föstudagur, júlí 29, 2005

Góðan dag.

Það er margt að gerast í samfélaginu, þó ekki verði meira sagt.

Hæst ber náttúrulega sala Landssímans, sem virðist vekja almenna lukku allra. Ekki þarf það að teljast skrítið að þessi gengdarlausa gleði ríki enda ríkir alger einstefna í umræðunni um einkavæðingu, það er, að einkavæðing sé FRÁBÆR!

En, partýpooper sem ég er, þá hef ég ýmislegt við einkavæðinguna að athuga. Ekki ætla ég mér að byrja að rífast yfir hvernig var staðið að þessu í þetta skipti (þó það veki alltaf upp grunsemdir hjá mér þegar menn finnast þeir þurfa að taka fram að allt hafi verið uppi á borðinu, ég veit það með mig að þegar ég tjái mig mikið um hvað ég sé heiðarlegur, þá er ég líklega að ljúga.) (svo ég minnist ekki á það að það var um það bil ekkert uppi á borðinu eða neins staðar því að ekkert var gefið upp um ferlið, en það er kannski önnur saga).

Nei, það sem ég er að fetta fingur út í er miklu frekar grunnhugmyndin um einkavæðinguna sem "gott" fyrirbæri.

Það sem í grunninn á sér stað er að fyrirtæki er tekið úr almenningseign og fært yfir á hendur þeirra einstaklinga sem heppilegastir þykja til þess að eiga það hverju sinni. Það sem gerist við þetta er annars vegar að fyrirtækið fer úr tilturulega lýðræðislegu ferli, það er úr höndum manna sem kosnir eru til starfa af alþýðu manna, yfir í einræðislegt ferli, það er stjórnarstrúktúr sem er einræðislegur í uppbyggingu. Því er það alger mótsögn að halda því fram að þarna sé um skref til frelsis að ræða.

Á hinn bóginn er áherslubreytinging sem á sér stað. Í fyrirtæki er arðsemi ekki efst á listanum. Vissulega er hún til staðar en komi þær aðstæður upp (til dæmis í kreppu) að ekki sé hægt að gera miklar kröfur til arðsemi þá er auðveldara að láta það viðgangast í fyrirtæki í almannaeigu. Það þýðir að ekki er hlaupið til og fólki sagt upp, náttúruverndarsjónarmið geta komið upp á móti arðsemismarkmiðum, ekki þarf að minnka þjónustu (eða skera burt þjónustu sem ekki er arðbær, allaveganna í krónum talið) og fleira í þeim dúr.

Við einkavæðingu þá verður arðsemi grundvöllur allrar sýnar fyrirtækisins og skiptir þá litlu hvað kosta þarf til svo arðsemin haldist. Þessu ti stuðnings er hægt að skoða Bandaríkjamarkað í hvert sinn sem kreppa (eða auknar kröfur eigenda um arðsemi) gera vart við sig.

Með þessu er ég ekki að segja að þetta sé allt rangt og vitlaust, heldur frekar hitt að um leið og eitthvað er orðið þjóðfélagslega samþykkt þá verður það hlutverk listamanna að fara að spurja óþægilegra spurninga.

George Orwell sagði eitt sinn ? " If liberty means anything at all, it means the right to tell people what they do not want to hear. "

ég tel að það eigi við í þessu tilfelli.

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: