fimmtudagur, september 29, 2005

Smá þögn en nú skal talað að nýju.

Maður veit eiginlega ekki hvað maður á að halda í sambandi við Baugsmálið.

Þetta er ein alsherjar vitleysa frá upphafi til enda.

Það er ljóst að menn í Sjálfstæðisflokknum hafa verið með puttana á málinu, og er það skiljanlegt þegar maður hugsar til þess að Davíð er haldinn landsföðurskomplex. Hann sér eitthvað sem hann telur vera þjóðinni hættulegt og bregst við. Ekki má svo gleyma því að í huga hans þá er hann upphafsmaður hins frjálsa markaðar á Íslandi (vill oft gleymast að Sjálfstæðisflokkurinn var á móti EES sem innleiddi að mestu þetta frelsi, einnig vill það gleymast að ISG var með því) og hann þyrfti að laga til eftir sig í kjölfarið.

En svo er það hlið Baugs og Fréttablaðsins. Það er augljóst að Fréttablaðið er að draga taum eiganda sinna. Og það er hættulegt. Mér er alveg sama hvað hver segir, það á ekki að birta einkapósta manna í millum nema það varði almannahagsmuni. Að Jónína Ben hafi verið fúl út í Jóhannes og hjálpað Jóni Gerald eru ekki almannahagsmunir. Ef þarna hefði verið um að ræða e-mail frá DAvíð til Ríkislögreglustjóra þá værum við með aðra stöðu uppi en það er langt í frá að svo sé.

Og slæmt þykir mér að margir mætir vinstri menn (mér leiðist reyndar þetta orðatiltæki) séu í því að réttlæta gerðir helsta auðvalds landsins. Baugur er hættulega stór á Íslenskum markaði. Það þýðir ekki að það sé í lagi að kæra þá og draga í svaðið, það er eitthvað sem á að taka á með lögum (eins og gert ver í Bandaríkjunum með Microsoft þegar upp komst um samkeppnishamlandi aðgerðir þess fyrirtækis).

Svo getur það vel verið að eitthvað sé til í þessum ákærum og þá rúlla þær bara sinn veg innan réttarkerfisins. En verði þeim vísað frá þá er það áfellisdómur yfir Ríkisskattstjóra sem myndi í öllum lýðræðisríkjum þurfa að víkja (engin hætta á því hérlendis). Það að geta ekki skýrt ákærur sakamáli er stóralvarlegt mál, bæði gagnvart embættinu sem og almenningi sem missir tiltrú á embættinu og hlýtur að búast við því að komist það í kast við lögin þá verði vinnubrögðin eftir því.

Umfram allt þá er þetta sorglegt mál sem ég vona að líði hjá sem fyrst.

Einnig var það sorglegt að umboðsmaður alþingis skyldi ekki sjá ástæðu til þess að rannsaka þátt Halldórs í KBbankamálinu. Mér er sama undir hvaða aðstæðum það er, það er EKKI í lagi að selja sjálfum sér ríkisbanka. Þó svo hann hefði tapað á viðskiptunum. Þetta er ekki spurning um mögulegan hagnað heldur hitt að hann sat beggja megin borðsins. Og ég vona að þessu gleymi þjóðin ekki í komandi kosningum.

Af mér sjálfum er það að frétta að skólinn er að taka á sig mynd. Er á námskeiði sem felur i sér þjálfun með brúður. Þetta er gömul hefð frá Austur Evrópu og stórmerkileg. á morgun mun ég svo sýna með brúðum einþáttung sem ég er búinn að drösla saman úr Macbeth sem ég er að lesa á þýsku um þessar mundir.

Annars er gaman í Berlín og Meri kemur á Sunnudaginn og þá verður gaman að vera til.

Bestu kv.

Þorleifur