föstudagur, maí 27, 2005

Halló öll saman

Þá er maður loksins kominn heim á eyjuna. Og að venju er það sambland af ánægju og vonbrigðum að kom heim.

Ánægjan felst auðvitað í því að kunnuleg andlit blasa við á hverju horni, veðrið er alíslenskt, húsin lítil og krúttuleg, Esjan í blóma og svo auðvitað kaffibrennslan!

En svo fer ég í fyrsta innkaupaleiðangurinn og öll gleði er horfin fyrir bí. Og ég var ekki reiður út í Baug, heldur út í íslensku þjóðina sem lætur bjóða sér þetta. HVAÐ ER EIGINLEGA Í GANGI!!!!!??????

Þessi þjóð sem svo lengi hefur búið á eyjunni fallegu og þó svo hún sé á persónulegu leveli sterk og áræðin þá er hún samfélagsleg gunga. Það heyrist vart múkk yfir því hvernig farið er með fólk, og á það bæði við um einstaklinga og svo ég tali nú ekki um hópa. SVo sem eins og hópinn sem kaupir í matinn, hópinn sem kaupir föt, hópinn sem vinnur meira en nokkurs staðar í Evrópu, hópinn sem skuldar meira en nokkru sinni fyrr, hópinn sem býr við verra heilbrigðiskerfi, hópinn sem býr við æ verra menntakerfi, hópinn sem býr við spillingu í stjónmálunum, hópinn sem lætur bjóða sér fákeppni og samráð hjá flestum fyrirtækjum. Þessir litlu hópar sem ekkert segja nema á tillidögum. Og maður ber þetta saman við átakið sem er í gagni í sambærilegum málum út í heimi og maður spyr sig HVAÐ ER Í GANGI!!!!?????

Og svo man maður hvað hvað þjóðin er lítil og ung. Hvernig hún hefur aldrei farið í gegnum borgaralega byltingu, hvernig hún heldur stöðugt aftur af sér hugmyndafræðilega því hún heldur að það sem hún sé að gera sé svo stórkostlegt að hún þurfi ekkert að læra. Og þegar ég man þetta þá reyni ég að slappa af og hugsa til þess að kannski sé það bara fallegt og skemmtilegt að það sé einhver þjóð sem er svona. Að sakleysið eigi sér einhversstaðar samastað!

Þorleifur

fimmtudagur, maí 26, 2005

Góða kvöldið

Þá situr maður bara í fússi á Kaupmannahafnarflugvelli þar sem hið trausta fyrrum einokunarflugfélag Flugleiðir tókst að setja flugvélina 6 tímum of seint í loftið.

Og ekki nóg með það heldur er allt lokað og ekki kaffitár að finna (svo ég minnist nú ekki á unglingana sem eru að bíða með mér).

En það er skrítin tilfinnig að sitja á mannlausum flugvelli. Ef ég væri nú sniðugur þá myndi ég skrifa hér sögu eða eitthvað slíkt en sé ekki fram á að snilligáfan nái alveg fram í fingurgóma, allaveganna ekki í bili.

En ég er rólega að melta Berlínarferðina og hugsa um mig og leikhúsið, hvað það sé sem ég vilji sjá og hvernig best sé að koma á því á framfæri, hvaða verkfæri henti mér best og hvernig ég fari að því að ná mér í þau...

En allaveganna spennandi tímar framundan.

Bið að heilsa og hlakka til að samanda loftinu góða og fríska.

Þorleifur

þriðjudagur, maí 24, 2005

Góðan daginn

Ég er kominn til Köben þar sem ég er að vinna í því að ná heilsu (bæði líkama og geð) eftir ævintýrið í Berlín.

Teatertreffen þetta árið var skandall! Slíkt samansafn af innihaldslausu rusli hef ég aldrei á ævi minni séð, og það á tímum þar sem þýkst mannlíf og samfélag stendur í stórri krísu.

Það sem einkenndi hátíðina var óttinn sem endurspeglaðist í verkunum. Það er eins og ekkert af verkunum sem við sáum þyrðu að segja það sem þau voru að reyna að segja, eða að skilaboðunum var pakkað inn í svo svakalegar umbúðir að ekki var nokkur leið að innihaldi snerti mann.

Langsóttar voru tengingarnar við stríðið í írak, atvinnuleysið í þýskalandi eða nokkurt annað samfélagsleg málefni. Það sem aðallega bar á voru svona post-post-post-post útfærslur á mannlegu samfélagi. Sem dæmi má nefna þá sýningu sme mest fór í taugarnar á mér, Othello í leikstjórn Stefan Pucher.

Othello var hvítur maður málaður svartur. Hann var klæddur glimmergalla og söng og dansaði sig í gegnum allt verkið. Þetta var samkvæmt dómnefndinni pólitísk sýning. Bíddu??? jú, auðvitað, af því að stjórnmálamenn eru "Showmen" í eðli sínu og með því að maska sig þá er maður að fela þann mann sem raunverulega stendur að baki. Nú sé ég, þetta er auðvitað rammpólitísk sýning!

Og ég átti mörg orð við dómnefndina. Fyrst þar sem ég stóð upp á opnum umræðufundi við viðhafnarhátíð Teatertreffen og lýsti þeirri skoðun minni að þetta væri sú allra lélegasta Teatertreffen hátíð sem ég hafði séð, og hún væri á slík lágum standard að ekki væri nokkur leið fyrir mig að trúa því að hátíðin endurspeglaði þýskt leikhús í dag heldur væri hér um að ræða valdsþjónandi kviðdóm sem léti fagurfræði og borgaralegt eðli sitt standa í vegi fyrir því að leikhúsið hefði samfélagslegt hlutverk. Í kjölfarið þá var mikið rifist og skammast, meðal annar var ráðist á mig því að ég hafði gefið viðtal við blað Teatertreffen þar sem ég lýsti þessum skoðunum í ýtarlegu máli og bætti því við að eina ástæðan sem ég sæji fyrir þáttöku tveggja sýninga eftir Stefan Pucher væri að hann hafi sofið hjá einhverjum í kviðdómnum (það sem ég gat ekki vitað var að hann er snarasmkynhneigður og það er hluti að kvikdómnum líka!). En sumsé, þetta viðtal vakti hörð viðbrögð enda berst kerfi sem er á síðustu bensíndropunum þeim mun harðar.

En þetta var frábær upplifun og ég mun bæta við innan skamms svona yfirliti og svo úttekt á bestu sýningu sem ég sá þar, sýning sem er bönnuð í þýskalandi utan dresden og var mikil úlfúð um að henni skyldi ekki vera boðið á hátíðina.

Bestu kv.

Þorleifur