föstudagur, ágúst 29, 2003

Góða kvöldið

Hvað er að frétta? Jæja, þó nokkuð mætti segja. Í fyrsta lagi hef ég nú eytt nokkrum dögum (eins og síðan ber með sér) í það að reyna að koma upp kommenta kerfinu Thus speak Zarathustra (sem tilvísun í gáfulega kommentin sem ég efalaust ætti von á.) En ég farin að hallast að því að ég sé ekki aðeins vonlaus þegar kemur að tölvum heldur hitt að það er alnets samsæri í gangi gegn mér. Í gærkvöldi var ég búin að koma þessu í gagnið, opnaði meira að segja síðuna og sá það með eigin augum. Búin að skrifa nýtt blogg og kommentaði á það sjálfur (ekki að ég myndi gera það reglulega, það var prufa) og það var þarna! Var þarna! og svo opna ég í dag og bimmsalabúmm.... EKKERT! Þetta og skiptin þegar þessi síða hefur eytt löngum pistlum sem ég hef skrifað, ódauðlegum leyfi ég mér að segja (þó það hafi ekki verið raunin), sannar það aðeins fyrir mér að það er einhver þarna úti sem ég hef troðið um tær einhvertímann á ævinni. Hvað annað getur það verið???

Annars er ég aðallega að skrifa leikgerðina að 1984. Þetta er farið að verða bara ansi gott. Ég hafði að vísu enga hugmynd hvað ég var að vaða út í þegar ég lagði af stað og sýndist þegar komið var úr startholunum að þetta gæti reynst þrautinni þyngri en þetta er allt að smella. Það að láta hugsanir Winston Smith koma fram í leikrænu er allslungið viðfangsefni og hvernig á að fara fram og aftur í tíma, láta vikur af leiðigjarni vinnusemi og vanafestu birtast á sviðinu o.s.frv. en eins og ég sagði þá er þetta að smella, skref fyrir skref.

Annars á aðeins óegótískari nótum þá blöskrar mér hvað er að gerast á stöð 2. Það að fólk láti fara svona með sig. Ekki það að maður skilur svo sem að fólk sé hrætt um vinnu sína og afkomu en að láta það standa í vegi fyrir því sem hjartað kallar er afar sorglegt að verða vitni að. að vísu hafa sumir sagt nei og gengið út (eða verið vísað út) og hugur manns er með því, en það að þetta gerist í nútímasamfélagi er skelfilegt að horfa upp á. Og hvað með hina sem sitja þegjandi eftir. Hvað með þá? Af hverju ganga ekki allir út? Af hverju engin læti, af hverju ekki neitt? Svarið: AFBORGANIR. VIð lifum í afborgunarsamfélagi þar sem innkoma og öryggi (í skjóli atvinnuveitenda) er það sem máli skiptir. Við erum svo háð utanaðkomandi öflum að við erum ófær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir, jafnvel þegar hjartað kallar. Ekki skortur á kjark heldur skortur á frelsi. Og það er vandamálið, við erum ekki frjáls. Sama hvað markaðurinn kallar og ómar þá er þetta staðreynd. Þetta háspennta samfélag veitir ekki frelsi, heldur sviptir það. Og það er nú allt frelsið.

Þjóðin er föst í böndum eigin ofsafengnu neyslu. Sjálfsniðin bönd sem halda draumum okkar í skefjum og hindra þá þegar á leiðir.

En hvað er eitt hjarta svo sem þegar maður á nýjan bens?

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: