föstudagur, janúar 18, 2008

Góða kvöldið

Það mega þjóðverjarnir eiga að þó svo hér sé allt vaðandi í reykbanni þá hlusta fáir á.

Þetta truflaði mig svo sem ekki mikið þegar ég var heima en það er engu að síður þægilegt að sitja hér inni í reyknum þegar maður glímir við Danaprinsinn.

Reykbann stendur illa af sér umræðu um frjálsan vilja, en stendur ágætlega þegar um móral er rætt. Spurningin er nattúrulega sú hvort ríkið eigi að ákveða hvað mér er fyrir bestu og hvað ekki, og ef ríkið ákveður það þegar að reykingum kemur getur það ekki ákveðið fleiri hluti líka?

Drykkja er til dæmis afar slæm, líka í samfélagslegu tilliti, en það dettur fáum í hug að banna hana á almannafæri.

Með drykkjubanni mætti koma í veg fyrir fjölda umferðarslysa, heimilsofbeldi, ofdrykkju og svo framvegis. Og á sömu röksemdafærslu vissulega bannanlegt.

þess vegna urðu stjórnmálamenn að fela sig bakvið vinnulöggjöfina til þess að banna reykingar, sem heldur ekki heldur vatni því að ef eigendur innu á stöðum ætti það í raun ekki að vera hægt að banna þeim að reykja á eigin eign. Einnig væri hægt að hugsa sér að sér herbergi væru útbúin þar sem engin er þjónustan og því engin heilsufarsleg hætta sem steðja myndi af starfsfólki.

Þetta er samt eki leyft og fellir þetta þar með vinnustaðarverndina sem grunnforsendu.

Þar með er þetta móralskt bann.

Vissulega eru sterk mórölsk rök fyrir reykbannni. Unglingar byrja td. oft að reykja á kaffihúsum og ef hægt er að bjarga nokkrum undan því að byrja áður en valþroskinn er fullþroska þá er það í raun gott (og ástæða þess að ég get sætt mig við þetta).

En það breytir því ekki að þetta er hættulegt fordæmi, og ennþá hættulegra að bannið hafi verið sett undir fölskum formerkjum.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Góða kvöldið

Héðan úr Shakespearelandi er allt gott að frétta. Hef legið undanfarið með hópnum yfir textanum í heild sinni og hefur það verið eins og að vera viðstaddur mexíkóska jarðarför.

Þar er hinn dáni kvaddur með dansi og tralli, sem dregur ekkert frá þeim beiskleika að viðkomandi sé farinn fyrir fullt og allt.

Svona er þetta líka með Hamlet. Þegar maður les hann í heild sinni þá er ekki annað hægt en að sakna þeirra orða sem maður getur ekki komið inn í verkið, þeirra snilldarlegu situatiónum sem Shakespeare býður leikurum og leikstjóra uppá.

En verkefnið er Hamlet á 60 mín og þar sem verkið er 5 tímar þá þarf margt að missa sín.

Verkefninu er bölvað upphátt og í hljóði.

-----------

Gaman er að íslenskar myndir hafi náð 9% hlutdeild á markaði heima. Þetta er skref í rétta átt, þó svo ennþá sé langt í það að við stöndum frændum okkar á norðurlöndum jafnfætis. En mér virðist sem þetta sé allt að stefna í rétta átt. Daglega fréttir af nýjum og spennandi verkefnum sem eru að fara í vinnslu, kvikmyndagerðarmenn okkar og konur öðlast reynslu og með henni koma gæði (öfugt við það sem almennt er talið á Íslandi).

Sá einnig trailerinn af Brúðgumanum og þetta leit vel út. Býst ekki við því að ná að sjá hana heima en líklega fer hún í dreifungu um Evrópu og þá bíður maður hennar bara rólegur hér heima í Berlín. Rétt hjá er flott bíó en þar sá ég einmitt Voksne Mennesker hans Dags.

----------

Sögur af þýskurunum:

Það er mikil lotning borin fyrir hinum borgaralegu stéttum hér í landi. Og fyrir fáum meira en læknum. Ég var að koma frá einum slíkum, sem var að skoða í mér tennurnar.

Ég lá á bekknum og reyndi að fylgjast með því hvað hann væri að braska upp í mér. Það reyndist erfitt að koma því fyrir þar sem tannlæknar passa sig á því að fylla munninn af alls konar drasli og dóti plús það að þeir svífa svo nálægt manni að maður hefur stundum á tilfinningunni að nefbroddurinn á þeim muni rekast í augað á manni.

Þessi ákveðni tannlæknir hefur þann ósið að segja manni aldrei hvað hann er að gera. Og ég var búinn að ákveða að heimta það að hann gerði það, en þegar ég sá borinn sem hann var að handfjatla þá ákvað ég að þetta væri ekki rétti tíminn til þess að koma upp ágreiningu við þennan mann.

En ég hugsaði honum þegjandi þörfina.

Svo var hann svo brjálæðislega dónalegur við hjúkkuna sem sat honum við hlið og aðstoðaði eftir bestu getu. Maðurinn er sérlega óskýrmæltur og í hvert sinn sem hún brást ekki við skipunum hans einn tveir og bingó þá hellti hann sé yfir hana, með meinsæmisfullum skotum: "Vitið yður ekki hvar það er að finna?", "Eigið þér erfitt með heyrn", ""Vitið yður sumsé ekki hvað þér eruð að gera sér".

Og maður var svona 3 sentimetra frá mér þegar hann skaut þessu á konuna. Það hvarlaði að mér að þau væru fyrrum elskuhugar og þetta væri leið hans til þess að hefna sín á henni, en svo mundi ég að það er alsiða í Þýskalandi að nýta þér stöðu og stéttarlega yfirburði þína.

En kannski er þetta svona hjá læknum allsstaðar.

Það er nú samt ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að liggja á milli þegar svona er komið fram við fólk, sérstaklega þegar annar málsaðilana er að bora í tennurnar á þér.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

sunnudagur, janúar 13, 2008

Góðan daginn

Berlín er falleg í dag. Sólin glimrar í skýjunum, fúlir barþjónar hvæsa á viskiptavinina sem borða hraðar af þrælslundinni einni saman, hitastigið er þokkalegt og ríkisstjórnin að klofna.

Já, það vantar sjaldnast stuðið hér í Berlín.

Ég hef legið yfir vini mínum og andstæðingi, Hamlet, undanfarnar nætur. Ég er kominn aftur á kaffihúsið þar sem ég sat til 4 í nótt að brasa við hann og nú á að skella á hann lokahnikkinum, eða hann á mig eða bæði... eða hvorugt.

Það er ótrúlegt hversu mikið er hægt að hugsa og hversu mikið það getur komið í veg fyrir það að maður geri. Og hvernig það getur svo haft þær afleiðingar að maður fyllist verkkvíða og þegar hann er kominn er ekkert nógu gott. Þá er í raun bara ekkert að gera annað en að hætta við, gefast upp, snúa baki við.

Og þá tel ég að maður sé kominn í rétta formið til þess að byrja að vinna Hamlet.

------------

Þjóðverjar eru fallegur þjóðflokkur. Næstu daga og vikur mun ég setja inn sögur til þess að útskýra og greina hina þýsku þjóðarsál.

Stutt til þess að byrja með.

Þjóðverjar geta framið gjörning svo magnaðan að flestar þjóðir vildu glaðar leika eftir. Þeir eru færir um að framkvæma ákveðin gjörning með höndunum á sama tíma að orðin sem koma út úr munninum á þeim eru í greipum gegnstæðrar merkingar.

Besta dæmið um þetta er þegar þú færð pöntun vitlaust afgreidda á bar. Ef maður gerist svo grófur að kvarta þá er undantekningalaust viðmót þess sem þjónaði þér að reyna að koma sökinni á misskilningum yfir á þig. Að þú hafir pantað vitlaust, að þú hefir ekki talað nógu skýrt og ef engin útskýring er haldbær þá færðu bara look sem segir þér að þú sért sökudólgurinn.

En á sama tíma og yfir þér er haldin ræða þar sem verið er að ala þig upp þá eru hendurnar að framkvæma leiðréttinguna.

Þeir eru sumsé að leiðrétta misskilninginn en telja það engu að síður nauðsynlegt að segja þér að það sé þér að kenna á meðan þeir eru að leiðrétta.

Ef þetta væri ekki brjálæðislega pirandi þá væri þetta spennandi leikhús.

Þorleifur
Berlín