laugardagur, júlí 05, 2008

Kallað úr rólegheitunum....

Mikið óskaplega er gaman að gera lítið sem ekki neitt. Hefði ég vitað þetta hefði ég hingað til gert mun meira af þessu.

Maður hefur allt í einu tíma til þess að vera, hugsa, pæla, gagnrýna, hugsa ekki, spóka mig, sólbaðast, lesa Kurt Vonnagut, lesa leikrit, pirra sig á því að vera ekki að gera neitt af viti, fundast og hitta fólk.

En aðallega bara að vera...

Ég komst að því í fyrradag að næstu 8 mánuðir hjá mér eru ein allsherjar afslöppun. Ég skil ekki að ég hafi ekki komist að þessu fyrr, en þessi staðreynd kom algjörlega í bakið á mér.

Ég er búinn að vera í skóla undanfarin 3 ár, þar á undan 2 ár þar sem ég var úti í atvinnulífinu og auðvitað alltaf eitthvað að bralla, og svo 4 ár þar á undan var ég í skóla. Þannig ég er búinn að vera í skóla og vinnu undanfarin 9 ár. (Svo ég tali nú ekki um tímabilið þar á undan þar sem ég var fullur og ómögulegur og því ekki margt að frétta af því tímabili).

Og þetta hefur einhvernveginn gengið meira og minna af sjálfu sér og því var ég ekkert að reyna að fylla þennan tíma, gerði bara ráð fyrir því að það myndi gerast. En svo gerðist það ekki og ég horfi fram á eigin tíma, minn tíma, þar sem ég get gert það sem ég vill!

Og ég ætla mér að nýta þennan tíma, ekki fylla hann af vinnu og hlaupum og stressi og rugli, ég ætla bara að reyna að vera. Og gera það vel!

-------------

Enda kominn tími á það að taka sér frí frá Þjóðverjunum.

Það kemur sá tímapunktur að maður fær eiginlega nóg af þeim. Ekki hafði það mikil áhrif á mig rétt áðan þegar konurnar á næsta borði færðu sig - með svip - af því að ég var að skypast...upphátt.

Eða þegar þjóðverjinn á næsti borði í gær sagðist ekki hafa áhuga á því að hlusta á samtöl mín og ég bað því vinsamlegast um að hætta að hlera.

en svo koma svona sólarmómentin inn á milli.

Ég á tvö.

Annars vegar þegar ég var að hjóla á gagnstéttinni. Það þarf líklega ekki að taka það fram að þetta er STRANGLEGA BANNAÐ hér. Svo bannað að systir mín var einu sinni felld af hjóli sínu af gamalli konu sem skellti innkaupakerunni sinni undir hjólið hennar þannig hún steyptist fram fyrir sig. Og þar sem hún lá í blóði sínu, grátandi í sjokki hélt sú gamla yfir henni ræðu. En sumse...

Ég var að hjóla og sá að framundan var lítill strákur með mömmu sinni. Verandi annálað góðmenni og skilningsseggur, þá stoppaði ég hjólið og steig af því svo ekki myndi ég keyra barnið niður. Móðir hans gekk framhjá og leit á mig. Hugsaði sig um og ákvað svo að ég væri greinilega þess virði að kenna mér smá lexíu.

"Gatan er þarna" sagði hún (á þýsku auðvitað)
"Ég veit, ég sá drengin þinn og þess vegna stoppaði ég hjólið" SVaraði ég brosandi eins og engill
"En, Gatan er þarna" sagði hún aftur
"Ég veit, en..."
"Gatan er þarna!" hvesti hún þá

Og var mér þá nóg borið. Þetta var bara svo ótrúlegt að mér datt ekkert annað í hug en

"Mímímímí"
"En..."
"Mímímímí etc.."

Og ég hélt svona áfram þangað til móðirin labbaði í burtu og vissi hvorki þennan heim né annan.

En þetta er ekki uppáhaldsatvikið mitt, það gerist í fyrradag.

Ég var að keyra og kom þar að er flutningabíll hafði lagt öðru megin í götuna. Ég sá að það var bíll að koma úr hinni áttinni en ég væri langt á udan honum. Ég stakk mér því yfir á hinn vegarhelminginn og skaust af stað (enda á tryllitæki). Ég hafði eitthvað misreiknað mig því að þegar ég var kominn að enda flutningabílsins þá var hinn kominn að. Og til þess að kenna mér lexíu þá keyrði hann lengra og lokaði leiðinni. Nú sat þjóðerjinn glottandi í mórölskum yfirburðum sínum. Ég hélt áfram til þess að þvinga hann til þess að bakka enda hefði ég annars þurft að bakka 50 metra (þetta var langur flutningabíll). Þjóðverjinn sá skynsemina í þessu en til þess að ég lærði nú örugglega af þessu ákvað hann að blikka á mig ljósunum, svona ef ég væri ekki búinn að fatta að hann hefði haft rétt fyrir sér!

Hann var sumsé að bakka og blikka þegar það heyrist skerandi hljóð. Þjóðverjinn hafði keyrt á hjólreiðamann sem var bakvið hann og rústað hjólinu hans.

Þar sem ég keyrði hlægjandi í burtu (eftir af hafa staðist freistinguna að stoppa og útskýra fyrir þjóðverjanum hvað væri svona skemmtilegt) sá ég hann stíga út undir fyrirlestri reiða hjólreiðamannsins.

Oh, hvað er stundum gaman að vera til!

Kem svo heim á föstudaginn!!!

HÚRRA

Þorleifur