laugardagur, mars 15, 2008

Góða kvöldið

Vinkona mín benti mér á eftirfarandi frétt á mbl.is Ég skil ekki hvernig þetta gat farið framhjá mér og er ég henni þakklátur fyrir að benda mér á hana.

Þessi frétt reitti mig verulega til reiði. Mér er óglatt, mér er illt, ég skammast mín fyrir dómstólana, næstum að ég skammist mín fyrir það að tilheyra samfélagi þar sem svona mál fá svona meðferð!

Það er næstum að maður velti fyrir sér hvort ekki væri upplagt fyrir bankaræningja, svona á leið úr vel heppnuðu ráni, að stoppa við og nauðga svo sem einn konu, það myndi líklega leiða til styttri fangelsisdóms.

Dómurinn segir að maðurinn eigi sér engar málsbætur, að hann hafi stundað ofbeldi, líkamlegt og andlegt klukkustundum saman - fyrir framan 14 ára dóttur konunnar - og vegna þess hversu hrottaleg og niðurlægjandi árásin hafi verið þyki sanngjarnt að dæma hann til 3 MÁNAÐA fangelsis og greiða henni 600.000 í miskabætur.

Hvernig getur þetta átt sér stað?

Hvar er femenistarnir núna?

Hvar er bálförin að dómshúsinu?

Hver ætlar sér að taka upp hanskann fyrir þessa greyjið konu, barn hennar og önnur fórnarlömb svona heigulsglæpa?

Það er næstum að maður sakni DV á svona tíma. Þeir myndu að minnsta kosti missa það yfir þessu?

Hvar er Kastljósið?

Maður er næsta örvæntingafullur yfir stöðunni heima. Ætla dómstólar ekkert að læra?

Þetta eru nýðingsbrot af verstu sort og það á að meðhöndla þau sem slík. Er karllægan svona mikil í lagaramma á Íslandi að nauðganir, heimilisofbeldi og misþyrmingar eru minni brot en að stela úr bókhaldskassa, stinga á sig súkkulaði í 10-11, keyra of hratt eða flytja inn dóp.

Það er ekkert samhengi og því er þetta algerlega óskiljanlegt í upplýstu samfélagi.

Nú bíður maður bara eftir enn einum dómnum þar sem tekinn er fram klæðaburður fórnarlambsins en ekki gerandans, ástand fórnarlambsins en ekki gerandans!

Það er einnig horft fram hjá allri þeirri niðurlægingu sem fylgir því að fara með svona mál dómstólaleiðina og hvað í svona dómum ætti að ýta við konum að leita réttar síns, að ganga í gegnum allt það sem fórnarlömb svona mála þurfa að ganga í gegnum. Þegar gerandinn labbar út með slap on the wrist og þarf að kaupa pulsu og kók handa fórnarlambinu.

Þetta er til skammar

Eitthvað þarf að gerast!

Hvar eru mannréttindafrömuðurnir núna?

Ég get ekki skrifað meira því að ég veit ekki hvað hægt er að segja...

Þorleifur

fimmtudagur, mars 13, 2008

Góðan daginn

Það er gott að vera kominn til baka til Berlínar eftir ferðina heim. Ég ákvað eftir Hamlet hérna úti að ég ætlaði ekki að sjá neitt leikhús heima, bara hreinsa hugann, hitta vini mína, lesa og slappa af. Og þetta hélt ég út - með nokkru drama þó...

Ekki að það væru ekki freistingar. Það vildi svo illa til að það var leiklistarfestival í gangi heima á þessum tíma sem og fullt að gerast í leikhúsinu, en ég bara hreinlega gat ekki fengið mig til þess að skella mér.

Ef það er einhver sem bjóst við að sjá mig og ég gerði það ekki, þá er það ekki persónulegt, ég varð bara að fá break frá leikhúsinu ;-)

Anyhow...

Síðan ég kom til baka hef ég aðallega verið að ganga í praktísk mál, fjármál, ganga frá reikningum, the usual. Þetta er náttúrulega óþolandi eins og gefur að skilja en víst hluti af nútíma samfélagi.

Tel reyndar að það yrði öllum tilframdráttar, ríki og borgurum, ef skattalöggjöf yrði gerð einfaldari og skilvirkari. Þetta er ótrúleg súpa sem er ekki nokkrum manni sem ekki er sérfræðingur skiljanleg.

En kannski er það tilgangurinn, ég meina, við keyrum efnahaginn á þjónustu er það ekki...

Spurning hverjum þessi þjónusta öll er til framdráttar? Þetta er í raun bara þjónusta við að útskýra hluti sem í eðli sínu ættu að vera einfaldir, en eru það ekki!

-----------

Og krónan, dont get me started! Hvað eru þessir menn þarna upp í Seðlabanka að pæla? Fljóta míkrógjaldmiðli, gera hann aðlaðandi með því að bjóða okurvexti og neita svo að viðurkenna að þetta voru mistök. Með fjármálakreppu í heiminum - og á Íslandi - þá segir það sig sjálft að vaxtastig eitt og sér stendur ekki undir áhættunni sem felst í því að kaupa krónuna.

Að halda úti gjaldmiðli á áhættufjármögnun er varla góð stefna til framtíðar, en kannski í takt við hvernig íslendingar hafa byggt upp sitt hagkerfi, sína útrás, sín viðskiptamódel.

Davíð sem startaði þessu öllu saman með góðri hjálp frá EES samningnum og gat svo ekki þolað það og hjó í Baug virðist engu að síður vera blindur gagnvart hættum þessarar fjárglæframennsku.

Í fræðunum eru menn skilgreinir spilafíklar ef þeir geta ekki náð jafnvægi milli þeirra hagsmuna sem í húfi eru (eignum) og ánægjunni af því að spila. Slíkir menn tapa húsum sínum og fjölskyldum, eignum og æru. Hin undirliggjandi þráhyggja stjórnar öllu.

Þetta er náttúrulega bölvanlegt í sjálfu sér en hvað þá þegar menn eru að spila með heimilin í landinu, sem þeir eiga ekkert í. Það er auðvelt að spila með annara manna eignir, því þá bitnar tapið ekki á þér sjálfum. Og þeim mun erfiðara er að lenda á botninum - sem er svo forsenda þess að að gefast upp og fara að takast á við vandann.

Og það versta er, maðurinn úthlutaði sér sætinu við spilaborðið sjálfur - og við borgum!

Hvers eigum við að gjalda?

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, mars 11, 2008

Góða kvöldið

Það er gaman að koma Þjóðverjum á óvart.

Í dag vorum við jósi á faraldsfæti. Lentum seint í gærkveldi í Berlín og vorum roknir af stað klukkan 7.30 (já ég veit, þetta er náttúrulega hryllilegt!) til Schwerin til þess að skoða sviðsmyndina.

Við ætlum okkur að vera mega minimalískir...

nema hvað...

Mætum við ekki í morgun, horfum á sviðsmyndina, biðjum þá að prufa eitt eða tvennt, vorum ánægðir og þökkuðum pent fyrir okkkur, settumst upp í bíl og fórum heim. Og Tjallarnir stóðu gáttaðir eftir, stysta sviðmndarprufa í sögu leikhússins.

Dramatúrginn mætti okkur er við vorum að ganga út. Viðs með alt á hreinu!

skipulag hvað!

Og nú er svo bara að anda Berlín að sér.

Bið að heilsa heim í snjóinn

Þorleifur