mánudagur, nóvember 17, 2003

Enn einu sinni er komin að styrkjatíð...

Maður á þönum, vonandi, uppgefandi, þreytandi...

En svo heldur maður bara áfram.

Þorleifur

laugardagur, nóvember 15, 2003

Hvaða, hvaða

Þetta er búin að vera mikill rússíbani, undanfarin vika það er. Framleiðandinn af verkinu sem ég er að gera dró sig í hlé sökum anna. DAgur stress og vona...

Klukkan 11 var ég komin með annan í liðið, BAldvin Þór, frænda minn og vin. Við sátum á brennslunni og það lá allt ljóst fyrir strax frá byrjun (þrátt fyrir smávægilegar mótbárur frá honum). Við vorum að fara í s0mu sæng og þvílík sæng sem það verður.

Hið Lifandi Leikhús verður leiðandi afl á Íslenskum (til að byrja með) listmarkaði og mun leggja línurnar fyrir þá sem á eftir koma. Það, eða við verðum gjaldþrota!!!


Svo er bara að rokka áfram, horfa djarfir mót vindi og slá í gegn.

BEstu kv.

Þorleifur

mánudagur, nóvember 10, 2003

SVona er það bara vinir mínir.

Lífið er alltaf fallegra og unaðsemlegra en maður þorir að vona, eða vill sjá. Eina sem þarf að gera er að vera! Vera her og nú og þá er allt alltaf allt í lagi...

Þorleifur
Sæl og bless

Þetta er búið að vera alveg stórkostlegur dagur.

Við konan reyndum að fara á söfn en þau eru öll á þeim buxunum um þessar mundir að sýna ekkert af viti.

Við fórum því heim til að þroska okkur og horfðum á alveg mergjaðan heimildamyndaþátt um eiturlyfjastríðið í Brasilíu. Alveg rosalegt. Það ríkir´víst bara stríðsástandi í fátækrahverfunum þarna. 18 ára pjakkar með M 16 og sprengjuvörpur að verja hverfið fyrir löggunni. Og svo er talað um að það ríki stundum stríðsástand í miðbænum.

SVo fæ ég ekki nóg af því að lesa skrifin hennar Dagnýjar Framsóknarungstyrnis. Hún er send sem fulltrúi Íslands, Evrópu og lýðræðisins til Georgíu og talar um land og þjóð eins og hún hafi verið send nauðug í gúlagið. Hvað er þetta. Að hegða sér eins og illa upp alinn táningur sem fær móðursýkiskast þegar hún fær ekki kók og heita sturtu í 2 daga!

Og svo slær hún út með því ða hún hafi gefið SVÍANUM harðfiskinn (af því að hann var maðurinn sem var að svelta í hel!!!).

Ég þoli ekki svona.

Þorleifur

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Annars er ég enn að bíða eftir því að Eiríkur sendi mér restina af svarbréfunum svona til þess að þessi umræað geti haldið áfram.

Bestu kv.


Þetta er dómurinn úr DV (skilaboð að handan)

Og ég ákvað að skella honum hingað ðinn svona til þess að hægt sé að bera saman.




SEM TILBIÐUR FLOKK SINN OG DEYR


Sagan um manninn sem gat ekki hætt að hugsa


Það þarf hugrekki til að setja skáldsöguna 1984 eftir George Orwell – eitt þekktasta verk vestrænna bókmennta – á svið, og það með áhugamönnum. Hugrekki gæti satt að segja verið yfirskrift sýningar Stúdentaleikhússins í Tjarnarbíói á 1984 – ástarsögu, sem frumsýnd var á föstudagskvöldið. Hugrekki í vali á atriðum, hugrekki sem felst í því að treysta ófaglærðu fólki til að framkvæma flóknar samhæfðar hreyfingar á sviðinu og syngja jafnvel um leið, og síðast en ekki síst hugrekki leikaranna sem víla ekki fyrir sér að ganga fram á ystu nöf í túlkun, hvort sem um er að ræða ástarleiki fremst á sviðsbrún, fáeina sentímetra frá áhorfendum á fremsta bekk, eða grimmilegar pyntingar sem halda áfram og áfram þannig að áhorfanda finnst að lokum sem verið sé að pynta hann.

Sýningin er órækur vottur um að þátttakendur hafa treyst leikstjóra sínum fullkomlega, þótt ungur og lítt reyndur sé. En Þorleifur Örn Arnarsson hefur gert furðumargt vel þótt ekki sé nema tæplega hálft ár síðan hann útskrifaðist úr Listaháskólanum, leiklistardeild.
Allir hafa einhverja hugmynd um efni 1984 því að fá verk er eins vinsælt að vitna í. Sagan kom út 1949, árið áður en Orwell dó úr berklum. Hann hafði verið mjög róttækur en varð æ tortryggnari á kommúnismann og eflaust er Stalín ekki síður en Hitler fyrirmyndin að „stóra bróður“ í 1984 (sem er svo flott upp settur á stóran skjá í sviðsgerðinni og fær andlit Arnars Jónssonar lánað).

Aðalpersóna verksins er Winston Smith, fótgönguliði í Flokknum (Hinrik Þór Svavarsson), ósköp venjulegur gaur og ekkert afburðasnjall eða djarfur en sem á við þá fötlun að stríða að vilja endilega halda áfram að hugsa, í stað þess að láta stóra bróður og fína liðið í Innri flokki um það. Winston kynnist Júlíu (Lára Jónsdóttir), léttlyndri stelpu sem ekki lætur bann við kynlífi trufla langanir sínar, og það óvænta gerist: Þau verða innilega ástfangin. Það er í sjálfu sér tortryggilegt, ef ekki bannað, og þegar við bætist að þau efast um rétt stóra bróður til að ráða yfir lífi þeirra og huga verður refsingin ekki umflúin.

Saga Orwells um alræðisríkið var hugsuð sem víti til varnaðar fremur en spásögn en hefur auðvitað iðulega reynst hastarlega sannspá. Þó hefur „mannsandinn“ sem Winston trúir á oft risið upp eftir langvarandi kúgun eins og sjá má ef hugsað er til þróunar í löndum eins og Sovétríkjunum og Chile. En seint verður hægt að útiloka að upp rísi nýir harðstjórar, og 1984 skírskotar óþægilega til ýmissa teikna í samfélögum okkar nú til dags, ekki síst í Bandaríkjunum.

Verk Orwells er magnað og sýning Stúdentaleikhússins er afar áhrifamikil. Sviðið ömurlegt að sjá en svínvirkar með fínni ljósabeitingu, búningar markvissir, hópsenur agaðar og leikur einstaklinga góður. Lára Jónsdóttir var Júlía á frumsýningu og fór djarflega með þessa spennandi persónu. Melkorka Óskarsdóttir, sem leikur Júlíu á móti henni, lét sér nægja að vera senuþjófur í hópsenum á frumsýningu. Friðgeir Einarsson var óhugnanlegur sem O’Brien pyntingameistari, eins og blíður en strangur faðir í heimi þar sem engin takmörk eru fyrir því sem hann má gera. Fremstur meðal jafningja var svo Hinrik Þór í aðalhlutverkinu. Maður hreinlega skilur ekki það vald sem hann hefur yfir hreyfingum, líkamsburði, látbragði og rödd, og þegar kemur að endinum – eftir þriggja tíma stím – átti hann enn eftir hápunkt þess sem leikstjórinn leggur á hann og fór eiginlega fram úr sjálfum sér.
Þetta er hápólitísk sýning sem reynir verulega á huga og augu áhorfenda. Gerðu þér ekki þann grikk að missa af henni.

Silja Aðalsteinsdóttir

Ekki verra að mogginn skyldi jafnframt byrta grein um 1984 og framtíðina í lesbókinni sama dag. Eina sem ekki gengur alveg upp er að við erum hætt að sýna verkið!

En betra seint en aldrei!

Þorleifur
Þetta er dómurinn um 1984 sem ég leikstýrði með Stúdentablaðinu nú um daginn. Ekki slæmt, sérstaklega lokasetningin.

Hún meikar jafnvel sens þessi kona, svona inn á milli, þó svo að ég hafi átt í mesta basli með að þýða textan fyrir konuna mína vegna almennrar tyrfingar hans.

Allaveganna.

LEIKLIST - Stúdentaleikhúsið

Skelfileg sýn
1984, ÁSTARSAGA

Leikgerð eftir skáldsögu George Orwells: Þorleifur Örn Arnarsson og Arndís Þórarinsdóttir; leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson; leikmyndarhönnun: Hlynur Páll Pálsson; ljósahönnun: Declan O'Driscoll; tónlistarstjóri: Jóhannes Ævar Grímsson, kórstjóri Gunnar Ben. Frumsýning í Tjarnarbíói, 24. október, 2003.


ÞAÐ liggur í loftinu, nú á tímum yfirgengilegrar velferðarneyslu og fjölmiðlavædds eftirlitssamfélags, að breyta til í leikhúsinu. Eftir nokkurra ára ofuráherslu á söngleiki, ævintýraleiki, gleði, rokk og ról velja æ fleiri leikhópar dramatísk raunsæisverk með boðskap. Á þetta sérstaklega við um yngri kynslóð þeirra sem iðka leiklist.
Stúdentaleikhúsið flytur okkur nú boðskap og skelfilega sýn George Orwells, í skáldsögunni 1984. Leikstjórinn Þorleifur og meðhöfundur hans Arndís velja ástarsöguna í sögu Orwells sem rauðan þráð leiksins og heppnast það ágætlega.

Í leikgerðinni kemur skýrt fram sú myrka sýn að ást og tilfinningar eigi ekki heima í pólitísku alræði þar sem ,,stóri bróðir kemst að öllu með hjálp tækninnar. Með því að velja ástarsöguna er ennfremur aðveldara að tengja skáldverkið nútímanum vegna þess að ástin lætur alltaf í minni pokann gagnvart valdagrimmd og - græðgi. Boðskap þessum er komið ágætlega til skila. Sýningin var sterk og áhrifamikil í heild sinni með undirtóni lífsþorsta en hann birtist einkum í firna sterkum og glæsilegum hópsenum á í stílhreinni leikmyndinni á hinu litla sviði Tjarnarbíós.

Þorleifur hefur greinilega mjög gott auga fyrir sviðslausnum og augljóst að hér er listamaður með köllun á ferð. Hins vegar má alltaf spyrja hvort rétt sé að leikstjóri stýri eigin leikgerð eða hvort ekki sé rétt að aðstoðarleikstjóri komi inn með ferska sýn en hér var meðhöfundurinn Arndís einnig aðstoðarleikstjóri. Sýningar mega alveg vera langar en mig grunar að nokkur atriði, eins og ástarsenur, pyntingar og yfirheyrslur, hefðu orðið markvissari og áhrifaríkari ef þriðja augað hefði komið að mótuninni.

Góð leikstjórnin kom einkum fram í hópsenunum þar sem heilaþvegnir flokksmeðlimir hrópuðu slagorð til heiðurs flokknum og ,,stóra bróður. Þarna kom líka í ljós kraftur leikaranna og auðvelt að hrífast með geislandi baráttuanda æskunnar á sviðinu þó svo að málstaðurinn sé miður geðslegur. Einstakir leikarar voru misjafnir eins og eðlilegt er í tuttugu og tveggja manna hópi þar sem leikreynslan er lítil. Hinrik Þór Svavarsson lék aðalpersónuna Winston Smith, sem rís gegn flokknum, fullur af fallegum réttlætisanda.

Hinrik lék vel og ekki við hann að sakast þótt persónan væri einsleit að því leyti að sjálfsvorkunn og píslarvætti einkenndi hana. Stúlkuna Júlíu, kærustu Smiths, lék annaðhvort Melkorka Óskarsdóttir eða Lára Jónsdóttir en þær eru báðar skrifaðar fyrir hlutverkinu í leikskrá. Það var synd að fá ekki upplýsingar um hvor þeirra lék á frumsýningu þar sem leikkonan hvíldi áberandi best í hlutverki sínu. Mér segir svo hugur að hún geti leikið hvaða hlutverk sem er af jafnmiklu öryggi og stillingu.

Öll umgjörð verksins var vel unnin; lýsing, leikmynd og búningar ásamt söngvunum sem færðu áhorfendur óhugnanlega nálægt íslenskum nútíma. Upplýsingar og fróðleikur í leikskrá eru til fyrirmyndar.

Í leikverkinu 1984 er mikið af þeim kraftmikla anda sem hefur fylgt Stúdentaleikhúsinu en upp úr stendur gott byrjendaverk leikstjóra framtíðarinnar, Þorleifs Arnar Arnarssonar.

Hrund Ólafsdóttir


Enn hefur Eiríkur ekki svarað mér en ég er búin að vera að fá mikið af skrítnum sms-um um að mæta hingað og þangað, nú er bara spurning hvað gerist næst, hvort portið bíði mín kalt og nöturlegt?

Annars er lítið að gerast í Þorleifsheimi, þetta verður líðandi dagur!

Þorleifur

laugardagur, nóvember 08, 2003

Ég hef enn ekki fengið bréfin frá Eiríki og get því ekki birt þau enn. Því er ég bara búin að birta hans hlið á málinu á blogginu mínu!

Skrítið nokk!

Góðar stundir

föstudagur, nóvember 07, 2003

Ég mæli með að kíkja á www.whatreallyhappened.com þetta er náttúrulega alger snilld!

enjoy
Sumsé svar mitt við síðasta bréfi hans og er nú svarbréfinu beðið með eftirvæntingu:


Eiríkur, Eiríikur, Eiríkur

Byrjum á því að leiðrétt staðreyndavillurnar í bréfinu þínu áður en að við förum að tala um hugvillurnar.

50 % eða meira af textanum sem þú heyrðir í Tjarnarbíó þetta kvöld var frumsaminn og þar af leiðandi var ekki verið að endursegja eitt eða neitt.

Winston og þá sérstaklega Júlía voru endurskrifuð að miklu leyti til að spegla sitt hvora hlið mannsins sem samt er bundin saman af ást. Winston er hugsjónamaðurinn sem er rekinn ástarinnar vegna til að trúa á stærri sannleik, vona að hann geti átt þátt í því að breyta heiminum. Hins vegar er Júlía sem e.t.v. hvatti hann til aðgerða gegn flokknum en er sjálf búin að læra það að það er hægt að lifa í þessum heimi þrátt fyrir allar hömlurnar. Maður þurfi bara að spila með og þá geti maður notið því sem eftir er. Þegar svo Winston vill fara að berjast vill Júlía bara elska og því hrakti sama ástin þau í sitt hvora áttina en samt var hún ein og sú sama. Þetta er varla að finna í bók Orwell's, þar eru þau aðallega að rífast um smáatriði eða ríða eins og kanínur. Þess að auki var mikið krukkað í textunum í yfirheyrslunum og á miklu fleiri stöðum þannig að endursögn er það ekki.

Og hvað væri af því ef svo væri. Að segja að þá gæti fólk bara farið á Landsbókasafnið og leigt sér bókina gefur í skyn að þú haldir að leikhús og bókmenntaformið sé eitt og hið sama. En svo er langt í frá. Nú nenni ég ekki að fara út í bókmenntalegar skilgreiningar, þær geturðu fundið á bókasafninu, en svona í stuttu máli má segja að bókina les maður og ímyndar sér aðstæður, í leikhúsinu sér maður aðstæður, persónur, líf og dauða og það er allt að gerast rétt við nefið á manni. Til þess að hægt sé að njóta þess verður maður að gefa sig því á vald og setjast svo niður eftir á og opna fyrir hvort maður hafi notið þess eða ekki.

Ég sagði aldrei að alræðið sé altækt en ég er á því að maður kunni jafn illa að fara með vald núna eins og þá. Orwell er ekki að fjalla um kommúnista heldur manninn vs. valdið. ÞAð er það sem þú neitar að sjá. Eða hefur mannlegt eðli tekið stökkbreytingum undanfarin ár svo að þetta stríð er umfjölllunarefni sem ekki lengur á við?

Víst hef ég rétt til að skilgreina mína list. SVo er það ekki mitt hvort þið lásuð það sama út úr henni og ég, en ég hef rétt til að fjalla um hana eins og mér sýnist. Hitt er svo aftur annað mál hvort slíkt myndi teljast sniðugt, en það er önnur umræða.

Eigum við sumsé að henda Sheikspír í ruslið þar sem hann á ekki við um þennan tíma, Joyce, Beckett, Byron, Thekov, Dostojevski, tolstoy, steinbeck, miller (nema nýjasta stykkinun sem hann reyndar skrifar um Marlin Monroe, ætti að henda því, nýtt um gamalt?) ja´og bara öllum sem ekki voru skrifaðir fyrir hádegi.

Sumsé, það ert þú, ekki ég, sem ert fastur í gömlum kreddum og ég vona að framtíðarsýn þín listunum til handa nái aldrei fram að ganga.

Bestu kv.

Þorleifur
Ég er ekki með það sem ég skráði enda er þessi deila lengri en mig minnti en ég er með svarbréf mitt við þessu og kemur það hér á eftir:



Nei Þorleifur.

Grundvallarspurningin er sú, hvort maður eigi að kaupa það að alræðið sé
alltaf eins. Hvort alræðið nú sé það sama og það var 1949, og hvort að sá
skilningur sem dugði þá (og gerir það að verkum að bókin 1984 er relevant
(þá sem samtímapólitískt verk, og nú sem sagnfræði) dugi nú. Ég er hreinlega
á því að við lifum í allt öðru kerfi (það er kerfi stýringar, en ekki ögunar
eins og þá), og til að fá fram boðskap bókarinnar, þurfi maður að taka mið
af því. Taka mið af breyttum aðstæðum.

Þú segir að alræðið sé altækt, að ögunarhugmyndin frá 1949 sé relevant í
nútímanum. Ég segi að hún sé það ekki. Að hér þurfi að bæta við.

Júlía kom nóta bene vel út, best allra karakterana.

Þekki ekki fjandmann fólksins, en ég er alls ekki viss um að ég hefði ekki
bara hreinlega verið sammála þér. Og hefði orðið fyrir jafn miklum
vonbrigðum með Bush á skjánum, og flokkinn sem repúblikana. Enda væru það
bara léleg, og ódýr stílbrögð.

Mér datt reyndar í hug hvort ekki mætti líkja þessu dálæti á sýningunni, það
er þessu hatri sem kviknaði hjá þessu samtíðarfólki foreldra þinna, gagnvart
ögunaralræðinu (sem er löngu dautt, og allir löngu lausir við, og þar af
leiðandi ekki til), sumsé hvort ekki mætti líkja þessu við hate-session gegn
Goldstein. Og þar er kannski komin relevant tenging við nútímann. Og nokkuð
góður gjörningur, myndirðu lýsa hann upp.

Það var smásaga eftir Borges sem fjallaði um 20 aldar mann sem endurskrifaði
Don Kíkóta, orð fyrir orð. Hún var nákvæmlega eins, upp á bókstaf. Og í
smásögunni, sem var í ritgerðarformi um þennan seinni tíma Don Kíkóta, er
bókinni lýst sem stórkostlegu meistaraverki - og miklu merkilegra en Don
Kíkóta Cervantesar, því hér leiki 20.aldar maðurinn sér að því að setja sig
inn í 18.aldar hugsunarhátt, og bregði stílnum fyrir sig eins og hetja. Hér
er auðvitað um napra kaldhæðni að ræða. En þetta snertir helvíti nálægt því
sem mér þótti um leikritið. Að endursegja söguna formálalaust 54 árum
seinna? Til hvers?

Það sem ég er að stunda akkúrat hérna, er ekki list, heldur gagnrýni, sem á
meira skylt við vísindi en list, þó hún sé í raun hvorugt. Þetta er skoðun.

Aukinheldur þá hefur þú ekki rétt til að skilgreina list. Hreinlega.

Þegar ég er að koma með uppástungur að breytingum, er ég ekki að segja að
leikritið ætti að flytja á einn eða annan máta. Ég er hreinlega að benda á
að mörgu má breyta, það er þitt að ákveða hvað það er. Ég vil bara ekki að
þú endursegir söguna formála- og breytingarlaust. Það er óþarfi að þylja
hana, bókin gerir það sjálf, og þú bætir engri merkingu við hana.

Og loks: 1984 er til á landsbókasafninu. Ef þú ætlar ekki að gera neitt með
hana, annað en að klifa á sögunni, þá mæli ég með því að þú leyfir henni
bara gista hillurnar, og hvetjir fólk til að fá hana að láni annað veifið.

kveðja,

Eiríkur
AFtur vantar svar mitt sem mun birtast innan skamms




Blessaður aftur,

Jú, það er einmitt svipað með bréfið og ljóðin mín. Meira að segja koma þau
eins út. Ljóðin mín eru bölvað helvítis hroðans kraðak, og gagnrýnendur eru
á eitt um að ég sé að hneyksla hneykslunarinnar vegna, endurframleiða
endurframleiðslunnar vegna, og reykspóli svo í hjólförum úrsérgenginnar
framúrstefnu, og vaði reykinn í hringi. En af einhverjum orsökum, þá hefur
fólk samt alltaf helvíti mikið um þau að segja, sem er gaman. Og mér finnst
óhugnanlega gaman að skrifa þau. It's a win-win situation, eins og einhver
sagði.

En allavega. Í grunninn sýnist mér ágreiningsmálið vera spurningin um hið
altæka einræði. Og þá vísa ég aftur í þá merku menn Hardt og Negri:
"Hugmyndirnar um "alræði" sem voru mótaðar á tímum kalda stríðsins hafa
reynst vera gagnleg áróðursverkfæri en algjörlega ófullnægjandi
greiningartæki og leitt til háskalegra rannsóknarréttaraðferða og skaðlegra
siðferðisröksemda. Það ætti að líta með skömm á og hiklaust fleygja
fjölmörgum bókahillum okkar sem eru fullar af greiningum á alræði."

Og vil þá meina að þeirra orð hafi skipt meira í bréfi mínu, en öll mín orð
til samans (enda magn ekki það sama og gæði, og ég oft á tíðum málóður).

Kannski er þetta líka sami hugsunarháttur og að 2+2 séu ófrávíkjanlega
fjórir. Að sannleikurinn sé þannig að hann sé eins 1949, 1984 og 2003. Að
alræðið sé eitt, og sannleikurinn einn. Ef það er þín hugsun, þá skilur
okkur hreinlega að á þeim stað. Sannleikurinn er nefnilega ekki fasti,
brahma er fljótandi, brahma er allt. Eins og Whitman orðaði það í Leaves of
Grass: "Er ég í mótsögn við sjálfan mig? Jæja þá, þá er ég í mótsögn við
sjálfan mig. Ég inniheld mergðir (multitudes)." Og ég orti svo einhverju
síðar "ég er aldrei beinlínis í mótsögn við sjálfan mig. Ég er einungis fær
um að segja eitt í einu." Sannleikurinn er nefnilega ekki bara margvíður,
hann er næstum því allt. Þess vegna stenst það fullt eins vel að 2+2 séu 4,
og að 2+2 séu gíraffi.

Hitt er bara hreinlega að bókin 1984 talaði til mín, ég ældi líka í síðasta
kaflanum (sem þú nóta bene slepptir) - á meðan leikritið 1984- ástarsaga,
talaði ekki til mín, náði engum kontakt (að undanskildu byrjunaratriðinu).
Mögulega má rekja það til þess að Orwell notar vísanir úr samtíma sem hann
skilur, á meðan Arnarson og Þórarinsdóttir nota vísanir úr samtíma sem
Orwell skilur. Þannig verður Orwell lifandi, en Arnarson og Þórarinsdóttir
ná ekki það langt. Mín var að einhverju leyti freistað að rekja tengslaleysi
leikritsins við þá staðreynd að ég þekki bókina, og leikritið var vissulega
ekki að bæta neinu við hana, en svo gengur það auðvitað ekki upp, því ég hef
marglesið bókina, og æli alltaf í lokakaflanum.

Ég neita að kenna neinu öðru um en leikgerðinni, því allt annað sem mér
dettur í hug var vel gert.

Griffludæmið var grín, þetta var brandari sem við Davíð Kristinsson vorum að
fíflast með í hléinu. Ekki arða af alvöru í orðum mínum. Reyndar er ég ekki
svo viss um að það gengi gegn því sem verkið fjallar um. Verkið fjallar
stærstum þræði um konformisma, og þjóðfélagsþvinganir. Tískubylgjur ganga
svo sannarlega inn í þann fasisma.

Að sjálfstæðisflokkurinn eigi mikið skylt með nasistum eða kommúnistum?
Ímynd nasistana var hörð, ímynd Adolfs var ímynd manns sem mátti yggla
brýrnar, og manns sem mátti æpa (hugsaðu þér Davíð með höndina á lofti,
æpandi slagorð, og þá sérðu strax hvar skilur endanlega milli
sjálfstæðisfagurfræði og nasískrar fagurfræði (á íslandi á nasísk fagurfræði
miklu meira upp á pallborðið hjá VG en sjálfstæðisflokknum). Skipulagsfræði
kommúnista? Ráðstjórnarríkin voru byggð upp á endalausri bjúrókrasíu, miklu
meiri en við getum með góðu móti ímyndað okkur. Það er ekki nóg með að
sjötti hver maður í DDR hafi verið njósnari, nánast hver einasti kjaftur í
sovétríkjunum sat í einhvers konar ráði sem átti að ráða einhverju, sem það
svo auðvitað réð ekki, af því bjúrókrasían ræður sér alltaf sjálf.
Bjúrókrasían er fyrst og síðast neitandi afl. Trotskí kallaði þetta "alræði
skrifræðisins". Ég hef bara hreinlega ekki orðið var við þetta á Íslandi,
nema kannski helst í skylduáskrift RÚV (sem ég er reyndar hlynntur, eða
svona, ég myndi kannski ekki koma henni á, en mér finnst fínt hún sé til).
1984-ástarsaga hefur kannski verið ádeila á arnarmerki sjálfstæðisflokksins
annars vegar, og skylduáskrift að Rúv hinsvegar. Það væri nú saga til næsta
bæjar.

Ég held ég hafi verið of upptekinn af að horfa á hana Katrínu vinkonu mína
totta gaurinn, til að veita fyrirlestrum um dýrðleik skírlífisins athygli.
Reyndar hefur mér alltaf þótt merkilegt þetta með Brave New World og 1984,
sem kallast svo sterkt á, að í 1984 skyldi skírlífið vera allsráðandi, á
meðan lauslæti er einmitt félagsleg skylda í Brave New World. Mögulega má
rekja þennan mun til þess að á meðan Orwell var frekar myndarlegur og
sjarmerandi maður, þá var Huxley víst frámunalega ljótur, og einhver ástkona
hans lýsti mökum við hann á þann máta að það væri eins og að fá ofan á sig
tvö hundruð kílóa slímuga marglyttu.

En já, það sem skiptir hinsvegar öllu máli í þessu, svo ég endurtaki það, er
að mér þykir 1984 mögnuð bók, en lélegt leikrit.

Ást og kossar,

Eiríkur

ps. þigg kaffibollann. Kemst reyndar ekkert í kvöld, þar sem ég er að lesa
upp úr Heimsku Hvítu Körlunum á Súfistanum, en við verðum bara í bandi, og
ég þjarma út úr þér bolla alveg á næstunni.

pps. þess má reyndar geta að ég hef algert yndi af því að rífast, og gæti
haldið þessu áfram þar til frýs í helvíti. En við erum báðir uppteknir menn,
svo við skulum fara okkur varlega.
Hér fyrir framan vantar svarbréf mitt til hans eftir að hafa lesið dóminn þar sem mér fannst stórlega vegið að mér og Dúnju meðhöfundi mínum. Oftar en ekki má lesa af svörum hans hvað ég sagði en verður þá að hafa í huga að hann afbakar merkingu orða minna oftar en ekki og ég notaði móður mína ekki sem dæmi um manneskju sem naut sýningarinnar heldur fólk af hennar kynslóð sem upplifði kommúnismann í Sovét.

En hér er sumsé hans fyrsta svar:


Tja, Þorleifur, leikhúsið hlýtur nú allavega að eiga metta mann, þó maður
setji steikina upp í sig sjálfur. Það sem ég var að kvarta undan var ekki að
kjúklingur væri ekki bragðgóður fugl, en það er alveg sama hversu vel hann
er kryddaður, ef það er ekkert utan á beinunum þá endist maður ekki lengi í
að naga hann.

Auðvitað er þetta ekki spurning um að fara eina leið eða aðra, heldur að
fara einhverja leið. Segja eitthvað.

Ég tek að sjálfsögðu ekki mark á því þó mamma þín hafi skemmt sér vel á
sýningunni. Reyndar væri mér sama þó ég væri einn um mína skoðun (sem ég þó
er alls ekki - hef meira að segja fengið fleiri en eitt hrós í tölvupósti
fyrir þennan litla pistil), því mér hefur sýnst fólk aðallega verið upptekið
af því í leikhúsi að skemmta sér vel. Sem er ágætt, en ekki það róttæka
leikhús sem ég vildi helst sjá. Íslenskt leikhús þarf náttúrulega helst á
flengingasérfræðingum að halda (bæði til að flengja og vera flengdir). Þegar
ég fór á þennan blessaða Kirsuberjagarð, í uppsetningu einhvers eistnesks
Tsjekov-spesíalista, fyrir eins og um þremur árum, þá man ég ekki betur en
fólk hafi skemmt sér rosa vel (enda þorir enginn að segja að Tsjekov geti
verið leiðinlegur). Allir nema ég, Haukur, Viðar og Dóri, sem vorum næstum
því gengnir út í hléi. Ég held það hafi bara verið þrjóskan og miðaverðið
sem fengu okkur til að gefa þessu séns eftir hlé. Okkur lá bókstaflega við
uppköstum eftir sýninguna, enda var hún tilgerðarleg út í eitt. Viðar hefur
einmitt stundum sagt mér frá leikhúsferðum sínum um tíðina, með foreldrum
sínum, en þá er alltaf farið heim eftir sýningu, fengið sér smá rauðvín, og
sýningin svo rædd. Nema hvað öll neikvæðni er alltaf kæfð í fæðingu. Þannig
skemmtu sér allir alltaf vel á þeim leiksýningum sem Viðar fór á sem barn.

Hugarflug áhorfenda? Jú vissulega þarf það að vera til staðar. En það verður
að hafa eitthvað til að styðja sig við, annað en almenna velvild gagnvart
leikhúsinu, eða þér.

Svo má vel vera að ég sé að gera of miklar kröfur til stúdentaleikhúss. Ég
hafði bara mínar væntingar.

Ég gleymdi einum punkti varðandi sýninguna, sem mér var bent á að væri
svolítið fyndinn (ég reyndar sleppti öðrum fyndnum, sem er freudíska
greiningin á því að faðir leikstjórans skyldi vera Stóri Bróðir, augun sem
skömmuðu Þorleif fyrir að læðast í smákökuboxið, voru augu SB) sem var þetta
með þvingaða uppklappið í lokin. Nú er þetta ekkert sem er bara á 1984.
Þvingaða uppklappið er alltaf allstaðar, og gerir mig snarvitlausan. Verk
þarf að vera helvíti slappt til að fá ekki tvö uppklöpp hið minnsta (enda
ættingjar í salnum, kannski). Út af fyrir sig má lifa með þessu, en á eftir
1984, sem snýst allt um conformity, og reglu, þá verður þetta alveg
hysterískt fyndið. Þessi hjarðhegðun sem margfalda uppklappið er í ákveðnum
kreðsum, þar sem ákveðið hefur verið að uppklapp verði að vera svolítið
hressilegt. Leikhús og klassískir tónleikar. Og svo auðvitað uppklappslagið
á tónleikum rokksveitar sem er þekkt, þó hún sé bara oggu þekkt.

Annað, úr einhverri mögnuðustu bók samtímans, Empire, eftir þá Michael Hardt
og Antonio Negri (kommúnistaávarp hins póstmóderníska dags):

"Hugmyndirnar um "alræði" sem voru mótaðar á tímum kalda stríðsins hafa
reynst vera gagnleg áróðursverkfæri en algjörlega ófullnægjandi
greiningartæki og leitt til háskalegra rannsóknarréttaraðferða og skaðlegra
siðferðisröksemda. Það ætti að líta með skömm á og hiklaust fleygja
fjölmörgum bókahillum okkar sem eru fullar af greiningum á alræði."

(þýðing Viðars Þorsteinssonar fyrir næsta Hug)

Ég er ekki að segja þú eigir að nútímavæða til að fólk skilji
alræðispælinguna. Ég er að segja að alræðispælingin, eins og hún kemur fram
í bæði bók og leikriti, er banal í dag. Vegna þess að alræðið, að því leyti
sem það er til, er hreinlega allt annað í dag - og á EKKERT skylt við þetta
kúgunaralræði sósíalismans.

Þú segist ekki vilja mata fólk, að þú viljir að það túlki sjálft. Þetta
finnst mér frekar billeg undanfærsla. Þú gætir sett mann upp á svið í tvo
tíma og látið hann endurtaka sama orðið "lauf, lauf, lauf, lauf" og gert svo
tilkall til þess í viðtölum og í leikskrá, að verkið sé samtímapólitískt, sé
að segja eitthvað mikilvægt í samfélaginu. Og svo þegar ég sé það ekki, þá
geturðu alltaf sagt: "Maður fær greitt í samræmi við það sem maður leggur á
sig."

Pyntingar allra tíma, skipta ekki máli. Pynting dagsins í dag er fjarlæg og
við firrt henni. Stóra bróðurs samfélagið í dag pyntar ekki þegna sína,
heldur drekkir það þeim í vellystingum, til að þeir láti vera að finna að
gjörðum þeirra annars staðar. Hvort heldur það er gegn verkamönnum í eigin
landi, Mcborgara-flippurum, eða Nike-saumabörnum í þeim löndum sem standa
utan við Stóra Bróðurs samfélagið (í malasíu hefur enginn t.d. heyrt um Big
Brother sjónvarpsseríuna, eða raunveruleikasjónvarp yfir höfuð).

Reyndar þótti mér líka misráðið af þér að hafa þessa pyntingarsenu svona
einhæfa og langa (var eins og önnur hver b-mynd sem ég hef séð um ævina).
Eitt er að gera það með virkilega góðum atvinnuleikurum, en að gera það með
amatörum fannst mér hryllingur. Ég geispaði hreinlega yfir vælinu í Winston
(sem nóta bene hafði löngu tapað allri samúð). Ég sleppti því að minnast á
þetta í greininni af virðingu fyrir leikurunum, sem kontróleruðu allar aðrar
senur, en réðu ekkert við að gera neitt úr þessari pyntingalangloku
(auðvitað var Maggi frændi samt framúrskarandi, leiftrandi og ég veit ekki
hvað og hvað).

Ekki mata fólk á merkingu. Mér er svolítið hugsað til þessarar setningar,
því hún gengur ansi nærri því að vera skilgreiningarhugtak fyrir banalitet.
Listamaður matar fólk á merkingu, og treystir svo fólkinu til að skilja,
misskilja, túlka, og svara þeim hugmyndum, þeirri merkingu, sem hann bauð
þeim til átu.

Ég tek á mig fulla ábyrgð þegar ljóðin mín misskiljast. Og treystu mér, þau
hafa hryllilega tilhneigingu til að misskiljast. En ábyrgðin hlýtur að
liggja hjá mér, ég er sá sem er að túlka veruleikann í ljóðum mínum, og hafi
ég klúðrað einhverjum forsendum, þá hlýt ég að bera ábyrgð á því. Svo kemur
náttúrulega hitt að maður getur aldrei skrifað svo allir skilji, og þá er að
velja og hafna. Hverjir vil ég að skilji ljóðið.

Orwell skrifaði af pólitískri ástríðu, beinlínis til að kallast á við
heiminn sem hann lifði í. "Desire to push the world in a certain direction,
to alter other peoples' idea of the kind of society that they should strive
after [...] When I sit down to write a book, I do not say to myself, "I am
going to produce a work of art." I write it because there is some lie that I
want to expose, some fact to which I want to draw attention, and my initial
concern is to get a hearing." Stendur í ritgerðinni "Why I write" eftir
meistarann. 1984, og sú sýn sem þar birtist, á við um samfélagið 1948,
eftirstríðsárin. Og því sést staður allstaðar. Þú kýst að halda þessu, til
að sýna, hvað best ég get skilið, að pyntarinn sé alltaf eins. En svo er það
náttúrulega vitleysa. Stóra Bróðurs þjóðfélagið sem við lifum í, stóra
bróðurs-þjóðfélagið sem endurskrifaði Íraks-stríðið, setur upp
eftirlitsmyndavélar á öllum hornum, framleiðir raunveruleikasjónvarp, er
andsnúið kynlífi (þó það sé hlynnt mildri-erótík), og er troðfullt af alls
kyns þverstæðum - þetta þjóðfélag á sér samsvörun í 1984, en með því að
horfa framhjá því hversu eðli þess er annað en það sem Orwell ímyndaði sér,
með því að horfa framhjá því að svipan er ekki svipa, heldur fjaðurbrúskur,
og hann gellur ekki á bossum pöpulsins heldur strýkur hann ljúft og
krefjandi í ástúðarblossa, með því að horfa framhjá þessu í uppsetningu á
1984 árið 2003, ertu að svíkja anda verksins, sem er beinpólitískur, og
gerist þess í stað sekur um banalitet í nafni klassisisma.

Ég vona að þú skiljir af ofangreindu málsgreinakraðaki (bréfið er skrifað í
nokkrum hollum, á pásum í hlaupum frá vinnu í viðtöl í stríðsbókadreifingu í
matarboð hjá ættingjum) hvers vegna mér er ófært að samþykkja að 1984 -
ástarsaga, eigi tilkall til einhverskonar relevans í þjóðfélaginu. Og hvers
vegna mér (og Orwell) er annt um að verk hafi merkingu, að þau séu ekki
hlutlaus karakter sem meðborgurum beri að vega og meta á estetískum
grundvelli einvörðungu, heldur séu þau hárbeint vopn sem maður beitir í
pólitískum tilgangi (og metast auðvitað líka á estetískum grundvelli). Nú
vil ég benda á, að ég er ekki að tala um verk sem predika. Ég er ekki
hrifnari af predikunum frekar en hver annar (nema auðvitað í greinum og
dómum um verk, sem eru predikanir í eðli sínu, og afskaplega ólistrænar).
Verk á ekki að SEGJA manni hvað maður Á að vera að hugsa. Það á að fleygja í
mann nýjum skilningi á heiminum, og láta mann svo um að túlka hann sjálfur.

Orwell segist í eðli sínu ekki vera pólitískur maður, heldur hafi samtími
hans krafist þess af mönnum að þeir brygðust við honum. Samtími okkar gerir
það sama. Hann skrifaði árið 1936 (og það birtist í áðurnefndri ritgerð)

I dreamt I dwelt in marble halls,
And woke to find it true;
I wasn't born for an age like this;
Was Smith? Was Jones? Were you?

Samtíminn er hryllilegur, raunveruleiki samtímans er jafnvel skelfilegri en
fantasía Orwells. Því það er vissulega hægt að sjá fyrir sér að Flokknum
megi velta úr sessi. Þar er valdið eitt, einfalt, grimmt og allsráðandi. En
eins og með önnur slík gamaldags kúgunarveldi, er það nægilega vel
skilgreint til að geta hrunið, sem var akkilesarhæll sósíalíska alræðisins.
Það hafði fætur, og fætur má fella. Hið kapítalíska alræði, stóri bróðir
nútímans, hefur ekki fætur, hann hefur rísóm-rætur, margfaldar langar
teygðar sem nærast á öllu, öllum, allstaðar. Höggvirðu einn anga, deyr einn
próletar, svo að segja, höggvirðu þá alla, deyja allir próletar. Hið
kapítalíska einræði er gangandi þversögn, sem getur ekki leystst, það er
steinninn hans Sisifosar og hvönnin hans Þorgeirs í Gerplu.

Eina leiðin til að gera út af við þversagnir er að benda á þær nógu oft og
kröftuglega til að heimurinn geri sér grein fyrir þeim.

kær kveðja,

Eiríkur

ps. sjálfsagt hefði ég átt að reyna að meitla þessar hugmyndir hér að ofan í
færri og hnitmiðaðri pælingar, en ég hef hreinlega ekki tíma, og læt því
vera þó ég hafi riðið húsum en ekki hugsað knappt.
SVo ég gleymi því ekki þá er hér dómurinn sem Eiríkur birti á www.nyhil.com og markaði upphaf ritdeilunnar:



Leikritið er byggt á einhverri alræmdustu skáldsögu 20. aldarinnar, 1984, eftir George Orwell. Bókin er skrifuð 1948, gefin út 1949, og er ádeila á Stalín-tímabil Sovétríkjanna, og alræðisstjórn almennt. Einhverslags alræðis-sósíalísk fantasía, sem tekur sér ýmsar fyrirmyndir úr samtíð höfundar, kallast sterkt á við skort seinni heimstyrjaldarinnar t.d., og gyðingahatur - er skrifuð á módernískum tímum, af sósíal-realískum höfundi, sem sést vel í einni af lykilsetningum bókarinnar, þegar Winston skrifar í dagbókina sína "Frelsi er frelsi til að segja að 2 plús 2 séu 4, allt annað kemur af sjálfu sér" (ef ég man tilvitnunina rétt, efnislega allavega, er hún rétt). Þetta er auðvitað argasta vitleysa, og vitleysa sem einungis módernískur hugsuður gæti leyft sér, einhverslags crómagnon maður af síðustu öld, og eina ástæðan fyrir að honum leyfist það er nákvæmlega vegna þess að hann tilheyrir þessari kynslóð crómagnon módernicus, og vissi ekki betur. Frelsi er frelsi til að segja að 2 plús 2 sé hvað það sem maður vill segja að það sé. 3, 5, gíraffi eða hvað sem er. Að þessu leyti voru yfirvöld í 1984 nær Sannleikanum en Winston.

En allavega, að leikritinu. Ég heyrði í leikstjóranum í Víðsjá fyrir mörgum mánuðum síðan, þegar hann var að leikstýra Lifandi Leikhúsi, og einmitt að kalla á lifandi leikhús. Leikhús sem væri pólitískt í samtíma sínum, lifði og tifaði með nýskeðum stundum, lagði áherslu á að leikhúsið þyrfti að vera ferskt, höfundarnir með á nótunum, og leikararnir alltaf að gerast. Ég stóð á öndinni, eftir að hafa gefist upp á íslensku leikhúsi á einhverju tilgerðarlegasta ógeði sem ég hef séð skríða á fjalirnar (með harmkvælum og ekkasogum, trúið mér) Kirsuberjagarðinum eftir Tsjékov (ég hef ekkert á móti stykkinu, það var uppsetningin sem var viðbjóður), hugsaði ég með mér að nú gæti ég loksins aftur farið að stunda leikhús, jibbí skibbí!!!

Nú í sumar, á menningarnótt, sá ég Þorleif setja upp nokkur verk í Iðnó, fimm stutt verk eftir fimm höfunda, þrjár rammpólitískar satírur og tvö væmin dramastykki (sem höfðuðu því miður lítið til mín, en áttu kannski betur við hjá öðrum). Ég stóð á öndinni, þetta var hreinlega betra en ég hafði átt von á. Uppsetningin var öll stórsniðug, öll sviðsvinna var með skemmtilegasta móti, og þrjú af fimm verkum voru relevant í samtíma sínum, voru að segja eitthvað við mig og fólkið í kringum mig, þar sem við stóðum í þessum sporum þá (reyndar mætti sýna þessi stykki aftur, ekkert hefur leystst í þessum vandamálum síðan í sumar). Og ég fór skælbrosandi út.

Ég var því allur á nálum að komast á sýningu, þegar ég frétti að Þorleifur væri að leikstýra stúdentaleikhúsinu í eigin leikgerð á 1984. Bæði þykir mér mjög vænt um skáldsöguna, og hafði og hef mikla trú á Þorleifi sem leikstjóra. Auk þess hafði ég heyrt hann tala um hversu 1984-fantasía Orwells stæði nærri okkar nútíma, hversu margt í bókinni kallaði til okkar í dag, eða eins og hann segir í Ávarpi leikstjóra í sýningarskrá "Það getur vel verið að Orwell hafi ekki skrifað 1984 sem dimma framtíðarspá. Hinsvegar er svo komið, hvort sem um er að kenna honum [???] eða framvindu mannkynssögunnar, að heimurinn er sterklega farinn að kallast á við hugarheim skáldsins. [...] Það er því ekki að ástæðulausu sem Stúdentaleikhúsið afréð að sviðsetja bókina. Verkið er ádeila á ríkjandi stjórnvöld, innlend sem erlend, og viðvörun um það hvernig valdið fer með manninn, og maðurinn með völdin."

Það er ekki laust við að maður fái fiðring í magann.

Þá byrjar sýningin. Brjálæðislegt byrjunaratriði sem virðist vera einhvers konar martröð Winstons, náði rosalegu mómentum, og ég taldi mig algerlega kolfallinn, hristi höfuðið og hugsaði "þessi Þorleifur, hann er nú alveg ótrúlegur..." Það er ofsalegur hávaði í þessari senu, og Winston er sparkað til og frá af meðlimum Innri Flokks, og í a.m.k. eitt skipti reyna meðlimir Ytri Flokks að rífa hann í sig. Og maður skelfur í sætinu.

En svo missir sýningin dampinn, án þess að ná honum nokkurntímann alveg aftur. Eins og í Iðnó í sumar var öll sviðsvinna mjög flott. Senur þar sem tíminn frýs, og Winston deilir hugsunum sínum með áhorfendum, voru mjög vel útfærðar. Sömuleiðis mætti nefna skólaborðin sem leikarar snúa um sviðið fram og aftur til að breyta vinnustað í matsal og aftur í vinnusal. Stór og mikill rammi, sem var utan um eftirlitsskjá sem enginn vissi af, fellur yfir elskendurna Júlíu og Winston þegar hugsanalögreglan nær þeim í leynilega ástarhreiðrinu þeirra, og ramminn verður svo að fangelsi Winstons. Og svona atriði voru ótal mörg, sniðug og vel útfærð. Smekkleg meira að segja.

Leikurinn var fínn, Melkorka Óskarsdóttir, Hinrik Þór Svavarson og Friðgeir Einarsson stóðu sig með mikilli prýði, sem og aðrir leikendur. Tónlistin var fín. Lýsingin fór í pirrurnar á mér, en náði vel að lýsa þessum sósíalíska yfirheyrsluanda. Leikstjórn Þorleifs var meira að segja mjög góð. Það er hinsvegar þetta blessaða handrit sem eyðileggur leikritið, og er skömm gagnvart vinnu þeirra sem lögðu greinilega mikið á sig til að setja upp gott leikrit.

Ástarsagan, sem lagt er upp með sem áhersluatriði (og þess vegna fær verkið undirtitilinn -ástarsaga), kemst mjög takmarkað til skila. Júlía er lauslát stelpa sem ríður karlmönnum til að ná sér niðri á flokknum, og svo ríður hún Winston, og alltíeinu, eins og upp úr þurru, fellur hún fyrir þessu vælandi rekaldi sem Winston er. Winston virkar ekki sem sterkur einstaklingur í leikritinu, eins og hann gerir í bókinni, og þar af leiðandi skilur maður engan veginn að hinn feikisterka Júlía, þessi kona sem berst gegn ofurveldinu með því vopni sem flokknum þykir ógeðslegast, þ.e. léttúðinni, skuli falla fyrir þessum sígrenjandi smákrakka sem Winston gefur sig út fyrir að vera í leikritinu.

En það versta við þetta alltsaman er hversu tengingin við samtímann hrynur. Skáldsagan 1984 var pólitískt relevant árið 1949, hún talaði til síns samtíma. Að setja upp leikrit úr bókinni árið 2003, með þeim formerkjum að verkið eigi mikið og brýnt erindi við samtíma sinn, lýsi jafnvel heiminum sem við lifum í akkúrat núna með einhverju forspárgildi - og gera það svo án breytinga á söguheimi, er banalt. Mér leiðist að þurfa að benda Þorleifi á hið augljósa, en Stalín er dauður og Sovétríkin eru fallin. Og þetta stykki sem ég sá á sunnudaginn var gagnrýni á Stalín og Sovétríkin, sá þungi leiðtogi sem starði af skjánum var ekki landsfaðir nútímans, það var leiðtogi samkvæmt sósíalískri fagurfræði. Þetta voru þungu augun, hinn sterki, agabeitandi leiðtogi sem leysir vandamál skortsins. Ekki Davíð eða Bush (sem leysa vandamál gnægðarinnar og offramleiðslunnar) sem þó eru þeir Stóru Bræður sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Sósíalísku áherslurnar halda sér allstaðar. Meðlimir ytri flokks eru í verksmiðjubúningum, meðlimir innri flokks í jakkafötum (sovét). Maístjarnan kemur nokkrum sinnum fyrir sem einhverslags byltingarsöngur númer eitt. Hlýðni borgaranna (sem ævinlega eru nefndir "félagar") kemur fyrir sakir aga. Þeir eru barðir til hlýðni, og svo hlýða þeir af því það hefur verið barið í þá að Stóri Bróðir viti mest og best, að málstaðurinn sé alltaf réttur. Í samtíma mínum hlýðir fólk vegna þess að það er tælt til þess að hlýða. Eða tælt til þess að skipta sér ekki af því sem "því kemur ekki við" (eins og t.d. stríðinu í Írak). Þjóðsöngurinn Ó guð vors lands, verður að Flokkslaginu (og Flokkurinn, er og hefur alltaf verið með sósíalíska vísun, meira að segja þegar við uppnefnum Sjálfstæðisflokkinn sem Flokkinn).

Lifandi leikhús, leikhús sem kærir sig um að vera pólitískt, hefði brugðist við þessu. Til að vera pólitískur er ekki nóg að setja upp leikrit eftir bók sem var pólitísk þegar hún var skrifuð, það verður að tengja hana við nútímann. Lýsistrata er til dæmis ágætis leikrit, en stendur sem sterkara verk ef það er tengt við stríð nútímans, eða femínisma nútímans. (Reyndar myndi það ekki bjarga 1984 - ástarsögu, að vera tengt við samtímann, þó það sé vissulega einn óhjákvæmilegur plastþráður björgunarhringsins). Í næstum því hverri einustu senu mátti sjá eitthvað sem var tekið upp úr bókinni, sem hefði mjög auðveldlega mátt snúa yfir á samtímann. Leikfimikennarinn í sjónvarpinu var til dæmis einhvers konar fasísk kvengribba sem gelti á Winston að teygja sig betur (auk þess sem hann var að gera einhverskonar Charles Atlas æfingar, sem aftur eiga bara tengingu við fimmta áratug síðustu aldar), þegar hún hefði svo auðveldlega getað verið hressi eróbikk-kennarinn, Ágústa Johnson heimsveldisins. Stóri Bróðir hefði getað verið þessi brosmildi en ákveðni landsfaðir sem þekkist í öllum löndum hins vestræna heims, í stað þess að vera bara þungbúin umvöndunarsöm augun í Arnari Jónssyni. Verksmiðjubúningarnir hefðu mín vegna mátt vera tískuklæðnaður frá því árið 1984 (grifflur og neon-litir). Vöruskorturinn hefði mátt verða að kaupæði. Í stað tilkynninga sem lesnar voru upp um lækkun og hækkun súkkulaðiskammts, hefði mátt lesa upp tilkynningar um skuldir heimilana, eða önnur falsafrek ríkisstjórnarinnar. Umfram allt HEFÐI verkið GETAÐ verið relevant, en sleppti því á hverju horni.

Nú má vísa öllum þessum aðfinnslum mínum á bug og segja að 1984 -ástarsaga, hafi alls ekki átt að vera pólitískt verk, heldur einmitt ástarsaga. Fyrir utan áðurnefnt klúður í uppsetningu ástarsögunnar, þá er það bara staðreynd að 1984 er pólitískt verk. 1984 er verk sem fjallar um pólitík. Það myndi engum detta í hug að setja upp Rómeó og Júlíu, og reyna að sneiða hjá ástarsögunni. Ástarsagan þarf að halda sér, og það þarf að gera hana relevant í hvert skipti sem verkið er sett upp. Alveg eins þarf pólitíkin í 1984 að standast, hún þarf að skera mann til blóðs. Vilji maður setja upp ástarsögu, þá setur maður bara fjandakornið upp Rómeó og Júlíu.

Þá má aftur vísa aðfinnslum mínum á bug og segja: hvað um sögulega gildi þess að gagnrýna Stalín-tímabilið? Og ég segi, það á fyllilega rétt á sér, og það er til úti á bókasafni. Leikhús er alltof lifandi hlutur til að vera að dvelja við það sem búið er að segja. Bækur eldast, og eldast misvel (1984 reyndar mjög vel - en maður les hana líka vitandi að hún var skrifuð 1948). En leikrit upp úr 1984, spánný leikgerð árið 2003, sem gerir ekki minnstu tilraun til að tengjast samtíma sínum (sem er reyndar lygi, það gerir tvennt, annars vegar er mynd af Hallgrímskirkju, sem sögð er hafa verið í meira lagi sprengd, og svo endar sýningin á því að fyrst stendur 1984 á skjánum, og svo stendur 2003), og tekur þess upp löngu kulnaðan kyndil and-stalínismans, er hreinlega bara banal. Það er tilgangslaust. Það ráfar um án þess að segja nokkuð við mann.

Það er þeim mun leiðinlegra að skrifa þetta sem ég veit sem er að Þorleifur er mjög góður leikstjóri, og að ég sá að krakkarnir sem settu upp sýninguna lögðu sig fram af sál og líkama og ástríðu. En af sömu ástæðum hlýt ég að skammast og hundskammast út í þessa leikgerð, þessa útfærslu á verkinu, því hún er móðgun við hæfileika og erfiði þessa fólks. Að ég tali nú ekki um móðgun við áhorfendur.

11/4/2003 11:17:06 AM, Eiríkur Örn Norðdahl
Þetta sem nú fer í hönd er ritdeila sem ég á í við Eirík Norðdal um sýninguna sem ég setti upp með stúdentaleikhúsinu. Það vantar ennþá aðeins inn í hana þar sem ég gleymdi að vista bréfin sem ég sendi honum en ég á von á að fá þau innan skamms.

Njótið vel:


4. Nóvember kl 18.11

Sæll Þorleifur,

Heyrðu, ég skrifaði um sýninguna, sem ég var hrifinn af, og leikgerðina sem
ég var meira en lítið foj út í. Þetta er á www.nyhil.com, og er harðort. Mér
þykir fyrir því, en ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ef þér það einhver
huggun, þá held ég ekki það lesi neinn vefinn okkar.

kær kveðja,

Ég var að horfa á Ágúst þingmann tala útí eitt á RÚV. Hvað er þetta me'ð unga karlmenn sem troða sér alltaf svona fram þannig að enginn annar kemst að?

Kenna mönnum mannasiði því það er ekki fallegt að taka upp sjónvarpssiði manna eins og Sigurðar Kára eða Guðlaugs "ég er á móti öllu sem ekki stendur í frumvarpi SUS til landþings" Guðlaugssonar.

Annars var þetta ágætt og unga konan úr SUS kom betur út en ég átti von á (enda ber ég álíka virðingu fyrir núverandi SUS stjórn og stjórn BUSHY í USA). Það er kannski von þó vissulega eigi maður að muna að oftar en ekki leynist flagð undir fögru skinni.

seinna



Það er alveg magnað að kveikja á sjónvarpinu og langa að horfa á það sem er það sem er í kastljósi og það tvö kvöld í röð. Hlakka til að sjá hvað fréttir.com segja um DV og fréttir

Seinna
Hallóhallóhalló

Ég er að reyna að koma mér í gang að nýju eftir afar þurran tíma. Veit ekki hvað gerðist, allt í einu var ég bara búinn að vinna yfir mig á næturnar og hafði ekki orku eða nennu til að vera að skrifa þessa fáu tíma sem ég hafði til vinnu.

Sumsé, síðan ég var hér síðast hefur afar margt og skemmtilegt gerst. Ég hef frumsýnt, sýnt og slúttað einni sýningu, takk fyrir. Verkið heitir 1984 og þykir hið mesta príðisverk, og fer allmennt afar gott orð af henni. Enda minns svoldið stoltur. Þessa dagana er ég svo að reyna að koma á einleik með honum ARnari Jónsssyni og gengur það vel en ekki áfallalaust. Ég þori reyndar ekki að skrifa um af hverju þar sem menn eru misviðkvæmir en ég segi seinna frá því.

Annars er ég þreyttur en langaði bara aðeins að segj ahæ og vonast til að koma mér í gang að nýju hið snarasta.

Góðar kv.

Þorleifur

þriðjudagur, október 14, 2003

Sæl og bless

Hérna kemur grein sem ég samdi fyrir Pólitík.is og var reyndar ritskoðuð þar, en af ástæðu. Sumum varð fullheitt í hamsi í nótt

Annars bið ég að heilsa

Krossferð uppá gamla mátann

Stundum er nauðsynlegt að vona

Ég sver það, ég ætlaði ekki að skrifa aftur um Ísrael Palestínu málið. Hafði hugsað með mér að nú væri nóg komið, hefði bara ekki skrifað um annað í lengri tíma. Minnir mig á stundum á þráhyggjukennd skrif mín gegn frelsunninni í Írak. En vegna atburða síðustu daga gat ég ekki hamið mig. Það má ekki þagna.
Ég skal fyrstur manna viðurkenna að síðast pistill minn var stútfullur af villuráfandi bjartsýni. Ég hélt að kannski gætu gamlir hundar lært að sitja.
Þannig það er bara eitt að gera, hefja að nýju krossferð pennans gegn óréttlætinu.

Sorgin er okkar

Nú er skrifað um það í stærstu miðla heims að ekkert geti gerst á næstunni í málefnum Ísrael og Palestínu því nú sé farið að styttast í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Að Bush sé hræddur við að missa stuðning sannkristinna ef hann fer að þjarma að Sharon og Sharon viti þetta og geri því hvað sem honum sýnist. Alveg eins og Saddam þá hunsar hann ályktanir sameinuðu þjóðanna og gengur gegn óskum Bandaríkjanna og hvernig er honum refsað? Er sendur innrásarher á hann, tvisvar? Er landið sprengt aftur á steinöld? Er sett gjald til höfuðs honum og lík sona hans selt sem fréttaefni á CNN? Nei, ennþá skelfilegri hlutir bíða hans, lánaábyrgðir Ísraels verða ef til vill lækkaðar!! Og hananú! Sumsé, Bushy er ekki að fara að gera neitt til að styggja ekki réttþenkjandi bandaríkjamenn en hvað með Evrópu? Allir vita að þar eru mannréttindin í hávegi höfð, ég meina, við erum að skipa tyrkjum að laga til í bakgarðinum ef þeir vilja komst í klúbbinn. Þar vantar ekki hörkuna en í málefnum Ísrael segir engin múkk. Reyndar hafa einhverjir lágt settir búrókratar röfla eitthvað fyrir myndavélarnar en ég efast um að Sharon, sem fyrirskipaði fjöldamorðin í flóttamannabúðunum í Líbanon og er stoltur af, missi svefn yfir því. Engin segir neitt og Golíat fær að lumbra á Davíð að vild og ekkert guðlegt réttlæti á döfunni.

Grátlegt, er það ekki.

Ég finn svo sterkt fyrir vanmætti mínum er ég rita þessi orð. Ég er ekki að segja neitt nýtt. Þetta er eitthvað sem allir hafa heyrt áður. Í einni eða annari mynd hafa allir lesið eða séð eða heyrt um þetta mál og velt því fyrir sér. Sagan endalausa. Sprengja hér, skriðdrekar þar, hús í rúst, fólk að gráta dána ættingja, sorg og eymd er allsumvefjandi. Og hjartað kallar, er engin von? Er engin nokkursstaðar sem hefur nægilega víða sýn til þess að ganga í fylkingarbrjósti þeirra sem leita eftir raunverulegum friði í þessum heimshluta. Hversu margir þurfa að deyja? Hversu marga veggi þarf að byggja? Hversu mörg kaffihús þurfa að springa? Hversu mörg hús þarf að jafna við jörðu til þess að einhver fái nóg? Ég er ekki svartsýnismaður. Allaveganna vil ég trúa því að í mannsandanum búi nóg mikið hugrekki og réttsýni til þess að hatrið muni að lokum verð undir. Ég vil trúa því að illmennska sé ekki upphaf heldur endir.

Vonarneistinn

Í gærkveldi var skrifað undir táknrænt samkomulag í Jórdaníu. Þar voru á ferð háttsettir embættismenn sem látið hafa af störfum beggja megin víglínunnar. Palestínumenn og Ísraelar komu saman og sömdu fimmtíu blaðsíðna plagg þar sem útkljáð voru öll helstu ágreiningsefni þjóðanna. Samið var um flóttamennina, byggðir Ísraela í Palestínu, landamæri og margt fleira í algjöru bróðerni og vissulega var því samstundis hafnað af ráðamönnum Ísraela en þetta sýnir mér að það eru til einstaklingar sem tilbúnir eru að láta hagsmuni fólksins ganga fyrir sínum eigin og vita að þetta fólk eru ekki svarnir óvinir um aldur og ævi heldur samfélög sem munu neyðast til að lifa hlið við hlið um ókomin ár og geta í raun ákveðið hvort það skuli gerast með stríði og blóðsúthellingum eða friði.

Að lokum:

Halldór, ef þú átt í vandræðum með að ná andanum þá væri eflaust ráð að draga höfuðið út úr endaþarminum á Bandaríkjaforseta!

Góðar kveðjur

Þorleifur Örn Arnarsson

laugardagur, október 11, 2003

Góða kvöldið

AÐ baki strembnar vikur og tvær eftir enn. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki getað látið sjá mig hér þrátt fyrir að hafa varað við því áður að vinnan myndi að lokum bera skrifin ofurliði.

En það er gott að koma aftur, þó stutt sé.

ég hef verið að pæla...
Ríkstjórnin er kosin því að hún lofar að lækka skatta og byrja á því að hækka þá. Þegar við spurjum af hverju, þá er svarið "þið skiljið það ekki. Það er í eðli gjalda að hækka". Bíddu bíddu, skil ekki hvað??? Að þið lækkið skatta með því að hækka þá? EF það er það er ég bara sáttur við að skilja ekki baun því þetta er tvö andstæð hugtök. HÆKKA - LÆKKA... Það er ekkieins og það sé flókið en svo er hitt, ég er ekki reiknimeistari ríkisins!

Bestu kv.

Þorleifur

mánudagur, október 06, 2003

Góða kvöldið

stundum situr maður í forundran og fylgist með heimsmálunum. Maður trúir ekki að svona komi fólk, hvða þá þjóðir fram. Ísraelsmenn eru glaðir yfir því að sprengd hafi verið í loft upp tveir tugir manna fyrst þá fá þeir ástæðu til þess að drepa Arafat. Ein bomba og gamlir draumar rætast.

Hvert er mannkynið að fara fyrst engin segir múkk við þessu?

Meira seinna

Þorleifur

þriðjudagur, september 30, 2003

Góðan daginn

Minns er alltaf að leikstýra og gefst því lítill tími til að vera að netast eitthvað. Þegar maður hefur verið við vinnu í 12 - 16 tíma þá verður yndisleg konan að fá það sem eftir er, þó lítið sé.

Annars er gaman í stúdentaleikhúsinu. Við erum á fleygiferð og sé ég ekki betur en að sýningin verði bara asskoti fín...

Einnig er ég að vinna með einleikinn fyrir Arnar Jónsson og er sú vinna á hugmyndaskeiðinu sem einnig er afar skemmtileg, þó svo að raunveruleikavinnan hafi hana alltaf undir.

Hlakka til komandi vikna og óska ykkur öllum alls hins besta.

Kv.

Þorleifur

sunnudagur, september 28, 2003

Góða kvöldið

stutt verður það og laggott.

Ég var að koma úr samkvæmi sem haldið var uppí sveit. Það var mikið bús og mikið gaman. Þegar líða tók á hvarf karlpeningurinn einn af öðrum. Þetta var mér mikil ráðgáta og elti einn uppi og komst að leyndarmálinu bak við hvörfin dularfullu.

Karlmennirnir voru búnir að koma sér fyrir uppi og að spila nýtilfundin leik sem samanstóð af fótbolta, tveimur gólfmottum, harðri rokktónlist og beriraðofanskilyrði!!! Þetta var þá sveitasælunnar útbort í karlpeningnum...

Og ég horfði á og hristi hausinn, enda yllaleg eyðing á annars fínni bústaðarferð. Ég fylgdist með um stund en fann svo þar sem eitthvað kall kom úr yðrunum. Mig langaði að vera með. Og fyrr en varir var ég kominn úr bolnum og farinn að öskra á mótherjana. Alveg trylltur af spenningi og sigurlöngun.

Ég spilaði samfleitt þar til ég fór heim...

Og er meiri karlmaður fyrir vikið.

Við erum nú ekki mjög flóknir.

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, september 23, 2003

Góða kvöldið

Að venju bíð ég ykkur upp á forskot á sæluna því hér birtist grein morgundagins á Pólitík.is

Ég er að æfa mig sem pistlahöfundur og þó enn sé langt í land þá er ég ekki enn viljugur til þess að láta af hæðninni og blóðhitanum.


Margt smátt gerir eitt stórt

Góðir hálsar.

Dagar koma og fara og maður reynir svo sem að standa sig eins vel og maður getur, fer út með ruslið, vaskar upp, brosir til fólks út á götu og býðst ef til vill til að hjálpa gömlum konum með innkaupapokana. Fallegir hlutir allt saman, ber líklega vott um gott uppeldi en getur vart talist til stórtíðinda á heimsmælikvarðanum. En svo koma, eins og þrumur úr heiðskýru lofti, fréttir sem snúa þessari smámenniskennd manns alveg á hvolf.
Daginn eftir að vefrit þetta birti ádeilugrein mína um vegginn á mörkum Palestínu og Ísraels ákvað Sharon að stoppa tímabundið byggingu múrsins. Og ég sem sannfærður var orðin eftir atburði undanfarinna missera, að sverðið (eða í þessu tilfelli ísraelski herinn ) væri máttugri en penninn. En Sharon hefur greinilega lesið greinina, séð villu vegar síns og snúið af braut. Allt út af lyklaborðspikkandi leikaratuðru lengst norður í íshafi!
Að vísu hefur þetta gert líf mitt töluvert flóknara. Ég neyðist að hefja daginn á því að leita að útsendurum Mossad í kjallaranum, leggjast flatur í götuna þegar ég heyri í flugvélum og hef þurft að koma mér upp leyninúmeri en þetta eru allt fórnir sem ég er reiðubúin að færa fyrst ég hef náð eyrum helstu ráðamanna heimsbyggðarinnar.

Grunsemdirnar

Til mín hafa komið hin ýmsu smámenni og reynt að telja mér trú um að úttekt Veraldarbankans, en ekki mín, hafi haft þessi áhrif á Sharon. Hafa bent á það að bankinn telji að veggurinn muni skaða afkomu beggja ríkja töluvert, muni innlima stóra parta af landi sem tilheyrir þeim ekki s.s. 126 kílómetra af landi frá bæunum Jenín, Tulkarem, Qaliqilia og Salfit og muni loka 95000 palestínumenn inni í Ísrael (þar af 65000 í Jerúsalem). En á móti hef ég bent smámennunum á þá staðreynd að þetta hafi ekki getað haft áhrif á Sharon, hann hafi vitað af þessu frá upphafi og sé sáttur við það. Hann hafi verið að skipuleggja byggingu veggjarins síðan 1978 er hann sýndi samstarfsmanni sínum, Ron Nahman bæjarstjóra í Ariel, teikningar af honum. Og af hverju ætti honum ekki að vera sama, harmleikurinn sem þarna fer fram er Ísraelskum almenningi ósýnilegur? Hver tekur svo sem eftir bónda eins og Nimr Ahmed sem missti dag einn aðgang að landinu sem hann og fjölskylda hans eru búin að rækta í ættliði? Hverja snertir það að hirðinginn Naji Yousef neyddist til að selja hjörðina sína eftir að veggurinn hindraði aðgang hjarðarinnar að beitlendi? Hver grætur að læknir frá Tulkarm þurfi að keyra fimm stundir á hverjum morgni í gegnum Jenín, Nablus, Jórdan dalinn, Ramallah og svo eftir Samaria veginum á leið til vinnu sinnar í Kalkilya, 15 kílómetra frá heimili sínu? Það tekur engin eftir þessu því það drepur engan, allaveganna ekki strax. Svona aðförum eru nefnilega ekki beint gegn mannslífum heldur gegn sálinni. Og kannski er það það sem Sharon sá eftir að hafa lesið greinina mína. Að þó svo hann hafi staðið fyrir fjöldamorðum í Líbanon á sínum tíma þá sé hann kannski búinn að drepa nóg og tími sé kominn til að draga í land áður en Guð fer að stjaka við Gabríel. Að sálarmorð séu ekki rétta leiðin til friðar heldur þurfi að grípa til annara og ef til vill áhrifaríkari aðgerða. Kannski man hann hvernig gyðingunum í pólsku gettóunum leið í seinni heimstyrjöldinni og vill ekki að þannig fari fyrir fleirum!

Er þetta endirinn?

Reyndar er sá möguleiki fyrir hendi að hann sé bara að gabba, vilji að ég hætti að skrifa um aðfarir hans að mannsálunum í Palestínu og eftir að ég sofna geti hann haldið áfram eyðileggingunni. Bíður eins og púki útí horni eftir að við gleymum þessu öllu saman svo hægt sé að halda áfram af krafti án nokkurra mótbára. En maður verður að vona að menn, sama hversu ómennskulega þeir hafa hagað sér í fortíðinni, geti lært af mistökum sínum. Vilji ekki hafa endalaus morð á samviskunni og sjái kannski að menn eru menn sama hvort þeir heita arabar eða gyðingar. Sjái að vegurinn til friðar liggi ekki í gegnum vígvelli heldur í gegnum samræður. Að tungumálið hafi orðið til svo að menn gætu átt samskipti sín á milli og á þeim grunni sé hægt að byggja eitthvað sem ekki mun standa eftir sem minnisvarði um ofríki og aðskilnaðarstefnu heldur stjórnvisku og sigur mannsandans.

Þorleifur Örn Arnarsson


laugardagur, september 20, 2003

Góða kvöldið

Hið eilífa skúmaskotna sálartetur. Það er í raun alveg ótrúlegt hvað sálin er víðfem. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, það er ekki nokkur leið að sálin verði til við getnað. Að eitthvað geti þroskast og dafnað á svo stuttum tíma, getað náð þeim víðfema skala og mynda svo sérstaka og margbrotna persónuleika allt vegna hundraðasta hluta úr prósenti á geni er bara ekki nokkur leið. En hvaðan kemur það þá? Hvað er það sem gerir manneskju að manneskju?

Þetta er vangavelt næstu daga, vikna, mánaða og (vonandi) ára.

Bestu kv.

Þorleifur

föstudagur, september 19, 2003

Góðan daginn

Það eru hræðileg örlög að vera ekki til staðar fyrir börnin sín. Að hafa verið svo upptekin að vinna og stunda líifð að það sem stendur manni næst hefur einhvern veginn fallið milli stafs og hurðar. Að sitja upp þegar líða tekur á ævidaginn og hugsa með sér "ég hefði átt og af hverju" í stað þess að gleðjast og finna lífsfyllingu í því að eiga eitthvað raunverulegt, ekki í bankanum heldur í hjartanu.

Það er svo auðvelt að villast af braut og halda að það sem maður leitar sé fundið í amstrinu í stað þess að "fjárfesta" í því sem vexti.

AÐ standa upp þegar langt er liðið og reyna að gera upp við sig hvað það er sem maður raunverulega gerði við lífið. Jafnvel reyna að réttlæta það afvega hefur farið með því að skálda upp "sannleik" inn í lífið.

Segja þeim sem á vegi manns verða sögur af fjölskyldu og lífi sem aldrei átti sér raunverulega stað. Fela bjargleysi sitt fyrir öllum í kringum sig en bera við karldóminn þegar sálin fer að ílengja eftir svörum við áleitnum spurningum.

En kannski er betra að lifa í blekkingu en að deyja í sannleika því það sem orðið er hefur hætt að vera raunveruleiki og er nú óumbreytanleg þátíð. Það sem var og gerir þig það sem þú ert í dag. Hefi manni mistekist að gera eitthvað við það er það þá synd að brynja sig með sýndarveruleika?

Og svo er bara að halda áfram!

Bestu kv.

Þorleifur Örn Arnarsson

þriðjudagur, september 16, 2003

Góðan daginn

Ég segi það og skrifa ég ætla að byrja aftur á skáldsögunni minni. Hún var komin á full sving hérna í vor einhvertímann en að ráðleggingu vinkonu minnar lagið ég hana á hilluna þegar hvað mest var að gera í leiklitarskólanum. Ég bjóst við því (og sagði það þeim sem næst mér standa) að það yrði álagatími og svo mundi róast en sá tími virðist aldrei koma. Það hefur bara aukist ef eitthvað er. En svo í dag, allt í einu, opnaðist tími. Ég hafði bara tíma til að sitja heima hjá mér, lesa og skrifa og hafa það kósí! Og það á degi sem ég hélt að allt yrði geðveikt að gera á.

Sumsé, þetta er upphitun. og sem slík þarf hún ekki að vera gæðum þrungin, það þarf bara að vera rythmi. Skáldsögur, og reyndar sögur almennt, sem verða fyrir því óláni að lenda ofan í skúffu virðast búa yfir þeim eiginleika að grafast, algerlega að sjálfstáðum, neðar og neðar þar til grafa þarf djúft til að finna þær að nýju. Og satt best að segja er ég dauðskelkaður hvað finnst þegar eg loks gref hana úr moldinni. Er þetta það sem ég vona að það sé eða bara eitthvert rusl sem best væri að sæi aldrei dagsins ljós og ætti kviksetninguna skilda.

éG lofa að greina frá niðurstöðunum hér þegar fram líða stundir.

Annars var ég að klára handritið að 1984 í samvinnu með minni öðlings vinkonu Dúnju. Og ég er ekki frá því að saman hafi okkur tekist að grafa fram úr vitundinni eitthvað bara svoldið skemmtilegt, ef ekki bara hreint út sagt fagurt. En það kemur í ljós á fyrsta samlestri í kvöld. Allaveganna kemur í ljós hvort um er að ræða eitthvað sem hægt er að nota eða klósettpappír. Ef fyrri kosturin verður ofaná þá er gaman í Þorleifslandi annars bíða mín langar stundir í hyldýpinu...

Og svo bið ég að heilsa heitur og fínn.

Bestu kveðjur

Þorleifur Örn Arnarsson
zorleif@hotmail.com

mánudagur, september 15, 2003

Góða kvöldið

Eftirfarandi grein mun birtast á Pólitík.is í fyrramálið.

Af páfagaukum og mönnum

Páfagaukar er vægast sagt ekki sérstaklega greind dýr. Þeim virðist vera fyrirmunað að framfylgja einföldustu náttúrulögmálum. Eitt þessara lögmála er til dæmis það að vont er til lengdar að fljúga, með gogginn á undan, á glugga. Ekki það, maður getur svo sem skilið hvað kallar á þá. Hinum megin gluggans er frelsið, náttúran og full af öðrum fuglum en engu að síður er gluggi á milli sem hindrar för. En sama hvað maður reynir að útskýra þetta fyrir páfuglinum þá reynir hann, við fyrsta tækifæri, að fljúga aftur á gluggan. Þetta hegðunarmynstur er vissulega fyndið til að byrja með en reynist svo leiðigjarnt og að lokum sársaukafullt. Þetta er eins og hin versta þráhyggja sem ekki er nokkur leið að koma í veg fyrir.
Ástæða fyrir því að ég er að rifja þetta upp hér er sú að ég var nýlega í heimsókn úti í bæ og varð vitni að þessari hegðun. Ég starði í forundran á vitleysuna og hristi höfuðið þangað til að ég áttaði mig á því að ég hef séð svona hegðun áður. Að það sé einhver önnur dýrategund sem hegði sér afar svipað, það rann upp fyrir mér að tvífætlingarnir gera alveg eins.
Mannskepnan, sem maður hefði haldið að bæri höfuð og herðar yfir frændur sína páfuglana, virðist ekki hafa jafn mikið þróunarlegt forskot og Darwin hélt fram.

Ókleifir múrar

Uppúr 1960 fannst kommúnistunum í Austur Þýskalandi að ekki væri lengur hægt að bjóða fólki uppá sorann vestanmegin. Þeir afráðu því að reisa vegg til verndar þjóðinni og hófust handa umsvifalaust. Þeir byggðu og byggðu þar til að allar samgöngur borgarhlutanna í millum var orðin ómögulegur. Þeim fannst sem nú væru þeir loks lausir undan oki vestursins, nú væru þeir búnir að hefta afgang illu aflanna, nú væru þeir með sanni frjálsir. En er tíminn rann sitt skeið og að lokum þyrmdi sannleikurinn yfir þá, í stað þess að veggurinn verndaði þjóðina og lokaði hið illa úti þá varð raunin sú að þeir lokuðu sjálfa sig inni.
Maður hefði haldið að mannkynið hefðu lært af þessari reynslu en svo er ekki að sjá. Þjóðin sem var rekin frá Þýskalandi með harðri hendi, pyntuð og misþyrmt og næsta útrýmt hefur afráðið að feta í fótspor þeirra sem áður ofsóttu þá og hafa byrjað á byggingu nýss múrs. Múrs sem á að vernda hana frá hinum illu nágrönnum. 650 kílómetrar (samkvæmt nýjustu tölum frá Ísraelska varnarráðuneytinu) af sementi sem á að loka þá úti sem ógna þjóðinni.
Veggurinn er rökstuddur með því að þetta sé eina mögulega úrræðið til þess að halda hryðjuverkamönnunum frá strætisvögnum og kaffihúsum Ísrael. Að á meðan Palestínumenn ganga frjálsir þá verði Ísrael hætta búin og með því einu að hefta för þeirra geti þeir stemmt stigu við ógninni sem að landi þeirra steðjar. Og það er satt, það eru margir sem vilja Ísraelum illt en það sem gleymist er að veggir leysa ekki vandamál, réttlæti gerir það. Hættan er sú að þó svo að þegar þú múrar þig frá vandamálinu þá fái það að magnast í friði og einn daginn áttirðu þú þig á því að þú lokaðir ekki vandamálið úti heldur læstir þig inni. Þangað til að þessi sannleikur rennur upp fyrir ráðmönnum í Ísrael þá munu þeir halda áfram að fljúga á gluggann eins og páfuglinn með frelsisþrána.

Höfundur mun í næstu tveimur greinum fjalla ítarlega um byggingu múrsins í Palestínu.

Bestu kveðjur

Þorleifur Örn Arnarsson

laugardagur, september 13, 2003

Góða kvöldið

Ég er eiginlega orðlaus þessa dagana. Lífið er búið að vera duglegt að slengja hlutum framan í mig þessa dagana.

Ég hóf æfingar með Stúdentaleikhúsinu síðastliðinn Sunnudag. Til að byrja með mættu 30 - 35 manns en mér tókst með hæfilegum skammti af hræðsluáróðri, fasisma og stífum æfingum að fækka þeim niður í svona um 20. Það lítur út fyrir að vera góð tala til að gera 1984. Upphaflega var ég að velta fyrir mér að vinna með 30 manns á sviðinu en mér sýnist að svona 20 sé rétta talan. Þetta verður síður en svo auðveld sýning en ég held að þetta verði bara gaman og ekki síður áhugavert enda er ekki stefnt lágt.

SVo er hin árlega AA ráðstefna í gangi og ég lent auðvitað í miðjunni á því þó svo ég hafi að mestu dregið mig í hlé í sambandi við hana eftir að ég reyndi hallarbyltingu gegn manninum sem tók við af mér sem framkvæmdarstjóri. Hann er afargóður vinur minn og ég fékk á tilfinninguna að ég gæti gert þetta betur en hann ( og reyndar betur en allir í heiminum og þó víðar væri leitað) en sem betur fer var tekið í taumana og ég sá að mér eftir mikið rót og gnístan tanna og reyni nú að þjóna þessu gullfallega fyrirbæri sem þessi ráðstefan er!

SVo var ég sendur út af örkinni með tvo af fyrirlesurunum til að skoða hinn margfræga og ófrumlega gullna hring. Ekki það mér finnst gaman að skoða Þingvelli og þetta en ég hef bara gert það að verða 500 sinnum og það verður svoldið rútínulegt þegar á líður. En í þetta skipti var ansi gaman, sérstaklega þar sem okkur var boðið upp á allar mögulegar gerðir veðra, sólregn, hliðarregn, ofanregn, undanregn, úða, þoku, glampandi sólskin, úrhelli, vindasemi, logn, stormgusti. Eina sem vantaði var haglél og reyndar fannst mér þegar það var ekki í boði að ég væri að bregðst þeim. SVo fékk ég að setja Alþingi á Þingvöllum, eða allavega leika það sem fram fór þegar ákveðið var að taka upp kristnina (eitthvað sem við höfum fengið að sjá eftir síðan ). SVo er eitthvað við það að standa þar sem páfinn fékk að tala yfir almúganum en vera ekki að morkan úr alzheimer, sem í mínum veika huga hljómar einhvernveginn svona: See me, Im close to the dude, and still can control my limbs!

En þetta er bara ég!

SVo var ferðin elskuleg og ánægjuleg eftir það. Það var búið að vara þau við því að ræða pólitík við mig en gátu svo ekki staðist freistinguna og við enduðum á því að hata Bush í unison fram eftir degi. Það er sumsé von eftir allt saman, jafnvel í Ameríku.

Ætla að láta mig hverfa í bili, enda konan mín yndilega farin á undan í rúmmið.

Bestu kv.

Þorleifur

mánudagur, september 08, 2003

Góða kvöldið

mikil þreyta, lítið gaman. En þar sem ég ætla að vera þögull gæti þér þótt gaman að kíkja á þessa. Þarna eru sagðar alternative fréttir, það er, fréttalinkasafn sem spennandi er að leggjast yfir en er, og takið nú vel eftir, stórhættulegt fólki sem finnst gaman að lesa um hlutina frá hinum ýmsu sjónarhólum.

Góðar stundir

Þorleifur

sunnudagur, september 07, 2003

Góða kvöldið

Það sem maður hefur er ekki þar fyrir tilviljun (nema þegar maður pikkar eitthvað upp í sundi). Maður vinnur fyrir því sem gefur manni fullnægju í lífinu, en að sama skapi getur maður gleymt því þegar venja kemur á hlutina, hvað þurfti til að öðlast það.

Það að elska er ekki sjálfgefið. Það krefst vinnu, heilinda og að stíga skref sem oft eru ekki auðstigin. Sálin þarf að opnast og kvikan að sjást til þess að böndin sem tengja mann við aðra manneskju haldi. En í þessari kviku eru líka öll litlu atriðin sem aldrei áttu að sjá dagsins ljós og erfitt er þegar þau hafa verið opinberuð öðrum.

En það er hluti af samningnum sem maður gerir. SAmningnum um að virða, dá og dýrka einhvern umfram alla aðra, sama hvaðan vindurinn blæs og þrátt fyrir allar fortölur fortíðarinnar.

En verðlaunin eru ríkuleg hafi maður staðið rétt að samningsgerðinni. Ró, nálægð, traust og umfram allt hreyfing í hjartanu. Bros að morgni eða augntillit sem enginn annar skilur, ilmur af hári og hlýja í örmum.

Það á engin maður að vera einn, það þarf engin maður að vera einn. Eina sem þarf er hugrekki, vinna og vita það fyrir víst að þó þungskýjað geti orðið, að handan bakkanna leynist sólin og óendanleikinn.

Góða nótt

miðvikudagur, september 03, 2003

Góða kvöldið

Það er svo margt sem fer fram hjá manni þegar maður er upptekin við að vera annars staðar. Það er nefnilega einhvernveginn eilífur sannleikur að maður getur bara verið á einum stað í einu. Og ólíkt því sem margir halda er sá staður hér og nú. Ekki í framtíð draumanna eða fortíð vonbrigðanna. (eða öfugt ef maður er einn þeirra sem lýgur stöðugt að sér ). Málið, galdurinn er sá að geta verið hér þegar maður er hér.

Oftar en ekki þá neyðir lífið mann til að vera hér en einu tækin sem náttúran kann til að kalla þetta fram átómatískt eru fullnæging og sársauki. Annað jákvætt og hitt miskilið. Fullnægingin er manni algerlega nauðsynleg þar sem hún kallar fram í manni grunninn. Eðlið, dýrið, ótemjuna (og maður verður djúpraddaðaðri á eftir). Það er eins og maður snerti einhverjar rætur með henni. hinsvegar er mjög erfitt að vera mjög meðvitaður meðan þetta á sér stað. Maður er nefnilega upptekinn.

En þá er það hitt sársauki. Ég skil ekki af hverju þessum hluta lífs okkar er svona illa tekið. Hann er til svo margs nytsamlegur. Til dæmis að stoppa okkur af þegar við stingum hendinni ofaní pott fullan af bullsjóðandi vatni eða þegar við erum búin að brjóta slíkt á umhverfi okkar að samviskan getur ekki meira og kallar á heilann að gera eitthvað. Dregur okkur hingað til þess að takast á við hlutina.

En hvað á svo að gera þegar hingað er komið? VERA HÉR ÁFRAM! ÞAð er svo einfalt. Losa sig undan oki framtíðar fortíðar og framtíðar og vera sáttur hér og nú. Það þýðir ekki að við eigum ekki að plana eða laga það sem mislaga hefur farið heldur að reyna að losa okkur undan því að stjórnast af tímum sem ekki eru til!

Þegar uppi stendur snýst þetta um frelsi. Frelsi til að vera maður sjálfur og vera ánægður að vera sá eða sú. Að losa sig undan væntingum og vonbrigðum og njóta sigranna þegar þeir verða eða takast á við töpin án múrsteinahleðslu fortíðar.

Því það er misskilnigur að frelsi sé frjálshyggjuhugtak. Það er andlegt ástand. Því er ekki hægt að troða því uppá fólk með vopnavaldi eða rökræðum, það er upplifunartengt og fylgir því einu að upplifa núið og sjá fegurðina í því.

Góðar stundir

Þorleifur

þriðjudagur, september 02, 2003

Góða kvöldið

Ég er orðinn pistlahöfundur á Politík.is og verð með pistil þar hálfs mánaðarlega. Þar sem ég elska ykkur mun ég birta pistlana hér fyrst svona sov þið fáið sneak preview á það sem stjórna mun umræðunni næstu daga þar á eftir og gera ykkur mun stöndugri á svellinu.

Gjöriði svo vel:

Stríðið, Guð og Bush

Hinn Vestræni heimur stendur í stríði. Stríði hinna réttlátu ef trúa skal forseta bandaríkjanna. Hann var þeirrar skoðunnar að fyrst samtökin, sem stofnuð voru til þess að þjóðir heims hættu að taka einhliða ákvarðanir, sérstaklega þegar kæmi að stríðsreksri, væru ekki sammála honum þá bæri hann skildu til þess að fara einn í stríð. “Fyrst Sameinuðu Þjóðirnar hafa ekki staðið undir væntingum þá gerum við það” sagði hann áður en hann setti upp kúrekahattinn, skipaði Saddam og sonum hans að koma sér úr bænum, dró upp marghleypuna og reið á hestinum inn í sólsetrið. Og stríðið varð, ég veit það fyrir víst, horfði á það í beinni útsendingu. Svo var stríðið allt í einu búið. Ég nýbúinn að kaupa mér nýtt sjónvarp með heimabíó til að horfa á það í almennilegum gæðum og allt-bú. “Stríðið er búið, við unnum, frakkar eru vitleysingar og nú geta allir hætt að rífast og farið að byggja legó saman í Írak. Guð blessi mig og Ameríku.” Sagði foringinn knái. Ég trúði varla eigin eyrum. Gat þetta verið, ég sem núbúinn var að gera samning við Glitningu sem bindur mig fjárhagslega í 36 mánuði og stríði klárast, bara sísvona! Ég átti erfitt að halda aftur af tárunum en þá gerðist svoldið skrítið. Ég hafði greinilega ekki keypt sjónvarpið fyrir ekki neitt því núna, löngu eftir að Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið, er ennþá stríð í gangi.

Frelsi, sama hvað!

Írak, vagga siðmenningarinnar, er hersetin af hinum vestræna heimi í nafni frelsunar og réttlætis. Okkur fannst nefnilega að þeir væru ekki færir um að ákveða það sjálfir hvort frelsunar og réttlætis væri þörf og því tókum við þá ákvörðun fyrir þá. Frelsuðum þá með valdi. Mættum á svæðið, skárum, stungum, myrtum, sprengdum, og nú, samkvæmt öllum kokkabókum eru þeir frjálsir. Þeir hafa reyndar ekki frið, ekki vatn, ekki rafmagn, ekki lagalegt öryggi, ekki friðhelgi á heimili sínu, ekki menntakerfi, ekki peninga, ekki málfrelsi, ekki ríkistjórn, ekki vald yfir auðlyndum sínum en hvað með það, þeir eru frjálsir og það er fyrir öllu. Frelsi á kostnað fólkisins sem frelsið átti að fá. Okkar frelsi SKAL vera þeirra frelsi.

Höfum við ekkert lært?

Í yfirgefnum rústum í Tyrklandi er lexíu að finna. Rústirnar eru af Trjójuborg. Hér börðust herir Evrópu og Asíu í heiftúðugu stríði fyrir 3200 árum. Að vísu voru enga orrustuþotur, engar klastra sprengjur, engar stórvirkar stríðsvélar (að tréhesti nokkrum undanskildum). En þrátt fyrir það er hér lexíu að finna, því þótt vígvélarnar hafi breyst hefur það sama ekki hent mannfólkið.

Goðsagnir segja okkur að stríðið sem hér var háð hafi ekki aðeins verið stríð mikilla hetja heldur einnig stríð skelfilegra mistaka, lélegrar herstjórnunar og þess sem grikkir kalla até, yfirþyrmandi stolts og hroka sem á það til að byrgja hinum sterku sýn. Sagan af Tróju býður okkur uppá þrjár megin lexíur.

Sú fyrsta er að jafnvel þó maður hafi réttmætan ástæðu þá sé stríð ekki alltaf besta leiðin. Grikkirnir voru í upphafi ósammála um hvort ráðast ætti á Tróju. Jafnvel kappar eins og Agamemnon og Ódiseifur voru hikandi. En að lokum urðu grísku “haukarnir” ofaná með þeim rökum að ef Grikkirnir myndu leyfa Trójumönnum að komast upp með ránið á Helenu þá væru þeir að bjóða hættunni heim. Trójumenn myndu bara ræna fleiri konum í framtíðinni; að ef ekki væri barist við þá núna þyrfti að berjast við þá seinna, þegar þeir væru orðnir sterkari. En þegar uppi stóð höfðu “dúfurnar” rétt fyrir sér. Svo margir féllu í þessum vitfyrrtu átökum að jafnvel Akkiles viðurkenndi að baráttan hefði ekki verið þess virði, “berjast við aðra stríðsmenn til þess eins að eigna okkur fleiri konur” sagði hann þegar hörmungar stríðsins blöstu við.

Á sléttunum þar sem Grikkirnir reistu tjöld sín bíður okkar næsti ódauðlegi sannleikur hverra stríðsátaka: Menn verða að vinna með bandamönnum sínum. Grikkirnir voru tíu sinnum fleiri en Trójumennirnir, samt töpuðu þeir næstum átökunum og voru aðeins hársbreidd frá því að skip þeirra væru brennd aðeins vegna innbirgðis átaka í “bandalagi hinna viljugu”. Agamemnon var Rumsfeld þeirra daga og reiddi að ástæðulausu bandamenn sína til reiði þegar hann rændi Briseis, frillu Akillesar. Hann reyndi seinna að breiða yfir sárið með því segjast aldrei hafa sofið hjá henni og bauð í staðinn sjö meyjar, en Akkiles dró her sinn til baka og hótaði að fara heim með orðunum, "ça ne marche pas."

Þriðji vísdómurinn tengist falli Trójuborgar og má þar greina haukfráa lexíu. Að vísu voru það vopnuð átök sem unnu styrjöldina við Tróju en samt greinir sagan skilmerkilega frá því að fall Trójuborgar var ekki herfræðilegs eðlis. Trója hefði ekki bjargast með hærri veggjum né betri spjótum. Trója féll vegna þess að engin hlustaði á þá sem vöruðu við tréhestinum.

Þrðija lexian stríðsins við Tróju er því sú að það er umfram allt nauðsynlegt að hlusta á efasemdaraddirnar. Ef Trójumenn hefðu aðeins gefið sér viku til að hugsa sig um, sem hefði gefið Grikkjunum sem sátu inni í hestinu færi á því að deyja úr þorsta eða flýja af hólmi, þá hefði Trójustríðið getað farið á annan veg. En Trójumenn ákváðu að láta varnaðarorð sem vind um eyru þjóta og þar með voru örlög þeirra innsigluð

Við Vestulandabúar ættum að læra af þessarri gömlu dæmisögu í stað þess að vaða áfram í villu okkar eigin réttlætiskenndar og hroka. Læra það að við getum ekki troðið því sem okkur lærðist á hundruðum ára uppá fólk á nokkrum vikum. Að við höfum e.t.v. ekki Guðlegan rétt til þess að segja restinni af heiminum hvernig þeir eigi að haga hlutunum í þeirra eigin bakgarði.

Vitur maður sagði forðum að það væri ærið verkefni að ætla sér að teppaleggja heiminn gjörvallan til þess að manni yrði ekki kalt á fótunum. Mun sniðugra væri að tölta sér út í næstu búð og kaupa sér inniskó. Er ekki tími er til kominn að við leggjum dúkhnífinn á hilluna og kíktum í heimsókn til skósmiðsins?

Helstu heimildir.
Newsweek
NY Times
Ilions kviða

Bestu kv
Þorleifur Örn Arnarsson

föstudagur, ágúst 29, 2003

Góðan daginn.

Kannski er kominn tími til að taka lífinu með örlítilli ró. Anda með nefinu ef svo mætti segja, enda vita það allir sem eitthvað vita í neffræðum, að það er betra en að anda með munninum, enda eru þar engin hár til að stoppa skítinn sem er á leiðinni inn (þó kannski væri betra, sérstaklega í tilfellum ákveðinna hægrimanna í íslenskum stjórnmálum, að þar væru hár til að stoppa skítinn sem er á leiðinni úr!)

Og svo er það bara kaffi á Brennslunni og notalegheit.

Bestu kv.

Þorleifur
Góða kvöldið

Hvað er að frétta? Jæja, þó nokkuð mætti segja. Í fyrsta lagi hef ég nú eytt nokkrum dögum (eins og síðan ber með sér) í það að reyna að koma upp kommenta kerfinu Thus speak Zarathustra (sem tilvísun í gáfulega kommentin sem ég efalaust ætti von á.) En ég farin að hallast að því að ég sé ekki aðeins vonlaus þegar kemur að tölvum heldur hitt að það er alnets samsæri í gangi gegn mér. Í gærkvöldi var ég búin að koma þessu í gagnið, opnaði meira að segja síðuna og sá það með eigin augum. Búin að skrifa nýtt blogg og kommentaði á það sjálfur (ekki að ég myndi gera það reglulega, það var prufa) og það var þarna! Var þarna! og svo opna ég í dag og bimmsalabúmm.... EKKERT! Þetta og skiptin þegar þessi síða hefur eytt löngum pistlum sem ég hef skrifað, ódauðlegum leyfi ég mér að segja (þó það hafi ekki verið raunin), sannar það aðeins fyrir mér að það er einhver þarna úti sem ég hef troðið um tær einhvertímann á ævinni. Hvað annað getur það verið???

Annars er ég aðallega að skrifa leikgerðina að 1984. Þetta er farið að verða bara ansi gott. Ég hafði að vísu enga hugmynd hvað ég var að vaða út í þegar ég lagði af stað og sýndist þegar komið var úr startholunum að þetta gæti reynst þrautinni þyngri en þetta er allt að smella. Það að láta hugsanir Winston Smith koma fram í leikrænu er allslungið viðfangsefni og hvernig á að fara fram og aftur í tíma, láta vikur af leiðigjarni vinnusemi og vanafestu birtast á sviðinu o.s.frv. en eins og ég sagði þá er þetta að smella, skref fyrir skref.

Annars á aðeins óegótískari nótum þá blöskrar mér hvað er að gerast á stöð 2. Það að fólk láti fara svona með sig. Ekki það að maður skilur svo sem að fólk sé hrætt um vinnu sína og afkomu en að láta það standa í vegi fyrir því sem hjartað kallar er afar sorglegt að verða vitni að. að vísu hafa sumir sagt nei og gengið út (eða verið vísað út) og hugur manns er með því, en það að þetta gerist í nútímasamfélagi er skelfilegt að horfa upp á. Og hvað með hina sem sitja þegjandi eftir. Hvað með þá? Af hverju ganga ekki allir út? Af hverju engin læti, af hverju ekki neitt? Svarið: AFBORGANIR. VIð lifum í afborgunarsamfélagi þar sem innkoma og öryggi (í skjóli atvinnuveitenda) er það sem máli skiptir. Við erum svo háð utanaðkomandi öflum að við erum ófær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir, jafnvel þegar hjartað kallar. Ekki skortur á kjark heldur skortur á frelsi. Og það er vandamálið, við erum ekki frjáls. Sama hvað markaðurinn kallar og ómar þá er þetta staðreynd. Þetta háspennta samfélag veitir ekki frelsi, heldur sviptir það. Og það er nú allt frelsið.

Þjóðin er föst í böndum eigin ofsafengnu neyslu. Sjálfsniðin bönd sem halda draumum okkar í skefjum og hindra þá þegar á leiðir.

En hvað er eitt hjarta svo sem þegar maður á nýjan bens?

Bestu kv.

Þorleifur

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Góða kvöldið

Fyrstu fréttir. Hér með er það staðfest að ég verð pistlahöfundur hjá Pólitík.is í vetur. Þar mun ég hafa frjálsar hendur og vaða fram og til baka um samfélag vort, skótandi hægri vinstri og þá sérstaklega á þá sem ekki geta svarað fyrir sig.

Aðrar fréttir. Sama hvað ég reyni mér tekst ekki að koma upp commenta kerfi á síðunni minni. Þar sem ég veit að kommentin yrðu mörg og árennileg finnst mér þetta miður en ætli ég verði ekki að bíða eftir því að einvher láti sjá sig á heimili mínu sem kann eitthvað á svona lagað. Hvenær það gerst fer að mestu eftir því hvort ég fer og kaupi kaffi hjá kaffitári og bíð svo gestum og gangandi uppá!

Annars er ég þessa dagana aðallega að kljást við vin minn Orwell. Þegar ég tók að mér að skrifa leikgerð uppúr verki hans, 1984, bjóst ég við tilturulega lygnum sjó. Ég meina, þetta er ekki mjög flókið. Það er allt fullt af

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

sæl

og tilraun 2

Góða kvöldið

Aðaltilgangur þessa inngangs er að athuga hvort nýja comment kerfið mitt virkar

Bestu kv.

Þorleifur

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Góða kvöldið

Seinna en vanalega en fyrr en oftast kem ég hér enn á ný á öldur ljósvakans.

Ég er í raun algerlega búinn að fá nóg af mér. ég er alltaf að lofa einhverjum greinarpistlum hingað en stend mig aldrei í stykkinu. En nú verður gerð bragabót þar á. Nú skrifa ég marglofaðan pistil um reykingar og merkingar þeim samfara.

MArgt hefur nú blessaður kallinn hann Þorgrímur reykingamisþyrmir Þráinsson afrekað um dagana. Hann virðist vera óstöðvandi í því að detta í hug nýjar og snjallar hugmyndir. En það er oftar en ekki gallinn við mikla hugmyndasmiði að þeir þurfa ekki að hugsa um afleiðingar hugmyndanna. (munið greyið þjóðverjann sem hélt að atómið væri hægt að nota í orkuskapandi og friðarstillandi tilgangi) Þeir standa í þeirri trú að þær séu öllum mönnum til braga- og hagsbóta og vaða því áfram sem mest þeir mega. Helgur er staður þess sem hugsar. En hann Þorgrímur hugsar bara beint á ská. Þarfalaust er að fara í smáatriðum í gegnum afreksferil mannsins, hann stendur öllum reykingamönnum afar nærri, en hitt er svo að nýjast hugmynd hans er svo snilldarleg að ég má til að fabúlera aðeins með hana.

Honum þykir sumsé ekki nóg að merkja sígarettupakka (sem meiga hvort eð er ekki sjást neinsstaðar) uppúr og niðrúr með merkinguim hótandi ekki aðeins getuleysi, dauða, barnamisþyrmingum, fósturdauða, lömun, almenna sæðisfækkun, ásamt öllu öðru sem gerir lífið þess virði að lifa því, heldur vill hann nú ganga lengra (sem er Íslendingum góðkunnur siður). Hann vill nú skreita pakkana með myndum af rotnandi líffærum dauðra reykingarmanna.

Enginn efast um að þetta myndi hafa gífurlegt forvarnargildi. Ég er til dæmis nokkuð viss um að stelpan sem hugsaði um að hætta kannski einvherntímann þegar hún sá nýju merkingarnar myndi við það að bera líffærin augun bara alveg hugsa sig vel um áður en hún héldi áfram að reykja. En fyrir mitt leyti er þetta bara upphafið af langri og gifturíkri þróun.

Vissulega yrði að taka þetta í smáum skrefum. Byrja á myndunum og e.t.v. láta þær stigmagnast þar til farið er að birta heil lík. Sterkt væri að þau væru af reykingardauðum Íslendingum.

Nú, þegar búið væri að kynna líkin til sögunnar væri hægt að taka næsta skref. Hægt væri að útbúa litlar formalínkrukkur og setja í þær niðurskorna parta á líffærum dauðra reykingarmanna. Hægt væri að setja þetta upp sem leik þar sem maður getur safnað sér saman einni formalínlunga eða véllinda. Eins og Pókemon leikurinn, muniði. Safna saman myndum af öllum pókemononum þar til maður er kominn með allt safnið og getur farið að skipta og svona. Akkúrat þannig. Þetta myndi vissuleg auka til skamms tíma reykingar en ef hugsað er fram í tímann þá mun þetta drepa reykingarmennina fyrr og við erum þar af leiðandi lausir við þá um aldur fram og allir spara fullt af peningum. Þegar búið væri að safna öllum líffærum dána reykingarmannsins gæti maður sent krukkusafnið til tóbaksvarnarnefndar sem myndi senda innrammað lík um hæl. Það væri svo hægt að hengja það uppá vegg öllum litlu börnunum sem víti til varnaðar (eða nota það sem píluspjald).

Þetta myndi.... Nei bíddu, bíddu. Nú er ég að falla í sömu gildruna og ég var að vara hann Þodda við áðan. Þetta er ekki góð hugmynd hún er stórhættuleg. Tóbaksfyrirtækin gætu notað þessa hugmynd í illum tilgangi. Þau gætu byrjað alveg eins, látið litla krukkur með líffærum fylgja með, en þau myndu þá ekki vera af tóbakdeyddum reykingarfórnarlömbum heldur af sérræktuðum mannasvínum. OG myndi maður ná að safna í heilt líffæri gæti maður fengið því skipt fyrir nýtt og heilt (svona til vara ef eitthvað klikkar í boddíinu). Og fyrirtækin gætu jafnvel farið lengra og bíttað á tuttugu afrifum af kartonum fyrir heilt lík. SVona varahlutalík. Og þá er allt unnið fyrir bí. Áfram myndu þá reykingarmenn njóta skattpeninganna okkar til að laga sig í stað þess að drepast eins og er markmið tóbaksvarnarnefndar. og ég sem hélt að ég væri með þessu að verða að einvherju gagni. En sem betur fer stoppaði ég mig af áður en ég framkvæmdi hugmyndina mína. En hugsa sér ef ég hefði ekki áttað mig, þá hefði ég getað gert mikinn skaða!!!

Já, sumar hugmyndir hljóma vel við fyrstu athugun en eru þegar allt kemur til alls gætu þær snúist upp í andhverfu sína.

Góðar stundir

Þorleifur

fimmtudagur, ágúst 21, 2003

Muna Aukasýninguna á PENTAGON í Iðnó á morgun klukkan hálf ellefu.

Bestu kv.

Þ
Góðan daginn

Langaði bara að athuga hvernig það væri að skrifa pínku hingað að degi til. Ég stend annars í stórræðum, er að smíða hillusamstæðu og að henni lokinni er loks kominn tími til að halda reglulegt innflutningspartý! Og hananú.

Annars hef ég eitthvað verið að velta fyrir mér þessu með Dabba kóng og hæstaréttinn. ég skil ekki að mönnum skuli þykja eitthvað skrítið við þetta, þetta hefur verið í gangi hér síðan land byggðist. í stað þess, eins og tíðkaðist þá, að styja þína sveitunga þá skiptir í dag máli með hverjum þú varst með í grunnskóla (eða eins og í þessu tilfelli, fjölskylduboðum). Svo nú er bara málið að hugsa aftur, berjast í gegnum þokuna og leita þá uppi sem deildu með mannii þýskutímum og finna svo út hvar þeir eru staddir í dag. Ef svo vill svo heppilega til að þeir séu "orðnir" eitthvað þá er bara að hringja og plögga. SVo er bara Kanarí og læti.

Þessa vikuna er ég annars búinn að vera í heilagri leit. ÉG er kominn með 9 af 10 merkingum á sígópökkunum en mig vantar sæðislátspakkann til að fullkomna seríuna. Ef þið eigið þannig endilega sendið hann (má vera í póstkröfu) og komið svo í heimsókn og sjáið hvað ég á. Í nýju bókahillunni mun blasa við öll röðin!

Góðar stundir.

Þorleifur
Smá í viðbót

SVo er Aukasýning á PENTAGON í Iðnó á förtudaginn kl. 22.30.

Vonandi sjáum við sem flesta.

Bestu kv.

Þ
Góða kvöldið

Hvað á maður að gera þegar maður reynir að vera terroristi og allir klappa manni á bakið. Það er svoldið eins og ætla sér eftir margra ára umhugsun að hlaupa í gegnum þykkan múrvegg, hafandi æft sig árum saman í þeim einum tilgangi og svo þegar maður kemur að veggnum þá opnar einhver hurðina og maður hleypur beint í gegn...

Mig langaði alltaf í mínum óraunverulegu útópísku draumórum að geta verið maðurinn sem staðið gæti gegn straumnum og fengið alla til að hata mig en staðið samt á mínu. Og svo framkvæmdi ég til haturs og uppsker hrós og mér líkar það. Mér finnst það gaman. Og hvar stend ég þá? Ætla ég næst að fórna því sem mig langar til að gera til þess að halda í raddir þeirra sem klappa mér á bakið, eða mun ég samt þora að gera það sem hjartað segir burtséð frá röddunum? Ég vona svo sannarlega að hið síðarnefnda verði ofaná, allaveganna er það þangað sem ég stefni.

SVo gæti hitt vel verið að ég sé einfaldlega ekki jafn sérstakur og ég hélt. Þegar ég taldi að ég byggi einn á tómhyggju tímum þá var ég kannski ekki einn, taldi mér aðeins trú um það. Eða kannski er samfélagið allt að vakna (vona að það sé frekar ástæðan en að ég sé svona mildur) og þá fæ ég kannski að lifa á tímum þar sem enn á ný lætur fólk í sér heyra og vill berjast í átt að betra samfélagi. Svo er bara að vona að við endum þá ekki líka feit í jakkafötum á mahóní skrifstofum og kjósum sjálfstæðisflokkinn!

Bestu kv.

Þorleifur

mánudagur, ágúst 18, 2003

Góða kvöldið

Kvöldið eftir frumsýningu! Það er alltaf (segir reynsluboltinn) skrítinn tími, svona rétt á eftir þegar fólk er að koma til þín og annaðhvort óska þér til hamingju eða spyrja hvernig hafi verið og maður hlummar einhverju óskiljanlegu (en hæfilega æðrulausu ) út úr sér. Veit í raun ekkert hvað maður á að segja en kemur einverhju saman og svarar því. Viðmælandinn litlu nær, svarandinn lengra frá og mitt á milli leiksýning sem ætti í raun að tala fyrir sig sjálf.

Annars er mér umhugað um lífið og vanafestuna þessa dagana. Hvað er það sem kemur okkur í þá stöðu að geta ekki annað en að fylgja vanamynstrunum sem við höfum komið okkur upp. Mynstrum sem oftar en ekki byggja á leiðum til að losna undan áreiti og ótta við óþægindi. Ótti og sérplægni eru sumsé undirrót þess að ég begst oft á tíðum rangt við. Og hvaðan kemur óttinn? Jú, hann stafar af samblandi gamalla synda og þeirra sem ég sé í spilum komandi daga. Og í raun þýðir það að ég er að bregðast við í núinu samkvæmt því sem fortíðin kenndi mér og framtíðin ætlar mér en í raun er ég aldrei þar sem ég er að gera mistökin (eða fylgja vanamynstrinu), þar sem ég e. Skrítinn heimur, ha?

Hvað varðar framaldssöguna sem ég var með hér fyrr í mánuðnum þá held ég að hún hafi útlifað ævidaga sína og verði best geymdi til upprifjunnar þegar mistur tímans hefur marineitað hana þannig að hún verður áhugaverð að nýju. En fyrir þá sem eru alveg á nippunni með það sem gerðist þá komst ég aftur til Reykjavíkur við illan leik eftir að hafa komist að því að jafnvel þótt Egilsstaðir séu ekki miðja alheimsins (sama hvaða skilning maður leggur í orðið) þá býr þar gott og gestrisið fólk sem bjargaði okkur Meri á ögurstundu og munu um ókomna tíð birta minningu mína af hinu álhrjáða landi.

En mikið var gott að koma heim.

Góða nótt

Þorleifur
zorleif@hotmail.com

föstudagur, ágúst 15, 2003

Góða kvöldið

Ætti að vera farinn að sofa en verð að henda nokkrum orðum inn rétt áður en ég flýt á himnasænginni til draumalandsins.

Styttist óðum í frummara í Iðnó og nú er borgarstjóri búinn að boða komu sína og það með borgarstjóranum í Winnapeg! og ég með sýningu semég æfði í 3 vikur!!! Ég hlýt að vera óður að vera að reyna þetta. Allaveganna, ef þið heyrið ekkert í mér á næstunni þá er ég farinn í víking til Súdan og kem ekki aftur fyrr en ég hef fundið sandguðinn Húmmala og fengið andlegar ráðleggingar sem halda mér frá svona ósköpum á næstunni. (segi ég og er að fara að leikstýra 2 verkum í viðbót á næstu 2 mánuðum!)

EN það er flott að byrja með stælog láta sig svo hverfa í einhvern tíma. Er svo farinn til Nýja Sjálands að horfa á LOTR í close up.

Annars var Guð að taka rafmagnið af NY og er það vel. Þeir hafa gott af því að labba aðeins, eða kannski að þetta var dulbúin hryðjuverkaárás til þess að hylma yfir komansi glæpum. Skrítið að Bushy hafi ekki notað þetta sem einvherja afsökun til þess að fá meiri pening til að leita að öllu þessu fólki sem týsnt hefur í átökum þeirra. Osama, Osama, hvar ertu.... Kannski Saddam geti bent þeim á hvar Osama er að finnaog keypt sér vernd fyrir peninginn?

Annars býð ég góða nótt og lofa að klára framhaldssögun aog skrifa pistil um tópaksvarnir á næstu dögum.

Góða nótt

Þorleifur

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

Góða kvöldið

Fyrst rennsli á PENTAGON í kvöld og það fór eins og það átti að fara miðað við fyrsa rennsli. Og ólíkt síðast þá vil ég ekki hengja mig nú eins og síðast.

Svo allt er til batnaðar breytt og nýjir og betri menn hafa gengið í lífdaga.

Svo á konan mín afmæli í dag, miðvikudaginn 13, og langar mig að segja við hana að ég vonast til að verða við hlið hennar við marga daga sem þessa um ókomna tíð. Ást mín er hjá þér!

Kv.

Þorleifur

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Góða kvöldið

Lesendum þessarrar síðu, ef einhverjir eru,
hef ég margt fleira að segja í raun og veru,
sjá, þetta er ég allur, lifandi og dáinn,
til staðar í líkama, en hugur út í bláinn.

Kæru vinir. Ég veit að ég hef klofað ykkur að halda áfram með söguna sem hófst hér fyrr og hver veit nema að ég geri það. Hitt gæti líka verið að hún sé dáin drottni sínum og hafi orðið undir henni önnu sem ég minntist á hér síðast.

Ég er við það að fara að frumsýna sem og að önnur verkefni verða æ meira aðkallandi og því verður eitthvað undan að láta, meðal annars þessi síða, um stund.

En eitt vil ég segja. Þegar horft er út um gluggan og vonbrigði fortíðar bera við gangstéttina, eins og illa liðin hundshræ, þá ber að minnast þess að eitt sinn voru hræin lifandi, eitt sinn brostu þau og glöddu. Og þó svo að þau hafi að lokum stigið hliðarspor sem reyndust afdrifarík, þá voru þau raunveruleg, voru þau sönn og órjúfanlegur hluti þess sem maður er í dag. Þau, ásamt gleðinni hafa skapað það sjálf sem horfir nú. Og sjálfið er ekkert annað en uppsöfnuð reynsla upplifanna, vona og vonbrigða, en umfram allt lífs. Og því skal aldei gleyma (þó erfitt geti verið).

Brosiði áfram sem hingað til og lyftið sýn frá gangstétt fortíðar upp til himna framtíðar, og njótið.

Ykkar

Þorleifur

sunnudagur, ágúst 10, 2003

Góða kvöldið

sökum anna og konu get ég ekki skrifað í kvöld

en von bráðar eins og ég lofaði henni dúnju vinkonu minni.

Góða nótt

PS: Meri, þegar þú lest þetta í vinnunni á morgun þá máttu vita það að ég er að hugsa til þín!

laugardagur, ágúst 09, 2003

Góða kvöldið

Ég verð að hryggja trygga lesendur með því að ég mun fresta framhaldsævintýrinu um dag vegna ófyrséðra atvika sem komu upp í kvöld.

Um helgina byrja svo æfingar fyrir næstu sýningu hins Lifandi leikhúss að nýju og ber verkið nafnið PENTAGON. En meira um það síðar.

SVo er hægt að hlakka til pistils sem ég er að skrifa um reykingar og merkingar á pökkum. (kannski tilraun til að yfirvinna þá áráttu mína að kveikja mér átómatískt í sígó ef ég sé Þorgríma (skjótum reykingarmenn) Þráinsson, sérstaklega ef hann er úti að ganga með börnunum sínum)

Góðar kveðjur

Þorleifur