laugardagur, janúar 29, 2005

Góða kvöldið

Það er eitt, og hér ætla ég að vaða út í djúpu laugina, sem vantar algerlega inn í umræðuna í íslensku leikhúsi.

Það er umræðuna um muninn á "markaðs" og "listræna" leikhúsinu (ef einhver er með betri tillögur að íslenskum nöfnum sem ná utan um þessar skilgreiningar þá væru þær vel þegnar).

Það er missklingingur að þarna sé verið að tala um betra eða verra leikhús, það er langt í frá. Munurinn liggur í tilgangi sýningarinnar eða uppákomunnar.

Er tilgangurinn fjárhagslegs eða listræns eðlis? Það er í raun skilgreiningarmunurinn á milli þessara tveggja kima leikhússins. Auðvitað getur þetta oft farið saman og því stendur eftir spurningin um hvernig eigi að skilja á milli þessara tveggja.

Við höfum séð hér á undanförnum árum uppsetningar sem eru ekkert að reyna að fela að hugmyndin að baki þeirra er að græða peninga. Þarna er ég helst að vísa til uppsetninga 3 Sagas þeirra Árna, Bjarna og Kristjáns Ra. Þeir fá stjörnur sem öllu jöfnu standa utan leikhússins í sýningar sínar með það fyrir augum að auka vinsældr sýninganna. Þeir setja sýningarnar í þannig umbúðir og markaðssetja þær með þeim hætti að ekki fer á milli mála hver tilgangurinn er. Og er það ekki bara vel? Er ekki gott að hér séu menn sem hafa áttað sig á því að leikhúsið er markaðsvara sem getur boðið upp á miklar tekjur? Önnur "þjónusta" sem þeir bjóða upp á er að við hin getum horft til þeirra sem skilgreiningaraðila þegar kemur að tilgangi markaðsleikhúsverka.

Hinum megin skalans er hægt að skoða sýningar eins og Öxina og Jörðina sem hafa það að tilgangi að endurspelga menningararfleið þjóðarinnar. Sú sýning er ekki sett um með þeim formerkjum að græða eigi þjóðleikhúsinu gífurlega peninga, það sama má segja um Héra Hérason (ég þori ekki að minnast á Hýbíli vindanna vegna fjölskyldutengsla, sem virðist fara óskaplega fyrir brjóstið á sumum) í Borgarleikhúsinu og Svik frá LA, Sögn og LR að ógleymdri frábærri sýningu Stúdentaleikhússins sem virðist hafa það að meginmarkmiði að sjökkera okkur nóg til þess að hugsa um spillingu á íslandi. Þetta eru sýningar, innlendar og erlendar, sem hugsaðar eru til þess að hafa eitthvað innlegg í umræðuna, endurspegla menningararfleið eða ástand hinnar íslensku þjóðar eða hins vestræna menningarheims.

En eru þær "listrænt" leikhús? já, segi ég. Og skilgreiningin helgast af tilgangi uppsetningarinnar. Þær hafa það ekki að meginmarkmiði að græða peninga (þó svo það gæti vel gerst).

ég tel að það sé kominn tími á að þessi umræða fari í gang. Það er íslensku leikhúsi mikilvægt að vita hvað það er að gera í hvert skipti. Og í kjölfarið má pæla í því hvort að stóru húsin eigi að vera að setja upp "markaðsleikhús" til þess að ná peningum í kassann.

Auðvitað hlýtur þessi umræða að enda í umræðunni um fjársteymi ríkisins til lista. Hvort að nóg sé gert og fyrst leikhúsin sem hljóta styrkina nota þá til markaðsuppsetninga hvort ekki sé þá umræðugrundvöllur til að svipta eða skerða við þau styrkina.

Þá umræðu er ekki hægt að slíta frá umræðunni um markaðs og listræna leikhúsið. Því að í grunninn erum við að tala um fjármagn til liststarfsemi, munur felst bara í því hvaðan fjármagnið kemur, og í hvaða tilgangi því er veitt.

Auðvitað er þetta stór umræða sem ekki hægt að flokka allt niður í frumeindir en staðreyndir er sú að hér er að skapast aðstæður sem eru fjárhagslegri framtíð leikhússins (listanna og jafnvel velferðakerfisins í heild) er stefnt í hættu og þá verður umræðan að hafa farið fram því að leikhúsið er ekki undanskilið þegar að kemur að mótun umræðunnar. Statur kvó er ekki til og það verða alltaf fylkingar sem munu berjast. Og hafi engin umræða farið fram þá er hætt við því að leikhúsfólk verði skilið eftir og geti ekki haft áhrif á framtíðar stefnumótun fjárhagslegarar og samfélagslegra stöðu leikhússins.

Bestu kveðjur og gelðilega helgi.
Ölstofunni
Þorleifur Arnarsson

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Góða kvöldið

Stutt og laggott!

Æfingar eru á fullu á AMERICAN DIPLOMACY. Verkið er allt að komast í skorður og ég hef afar mikla trú því að þetta verði boðlegt og vel það.

Við byrjum daginn á því að ræða fréttir undanfarinna daga og oftar en ekki læðast setningar og setningar úr current fréttum inn, og er jafn gaman í hvert skipti. Verki ðer einhvernveginn meira lifandi fyrir vikið og ennþá skemmtilegra að vinna það.

Hjálmar er hreinlega að fara á kostum enda er hlutverkið næstum því sérsniðið að honum. Og ekki eru aðrir leikarar að gera síðri hluti. Þannig allt í allt, gleði og gaman.

Verð að hlaupa, nóg að gera.

Bið að heilsa

Þorleifur