sunnudagur, september 07, 2003

Góða kvöldið

Það sem maður hefur er ekki þar fyrir tilviljun (nema þegar maður pikkar eitthvað upp í sundi). Maður vinnur fyrir því sem gefur manni fullnægju í lífinu, en að sama skapi getur maður gleymt því þegar venja kemur á hlutina, hvað þurfti til að öðlast það.

Það að elska er ekki sjálfgefið. Það krefst vinnu, heilinda og að stíga skref sem oft eru ekki auðstigin. Sálin þarf að opnast og kvikan að sjást til þess að böndin sem tengja mann við aðra manneskju haldi. En í þessari kviku eru líka öll litlu atriðin sem aldrei áttu að sjá dagsins ljós og erfitt er þegar þau hafa verið opinberuð öðrum.

En það er hluti af samningnum sem maður gerir. SAmningnum um að virða, dá og dýrka einhvern umfram alla aðra, sama hvaðan vindurinn blæs og þrátt fyrir allar fortölur fortíðarinnar.

En verðlaunin eru ríkuleg hafi maður staðið rétt að samningsgerðinni. Ró, nálægð, traust og umfram allt hreyfing í hjartanu. Bros að morgni eða augntillit sem enginn annar skilur, ilmur af hári og hlýja í örmum.

Það á engin maður að vera einn, það þarf engin maður að vera einn. Eina sem þarf er hugrekki, vinna og vita það fyrir víst að þó þungskýjað geti orðið, að handan bakkanna leynist sólin og óendanleikinn.

Góða nótt

Engin ummæli: