föstudagur, apríl 01, 2005

Góða kvöldið

Ég er eiginlega farinn að vorkenna framsóknarmönnum, þetta er náttúrulega skelfileg aðstaða að vera í. Vera úthrópaður um allan bæ og þora vart að láta sjá sig úti af ótta við að híjað sé á viðkomandi.

En niðurlægin og skömm hefur lengi verið fylgja valdlegrar misnotkunar, allaveganna í augum þeirra sem eftir því taka. Og í þetta skipti tóku allir eftir því, líka framsóknarmenn.

Það er erfitt að verja vondan málstað, sérstaklega þegar þú gefur þig út fyrir að vera miðjufylking breiðþenkjandi félagshyggjufólks.

En ég ætti kannski að hætta að tjá mig um þetta þar sem allt hefur nú þegar verið sagt og ég kann ekki við það að gera líf þess góða fólks sem ennþá trúir einhverju í þessum flokki erfiðara. Ég vona bara að annaðhvort komist það til valda (sem er reyndar ólíklegt) eða þá að það sjái sóma sinn í því að ganga til liðs við pólitískt afl sem hefur hugsjónir fyrir framtíðina og þann styrk og málefnagrunn til að fylgja því eftir.

Annars hef ég verið að lesa lærða pistla um rætur skrifa um ástina á 18. öld og hvernig samskiptaminstur aðalstéttarinnar varð undan að láta fyrir þá ört stækkandi fyrirbrigði, borgarastéttinni. Þetta eru reyndar heillandi rannsóknir þar sem þarna liggur grunnurinn að því lýðræðiskerfi sem nú ríkir (sem reyndar þarf að endurskoða eitthvað en er að minnsta kosti sú stefna sem flestir hugsandi menn hafa áhuga á því að viðhaldist í siðuðu samfélagi).

Þetta er reyndar efni í mun lengri pistil en það verður að bíða betri tíma þar sem það er verið að henda mér út af hinu akureyríska kaffi Karólína!

Góðar stundir

Þorleifur

Engin ummæli: