sunnudagur, júní 19, 2005

Góðan daginn

Já, ekki var þessi helgi mikið verri.

Ég tók 17 Júni með trompi þar sem ég og konan lögðum undir okkur hornborð í garði Hressó og sátum þar í góðu yfirlæti fram eftir degi, nutum sólarinnar og góðs félagsskapar.

Lögðum svo land undir fót og heimsóttum foreldrana í sumarhúsið í úthlíð. Þar var spáð og spegúlerað frameftir nóttu.

Snemmmorguns var svo lagt af stað að nýju og nú var horft til vesturs. Við lögðum á hálendið og ókum inn með Langjökli. Veðrið var gullfallegt og jökulinn skartaði sínu fegursta. Í fjarska blasti Eiríksjökullinn við og hófst þar skrif á löngum lista yfir þau fjöll sem við ætlum að leggja í sumar. (í hópnum eru u.þ.b. öll fjöll á suðvesturlandinu, en er krafa drauma endilega sú að rætast þurfi þeir?)

Við nikkuðum aðeins framan í Surt í helli hans í Hallmundarhrauni og smökkuðum bráðinn ís í Húsafelli. stóðum á ystu nöf við barnafoss í hvítá og dreymdum um frekari fjallasigra er Snæfellsnesið rann framhjá bílrúðunni. Að endingu runnum við ferðamóð inn á stæðið hjá vinkonu okkar, myndlistarkonunni Þórdísi Aðalsteinsdóttur sem húkt hefur í Stykkishólmi við málarí undanfarið. Þar fengum við að sjá verkin sem verða á hennar fyrstu sýningu hérlendis en hún hefur vakið töluverða athygli í New York þar sem hún býr.

Kvöldinu var slúttað með langvinntum Rommýleik að sveitamannasið þar sem Meri bar höfuð og herðar yfir keppinautana( og vakti það upp hjá ér töluverðar áhyggjur af ástarlífinu ).

Og allt þetta í fögru Íslandsveðri. ég held að fátt sé fallegra en fallegur sumardagur hérlendis.

Ég rifjaði það upp að í ferð minni um Nýja Sjáland í fyrra þá hefði manni staðið töluverð ógnun af fegurð náttúrunnar þar. En að horfa yfir ísland í þessri ferð (sem og öðrum) þá rifjaðist upp fyrir manni hvað það er sem gerir Ísland jafn ómótstæðilegt eins og raun ber vitni, það að það er ekki bara fallegt það er líka tignarlegt og hættulegt á að líta. Ekki aðeins eins og fallegt málverk heldur líka ljótt og hart, og það er þar sem sérstaða þess er. Í hættunni sem nálægðin við þessa náttúru hefur að geyma.

En ætli þetta sé ekki nóg í bili...

Þorleifur