fimmtudagur, ágúst 21, 2003

Góða kvöldið

Hvað á maður að gera þegar maður reynir að vera terroristi og allir klappa manni á bakið. Það er svoldið eins og ætla sér eftir margra ára umhugsun að hlaupa í gegnum þykkan múrvegg, hafandi æft sig árum saman í þeim einum tilgangi og svo þegar maður kemur að veggnum þá opnar einhver hurðina og maður hleypur beint í gegn...

Mig langaði alltaf í mínum óraunverulegu útópísku draumórum að geta verið maðurinn sem staðið gæti gegn straumnum og fengið alla til að hata mig en staðið samt á mínu. Og svo framkvæmdi ég til haturs og uppsker hrós og mér líkar það. Mér finnst það gaman. Og hvar stend ég þá? Ætla ég næst að fórna því sem mig langar til að gera til þess að halda í raddir þeirra sem klappa mér á bakið, eða mun ég samt þora að gera það sem hjartað segir burtséð frá röddunum? Ég vona svo sannarlega að hið síðarnefnda verði ofaná, allaveganna er það þangað sem ég stefni.

SVo gæti hitt vel verið að ég sé einfaldlega ekki jafn sérstakur og ég hélt. Þegar ég taldi að ég byggi einn á tómhyggju tímum þá var ég kannski ekki einn, taldi mér aðeins trú um það. Eða kannski er samfélagið allt að vakna (vona að það sé frekar ástæðan en að ég sé svona mildur) og þá fæ ég kannski að lifa á tímum þar sem enn á ný lætur fólk í sér heyra og vill berjast í átt að betra samfélagi. Svo er bara að vona að við endum þá ekki líka feit í jakkafötum á mahóní skrifstofum og kjósum sjálfstæðisflokkinn!

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: