fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Góða kvöldið

Þetta var alveg sérstaklega góður dagur. Hamlet heldur áfram að malla, erfitt verkefni sem tekur sífellt á sig nýjar og óvæntar myndir. Maður hugsar sig tvisvar um áður en maður leggur í meistarann aftur. Þarf að tékka að andlega hliðin sé í lagi, svona til þess að standast honum snúning.

Leikkona í hópnum veiktist og þurfti því að fresta forsýningunni sem átti að vera á laugardaginn og hentar það mér vel, enda hefur maður þá tíma til þess að fínpússa, stilla af, og horfa almennilega á heildarmyndina áður en maður hleypir þessu út í heiminn.

Hamlet á klukkutíma, leikinn af nemum og æfður á 4 vikum hefur reynt á allt sem ég kann og get í þessu fagi.

Og vonandi verð ég betri fyrir vikið.

-----------

ég fagnaði svo góðum degi með því að fara út í súpermarkað og kaupa mér ferskan lax, kartöflur og smjör, kom heim, setti matinn yfir, stillti tölvuna á gufuna og hengdi uppúr þvottavél meðan herlegheitin mölluðust.

Hversdagsleikinn er stundum frábær.

----------

Svo er Börkur vinur minn í heimsókn. Hann er hér að vinna að tónlistarmyndabandi sem hann skaut á Kúbu og situr nú sveittur við klippingu. Spurning hvort maður nái honum í svo sem eins og eitt Trivial á eftir.

----------

Loks. Í dag er að mér skilst Valentínusardagurinn. Ég hef ekki hugmynd hvaðan þessi siður kemur og hef aldrei veitt honum neinn sérstakan gaum, en finnst merkilegt að hér í Berlín er áhuginn fyrir þessum degi akkúrat núll.

Enda er þetta landið þar sem stjórnmálamenn kalla fyrirtæki eins og FL Group engisprettufaralda, þannig að kannski eiga BNA siðir ekki eins upp á pallborðið hér eins og heima.

-----------

Stýrivextirnir ekki að fara neitt. Já, það kostar íslenska neyslupunga þó nokkuð að halda uppi blessaðri krónunni.

En í raun verður að viðurkennast að það er þó nokkur vorkunn þeim seðlabankastjóra sem hækkar vextina upp í 13.75% án þess að það hafi nokkur sýnileg áhrif.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

Engin ummæli: