miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Góða kvöldið

Davíð Oddson er klárlega ekki óhæfur. Hann ætti að vita manna best hvað þarf í embætti Seðlabankastjóra.

Hann samdi lögin um stöðuna og skipaði svo þann mann sem hann taldi bestan og þekkti öðrum fremur - sjálfan sig.

Hvernig er hægt að kasta brigður á slíkt?

Þorleifur

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Góðan daginn

Ég hef undanfarna daga verið á skíðum á Akureyri. Og um það er aðeins eitt að segja, þetta er stórkostlegt.

Einhvernveginn verður lífið einfaldara.

og í beinu framhaldi...

Davíð Oddson er búinn að missa vitið. Og þjóðin ættinginn sem er neyddur til þess að annast sjúklinginn. Ríkisstjórnin sprakk Davíð að meinalausu, þjóðin fór á hausinn Davíð að meinalausu, blóðugar óeyrðir á götum úti Davíð að meinalausu. Og nú er að skapast friður og þá skapar Davíð ófriðinn. Honum er algerlega sama hvað er í gangi, hann skal bara ekki gefa sig - sama hvað það kostar.

Og burtséð frá því hvort honum finnist það sanngjarnt eða ekki, hvort það ER sanngjarnt eða ekki, þá er seta mannsins sem hreykti sér af því að vera arkítekt íslenska efnahgasundursins ekki líðandi á meðan þjóðin kvelst.

Og þætti honum vænt um þjóðina sem kaus hann til embætta myndi hann nú sjá sóma sinn í því að draga sig í hlé.

Einnig er gaman að sjá hvernig hrunið hafa af honum bandamennirnar. Enginn eftir nema Kjartan og Hannes. Allir hinir komnir í skjól. Það er af sem áður var. Og nú munu þeir læra að það þarf meira en tvo menn, úr nánasta vinahring, til þess að endurskrifa söguna.

Varnaðarorð Davíðs, sem Kjartan og Hannes taka upp sem sannleik, hafa engir staðfest nema hann sjálfur. Þegar Kjartan ræðast af Jóhönnu og kennir bréfaskriftir hennar við Davíð með óbeinum hætti við hreinsanir Nasismans, þá hljómar það hálf tómt þegar í sömu svipan er lesið mun harðorðaðra bréf frá Davíð til Sverris Hermannssonar.

Hannes skrifaði meiraðsegja Wall Street Journal til þess að verja Dabba sinn en sýnin á samfélagið undanfarin ár sem þar birtist var svo brengluð að jafnvel hinir þröngsýnustu gátu ekki skrifað undir hana.

Íslensk þjóð er búin að fá nóg af Davíð og klíkunni hans. Þeirra tími er liðinn. Og þrátt fyrir það að erfitt sé að horfast í augu við það þá mun það nú gerast hvort sem menn vilja eða ekki.

Ísland er ekki nógu stórt fyrir Davíð og þjóðina, annaðhvort verður að víkja.

Þorleifur