is not with me is against me. "

Kannast einhver við þetta?

Annars er ég í raun að taka mér frí frá því að hugsa um leikhús, enda er sumar og sól og það er nógur tími til þess að pirra sig yfir leiklistinni þegar nær dregur hausti. Svo má ekki gleyma því að ég er að fara út í nám sem mun snúast um leikhúsið 24-7 þannig að ég held að það sé allt að því óhætt að taka sér smá break núna.

En á hinn bóginn er ég að safna að mér efni sem ég mun vissulega nýta mér þegar fram líða stundir og ég fer aftur út á völlinn með það fyrir augum að tala við samfélagið í gegnum listsköpun.

Það er magnað þear maður skoðar stöðuna í heiminum núna hvað listin er í raun mögnuð og hvað við erum lítið meðvituð um það.

Er að lesa bókina "Collapse" eftir Jared Diamond þar sem hann er að rýna í ástæður þess að samfélög eiga það til að hrynja. Hann segist hafa skrifað bókina með það fyrir augum að upplýsa okkur um söguna til þess að sýna okkur fram á hætturnar sem blasa við í heiminum í dag.

Og eitt eiga öll samfallin samfélög sammerkt, það grunaði engan að hrunið væri yfirvofandi!

Humm... Ég minni á að ég skrifaði greinar um hið hrynjandi veldi Bandaríkin fyrir skemmstu...humm....

En annars er ég að njóta sólar og sumars, hamingju og upplýsingu og óska ykkur sambærilegrar fullnægju.

Þorleifur

sunnudagur, júlí 17, 2005

Heilræði dagsins (og kannski eitthvað að hugsa um í stærra samhengi)

Hvernig vitum við hverjir eru góðu gæjarnir ef allir eru klæddir eins?

humm....

Þorleifur
Önnur vika, önnur þögn, annar bardagi.

Ég hef mikið verið að ræða við félaga mína undanfarið þennan bardaga sem ég talaðii um síðast. Bardagann milli kapítalísks veruleika og innra sálarfriðs og hugsjóna.

Og nú sló því niður í hausinn á mér að ég hefði það allt of gott, að vera að vinna svona mikið, með svona góðar tekjur það væri mér afar skeinuhætt þar sem ég gæti auðveldlega vanist því að vera með svona tekjur og því get ég erfiðlega látið eftir mér að vinna að listsköpun og fylgt hugdettum mínum eftir.

Fólkið í kring um mig hættir ekki að benda mér á að það sem ég sé að gera sé ekki hættulegt geðheilsu minni, heldur einvörðungu skondið útfrá pólitík minni og yfirlýsingum. Ég er ekki sammála, ég trúi því að það sem ég er að gera sé afar hættulegt og vaki ég ekki gagnvart því þá muni ég falla í hina kapítalísku gryfju.

ég er á því að það sem þurfi að gerast sé að fara þurfi að leggja félagsfræðilegar grunnfoprsendur uppbyggingingar nýjar samfélagsskipunnar. Og tel ég það mitt stærsta verkefni í lífinu að skoða hvaða kerfi það gæti verið og hvernig koma megi því í framkvæmd.

En kannski hef ég ekki tíma til þess að gera það í kvöld!

En þangað til næst, bið að heilsa

Þorleifur

sunnudagur, júlí 03, 2005

Góðan daginn

Ég bara varð að setja eitthvað niður á blað, þó ekki væri til annars en að halda mér við efnið...

Vinnan mín er þannig að mér finnst ég ekki sjá úr augunum, ekki það að það sé ekki gaman, það er það, heldur hitt að hún á einhvern lúmskan hátt sígur úr manni orkuna og það er ekkert eftir til þess að skapa.

Ég geri ráð fyrir því að auglýsingabransinn sé svolítið svoleiðis, að í því hraðsoði sem þar tíðkast og þarf að vera í gangi þá sé ekki tími til þess að skoða það sem undir yfirboðrinu kynni að leynast.

Og þar af leiðandi hefur þetta haft pólitísk áhrif á mig, ég hef ekki haft tíma til þess að halda mér heitum og róttækum. Og hvað gerist þá? Nú þá fer maður að komprímæsa og nenna ekki að kynna sér og finnast það ekki skipta máli, maður fer að vera eins og fólkið sem maður var alltaf að berjast við að vekja.

En ég hef góða afsökun, ég er að safna í sarpinn fyrir Berlínarreisuna, ég er semsagt að kapítalískast í sumar til þess að geta stundað list mína að hausti, en ég spyr mig, er þetta of dýru verði keypt? Er ég að selja frá mér áhuga, eldmóð og hugsjónir sem ég mun ekki öðlast að nýju? Með öðrum orðum, hvert verður verðið?

Annars var ég í brúðkaupi hjá Atla og Bryndísi bekkjarsystur og var þar mikið gaman og hoppoghí. Það er skrýtið að vera viðstaddur giftingu sambekkinga sinni þar sem það minnir mann á það sem maður ætti efalaust að vera löngu búin að sjálfur!

OG annað skrýtið í kjölfarið...

Það biður mig aldrei neinn að skemmta. Nú er þetta ekki biturð (þó ég væri sá eini sem ekki var með eitthvert uppistand í brúðkaupinu) heldur hitt að ég velti því alvarlega fyrir mér hvernig áru ég gefi frá mér fyrst það hvarlar ekki að neinum að biðja mig um að syngja, eða fara með ræður eða standa fyrir hópi? Gef ég frá mér svo alvarlega ímynd að fólk heldur að ég geri ekki svoleiðis... Nú eða ég er bara svona leiðinlegur!

Annars hef ég harla fátt að segja, nenni vart að rífast yfir málefnum líðandi stundar, það er svo tómlegt í hinu opinbera íslenska siðferði að varla þarf mig til að stinga niður penna til að útlista það. Aðeins eitt hef ég að segja, skammastu þín Halldór!

Og hvar er Davíð? Situr hann bara með koník og hlær ofan í bringuna á sér og hugsar " þú hefðir betur leyft mér að halda jobbinu"...

Svo mörg voru þau orð...

Þorleifur

sunnudagur, júní 19, 2005

Góðan daginn

Já, ekki var þessi helgi mikið verri.

Ég tók 17 Júni með trompi þar sem ég og konan lögðum undir okkur hornborð í garði Hressó og sátum þar í góðu yfirlæti fram eftir degi, nutum sólarinnar og góðs félagsskapar.

Lögðum svo land undir fót og heimsóttum foreldrana í sumarhúsið í úthlíð. Þar var spáð og spegúlerað frameftir nóttu.

Snemmmorguns var svo lagt af stað að nýju og nú var horft til vesturs. Við lögðum á hálendið og ókum inn með Langjökli. Veðrið var gullfallegt og jökulinn skartaði sínu fegursta. Í fjarska blasti Eiríksjökullinn við og hófst þar skrif á löngum lista yfir þau fjöll sem við ætlum að leggja í sumar. (í hópnum eru u.þ.b. öll fjöll á suðvesturlandinu, en er krafa drauma endilega sú að rætast þurfi þeir?)

Við nikkuðum aðeins framan í Surt í helli hans í Hallmundarhrauni og smökkuðum bráðinn ís í Húsafelli. stóðum á ystu nöf við barnafoss í hvítá og dreymdum um frekari fjallasigra er Snæfellsnesið rann framhjá bílrúðunni. Að endingu runnum við ferðamóð inn á stæðið hjá vinkonu okkar, myndlistarkonunni Þórdísi Aðalsteinsdóttur sem húkt hefur í Stykkishólmi við málarí undanfarið. Þar fengum við að sjá verkin sem verða á hennar fyrstu sýningu hérlendis en hún hefur vakið töluverða athygli í New York þar sem hún býr.

Kvöldinu var slúttað með langvinntum Rommýleik að sveitamannasið þar sem Meri bar höfuð og herðar yfir keppinautana( og vakti það upp hjá ér töluverðar áhyggjur af ástarlífinu ).

Og allt þetta í fögru Íslandsveðri. ég held að fátt sé fallegra en fallegur sumardagur hérlendis.

Ég rifjaði það upp að í ferð minni um Nýja Sjáland í fyrra þá hefði manni staðið töluverð ógnun af fegurð náttúrunnar þar. En að horfa yfir ísland í þessri ferð (sem og öðrum) þá rifjaðist upp fyrir manni hvað það er sem gerir Ísland jafn ómótstæðilegt eins og raun ber vitni, það að það er ekki bara fallegt það er líka tignarlegt og hættulegt á að líta. Ekki aðeins eins og fallegt málverk heldur líka ljótt og hart, og það er þar sem sérstaða þess er. Í hættunni sem nálægðin við þessa náttúru hefur að geyma.

En ætli þetta sé ekki nóg í bili...

Þorleifur

sunnudagur, júní 12, 2005

Góðan daginn

Ég hef verið að koma mér fyrir í nýju vinnunni minni. Þetta er stærsta verkefnið sem ég hef hingað til tekið mér á hendur í starfi mínu hjá Saga Film, en ég mun sjá um að hanna framleiðslu á nýjum sjónvarpsþætti.

Ég er ekki viss um hversu mikið ég get sagt um það á svo opinberum vettvangi sem þessum þar sem ég er bundinn trúnaði um framleiðsluna. Það sem má koma fram er að þetta er ný raunveruleika sjónvarpssería fyrir Skjá 1.

Þetta er afar spennandi verkefni þar sem ég þarf að halda utan um stærri pakka á þessu sviði en ég hef gert hingað til.

En nóg um það.

Leikhúsið er farið í frí að undanskildum sumaruppákomunum sem tröllríða samfélagi okkar þegar sól tekur að rísa á himni. Ég átti reyndar upphaflega að vera að vinna við uppsetningu á söngleik þetta sumarið en þar sem tíminn þótti of stuttur þá varð það úr að bíða með það fram á næsta sumar (og þá er náttúrulega ekki víst að ég geti starfað við það þar sem skólavist mín verður þá í forgangi, en það er önnur saga).

Svo er ég ennþá að bíða eftir því að fá bréf frá skólanum þar sem útlínur vetrarins eru lagðar niður svo ennþá óvissan hérna megin.

Var á Akureyri fyrr í dag þar sem ég hitti krakkana mína aftur eftir ævintýri vorsins þar norðan heiða. Það var alveg frábært að hitta þau aftur og þakkaði fyrir mig með því að skrifa ratleik fyrir þau eins og faðir minn gerði fyrir okkur systkynin þegar við vorum minni (og gerir reyndar stundum enn). Leikurinn byggir á því að skrifa í raun orðaleiki sem leiðir fólk áfram, skiljirðu orðleikinn þá finnur þú út hvar þú átt að leita næstu vísbendingu og svo videre. Leikurinn fór fram í Dimmuborgum við Mývatn og var í meira lagi skemmtilegur enda veðrið frábært, náttúrfegurðin ægileg og félagsskapurinn frábær.

Þar var magnað að hlusta á þau lýsa reynslu sinni að vinnunni við Ríginn. Það var sú tilfinning ríkjandi að þetta hefði verið meiriháttar upplifun og það að sýna aga, vinnusemi og fylgni í uppsetningunni hefði skilað sér, ekki bara í sýningunni heldur líka í afstöðu þeirra.

Leikhúsið getur nefnilega verið afar öflugur staður til þess að læra inn á lífið því það sama þar til þess að skara fram úr þar sem annars staðar.

Glaður maður kveður í bili...

Þorleifur

fimmtudagur, júní 02, 2005

Góða kvöldið

SOt eftir langan dag á hinu rómaða kaffihúsi Kaffibrennslunni (einu sinni sem oftar) og diskútera heiminn.

Fórnarlambið í dag er Hilmar vinur minn sem hefur marga svipaða ausuna sopið, on the bottle and off, og því urðu hér í kvöld fagnaðarfundir.

Niðurstaða kvöldsins mætti súmmera upp með eftirfarandi:

- Ég veit ekki hvernig, ég veit ekki hvenær og ég veit ekki af hverju, en mannsandinn mun sigra að lokum!

- Fyrst er það vilji, allt annað er tækni!

Þá hafið þið það, farið nú út í lífið með þessi vísdómsorða að vopni og sjá, flóðgáttir himnanna munu opnast og ljósið streyma yfir ykkur.

Sendið mér svo e-mail frá geðsjúkrahúsinu!

Þorleifur

mánudagur, maí 30, 2005

Halló halló

Þá er maður sokkinn í kapítalismann og farinn að framleiða auglýsingar svona ti þess að tóra í gegnum sumarið (og ef ég er heppinn) spara fyrir Berlínarvetrinum.

Það er fyndið með auglýsingar að undirbúningurinn er svona eins og með hvert annað verkefni, nema að hér er undirbúningurinn, umræðurnar og ferlið svona 50 sinnum hraðara.

Öllum táknmyndum eru bara kippt inn og ákveðnar samdægurs, rökstuðningur bakvið ákveðin skot er á sama reiki, það er allt í ákveðnu ferli í listrænu ákvarðanaferli sem er ekkert freábrugðið því sem maður myndi gera í mynd eða leikhúsi nema þetta er spítt-útgáfan. Skemmmtilegt en það er eins gott að maður sé í stuði andlega og líkmlega!

Annars horfi ég fram á vinnusumar og vona að ég nái að grípa í sköpun inn á milli einshversstaðar til þess að missa ekki vitið!

Þorleifur

sunnudagur, maí 29, 2005

Halló

Þetta er búin að vera spennandi helgi. Vinur minn Jani Lenonen kom í heimsókn til þess að tala á pallborðsumræðum í sambandi við Listahátíð. Verk hans á farandssýningunni, Populism, vöktu töluverða athygli og því ákvað litla Ísland að bjóða honum hingað til þess að deila með okkur visku sinni.

Ég og hann erum lengi búnir að tala um að framkvæma einhverskonar verkefni saman og þessi heimsókn virðist hafa styrkt okkur í þeirri trú þar sem nú er allt útlit fyrir að ég fari til Helsinki til þess að vinna með honum að uppákomu á listahátíðinni í Helsinki í haust.

Það sem gerir það að verkum að þetta samstarf yrði spennandi er það að ég er afar skeptískur og oft full alvarlegur þegar kemur að list og samfélagi. Hann aftur á móti sér frekar spaugilegu hliðina (eða fegurðina) í kapítalíska samfélaginu og finnur leiðir til þess að endurspegla það í verkum sínum, sem fyrir vikið verða oft afar gagnrýnin. Þessir tveir pólar ættu því að geta unnið vel saman þar sem við njótum þess mjög að tala og spögulera og endurvarpa hugmyndum hvors annars til þess að kasta á þær nýju ljósi.

En verkefnið er ennþá á fósturstiginu og því vil ég ekki tjá mig of mikið um það á þessu stigi.

Annars fór ég í leikhúsið hér heima eftir vonbrigðin í Berlín og sá Draumleik. Og að mörgu leyti varð ég hrifinn. Þarna var mikið af góðum hugmyndum, jafnvel djörfum. Útfærslan á mörgum senum mjög góð og náttúrulega frábær leikmynd.
Reyndar átti ég í töluverðum vandræðum með grunnkonseptið. Þar sem Agnesi (dóttir guðsins Indra) var svipt upp úr áhorfendasalnum til þess að fylgjast með mönnunum. Það sem þessi upphafsgjörð gaf til kynna var það að við, áhorfendurnir, værum guð (eða hinir sem sjá). Þetta útaf fyrir sig er spennandi konsept en því miður varð lítið úr því að þetta konsept yrði notað og þegar ýjað var að því að það yrði gert þá var það svo óreiðukennt að ekki var hægt að sjá út að um gegnhugsað konsept væri að ræða.

Annað konsept í sýningunni sem vakti athygli mína (og tengist vissulega því fyrra) var fréttaflutningskonseptið.Það að Agnes væri á jörðinni í hlutverki fréttakonu til þess að "recorda" hvernig mennirnari hefðu það. Þetta er snilldarleg nálgun að verkinu. Jesú snýr aftur og er "reporter" fyrir pabba á himnum.

En aftur var þetta konsept ekki í sýningunni nema til hálfs. Og mér fannst tengingin milli konseptanna tveggja sem ég hef minnst á hér að ofan ábótavant. Í raun er ég að tala um að þarna voru góðar hugmyndir á ferð sem ekki var unnið nægilega vel úr.

Hugsið ykkur hvað það væri frábær hugmynd að jesú snéri aftur sem blaðamaður og reportaði til áhorfenda leikhússins (sem er hið eina sem raunverulegt er í leikhúsinu , rétt eins og ímynd af guði í heiminum) því sem hún sæji. Alvöru pólitísk hugsun út úr verkinu. Og endalausir möguleikar á því að gagnrýna bæði menn og fjölmiðla. En það þyrfti að vera gegnumgangandi konset í verkinu, það dugar ekki að impra á því af og til.

En þegar á leið verkið fannst mér betur og betur unnið úr senum, þær urðu markvissari, persónulegri og skýrari. Enda er kannski textinn bestur þar. Einnig fannst mér góðar senurnar í leikhúsinu enda sjálfhverft og spennó fyrir okkur rotturnar.

En þegar uppi stendur með því betra sem ég hef séð hér heima í þó nokkurn tíma, þrátt fyrir gallana því að þarna var pótentíal sem ég sé sjaldan hér heima og hlakka til þess að sjá hvað hann BEnedikt gerir næst.

Þorleifur

föstudagur, maí 27, 2005

Halló öll saman

Þá er maður loksins kominn heim á eyjuna. Og að venju er það sambland af ánægju og vonbrigðum að kom heim.

Ánægjan felst auðvitað í því að kunnuleg andlit blasa við á hverju horni, veðrið er alíslenskt, húsin lítil og krúttuleg, Esjan í blóma og svo auðvitað kaffibrennslan!

En svo fer ég í fyrsta innkaupaleiðangurinn og öll gleði er horfin fyrir bí. Og ég var ekki reiður út í Baug, heldur út í íslensku þjóðina sem lætur bjóða sér þetta. HVAÐ ER EIGINLEGA Í GANGI!!!!!??????

Þessi þjóð sem svo lengi hefur búið á eyjunni fallegu og þó svo hún sé á persónulegu leveli sterk og áræðin þá er hún samfélagsleg gunga. Það heyrist vart múkk yfir því hvernig farið er með fólk, og á það bæði við um einstaklinga og svo ég tali nú ekki um hópa. SVo sem eins og hópinn sem kaupir í matinn, hópinn sem kaupir föt, hópinn sem vinnur meira en nokkurs staðar í Evrópu, hópinn sem skuldar meira en nokkru sinni fyrr, hópinn sem býr við verra heilbrigðiskerfi, hópinn sem býr við æ verra menntakerfi, hópinn sem býr við spillingu í stjónmálunum, hópinn sem lætur bjóða sér fákeppni og samráð hjá flestum fyrirtækjum. Þessir litlu hópar sem ekkert segja nema á tillidögum. Og maður ber þetta saman við átakið sem er í gagni í sambærilegum málum út í heimi og maður spyr sig HVAÐ ER Í GANGI!!!!?????

Og svo man maður hvað hvað þjóðin er lítil og ung. Hvernig hún hefur aldrei farið í gegnum borgaralega byltingu, hvernig hún heldur stöðugt aftur af sér hugmyndafræðilega því hún heldur að það sem hún sé að gera sé svo stórkostlegt að hún þurfi ekkert að læra. Og þegar ég man þetta þá reyni ég að slappa af og hugsa til þess að kannski sé það bara fallegt og skemmtilegt að það sé einhver þjóð sem er svona. Að sakleysið eigi sér einhversstaðar samastað!

Þorleifur

fimmtudagur, maí 26, 2005

Góða kvöldið

Þá situr maður bara í fússi á Kaupmannahafnarflugvelli þar sem hið trausta fyrrum einokunarflugfélag Flugleiðir tókst að setja flugvélina 6 tímum of seint í loftið.

Og ekki nóg með það heldur er allt lokað og ekki kaffitár að finna (svo ég minnist nú ekki á unglingana sem eru að bíða með mér).

En það er skrítin tilfinnig að sitja á mannlausum flugvelli. Ef ég væri nú sniðugur þá myndi ég skrifa hér sögu eða eitthvað slíkt en sé ekki fram á að snilligáfan nái alveg fram í fingurgóma, allaveganna ekki í bili.

En ég er rólega að melta Berlínarferðina og hugsa um mig og leikhúsið, hvað það sé sem ég vilji sjá og hvernig best sé að koma á því á framfæri, hvaða verkfæri henti mér best og hvernig ég fari að því að ná mér í þau...

En allaveganna spennandi tímar framundan.

Bið að heilsa og hlakka til að samanda loftinu góða og fríska.

Þorleifur