þriðjudagur, september 13, 2005

Góðan daginn

Ég er sérlega bjartsýnn á þennan skóla minn og tel að næstu ár verði með einsdæmum skemmtileg!

Annars langar mig að segja þér frá því sem ég gerði í dag.

Skólinn er sumsé hafinn og fyrsta verkefni okkar er að vinna að verkefni með Arkítektanemum. Í dag áttu við að fara út og skoða borgina með það fyrir augum að leita upp staði og fólk sem setja mark sitt á umhverfið. Verkefnið var tilturulega frjálst en í grunninn snýst það um að vinna "leikverk" í opnum rýmum, það er meðal almennings.

Ég tók þetta bókstaflega á fyrsta degi og fór, uppáklæddur og vopnaður dv upptökuvél, í höfuðstöðvar CDU. Þar vildi ég fá að vita hvernig hægriöflin störfuðu í Þýskalandi. Ég sagðist hafa áhyggjur af stöðu hægriaflanna á Íslandi og væri því kominn til þess að aðstoða eftir mætti kosningu Angelu Merkel sem kanslara þýskalands. Þeir vildu ekkert með mig hafa en leystu mig út með húfu, barmmerki, spilastokk og áróðursbæklinga. Ég verð að viðurkenna að ég var örlítið svekktur þar sem ég taldi að frú Merkel hefði hug á því að hitta stærsta aðdáenda sinn en kannski var hún busy og ekki má maður láta heimsku undirmannanna láta á sig fá þegar maður er að vinna á hjartans forsendum.

Ég var sumsé ekki af baki dottinn í trú minni á betri framtíð með Angelu Merkel við stýrið og lagði því leið mína niður að Reichstag (þinghúsi Þjóðverja í miðri Berln) þar sem ég hóf að syngja lög sem tjáðu ást mína til Angelu Merkel. ég stöðvaði vegfarendur og bað þá að söngla með mér "Wir Lieben Angela Merkel". Undirtektirnar létu á sér standa og sífellt varð stærri og stærri hringurinn sem fólk myndaði í kringum mig. Ég reyndi að fá lögregluna með mér í lið en þeim fannst greinilega ekki sæma þeim að syngja um ást á stjórnmálaleiðtogum. Betur gekk með skólakrökkum þangað til kennarinn kom (börn eru svo móttækileg) og anarkistarnir voru ekkert sérlega hrifnir af samkeppninni sem ég veitti þeim.

Loks sá ég rót vandans. Ég þyrfti að útrýma samkeppninni. Út um allt voru einhverjir kommúnistar að dreyfa áróðri, sérstaklega þá þeir grænu. Ég tók því næst upp á því að standa við hlið þeirra og þar sem ég er leikaramenntaður þá hef ég mun betri stjórn á styrk raddar minnar og útsöng þá þar til þeir hrökkluðust í burtu.

Þegar ég var búinn að útrýma samkeppninni (sem er náttúrulega eitt af grunnskilirðum kapítalsimans) þá taldi ég götuna greiða, að nú myndi fólkið þyrpast til mín eins og frelsarans forðum ( ég er ekki frá því að ég finndi innra með mér að eitthvað heilagt vaknaði). Það reyndist ekki vera og sá ég fljótt hvað vandamálið var, fólkið hafði allt of mikið pláss. Það gat svo auðveldlega sveigt hjá mér.

Þar sem ég er löghlýðinn maður fannst mér aðeins og gróft að fara að reisa veggi eða vera með vöðvamenn með mér til að stýra fjöldanum í átt til mín og tók ég þá upp á því að bera út boðskap minn í neðanjarðarletum borgarinnar.

Og þetta reyndist þjóðráð því að þaðan kemst enginn í burtu fyrr en í fyrsta lagi á næstu stöð. Þar söng ég svo og trallaði lýðnum til yndisauka og leiðbeinslu fram eftir degi.

ég er ekki frá því að ég hafi gert meira til að bjarga þýskalandi í dag en ég hef gert á hlut þess hingað til. Smá sjálfboðavinna og samviskan er hrein.

Bestu kveðjur

Þorleifur
Berlín

Engin ummæli: