laugardagur, mars 29, 2008

Um banka

Bankarnir felldu gengið. Þarf einhverja rannsókn til þess að komast að því?

Skoðum dæmið.

Bankarnir fá hvergi lánaða peninga, að minnsta kosti ekki á vöxtum sem þeir geta lifað við (í orðsins fyllstu merkingu). Þetta stafar af því að það treystir þeim enginn.

Þeir eru staddir í litlu óöruggu viðskiptaumhverfi, þeir eru mjög skuldsettir, þeir hafa verið djarfir á erlendum mörkuðum, þeir hafa leyft kúnnum sínum að gíra sig alveg í botn og svo framvegis, söguna þekkjum við öll.

Nú, það er því aðkallandi fyrir þá að endurreisa traustið sem erlendir bankar hafa til þeirra. Helsta leið til þess að sýna að reksturinn sé í góðum málum.

Leið viðskiptalífsins til þess að gera slíkt er að skoða ársfjórðungsuppgjör fyrirtækja.

Bankarnir þurfa því umfram allt góð uppgjör eftir fyrsta fjórðung.

En það er erfitt þegar þeir eru ekki að loka dílum (þar sem stærstu þóknanirnar eru) vegna þess að þeir eru ekki að fá lánaða peninga sem þeir geta lánað aftur. Þeir eiga líka erfitt með að lána af eigin peningum vegna þess að þá myndi eiginfjárhlutfallið lækka sem aftur liti illa út fyrir erlendum aðilum.

Og eru því góð ráð dýr.

Ekki er hægt að græða meira en komið er á því að kaupa og selja bréf í sömu 15 fyrirtækjunum í kauphöllinni, það game er búið í bili og því er í raun bara ein leið fyrir þá.

Það er að taka stórar stöður í íslensku krónunni, gagnvart evrunni hvað helst, og aðstoða svo eftir fremsta mætti fall gengisins.

Í kjölfarið geta þeir svo sett gengishagnaðinn inn í ársfjórðungsuppgjörið sem lítur þá miklu betur út. Bankarnir vonast svo til þess að fjármálamarkaðirnir opnist og fari að lána þeim fé að nýju (enda líta uppgjörin þeirra vel út) og þá geta þeir leyft genginu að læðast til baka.

Það er regla þegar leitað er sökudólga að skoða það hver hagnist mest.

Í þessu tilfelli er það augljóst.

Eða hvað?

Þorleifur

fimmtudagur, mars 27, 2008

Góða kvöldið

Ég heyrði því fleygt í kvöld að salan í Elko undanfarnar 2 vikur hafi verið meiri en næstu tvo mánuði þar á undan. Og flest sé keypt á raðgreiðslum.

Þetta minnir mig á það sem maður heyrir úr meðferðarbransanum, búið að panta meðferðarpláss og því um að gera að detta vel í það yfir helgina til þess að mæta sem ónýtastur. Maður sé hvort sem er að hætta og því um að gera að fara út með stæl, upplifa síðasta fylliríið, fá síðasta sopann, eina stund með hjartaró brennivínsins áður en blákaldur og beiskur veruleikin tekur við.

Hvaða fylling er þetta sem fólk er að kaupa sér? Er það það að nútímamanneskjan er metin, og metur sig aðeins á ytri aðstæðum, en ekki innri líðan?

Erum við búin að kalla yfir okkur kerfi þar sem neysla er svo samdauna lífinu að líf á neyslu er varla nokkurt líf. Eða er þetta kannski bara fallegt kæruleysi, þetta reddast bara stemmarinn sem sendi íslensk fyrirtæki í víking og okkur hin á yfirdráttinn?

Það verður gaman að fylgjast með þegar fólk hættir að geta borgað til baka. Mun fara fyrir okkur eins og sub prime í Bandaríkjunum. Að fyrirtæki verði uppiskroppa með fé, ekki aðeins á alþjóðamörkuðum heldur vegna þess að endurgreiðslur eru ekki að berast og bankarnir standa þá uppi með veð sem fallið hafa í verði?

Því að í neyslusamfélaginu þá er allt samtengt. Hlutunum hefur verið komið svo snilldarlega fyrir að allir eru samdauna, samsekir, reyndar sérstaklega þegar illa fer.

Ég var sjálfur tilturulega hlynntur þessari stefnu í BNA, að gefa fólki sem aldrei áður átti möguleika á því að koma sér upp eignum tækifæri til þess að gera það. Og taldi að hver og einn einstaklingur bæri ábyrgð á því sem hann gerði, því sem hann tæki að láni. En afleiðingarnar af þessum viðskiptum í bandaríkjunum koma nú við veskið á öllum, líka mér (og reyndar gera veski eigenda ELKO feitara - but where there's a loser, there's a winner).

Til varnar þessum einstaklingum verður þí að segjast eins og er að upplýsingagjöf var sérlega ábótavant (svona eins og hjá KBBanka sem var ekkert að halda því að fólki að það væri endurskoðunarákvæði í 4.15% lánasamningunum) og komu því hærri greiðslur mörgum á óvart.

En oftar en ekki var þetta bjartsýni, óhófleg á köflum, en bjartsýni þó og það er fallegra mennskepnunni en svartsýnin.

En Bjartsýnin gerði nú samt út um hann Bjart, og sumarhús voru innkölluð af BYR þess tíma.

Hversu margir verða komnir á BYR-inn nú? Með eldhús fullt af mixurum...

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, mars 25, 2008

Góða kvöldið

Ég fór eð 4 ungum leikurum á KFC fyrr í kvöld.

Þetta væri ekki á frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að þrír þessara ungmenna höfðu aldrei á ævi sinni komið á staðinn áður.

Þau stóðu eins og litlir krakkar og skoðuðu dýrð matseðilsins. Spurðu mig spjörunum úr um hvernig þetta og þetta væri á bragðið, hvernig bitarnir væri í samanburði við borgaranna og tóku sér tímann sinn enda voru hér um tímamót að ræða í lífi þeirra.


Er ég svo sat við átu (tveir bitar, hot wings, maís, hrásalat og franskar - like usual) þá sló þetta mig allt í einu. Ef maður pikkaði upp á götu í Reykjavík (eða í listaháskólanum) 4 manneskjur á aldrinum 24 - 28 hversu miklar líkur væru á því að 3/4 þeirra hefði aldrei komið á KFC?

Þarna kannski endurspeglast ákveðinn grundvallarmunur á þjóðunum, eða kannski á Íslandi og restinni af heiminum.

Í Bandaríkjunum er einn KFC á hverja 300.000 íbúa. Á Íslandi eru 5 staðir fyrir suðvesturhornið, sem slefar í 200.000 í mannfjölda.

Svo maður nefni nú ekki Dótabúðirnar, húsbúnaðarverslanirnar, IKEA (sem er víst söluhæsta verslun í heiminum), byggingarvöruverslanirnar og svo framvegis.

ekki furða að seðlabankastjórinn skilji ekki neitt í neinu. Mafían myndi blikna af vöxtunum en allir ennþá bara í stuðinu...

Maður spyr sig hvort þetta geti á einhverjum skala talist eðlilegt ástand?

Þorleifur

mánudagur, mars 24, 2008

Góðan daginn

Ég sat úti á kaffihúsi áðan. Já, úti á kaffihúsi.

Þetta er eitt uppáhalds morgunverðarkaffihúsið mitt hér í Berlín. Þetta er brasílískt (eða svo stendur minnsta kosti á matseðlinum) en það er nú fátt sem bendir til þess. Starfsfólk allt þýskt, brauðið sem þau nota ítalskt, kaffið einnig, innréttingarnar úr plastik katalóg og teppin á útistólunum frá 66 gráður norður.

En þetta er ferlega kósí því að útiseta á þessu kaffihúsi boðar komu vorsins.

Og er ég vaknaði í morgun og leit út um gluggan þá trúði ég því í fyrsta skipti á þessu ári að vorið væri að koma.

Það var glampandi sól, svona eins og vetrarveðrið gerist fallegast heima á Íslandi. Þökin í kring glitruðu í sólinni er geislarnir léku við þau áður en þeir tóku stefnuna inn um gluggan hjá mér og kitluðu mér í augunum.

Svona er gott að vakna. Vakna undan vetri. Vakna og hugsa að vetur konungur hafi andvarpað sínu síðasta þetta árið og fari nú í útlegð þar til næsta haust.

Kannski er þetta draumsýn, en stundum rætast draumarnir þó.

Og ég sat áðan á þessu útikaffihúsi, á grænum plasstól með púða og át panino með chorizo og drakk appelsínu, epla, gulrótar, engifer, rauðbiðusafann og las góða bók. Allt að því heitur vindur lék um og við mig. Stúlkurnar búnar að setja upp sólgleraugu og komnar úr HM vetrarstökkunum og skipta þeim út fyrir marglitar peysur. Við kallarnir allir eins í Levis og bol.

Það mátti jafnvel heyra suð í flugum, en bara ef virkilega var lagt við hlustir. Engar Moskító þó, þau óargadýr koma fyrst seinna.

Mér leið svoldið eins og Heimdalli, fannst ég heyra brumið spretta og blómin kíkja út og bíða eftir staðfestingu vorsins á komu sinni.

Ég heyri á svona dögum vonina kveikna, áhyggjur dimmunar láta undan og framtíðin verður eftirsóknarverð. Hugmyndir fá vængi og framkvæmdarhug, ímyndun eflist og þorið eykst, líkaminn brosir innra með sér og fjarlæg lönd verða nálæg í huganum.

Já, vorið er það fallegasta sem ég veit.

Og ég vona að það sé komið.

Vorkveðjur frá Berlín
Góða kvöldið

Héðan úr Þýskalandi er fátt að frétta, páskar líða yfir og hjá, og - Jesú dó víst um helgina.

Sem minnir mig á það þegar ég var að setja upp Ríginn fyrir norðan á þessum tíma árs 2005. Ég tók þá stefnu að unnið yrði mikið og hart, að playstation kynslóðin sem ég var að vinna með tæki það með sér úr vinnunni að listin sé góður vettvangur til þess að ýta við grensum sínum, að leggja sig allan fram og maður uppskeri í samræmi við það.

Og við unnum myrkranna á millum í fegurð norðurlandsins, svo mikið að ég þegar kom að páskum þá var ákveðið að keyra bara í gegnum þá, dugnaðurinn var slagorð dagsins.

Við þess ákvörðun fóru mér að berast skringileg skilaboð frá foreldrum unglinganna sem voru margir hverjir ekki sáttir við þessa tilhögun. Það væri ekki sæmandi að vinna á dánardægri drottins.

Akureyri er skringilegt pleis!

Ég hef annars mókað þessa páska af mér. Gert lítið annað en hanga í símanum við manneskju sem mér þykir vænt um - en finnst stundum ekki nógu vænt um sjálfan sig. Þetta hafa meiraðsegja verið á köflum afar erfið símtöl. Sem er svo sem í lagi, því að það er við mótlætið sem maður er neyddur til þess að horfast í augu við eitthvað í fari sínu og gjörðum, sjá og skilja - jafnvel læra - sé vandlega hlustað.

En tíminn hefur í raun ekki verið raunverulegur einhvernveginn. Kannski er ég búinn að hafa of mikið af honum uppá síðkastið. Tíminn er nefnilega kynjaskepna, hann sem virðist svo afmarkaður og stjórnsamur en er í raun aðeins upplifun þess sem hann lifir. Og þegar maður tekur svona breik frá heiminum, eins og ég hef gert undanfarið, þá virðist hann einvörðungu vera til í sínum eigin heimi, mínum heimi. Samansafn upplifunnar sem ég þarf svo að vinna úr er ég set úrið í gang að nýju.

Og þessi útilega mín hefur gert mér margt ljóst, ekki síst að ég þarf að fara a skrifa að nýju.

Ég finn fyrir því í beinunum að ég þarf að fara að skrifa. Ég er orðinn leiður á því að krukka í annara manna verkum. Nú þurfa mín eigin verk að fá sinn farveg að nýju. Eilíf Hamingja hefur loksins yfirgefið mig. Ég get fengið hugmyndir sem ekki eru einskorðaðar við fjórar manneskjur og skrifstofu.

Og hvað gerir maður þegar maður vill fara aftur að skrifa?

Maður heimsækir fjöllin.

Ég stefni á það nú um miðjan Apríl að endurtaka leikinn frá því í fyrra, þegar ég fór einn í viku í alpana, og ganga fjöll í Sviss. Bara ég og fjöllinn og lappirnar á mér brennandi og úthaldssnauðar. Fjöllinn, sem ég sakna svo mjög hér á Berlínarsléttunni, tala nefnilega til manns. Þau hvísla að sálinni þar sem maður klífur þau, ögra manni þegar maður reynir að sigrast á þeim, hlægja að manni þegar maður er við það að gefast upp og kyssa mann svo vindsins kossi þegar maður stendur á toppnum.

En umfram allt getur maður ekki flúið sjálfan sig þegar maður tekst á við þau. Maður verður að vera hér og nú og hlusta. Það er það frábæra. Ekki analísa, heldur aðeins vera.

Og í umróti stórborgarinnar gleymir maður þessu oft. Að vera. Einfaldlega.


Bestu kv.

Þorleifur