þriðjudagur, maí 27, 2003

Góðan daginn

Ég var rétt í þessu að koma úr útför og erfidrykkju systur minnar. Athöfnin var ofsalega falleg. 1300 hundruð manns komu og velflestir þeirra komu einnig í erfidrykkjuna í Borgarleikúsinu.

Athöfnin var látlaus en falleg, Garðar Cortes og Edda Heiðrún sungu ofsalega fallega, presturinn var hugljúf og hjartnæm en varð aldrei væmin, kórinn er með því betra sem ég hef heyrt. Scoale Cantorum held ég að hann hafi heitið og var hreinlega sem englaraddir fylltu þetta stóra hús sem Hallgrímskirkja er. Á leið til kirkjugarðsins sagði maður mér að þótt það hljómaði e.t.v. furðulega þá sé það af jarðarförinni sem maður getur dæmt lífið. Og í raun væri hverjum manni hollt að sjá eigin jarðarför áður en hann leggi af stað útí lífið því þá gæti hann haga því þannig að vel mannað væri við endalokin. Ef eitthvað er að marka þessa speki þá var líf systur minnar fullt og ástríkt og engar eru þar eftirsjárnar.

Farðu í friði

Þorleifur

mánudagur, maí 26, 2003

Góða kvöldið

Þá er maður víst orðinn leikari. Og ég er með skírteini til þess að sanna það. Þetta var annars allt saman alveg guðdómlegt. Ég sat á óþægilegum bekkjum frá 11 um morguninn til klukkan 4 um daginn að hlusta á ræður og ráðleggingar. Ekki það, sumar ræðurnar voru alveg frábærar, aðrar tölfræðilega leiðinlegar en þegar á allt er litið þá var þetta ekki svo slæmt. En það sem tók við gerði þetta allt saman þess virði. Fyrst var veislan sem haldin var í foreldrahúsum. Hún tókst vonum framar, gleðin og samhugurinn sem ríkti þar var alveg einstakur og það er eitthvað svo fallegt við að sjá vini sína koma saman og hlægja, fá sér í tána, skiptast á sögum, jafnvel horfa með fiðringi hvor á annan (engin nöfn) og bara almennt koma saman og njóta samvista.

Eftir að veislunni lauk var stefnan tekin á Iðnó þar sem ég starfaði árum saman á mínum yngri og villtar árum. Þar var búið að skreyta salinn með slíkum tilþrifum að augljóst var að sálin hafði verið lögð undir. Hún Magga (sem tók á móti okkur í períódubúningum frá Sheikspír tímanum) er ekkert annað en snillingur. ég má að vísu ekki fara út í þetta í smáatriðum þar sem við viljum að sama upplifun bíði næsta árgangi en nægir að segja að ég hef aldrei séð annað eins.

Ég stakk upp á því að leita í smiðju rússana eftir inspírasjón, að hver og einn héldi ræðu einhvertímann meðan á borðhaldinu stæði. Þar sem hugmyndin var mín kom það í minn hlut að leysa landfestar og leggja út á hafið bláa. Ég stend í mikilli þakkarskuld við þetta yndislega fólk sem var að útskrifast með mér fyrir stuðninginn og hjálpina á þessum erfiðu tímum undanfarið og það sagði ég þeim eins og ég kunni best og sló út með laginu sem var sungið í kistulagningu systur minnar daginn áður. Þetta lag, Söngur Sólveigar, úr uppsetningu Þjóðleikhússins á Pétri Gaut er með því fallegra sem samið hefur verið og fannst mér því viðeigandi að seila þeirri fegurð með þeim. Það var afar falleg stund. Svo, meðan kvöldið rann, stóð hver og einn upp og hélt ræðu með sínu nefi. Og allar voru þær mér jafn kærar, allar jafn þrútnar þeim kærleika sem ég ber í brjósti til þessara krakka.

Svo var ball í kjölfarið þar sem allir vinir og velunnarar létu sjá sig og dansað var fram á rauða nótt og vel það. En stemmningin sem sveif yfir vötnum var stemmning vona og hugsjóna, þráa og drauma, væntinga og vonbrigða, en fyrst og fremst lífsins sjálfs og þegar uppi er staðið þá var það kannski það sem ég þurfti helst á að halda.

Bestu kveðjur

Þorleifur