föstudagur, desember 22, 2006

Góðan dag

Það eru að koma jól. Ekki það blasi við á götunum, þar ríkir vindurinn einn.

Það er magnað að koma heim og horfa á Ísland með augum aðkomumannsins.

Maður myndi til dæmis aldrei sjá það í Berlín að álafosspeysuklædd grænmetisætutýpa settist upp í risastóran jeppa og brunaði í burtu með reykjarkófið í rassgatinu. Þetta fékk mig til þess að hlægja upphátt þar sem ég stóð í fárviðrinu í gær.

Einnig myndi maður hvergi annars staðar sjá ungar stúlkur ganga um göturnar í veðrum sem þeim er okkur nú hrjá í stuttpislum og þunnri sexy peysu.

Ísland er að verða skemmtileg blanda af the village í New York og Wall Street, það er svona létt hippastemming í klæðaburði að þeim undanskildum sem vinna í bönkunum (sem er líklega að verða 1/4 þjóðarinnar), þar er Sævar Karl í essinu sínu.

Hvað verður þegar þessir hópar fara að eiga alvöru samskipti, geta þessir hópar átt sameiginleg samskipti.

ég var annars á fundi í Glitni þar sem ég fór í skoðunarferð um húsið. Þetta var mögnuð upplifun, skipulagið með slíkum eindæmum að ég stend eiginlega agndofa á eftir. Hvernig hugsað er út í hvert smáatriði, hvernig allt er skipulagt og úthugsað niður í minnstu smáatriði.

Þetta er stærra en nokkur einn einstaklingur getur upphugsað, bankarnir eru sönnun þess í mínum huga að hópur starfar betur en einstaklingar.

En nú er að koma jól og þá á maður ekki að vera að hugsa um peninga, eða þannig!

Gleðilegar hátíðir.

Þorleifur

mánudagur, desember 18, 2006

Góðan daginn

Kominn heim, fyrst í snjó og svo í rigningu.

Það var fagurt um að lítast þegar ég flaug inn yfir suðurnesin í átt að keflavíkurflugvelli. Lukkudísin hafði skipast mér í lið í heimfluginu þar sem ég hafði heila sætaröð fyrir mig (sem NYTIMES mælti nýlega með í stað þess að kaupa sér businessclass) og kom mér vel fyrir. Sat með fætur upp í loftið og svaf og horfði á video til skiptis. Las gott viðtal við Jelinek, sem ég er afar heillaður af, og undirbjó mig undir heimkomuna.

Snjór lá yfir öllu, snjór sem enn hefur ekki látið sjá sig í heimsborginni í Berlín (global warming sér til þess að þar er ennþá 10 stiga hiti), og það gladdi Íslendingahjartað. Snjórinn, rétt eins og fjöllin er einhvernveginn hluti af manni, hluti af sálinni, hluti af tilveru manns af eldfjallaeyjunni.

Það er þessi viðskilnaður sem reynist mér erfiðastur við búsetu erlendis. Í vini sína er hægt að hringja en það á ekki við um náttúruna, hún er fjarlæg í steinborginni.

Kuldinn barði kinnina þegar út úr flugstöðinni var stigið, eftir af hafa orðið vitna að hinum vaxandi rasisma Íslendinga þar sem tollurinn valdi fólk til skoðunnar eftir þjóðerni (spurði konuna fyrir framan mig "where are you from" og kippti henni inn þegar hún svaraði á bjagaðri ensku).

Stefnan var tekin beint upp í bústað til þess að slappa af áður en næsta vinnuferð hæfist við komuna til Reykjavíkur.

Vaknaði svo í morgun í borginni og nú barði rigningin gluggana, það vantar aldrei fjölbreytnina. En það skipti mig engu, það er kraftur í veðrinu, það er kraftur í síbreytninni, það er kraftur í lífinu sem veðrið gefur okkur Íslendingum í vöggugjöf.

Svo í kvöld er fyrsti samlestur á verkinu, og ég hlakka til. Eftir margar uppörvandi umsagnir verður gaman að heyra verkið, finna hvernig takturinn í því hljómar, sjá og skynja hvort að það virkar.

Þessi blóðskýrn nýss sköpunarverks er vissulega ógnandi en ég geng til þessa fundar öruggari en til sambærilegra hingað til.

Oh nú er bara að bíða og sjá.

Þorleifur